Morgunblaðið - 01.04.1982, Blaðsíða 25
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 1. APRÍL 1982
25
Unnið ad framkvæmdum við Deildartunguhver. !V,>nd MbL ort'i‘!ur
Framkvæmdir við Deildartunguhver:
„Þetta er heldur ljótt að sjá“
!()() ísl.
ilandi
ing kynbótahrossa. Bann væri ekki
endilega nauðsynlegt, en ákveðið
hefði verið að taka svo sterkt til
orða í tillöguflutningi á Búnaðar-
þingi til að vekja athygli á málinu.
Þar væri á hinn bóginn lítill áhugi
fyrir þessum málum, svo varla
þyrftu menn að óttast miklar að-
gerðir á næstunni a.m.k. Þorkell
sagði, að menn hefðu skiptar skoð-
anir á þessum málum, en engan
þann hefði hann þó hitt, er vit hefði
á hrossarækt, er væri því meðmælt-
ur að hindrunarlaust væru seldir úr
landi bestu stóðhestar íslands. í
þessu skyldu menn þó hafa hugfast
að fleiri vandamál væru til en hugs-
anlegt bann á útflutningi kynbóta-
hrossa, svo sem exemið er sagt væri
að gæti eyðilagt markaðinn ytra.
„Það virðast því fleiri hindranir en
ég í þessu máli,“ sagði Þorkell. „En
ég get ekki skilið það, að Þjóðverjar
missi áhugann á að kaupa íslenska
reiðhesta, þó þeir geti ekki keypt
héðan kynbótahross. Við eigum ekki
að styðja útlendinga til samkeppni
við okkur, en mér heyrðist raunar á
Klaus Becker að við værum raun-
verulega orðnir óþarfir, þeir geti
framleitt sín hross sjálfir. Er það
ekki einmitt það sem menn hafa
óttast? Mín skoðun er sú, að
leggja eigi áherslu á útflutning
reiðhesta, þar sem lögð verði
áhersla á gæði en ekki fjölda, en við
eigum sjálf að rækta hrossin hér
heima, og þrýstingur frá Þjóðverj-
um breytir ekki þeirri sannfæringu
minni," sagði Þorkell.
Klaus Becker var að því spurður,
hvort ekki mætti leysa þennan
ágreining með því að segja sem svo,
að íslendingar banni ekki útflutn-
ing kynbótahrossa, enda virðist
tryggt að Þjóðverjar hafi ekki
raunverulegan áhuga á að kaupa
slík hross, þó þeir vilji eiga a.m.k.
lagalegan rétt til þess. Becker svar-
aði því til að menn gætu skoðað út-
flutningsskýrslur síðustu ára, til að
sjá hve lítill áhugi væri á því í
Þýskalandi að kaupa héðan stóð-
hesta.
Þorkell Bjarnason var spurður
hins sama, hvort hann vildi falla frá
hugmyndum um útflutningsbann,
enda lægi fyrir að Þjóðverjar hygð-
ust ekki kaupa fleiri kynbótahross.
Þorkell svaraði því neitandi, reynsl-
an sýndi að Þjóðverjar hefðu áhuga
á að kaupa héðan okkar bestu hross,
og ekki væri ástæða til að ætla að
það breyttist. Það væri fyrst og
fremst íslendingum sjálfum að
þakka, heiðarlegum hrossabændum,
að ekki hefðu verið seldir úr landi
bestu stóðhestar landsins gegnum
tíðina.
Gunnar Bjarnason sagði meðal
annars, að það væri afdalamennska
að leggjast gegn útflutningi ís-
lenskra hesta. Menn gætu vissulega
haft þær skoðanir og hefðu til þess
fullan rétt, en verra væri þegar
skoðanabræður Bjarts í Sumarhús-
um væru í aðstöðu til að skaða á
þennan veg heila atvinnugrein. Hér
væru miklir hagsmunir fjölda
stóðbænda og annarra eigenda ís-
lenskra hesta í veði. Engir stórir
ræktendur íslenskra hesta væru til
ytra, þeir vildu frekar kaupa hross
héðan en rækta þau sjálfir, og mik-
ill markaður væri fyrir hendi. Það
sem menn ættu að snúa sér að væri
að finna ráð gegn exemi, er smá-
flugur yllu, og sumar þjóðir væru
byrjaðar að finna ráð gegn. „Það má
ekki eyðileggja allt það starf sem
unnið hefur verið á þessum vett-
vangi undanfarna áratugi," sagði
Gunnar. „Við eigum ekki að segja
Þjóðverjum hvað þeir eiga að kaupa
héðan, við eigum að leggja áherslu á
að sýna það og selja sem við eigum."
AH
HEIMAMENN í Deildartungu í
Borgarfirði telja að unnin hafi verið
skemmdarverk á Deildartunguhver.
í lok síðustu viku hófust fram-
kvæmdir til þess að leiða vatn úr
hvernum. Skurður hefur verið graf-
inn í gegnum hveraaugu af verk-
takafyrirtæki á vegum Hitaveitu
Akraness og Borgarfjarðar, þannig
að til lýta telst. Hverinn var tekinn
eignarnámi af eigendum hans í
Deildartungu og afhcntur Hitaveitu
Akraness og Borgarfjarðar.
Deildartunguhver er á svokall-
aðri náttúruminjaskrá, einn af 214
svæðum. Hann er ekki friðlýstur.
Hins vegar hefur burknategund,
sem vex á hólnum, þar sem jarð-
rask átt sér stað, verið friðlýst.
„Þeir hafa nú gengið heldur
hart að hvernum. Hafa verið með
vélgröfu og grafið skurð í stefnu
hveraauganna, eftir sprungustefn-
uninni og er ekki til prýða. Þetta
er heldur ljótt að sjá,“ sagði
— segir Andrés
Jónsson, bóndi
á Deildartungu II
Andrés Jónsson, bóndi í Deildar-
tungu II, í samtali við Mbl. „Þeir
hafa grafið undan hólnum en
snyrtilegar hefði mátt fara að. Ég
tel víst, að hrynja muni úr hólnum
og grugga vatnið," sagði Andrés
Jónsson ennfremur.
Náttúruverndarráð gaf
umsögn um hvernig standa
skyldi að framkvæmdum:
„Náttúruverndarráð sendi um-
sögn um hvernig standa skyldi að
framkvæmdum við Deildartungu-
hver til Hitaveitu Akraness og
Borgarfjarðar í byrjun júlí á síð-
astliðnu ári og var það ítrekun á
umsögn sem send var í júlí 1979.
Þá var Þorleifur Einarsson, jarð-
fræðingur, tilnefndur til þess að
hafa eftirlit með framkvæmdum
við Deildartungu. Þess var óskað
að haft væri samband við hann
um öll álitamál sem upp kynnu að
korna," sagði Jón Gauti Jónsson,
framkvæmdastjóri Náttúruvernd-
arráðs í samtali við Mbl.
„Við erum ekki í stakk búnir til
þess að halda uppi reglubundnu
eftirliti á viðkvæmum stöðum eins
og við Deildartunguhver, en Nátt-
úruverndarráð mun kanna hvort
framkvæmdaraðili hefur fylgt
þeim óskum sem fram voru bornar
og með vorinu stendur til að gera
heildarúttekt á hitaveitufram-
kvæmdunum," sagði Jón Gauti.
í samtali við Mbl. sagði Þorleif-
ur Einarsson, jarðfræðingur, að
hann hefði ekki litið eftir verkinu.
Það hafi staðið til í upphafi, en við
það hefði verið hætt.
Framkvæmdir í samvinnu
og samráði við
Náttúruverndarráð
„Ég veit ekki annað, en að staðið
hafi verið að framkvæmdum við
Deildartunguhver eins og fyrir-
hugað var í samráði og með sam-
þykkt Náttúruverndarráðs. Teikn-
ingar voru lagðar fyrir Náttúru-
verndarráð og út frá þeim hefur
ekki verið breytt. Ég hef að vísu
ekki farið á staðinn eftir að fram-
kvæmdir hófust, en það er nú oft
svo, að rask virðist meira á meðan
á framkvæmd stendur en eftir að
henni er lokið,“ sagði Ingólfur
Hróifsson, framkvæmdastjóri
Hitaveitu Akraness og Borgar-
fjarðar, í samtali við Mbl.
Hrólfur Sveinsson:
Orðkrækingar
Skelfing leiðist mér þetta sí-
fellda nöldur sumra manna út af
málfari. I útvarpi hefur þessi
sónn kliðað ár eftir ár og hlust-
endur hleypt honum inn um ann-
að eyrað og út um hitt. Dagblöð-
in hafa sum hver tekið undir
þetta eilífðar nudd um „rétt
mál“ og „rangt mál“ og fengið til
málfræðinga að segja þjóðinni
hvernig hún megi tala og hvern-
ig hún megi ekki tala. Út yfir
tekur þó, þegar leikmenn fara að
steyta sig og segja öðrum fyrir
um munnsöfnuð. Að undanförnu
hefur sveitungi minn Helgi
Hálfdanarson látið dæluna
ganga dag eftir dag í Morgun-
blaðinu með hótfyndnum
sparðatíningi. Síðast klykkti
hann út með því að kenna okkur
Sauðkrækinga við sauðaþjófnað.
Það fer naumast fram hjá
neinum sem nennir að fylgjast
með þessu orðaskaki í blöðum og
útvarpi, að þar er verið að tönnl-
ast á sama staglinu ár eftir ár.
Enginn virðist taka mark á
þessu, nema síður sé. Ég minnist
þess, að fyrir nokkrum árum
skrifaði Þorsteinn Ö. Stephensen
hvassa grein um ranga notkun á
orðasambandinu „alla vega“.
Undir ummæli hans hafa síðan
tekið málfræðingar útvarpsþátt-
anna um daglegt mál hver af
öðrum og hamrað á því, að „alla
vega“ merki „alls konar, með
öllu móti, á allan hátt“, en alls
ekki „til dæmis, alltjent, að
minnsta kosti“, eins og margur
hefur viljað vera láta. Ög hver er
árangurinn? Orðin „alla vega“
eru ekki aðeins að glutra niður
síðustu leifunum af hefðbund-
inni merkingu sinni, heldur hafa
þau teygt úr skönkunum og
dubbað sig upp í hið föngulega
atviksorð „allavegana".
Fyrir skömmu hafði ég orð á
því í greinarkorni, að heilsufars-
áróðurinn, sem rekinn hefur ver-
ið gegn reykingum ár eftir ár,
virtist koma að litlu haldi, með-
an fólk áttaði sig ekki á því, að
reykingar eru einhver ógeðsleg-
asti sóðaskapur sem verða má.
Ætli það gegni ekki líku máli um
málverndunar-nöldrið? Svo hef-
ur mér sýnzt.
Og nú ætla ég að stinga því að
Helga vini mínum, að hann hafi
opin eyrun við útvarpið á næst-
unni og veiti því athygli, hvernig
skriffinnska þeirra, sem heim-
sækja hótelið að Pósthússtræti
11, færist einfaldlega í aukana
jafnt og þétt, allavegana meðan
ekki linnir rausi hans og ann-
arra orðkrókamanna, sem að
réttu lagi ættu að kallast orð-
krækingar.