Morgunblaðið - 01.11.1983, Blaðsíða 27
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 1. NÓVEMBER 1983
35
Búi Þorvaldsson
— Minningarorð
Fæddur 20. október 1902.
Dáinn 20. október 1983.
Vel er nú unnið,
verki lokið,
dimm er risin nótt
úr dauðans ægi.
Gakk nú góður þjónn
til Guðs dyra
umbun að fá
og eftirlæti.
Þú vannst með dyggð
og vilja hreinum
þitt verk um
langan ævidag.
M. Joch.
f dag fer fram í Dómkirkjunni
útför Búa Þorvaldssonar, er and-
aðist hér í sjúkrahúsi á 81. afmæl-
isdegi sínum eftir skamma sjúkra-
húsvist. Á Iangri ævi mátti hann
hrósa hreysti og heilsan góðri, þó
að ellimörk settu svip sinn á hann
tvö síðustu æviárin.
Leiðir okkar Búa lágu fyrst
saman í Flensborgarskóla vetur-
inn 1921—22. Hann settist þar í
þriðja bekk, er foreldrar hans
fluttust til Hafnarfjarðar og sr.
Þorvaldur, faðir hans, varð kenn-
ari við skólann. Búi var hóglátur
piltur, allt að því hlédrægur og tók
ekki mikinn þátt í félagslífi skól-
ans. En hann naut trausts og virð-
ingar bekkjarsystkina sinna. öll-
um var þeim ljóst, að hann var
enginn veifiskati. Viljasterkur var
hann og fór sínar leiðir án tillits
til þess, hvort öðrum líkaði betur
eða verr.
í þröngum hópi var hann gam-
ansamur, jafnvel smáglettinn og
snjall í tilsvörum. Námsmaður var
hann í betra lagi, en stærðfræði og
sagnfræði stóðu huga hans næst,
ef eg man rétt.
Að loknu burtfararprófi dreifð-
ust bekkjarsystkinin víðs vegar
innan lands og jafnvel utan lands.
Einn bekkjarbróðirinn settist að I
Argentínu og kvæntist þarlendri
konu.
Leiðir okkar Búa skildust og
lágu ekki saman fyrr en á fimmta
áratugnum, er hann hafði sest að í
höfuðstaðnum. Séra Þorvaldur,
sem var í hárri elli, bjó hjá honum
og tengdadóttur við gott atlæti.
Oft var þá gestkvæmt á heimilinu,
risna góð og vinum að mæta.
Sóknarbörn sr. Þorvalds að vestan
og gamlir nemendur hans voru oft
á ferðinni. Eftir að eg flutti til
borgarinnar, bar fundum okkar
Búa saman við og við, mat eg hann
alltaf mikils fyrir mannkosti hans
og tryggð.
Búi Þorvaldsson var fæddur i
Sauðlauksdal 20. október 1902,
sonur prestshjónanna þar, séra
Þorvalds Jakobssonar og konu
hans, Magdalenu Jónasdóttur
Heimilið var í senn rausnar-,
mennta- og menningarheimili, þar
sem margur naut fræðslu klerks-
ins, sem var mikill lærdómsmaður
og frábær. fræðari, auk þess sem
hann var kunnur kennimaður.
Prestshjónin eignuðust sex
börn, sem upp komust. Tvær syst-
ur eru á lífi, Arndís, kaupkona, og
Þuríður, skólahjúkrunarkona, en
dáin eru: Finnbogi Rútur, prófess-
or, faðir Vigdísar forseta, Guðný,
ritari borgarstjóra, Jórunn,
handavinnukennari, og Búi, sem
við kveðjum í dag, en hann var
yngstur þessara merku systkina.
Búi naut uppeldis eins og bezt
verður á kosið í Sauðlauksdal.
Hann fluttist til Hafnarfjarðar
nítján ára gamall og átti þar
heima um langt skeið.
Að loknu prófi vann hann að
vetri til við verslun Einars Þor-
gilssonar, en stundaði sjó á sumr-
um, einkum síldveiðar.
En þar kom, að hann vildi leita
sér frekari menntunar. Haustið
1926 fór Búi til Reykjavíkur og bjó
sig undir frekara nám. Trausti
Ólafsson var þá forstöðumaður
Rannsóknastofu ríkisins og gaf
honum leyfi til þess að sækja
fyrirlestra í efnafræði í Háskólan-
um, og gerlafræði las hann og
vann undir leiðsögn Gísla Guð-
mundssonar, gerlafræðings, á
rannsóknastofu.
Vorið 1928 hleypti hann heim-
draganum og hóf nám við Lade-
lunds Mejerihojskole, skammt frá
Askov á Jótlandi. En sá skóli var í
miklu áliti. Á sumrum starfaði
Búi í mjólkurbúum víðsvegar um
Danmörku og fór námsferð til
Hollands. Eftir þriggja ára nám
útskrifaðist hann frá skólanum. Á
leiðinni heim til íslands kynnti
hann sér mjólkuriðnað í Noregi og
Svíþjóð.
Búi er kominn heim, og hefst nú
hið fjölþætta lífsstarf hans við
mikla önn alla tíð. Hann verður
mjólkurbústjóri við Mjólkurbú
Ölfusinga í Hveragerði og gegnir
því starfi í sex ár. Mjólkurbúið var
reist sem tilraunabú og fyrsta
sinnar tegundar, sem rekið var
með hverahita. Árin, sem Búi
starfaði þar, voru sannkölluð
kreppuár, og við ramraan reip að
draga um allan rekstur og reyndi
mjög á dugnað og hagkvæmni hins
unga manns. Allhörð átök urðu
um búið og fór svo að lokum, að
Búi hvarf frá stofnuninni sem
minnihlutamaður í þeim átökum,
þótt hann væri best menntaði
mjólkurfræðingur landsins. En
Búi var manna síst fallinn til þess
að falla frá fastmótuðum skoðun-
um sínum og selja sannfæringu
sína. Og nú var hann atvinnulaus.
Vorið eftir að hann flytur frá
Hveragerði, ræðst hann til hf.
Lýsis og starfar þar við vélgæzlu
og efnarannsóknir. Á sumrin er
hann hjá Síldarverksmiðjunni á
Djúpuvík og fæst við ýmiss konar
rannsóknir. Þar þótti honum gott
að vera og rann oft seinna til rifja
niðurlæging staðarins eftir að
hafa orðið vottur að henni við
komu þangað. Víðar var gripið til
hendinni. Hann var starfsmaður
Dósaverksmiðjunnar hf. og
Smjörlíkis- og sælgætisverksmiðj-
unnar Svanur-Víkingur nokkurn
tíma.
Frá 1963 var Búi samstarfsmað-
ur Arndísar systur sinnar við Um-
boð Happdrættis Háskóla íslands,
sem hafði vaxið mikið á undan-
förnum árum. Þar starfaði hann
til 79 ára aldurs, er þau slepptu
umboðinu.
Öll þessi mörgu starfsár fylgd-
ist hann af áhuga með mjólkur- og
landbúnaðarmálum þjóðarinnar,
og ferðaðist eitt sinn um fornar
stöðvar í Danmörku ásamt eigin-
konu sinni, gisti Ladelund og
gladdist yfir breytingum, sem orð-
ið höfðu til framfara í dönskum
mjólkuriðnaði.
Töluverðan þátt tók Búi í félags-
málum. Um skeið átti hann t.d
sæti í stjórn Iðju. Vakandi áhuga
hafði hann á þjóðmálum og vann
nokkuð að félagsstörfum innan
Sjálfstæðisflokksins. Hann lét séi
mjög annt um kristni og kirkju.
Sótti hann bezt sóknarkirkju sína,
Dómkirkjuna, og var starfandi I
Bræðrafélagi ■ hennar. Hann las
fjölda bóka, m.a. kristilegs efnis,
og dáði manna mest danska prest-
inn Skovgaard-Pedersen, sótti
fyrirlestra hans á Danmerkurár-
um sínum og hlýddi oft á fyrir-
lestra við lýðskólann í Askov,
einkum þá er snertu kirkju og
kristindóm. Hann unni KFUM og
K og vildi veg þeirra sem mestan
og studdi ásamt konu sinni þátt-
töku barna sinna f kristilegu
starfi.
9. janúar 1932 var mikill ham-
ingjudagur 1 lífi Búa Þorvaldsson-
ar. En þann dag gekk hann að eiga
unnustu sína, Jónu Erlendsdóttur
frá Hvallátrum í Rauðasands-
hreppi, dóttur Erlends Kristjáns-
sonar bónda þar og vitavarðar, og
konu hans, Steinunnar Ó. Thorlac-
íus, frá Dufansdal í Arnarfirði.
Frú Jóna lifir mann sinn. Það mun
einróma álit allra kunnugra, að
hún sé fyrirmyndarkona, í senn
mikil móðir, ástrik eiginkona,
hagsýn og dugandi húsfreyja,
gædd góðum gáfum og kærleiks-
lund. Á hjónaband hennar og Búa
brá aldrei minnsta skugga. Þau
stóðu fast hlið við hlið og studdu
hvort annað eins og bezt verður á
kosið. Og þess þurfti við til að sjá
fyrir stóru heimili og mennta
prýðilega gefin börn þeirra.
En börnin eru: Sr. Kristján, dós-
ent við guðfræðideild Háskóla ís-
lands, giftur Erlu G. Guðjóns-
dóttur, ritara; Magdalena Jórunn,
hjúkrunarfræðingur, gift Hösk-
uldi Baldurssyni, lækni; Erlendur
Steinar, vélstjóri, giftur Hólmfríði
Pétursdóttur, húsmæðrakennara;
Þorvaldur, eðlisfræðingur, giftur
Kristínu A. Norðfjörð, lögfræðingi
og kennara; Þórður ólafur, verk-
fræðingur, giftur Hildi Björgu
Guðlaugsdóttur, flugfreyju.
Barnabörnin eru 15 og barna-
barnabörnin 2.
Þrátt fyrir langan og strangan
vinnudag gaf Búi sér ávallt tíma
til að vera með börnum sínum og
ræða við þau og þá einkum það, er
varðaði sögu og þjóðlegan fróðleik.
Meðan þau voru enn ung, las hann
oft fyrir þau og talaði um merka
menn frá liðnum öldum, skapgerð
þeirra, iðju og örlög og miðlaði
börnum sínum af þekkingu sinni
og lífsreynslu.
Hann fékkst nokkuð við fræði-
störf, en tímaskortur hindraði
hann að sinna þeim svo sem hann
hefði óskað. Til er í handriti hans
örnefnaskrá Sauðlauksdals og
nákvæm lýsing á staðnum.
Mörgum þótti gott að leita til
Búa, ef þeir rötuðu í vanda um eitt
eða annað. Hann var einkar ráð-
svinnur og mannvinur og honum
var ljúft að greiða götu annarra.
Fyrir samverustundir með honum
ber margur þökk í hjarta til hans
og saknar nú vinar í stað.
Þegar ég lít yfir ævitíð hans,
sýnist mér hann hafa verið stakur
gæfumaður. Hann var giftur val-
kvendi, bjó við fágætt barnalán,
var öðrum traustur samferðamað-
ur, sem vísaði veginn til góðs með
hógværð og viturlegum ráðum.
Margir munu þeir vera, auk ást-
vinanna, sem hafa svo mikils
misst, er minnast hans í hljóðri
þökk.
Sá, er þessar línur ritar, þakkar
honum sex áratuga vináttu og
tryggð. sem aldrei féll minnsti
skuggi á.
Og er ég horfi á eftir Búa inn í
fylkinguna hljóðu, koma mér í hug
orð skátdsins:
Svo verður dyggum hvíldin hýr,
sem heim með sæmd frá verki snýr.
Sigurjón Guðjónsson.
Zillertal í Austurríki er meðal þekktustu skíðasvæða í Evrópu. Þar eru bæirnir Mayrhofen og
Finkenberg, áfangastaðir Flugleiða í vetur. Skíðaaðstaðan þarna er frábær
og hentar öllum. Skammt frá er hinn tignarlegi Hintertux-jökull, þarer
annaðaf tveimurbestuskíðasvæðum Evrópu. Skíðalandslið Austurríkis,
Islands og Noregs hafa verið þar við æfingar. Fararstjóri í skíðaferð-
unum verður Rudi Knapp, fæddur og uppalinn í Tíról. Hann er
kunnur sklðakennari og talar ágæta íslensku. Fjöldi lyfta sjá um
að flytja þig í þína óskabrekku, bratta eða aflíðandi, í troðna
slóð eða lausamjöll. Að loknum góðum degi á skíðum er gott
að láta líða úr sér á einhverju veitingahúsinu, í sundi eða sauna.
I skíðaferð safna menn kröftum og koma endurnærðir heim.
Dæmi um verð:
Finkenberg: Sporthotel Stock, frá kr 25.531.- Verð miðað við gist
ingu pr/mann í 2 manna herbergi. Hálft fæði.
Ibúðir. Verð frá kr. 19.744.- pr/mann. Miðað við 4 f íbúð.
Mayrhofen: Café Traudl, verð kr.22.619.-Verðið er miðað við gist-
ingu pr/mann f 2 manna herbergi. Hálft fæöi
Ef þú hefur áhuga á að fá frekari upplýsingar um skíðaferðirnar í vetur
skaltu hafa samband við einhverja söluskrifstofu Flugleiða,
umboðsmann eða ferðaskrifstofu.
FLUGLEIDIR
Gott fólkhjá traustu fétagi
Verðútreikningar miðaðir
við gengi 30.10. 1983.