Morgunblaðið - 11.03.1980, Síða 37

Morgunblaðið - 11.03.1980, Síða 37
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 11. MARZ 1980 37 Eiríkur Rögnvaldsson: Enn um „dönskumálið“ Hinn 1. mars birtist í Morgun- blaðinu opið bréf frá Sigrúnu Gísladóttur, kennara, til mennta- málaráðherra. Vegna þess að í bréfinu er talsvert sveigt að deild- arráði Heimspekideildar, langar mig að gera nokkrar athugasemd- ir, en ég sit í deildarráði sem annar fulltrúa stúdenta og tók þátt í afgreiðslu málsins 18. jan- úar sl. Um leið ætla ég að nota tækifærið til að fjalla um ýmis önnur atriði bréfsins. I. í hinu opna bréfi Sigrúnar segir svo: „Málsmeðferð deildarráðs á þessum fundi var hneyksli og óþolandi, að slík vinnubrögð skuli líðast í æðstu menntastofnun landsins. Það tók deildarráð innan við 30 mínútur að vísa málinu frá án þess að minnsta tilraun væri gerð til að fjalla um það efnislega, enda enginn áhugi á slíku hjá deildarráðsmönnum." Þetta eru stór orð, og órökstudd að mínu mati. Ég tók að vísu ekki tímann á umræðum um málið, og mín vegna geta þær vel hafa staðið skemur en 30 mínútur. En ég mótmæli því, að málið hafi ekki fengið efnislega umfjöllun. Fyrir fundinum lá 7 síðna álitsgerð frá námsnefnd í dönsku, undirrituð af samtals 8 manns, fjórum kennur- um og fjórum nemendum. Einn fulltrúi stúdenta gerði að vísu fyrirvara við einn lið álitsgerðar- innar, en það skiptir ekki máli varðandi heildarniðurstöðurnar. Ég hef ekki enn hitt eða heyrt um nokkurn dönskunema, sem tekur undir sjónarmið Sigrúnar. Enginn kom heldur þeirra erinda á fund deildarforseta, sem hafði auglýst, að þeir sem vildu gera athugasemdir við dönskukennslu í Háskóla íslands gætu komið þeim á framfæri við sig. Aftur á móti hafa 24 dönskunemar skrifað há- skólaráði bréf, þar sem þeir mót- mæla kvörtun Sigrúnar efnislega. í öðru bréfi lýsa 12 fyrrverandi nemendur í dönsku stuðningi við kennara greinarinnar. Ég var sjálfur á almennum fundi dönskunema í nóvember sl., þar sem rætt var um kvörtun Sigrúnar til háskólaráðs. Enginn tók þar undir ásökun hennar um „einstrengislega hugmyndafræði- lega innrætingu". Enn fremur kynnti ég mér kennsluskrár dönsku og ræddi við nemendur í greininni. Ég skal ekki fullyrða, að allir deildarráðsmenn hafi aflað sér upplýsinga um þetta mál persónulega; en ég veit, að a.m.k. sumir þeirra gerðu það. Auk þess var umfjöllunin 18. janúar ekki hin eina, sem málið fékk í deild- arráði; það hafði áður verið rætt á tveimur fundum. Á fundinum 18. janúar, þegar málið var endanlega afgreitt, tóku til máls um það a.m.k. fimm af átta viðstöddum deildarráðsmönnum. Tillaga deildarforseta um málið var síðan samþykkt einróma. Sú fullyrðing Sigrúnar, að deildarráðsmenn hafi engan áhuga haft á efnislegri umfjöllun um málið, er úr lausu lofti gripin. Hitt er það — sem raunar er meginatriði þessa máls — að Sigrún hefur aldrei nefnt efnisleg atriði máli sínu til stuðn- ings, þótt margoft hafi verið eftir því leitað. Þetta hefur eðlilega torveldað umfjöllun málsins mjög. Það er líka rangt hjá Sigrúnu að deildarráð hafi vísað málinu frá. Hið rétta er, að því var vísað áfram til háskólaráðs að umfjöll- un lokinni; háskólaráði var sent bréf, þar sem gerð var grein fyrir ályktun deildarráðs um málið. Eitt atriði þeirrar ályktunar var, að „til þess að koma í veg fyrir hugsanlega gagnrýni" yrði skipað- ur prófdómari „til að dæma próf Sigrúnar í viðkomandi prófþáttum ...“. Prófdómarar við Háskóla íslands skulu vera utan skólans, þannig að ekki er hægt að segja, að enginn utanaðkomandi aðili hafi fjallað um málið. Sigrún segir, að skipun prófdómara hafi komið kennurum í „Textafræði" í „opna skjöldu, enda þá búin að ákveða sínar einkunnir og færa í skýrslur". Einkunnir í „Texta- fræði“ voru birtar 17. janúar, en skipun prófdómara var ekki sam- þykkt í deildarráði fyrr en daginn eftir. Meðan prófdómari hafði ekki verið skipaður, hlutu kennar- arnir auðvitað að fara yfir úrlausn Sigrúnar og skila einkunn hennar eins og annarra (og varla fer Sigrún að álasa kennurunum fyrir röskleika við yfirferðina). Hins vegar segir í 49. gr. Háskólareglu- gerðar: „Prófandi og prófdómari ef tilkallaður er, dæma hver um sig úrlausn í prófgrein hverri. Hvor um sig gefur sjálfstætt einkunn fyrir úrlausnina og gilda þær jafnt í einkunnagjöf." Ein- kunn kennara er því ekki loka- einkunn, ef prófdóffiari er skipaður. Enga skýringu kann ég á drætti á störfum prófdómara. En þótt ég skuli síst mæla því bót, að birting einkunna dragist von úr viti, vil ég benda á, að þess eru mörg dæmi, og alls ekki öll úr Heimspekideild. II. Ég skal ekki hafa fleiri orð um hlut deildarráðs í málinu. Sigrún fullyrðir, að í háskólaráði hafi komið fram gagnrýni á umfjöllun deildarráðs; en ekkert nefnir hún hvers eðlis sú gagnrýni hafi verið, þannig að ég get ekki fjallað um það mál. Hins vegar langar mig til að benda á nokkur atriði í hinu opna bréfi Sigrúnar, sem mér finnst að þurfi nánari skýringar við. I bréfinu er mikið um fullyrð- ingar og alhæfingar, en þeim mun minna um rökstuðning. Hvergi fann ég t.d. rök fyrir því, að „Allt kapp væri lagt á það af hálfu kennara deildarinnar að innræta nemendum pólitísk viðhorf og hugmyndafræðileg sjónarmið við úrlausn Verkefna". Og ég varð ekki heldur var við rökstuðning fyrir þessu í bréfi Sigrúnar til háskóla- ráðs. Engin dæmi eru heldur nefnd um „innrætingu" þá og „lágkúru", sem Sigrún kveðst hafa fundið í námskeiðunum „Málnotk- unargreining 11“ og „Færni II“. Ekkert er tilfært úr bréfi P.S.K., sem Sigrún segir „mestmegnis dylgjur og lygar“ um sig. Orðalag eins og „flest ranghermt"; „Máls- meðferð ... hneyksli"; „óþolandi, að slík vinnubrögð skuli líðast", sýnist mér líka hvíla á æði veikum grunni, svo að ekki sé minnst á ályktunarorð Sigrúnar: „Sjálf lít ég svo á, að ég hafi verið hindruð í að ná settu marki vegna þess að pólitísk innræting og viðhorf, van- hæfir kennarar og annarlegir kennsluhættir eru allsráðandi í dönskunámi heimspekideildar Há- skóla íslands." Ég hef. reyndar alltaf haldið, að nám væri það sem snéri að nemendunum, en kennsla væri á ábyrgð kennaranna. En hvað sem því líður, finnst mér greinarhöfundur taka ansi stórt upp í sig í þessum orðum, enda skortir hana öll efnisleg ákæru- atriði, eins og áður er sagt. III. Einhvern veginn sýnist mér á grein Sigrúnar, að hún hafi mis- skilið tilgang og aðferðir háskóla- náms. Ég lít svo á, að það sé út í hött að ætla að kenna tungumál án náinna tengsla við bókmenntir og menningu fólksins sem talar málið; en ég fæ helst ráðið af grein Sigrúnar, að hún telji færni í að tala og skrifa dönsku eina gilda mælikvarðann á frammistöðu sína. Sá mælikvarði dugar alveg í gagnfræðaskóla; en í háskóla verður fleira að koma til. Fyrir þann sem tekur dönsku sem aðalgrein (til 60 eininga) eru 25 einingar skylda, þar af 20 einingar sem felast í þjálfun í að skilja, tala og skrifa dönsku. Þær 35 einingar, sem eftir eru, velja stúdentar sjálfir úr þeim náms- þáttum sem í boði eru. Öll kennsla fer fram á dönsku, stúdentar skila verkefnum á dönsku, taka próf á dönsku o.s.frv.; þannig að fullyrð- ing Sigrúnar „að varla væri um kennslu í danskri tungu að ræða í deildinni ...“, kemur mér spánskt fyrir sjónir. Sigrún er ekki ekki ánægð með afskipti kennara af prófritgerð hennar í námsþættinum „Tímabil- ið 1955 — “. Ritgerð þessa virðist hún hafa skrifað án samráðs við kennarann, og er „sjálf ánægð með ritgerðina .. .„. í öllum þeim greinum Heimspekideildar, þar sem ég þekki til, tíðkast það að nemendur velji ritgerðarefni og skrifi ritgerðir í samráði við kennara. Þetta samráð er mismik- ið eftir greinum, kennurum og nemendum; en það er alls staðar eitthvert, og það er ekki bundið við Heimspekideild eina. Ég held að það sé misskilningur hjá Sig- rúnu að „sjálfstæð vinnubrögð" felist í því að hafa ekkert samráð við kennara og þiggja engar leið- beiningar þeirra. Til þess eru kennararnir einmitt, að leiðbeina stúdentum, kynna þeim ýmsar aðferðir og þjálfa þá í að fjalla um viðfangsefnin frá mörgum hliðum og með ýmsu móti. Sigrún virðist óánægð með úr- skurð prófdómarans. Varla hefur hún þó haft þá reynslu af próf- dómaranum, sem var utan Há- skólans eins og áður sagði, að hún teldi ástæðu til að efast um að úrlausnir sínar fengju „heiðarlega umfjöllun" hjá honum. Samt gefur prófdómarinn henni ekki hærri en 6,5. Er nú ekki hugsanlegt, að ritgerð Sigrúnar hafi einfaldlega ekki verið betri en þetta? Annars væri gaman að fá að vita, hvort einkunn prófdómarans hafi hækk- að eða lækkað lokaeinkunn Sig- rúnar. Setningin sem Sigrún til- færir úr greinargerð prófdómara virðist að hennar mati vera í hrópandi ósamræmi við einkunn- ina 6,5; en í þessari setningu segir aðeins, að málfar ritgerðarinnar sé með ágætum. Ritgerðin var hins vegar skrifuð í námsþætti í bókmenntum, þar sem fræðileg bókmenntaleg umfjöllun hlýtur að skipta meginmáli. (Með þessu er ég ekki að fullyrða að þeim þætti hafi verið ábótavant hjá Sigrúnu, heldur benda á, að það er hin bókmenntalega umfjöllun, en ekki málfarið, sem skipti sköpum við einkunnagjöf í námsþætti í bók- menntum). Um próf í „Textafræði" segir Sigrún : „Mat kennara á prófýr- lausn minni eink. 7.0 tekur víst af allan vafa um, að skoðanir vega þar þyngst á metunum." Af 12 stúdentum, sem tóku próf í „Textafræði" í janúar, fengu þrír hærri einkunn en Sigrún, allir 8,0; og meðaleinkunn var undir 7.0. Þegar Sigrún heldur því fram, að skoðanir hennar valdi því að hún fær ekki hærri einkunn, staðfestir það enn misskilning hennar á eðli háskólanáms. Hún „bjóst satt að segja við að fara létt með “ að ljúka 30 einingum í dönsku í vetur. Gaf fyrri námsferill hennar tilefni til að ætla að hæfni hennar væri svona óumdeilanleg? Ég held að það sé ekkert sjálfgefið, að mann- eskja með 14 ára gamalt BA-próf sé betur búin undir t.d. fræðilega bókmenntaumfjöllun samkvæmt nútíma aðferðum en stúdentar á fyrsta eða öðru ári. Vonandi hafa orðið breytingar (svo að ég segi ekki bylting) á námsefni og kennsluaðferðum í dönsku síðan 1965. í íslensku, þar sem ég þekki best til hafa þó nokkrir kennarar með háskólapróf komið til end- urmenntunar á undanförnum ár- um. Ég hef ekki orðið var við, að þeir hafi skarað fram úr öðrum (og þykir þó mörgum námsefni og kennsluhættir í íslensku breytast hægt og seint). IV. Ég læt þá lokið umfjöllun um bréf Sigrúnar Gísladóttur. Hins vegar vildi ég beina nokkrum orðum til Morgunblaðsins vegna forystugreinar blaðsins hinn 4. mars. Þar er margt tekið athuga- semdalaust upp úr bréfi Sigrúnar, og einnig ýmislegt, sem greinar- höfundur hlýtur að hafa lesið milli línanna; a.m.k. finn ég það ekki í bréfinu. Sigrún segir hvergi að kennarar séu „allsráðandi" í námsnefnd í dönsku, þótt leiðara- höfundur telji sig þess umkominn að fullyrða það. Þá er það rangt að deildarráð „bendi rektor á“ eitt eða annað. Deildarráð getur ekki sagt rektor fyrir verkum. 1 um- ræddri tillögu er notað orðalagið „mælir deildarráð með“. Þá full- yrðir blaðið, að nú „liggi fyrir" fordæmi Háskóla íslands um „pól- itískt innrætingarstarf" og get ég ekki fallist á að sönnun þess liggi fyrir. Annars kemur vanþekking leiðarahöfundar á umfjöllunarefni sínu vel fram, er hann talar um „misfellurnar í meðferð heim- spekideildarráðs á veitingu próf- essorsembættis í almennri sögu“. Deildarráð hefur nefnilega aldrei fjallað um veitingu þessa embætt- is, enda ekki í verkahring þess. Hin margumrædda atkvæða- greiðsla um prófessorsembættið fór fram á deildarfundi, þar sem sæti eiga allir fastir kennarar Heimspekideildar, auk 7 fulltrúa stúdenta, sem ekki höfðu atkvæð- isrétt um þetta mál. V. Það sem ég vildi sagt hafa, er því í fáum orðum þetta: 1. Ég mótmæli því, að meðferð deildarráðs Heimspekideildar á kæru Sigrúnar Gisladóttur hafi verið ábótavant, þvert á móti lögðu deildarráðsmenn sig fram um að kynna sér efnisatriði málsins. 2. Sigrún hefur aldrei tilfært efnisleg rök til stuðnings kæru sinni. 3. Prófdómari utan Háskólans fór yfir prófúrlausnir Sigrún- ar samkvæmt ákvörðun deild- arráðs. 4. Morgunblaðið fellir dóm um dönskukennara eingöngu á grundvelli bréfs Sigrúnar, en tekur ekkert tillit til niður- stöðu deildarráðs og náms- nefndar. Að lokum þetta: í upphafi títtnefndrar forystugreinar er rætt um, að sífellt gerist algeng- ara að nemendur bendi á marxísk- an áróður kennara sinna, og síð- asta dæmið sé að finna í grein Sigrúnar Gísladóttur. Nú er það svo, að orðin „marxismi" eða „kommúnismi" voru aldrei nefnd í upphaflegu bréfi Sigrúnar til há- skólaráðs. í greininni í Morgun- blaðinu 1. mars kemur orðið marxismi einu sinni fyrir, og þá í tilvitnun í orð kennara. Sigrún segir hvergi sjálf, að sú innræting sem hún kæri yfir sé af marxísk- um toga. Hins vegar virðist svo komið, að marxWmi, innræting og hugmyndafræði séu orðin sam- heiti í víðlesnasta blaði landsins; og ef eitt er nefnt, eru hin tvö oftast á næsta leiti. Mér finnst þetta nokkuð alvarlegur hugtaka- ruglingur, og vonast til að blaðið sjái að sér. Reykjavík, 5. mars 1980. Eiríkur Rögnvaldsson, íslenskunemi, fulltrúi stúdenta í deildarráði Heimspekideildar. Athugasemd ritstjóra: Grein Eiriks Rögnvaldssonar breytir í engu þeim atriðum, sem Morgunblaðið hefur lagt áherslu á i forystugreinum um þetta mál. Hún staðfestir þvert á móti, að deildar- ráð heimspekideildar byggi niður- stöðu sina á áliti námsnefndar, þar sem kennarar i dönsku eiga sæti. Þeir dæmdu þannig í eigin sök. Á vegum Háskólans hefur enginn hlutlaus aðili metið. hvað hæft sé i máli Sigrúnar Gísladóttur. Grein Eiríks staðfestir énn nauðsyn þess, að slik úttekt verði gerð, þvi að þetta mál verður ekki afgreitt með orðhengilshætti og formlegheitum. Það er þetta fordæmi frá Háskóla íslands um málsmeðferð, þegar ncmandi bendir á pólitiska innræt- ingu, sem er hættulegt. Skiljanlegt er, að Eiríkur Rögnvaldsson vilji skorast undan því að vera bendl- aður við málsmeðferð heimspeki- deildar á veitingu prófessorsemb- ættis i almennri sögu og er blaðinu ljúft og skylt að játa þau mistök sín að hafa gert það.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.