Morgunblaðið - 28.05.1981, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 28.05.1981, Blaðsíða 12
12 MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 28. MAÍ1981 Hver er Belski ofursti? Lýtur starf hans sérstaklega ad íslenskum málefnum i sovésku herstjórninni? Er hann hinn nafnlausi „erlendi sérfrædingurM, sem alþýðubandalagsmenn vitna gjarnan til? Er hann einn af tæplega 70 starfsmönnum sovéska sendiráðsins í Reykjavík? Hvaða samband er milli Belski ofursta, Olafs Ragnars og Svavars? Greinilegt er, að ákveðið hefur verið á æðstu stöðum í sovéska stjórnkerfinu að taka upp nýja hætti í afstöðunni til íslands. í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, sem birtist 12. apríl, var greint frá því, að undir lok mars hafi Uja Baranikas „fréttaskýrandi" Nov- osti vitnað í Þjóðviljann og gefið til kynna, að kjarnorkuvopn væru á Islandi. 27. mars birtist frétt í blaðinu Sovetskaja Rossyia, þar sem bæði er vitnað í Þjóðviljann og Ólaf R. Grímsson í grein um „hættulegar hernaðaráætlaniri NAT0“ á íslandi. í grein, sem Novosti á íslandi sendi Morgunblaðinu 25. maí og rituð er af Juri Golosjubov, segir m.a.: „Það er einnig vitað, að Bandaríkin hafa ótakmörkuð yfir- ráð yfir flugvellinum í Keflavík, hinum stærsta á Norður-Atlants- hafssvæðinu. Og íslendingar vita raunverulega ekkert, hvað fram fer á flugvellinum né hvað þar er geymt. Spurningin um það, hvort kjarnavopn hafi þegar verið flutt til íslands, hefur oftar en einu sinni verið til umræðu á Alþingi. Það er athyglisvert, að jafnvel íslenska ríkisstjórnin getur ekki afdráttarlaust neitað þeim mögu- leika." Grein Belski ofursta Þann 22. maí birtist í Rauðu stjörnunni, málgagni sovéska hersins, grein sú, sem vitnað er til á baksíðu Morgunblaðsins í dag, eftir Belski ofursta. Sovéski ofurstinn einbeitir sér að því að sanna, að íslendingar séu „hand- bendi Atlantshafsstefnu" Banda- ríkjastjórnar. Ofurstinn vitnar til orða, sem hann ber Train, yfir- mann Atlantshafsherstjórnar NATO, fyrir, þess efnis, að nauð- synlegt sé að koma nýjum banda- rískum flugvélum fyrir á íslandi til að fylla í skarðið vegna þess, að ekki væru nægilega mörg flug- móðurskip NATO til taks við ísland. Síðan segir sovéski ofurst- inn, að íslendingar segi flugstöð- ina i Keflavík smám saman vera að breytast í ósökkvandi flugmóð- urskip. „Það er auðséð á öllu, að nú er um að ræða að auka hlutverk þessarar hernaðarlega mikilvægu stöðvar USA á Atl- antshafi og breyta henni í eitt af framvirkjum kjarnorkustefnu stjómarinnar í Washington." Belski ofursti getur ekki látið hjá líða að nefna kjarnorkuvopnin sérstaklega, eins og fram kemur í baksiðufréttinni. Vitnar hann, máli sínu til stuðnings, í viðtal, sem Helgarpósturinn hafi á síð- asta ári átt við „bandariskan kjarnavopnasérfræðing", T. More- land, sem hafi sagt „að möguleiki væri á að kjarnavopn væru í Keflavík". Belski ofursti segir, að Penta- gon ætli að nota fjarskiptatækin í nánd við ísland fyrir Atlants- hafssamgöngur „og nota landið sjálft til þess að styrkja norður- væng NATO og herða hernaðar- spennuna gagnvart Sovétríkjun- um“. Hafi þessi stefna um að draga ísland inn í „fífldjarfar hernaðaráætlanir" NATO „vakið ótta meðal almennings á Islandi, enda ærið tilefni". Undir lok greinar sinnar tekur sovéski ofurstinn undir tillögu Kekkonens Finnlandsforseta um „að lýsa Norður-Evrópu algjörlega kjarnorkuvopnalaust svæði. Sov- étríkin hafa lýst yfir, að þau séu tilbúin til að ábyrgjast slíkt frið- lýst svæði. Areiðanleiki þeirrar yfirlýsingar er vel kunnur," segir Belski. Hrædsluáródurinn Eins og þeir Geir Hallgrimsson, formaður utanrikismálanefndar Alþingis, og Benedikt Gröndal, fyrrum utanrikisráðherra, bentu á í ræðum sínum i umræðum um skýrslu utanrikisráðherra á Al- þingi 11. maí, var ákveðið á landsfundi Alþýðubandalagsins í nóvember á síðasta ári, að flokk- urinn skyldi taka upp „hræðslu- áróður" til að fæla íslendinga frá stuðningi við varnir landsins. Kjarninn í þeim áróðri er sá, að „eðli“ varnarstöðvarinnar hafi breyst. í ræðu á Alþingi 11. maí sagði Svavar Gestsson, að síðustu 20 ár hefði Bandaríkjastjórn markvisst unnið að því að tengja stöðina í Keflavík við kjarnorku- vopnakerfi sitt og síðan orðrétt „og það er talið með óyggjandi rökum, að Keflavíkurstöðin sé nú orðin mikilvæg stjórnstöð í kjarn- orkuvopnakerfi Bandaríkjanna á gjörvöllu Norður-Atlantshafi og jafnframt hafi herstöðin nýju hlutverki að gegna eftir að AWACS-vélarnar komu til sög- unnar og stöðin sé í reynd einnig árásarstöð...“ Belski ofursti kemst þannig að orði: „Það er auðséð á öllu, að nú er um að ræða að auka hlutverk þessarar hernað- arlega mikilvægu stöðvar USA á Atlantshafi og breyta henni í eitt af framvirkjum kjarnorkustefnu stjórnarinnar í Washington." Síð- an segir Svavar Gestsson um SOSUS-kerfið, sem er neðansjáv- arhlustunarkerfi, að það geri Bandaríkjamönnum kleift „að stýra héðan kafbátahernaði" og um sama kerfi segir Belski ofursti, að það sé i rauninni „hluti af flotastjórn Bandaríkjanna á Norður-Atlantshafi". Svavar Gestsson segir: „Herstöðin í Keflavík er að verða eins konar miðpunktur í kjarnorkuvopna- kerfinu á Norður-Atlantshafi...“ Belski ofursti segir: „Sérlega vara- söm er sú staðreynd, að Pentagon hyggst gera eyríkið að einni kjarnorkustöðva í varnarkerfi USA.“ Svavar Gestsson hefur birt meginhluta þessarar ræðu sinnar í Þjóðviljanum, en sleppti þó þar þeim kafla, sem vitnað er til hér að ofan. Þótti honum nóg að fá hann birtan undír dulnefni í Rauðu stjörnunni? Þá er þess að geta, að Olafur R. Grímsson komst svo að orði í þingræðu 15. maí, að varnarstöðin í Keflavík hafi verið gerð „að einhverjum mesta lykil- þætti“ i kjarnorkuvopnakerfi Bandaríkjanna á Norður-Atlants- hafi. Geymunum sleppt „Keflavíkurstöðin er notuð eft- irlitslaust," segir Belski ofursti í Rauðu stjörnunni. í ræðu sinni 15. maí sagði ólafur R. Grímsson, þegar hann fjallaði um uppsetn- ingu SOSUS-kerfisins: „Eg er nokkurn veginn viss um það, að vísu er það bara trúa mín, ég hef engar heimildir fyrir því, en ég er nokkurn veginn viss um það, að sá utanríkisráðherra Alþýðufíokks- ins, sem þá fór með völd, hefur ekki fengið miklar skýringar á því að með því að leggja þessa kapla væri verið að stíga fyrsta skrefið í að tengja ísland við kjarnorku- vopnakerfi Bandaríkjanna." Og Svavar Gestsson sagði í sinni ræðu: „Ég hef út af fyrir sig ekki trú á því að þeir íslenskir ráða- menn, sem heimiluðu þennan bún- að, lagningu SOSUS-kerfisins hérna út í Atlantshafið, Orion-, Phantom- og AWACS-vélarnar, hafi gert sér að fullu grein fyrir því í öllum tilvikum hvað þeir voru að gera, vegna þess að hér er um að ræða skref, sem er svo alvarlegt í þá átt að auka hættuna á því, að árásir verði gerðar á ísland." Ekki er ólíklegt, að Belski ofursti hafi haft þessi orð Svavars Gestssonar og Ólafs R. Grímsson- ar í huga, þegar hann segir: „Hugsandi íslendingar skilja, að staðsetning amerískra kjarna- vopna á landssvæði annarra ríkja gera þau að hættulegu skotmarki á stríðstímum og íbúa þeirra að amerískum gíslum. Washington hirðir hins vegar ekki um það, hvort bandamenn þeirra kæra sig um að leika það hlutverk." í grein sinni í Rauðu stjörnunni segir Belski ofursti, að stefna Bandaríkjanna og NATO hafi „vakið ótta meðal almennings á Islandi, enda ærið tilefni". Hann gefur sem sé Alþýðubandalaginu þá einkunn, að því hafi tekist að nota hræðsluáróðurinn með árangri. Betri vitnisburð gátu þeir Svavar Gestsson og ólafur R. Grímsson ekki fengið frá Moskvu. Á þessu máli er mun alvarlegri hlið. I málgagni sovéska hersins er vegið að íslendingum. í stað blíð- mælgi hafa sovésk yfirvöld ákveð- ið að sýna okkur í tvo heimana. Þau ganga þó ekki lengra en samræmist stefnu Alþýðubanda- lagsins. í því sambandi er athygl- isvert, að Belski ofursti gerir enga athugasemd við það, að eldsneyt- isgeymakerfi varnarliðsins sé endurnýjað. Hann ræðst á AWACS-vélarnar og nýju flug- skýlin eins og alþýðubandalags- menn, sem samþykkt hafa endur- nýjun eldsneytisgeymanna. Mótmæla verdur Juri Golosjubov, sem áður er nefndur, segir, að jafnvel íslenska ríkisstjórnin geti ekki afdráttar- laust neitað þeim möguleika, hvort kjarnorkuvopn hafi verið flutt til íslands. 11. ágúst 1980 sagði Ólafur Jóhannesson um yfir- lýsingu, sem Bandaríkjastjórn gaf þá í tilefni af umræðum um það, hvort hér á landi væru kjarnorku- vopn: „Yfirlýsingin útilokar al- gjörlega staðsetningu kjarnorku- vopna hér á landi, svo vel sem unnt er að útiloka nokkuð." Ekki færri en 5 íslenskir utanríkisráð- herrar hafa lýst því yfir, að hingað kæmu ekki kjarnorkuvopn nema með samþykki íslenskra stjórnvalda. í ræðu sinni 15. maí á Alþingi lét Ólafur R. Grímsson þess sérstaklega getið, að yfirlýs- ing Bandaríkjastjórnar frá því í fyrra væri ekki „nægilega tryggi- lega“ orðuð. Alþýðubandalaginu hefur tekist það ætlunarverk sitt að kalla hótanir Sovétmanna yfir Island. Á því er enginn vafi. Ákvörðunin um hræðsluáróðurinn, sem tekin var á landsfundi flokksins í fyrra, hefur haft meiri áhrif á ráðamenn í Moskvu en Islendinga. Hvaða Is- lendingur hefði að óreyndu trúað því, að til væru þeir stjórnmála- menn hér á landi, sem ættu ekki aðra „hugsjón" í öryggismálum þjóðar sinnar en fá Sovétmenn til að hafa í hótunum við hana? Ríkisstjórn íslands á að mótmæla þessum sovésku áróðursskrifum harðlega. Þau sanna betur en nokkuð annað hernaðaráhuga Sovétmanna á íslandi og verði þeim ekki mætt af fullri hörku munu sovésku áróðursmennirnir og samherjar þeirra hér á landi ganga enn lengra á sömu braut. íslendingum hótað? Grein Belski ofursta lýkur á þessum orðum: „Brezhnev forseti undirstrikaði nýlega í svari til gríska dagblaðsins Tanea, að Sov- étríkin muni aldrei beita kjarna- vopnum gegn þeim löndum, sem hafa lýst því yfir að þau muni hvorki framleiða kjarnavopn né útvega sér þau og ekki staðsetja slík vopn á landssvæði sínu.“ Á að skilja þessi síðustu orð í grein ofurstans sem hótun í garð ís- lands eða áminningu um að fylgja óbreyttri stefnu? Hér er um meira lykilatriði að ræða en allt það, sem felst í hræðsluáróðri komm- únista á íslandi. Hefur Svavari Gestssyni, Ólafi R. Grímssyni og öðrum heimildarmönnum hernað- arsinnanna í Moskvu tekist að sannfæra þá um réttmæti þess að ógna Islendingum með kjarnorku- vopnum? Augljóst er, að þau sovésku skrif, sem hér hafa verið rakin, leggja þá skyldu á herðar íslensku ríkisstjórninni að fá taf- arlaust úr þessu skorið. Eða getur Alþýðubandalagið hindrað það með neitunarvaldi sínu? Björn Bjarnason

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.