Morgunblaðið - 17.11.1983, Side 2
2
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 17. NÓVEMBER 1983
«... .... , MorgunblaJiS/RAX.
Skipbrotsmennirnir »f Ragnari Ben. IS á heimili Guðmundar skipstjóra Kristjónssonar í Olafsvík í gærkvöldi. Frá vinstri: Ásgeir Þórðarson útgerðarmaður og vélstjóri (sem var í fríi í gær),
þá feögarnir Guðmundur skipstjóri, Kristjón stýrimaður og Guðmundur háseti og loks Ómar Þórhallsson matsveinn.
Erfitt að horfa á pabba
hanga svona í mastrinu
„EINA HUGSUNIN var að bjarga sér og öörum - mér
fannst mestu máli skipta að ná pabba í land. Það var erfitt
að horfa á hann hanga í mastrinu og sjá hvernig stöðugt
gaf yfir hann. Ég kallaði til hans: „Passaðu þig núna,
passaðu þig núna!“ og saman hvöttum við hann til að sæta
lagi og komast upp á skerið. Þá var hann að örmagnast.
Svo kom kvika, sem kastaði honum af mastrinu en sem
betur fer í áttina til okkar, sem vorum á skerinu. Þá tókst
mér að ná taki á honum og við gátum dregið hann upp.
Það mátti alls ekki tæpara standa, því báturinn var farinn
að brotna.“
Ragnar Ben. ÍS 210 var 30 lesta eikarbátur, byggður 1973. Hann var í
eigu Ásgeirs Þórðarsonar útgerðarmanns.
Þannig sagðist Kristjóni Guð-
mundssyni, 25 ára gömlum stýri-
manni á Ragnari Ben. ÍS, frá þeg-
ar blm. Morgunblaðsins ræddi við
hann á heimili hans í Ólafsvík í
gærkvöld, skömmu eftir að hon-
um og þremur öðrum hafði verið
bjargað af skeri við Brimnes eftir
að bátur þeirra sökk skyndilega.
„Við fórum út klukkan níu r
morgun og vorum á heimleið.
Skipstjórinn, faðir tveggja okkar,
var einn uppi en við vorum þrír í
lúkarnum frammá að fá okkur
kaffisopa og vitum því ekki hvað
gerðist. En skyndilega fundum við
að báturinn sigldi á sker og tók
niðri. Við vorum snöggir upp —
strákarnir tveir eins og pílur, lík-
lega fljótari en við reiknuðum
með að geta verið.
Við bræðurnir, Guðmundur og
ég, hlupum eftir mastrinu og
stukkum út í áttina að skerinu.
Hinir tveir komust fram á stefnið.
Um leið og við komum upp lagðist
báturinn á hliðina. Við lentum
allir í sjónum, misjafnlega mikið
þó, og náðum gúmmíbátnum, sem
virtist hafa slitnað frá af sjálfs-
dáðum. Þá vorum við þrír komnir
upp á skerið og báturinn kom á
einu brotinu. Það brimar alltaf
þarna við Brimnesið, sérstaklega í
vestanátt eins og var þarna. Bát-
urinn kom okkur að miklu gagni,
því við tókum úr honum rakettur
og neyðarbauju. Báran frá Rifi
var þarna skammt fyrir utan, rétt
á eftir okkur, og þeir hafa líklega
séð okkur og gátu látið vita.“
>
Enginn tími til
aö verða hræddur
Kristjón sagði að þegar slysið
hafi orðið hafi báturinn verið á að
giska 20—30 metra frá landi. Þeir
hafi átt að vera talsvert utar en
hann vildi á engan hátt giska á
hvað hefði valdið því, að þeir
hefðu verið svo nærri. „Það gafst
enginn tími til að verða hræddur,"
sagði hann. „Okkur gekk erfiðlega
að ná skipstjóranum, pabba, upp á
skerið. Hann komst út um glugga
bakborðsmegin og hljóp fram eft-
ir síðunni en lenti í sjónum og var
töluvert í kafi. Við það örmagnað-
ist hann og var heíd ég að gefast
upp þegar hann komst aftur upp á
bátinn. Þar hékk hann í mastrinu
í kortér eða meira og við hvöttum
hann stöðugt til að sæta lagi, eins
og ég lýsti áðan.“
Björgunarsveit Slysavarnafé-
lagsins frá Hellissandi var komin
á staðinn eftir þrjá stundarfjórð-
unga eða svo. Skutu björgunar-
menn línu til skipbrotsmannanna
í skerinu, sem bundu hana í
gúmmíbjörgunarbátinn og voru
dregnir þannig í land. Kristjón
sagði að tiltölulega lygnt hefði
verið milli skers og lands og hefði
björgunin gengið fljótt og vel
fyrir sig. Hann hefði verið kom-
inn heim um klukkan 18.30, eða á
svipuðum tíma og áætlað hafði
verið. Þeir feðgar hafa lengi verið
saman á sjó. „Og ætli við verðum
ekki saman áfram — en þó er víst,
að við verðum aldrei saman allir
þrír aftur. Það gengur ekki.“
Aldrei viljað mig ...
Guðmundur Kristjónsson er
fimmtugur og hefur verið skip-
stjóri í 29 ár án þess að lenda
nokkru sinni í óhappi eða skip-
broti — þangað til í gær. Hann
var hættast kominn fjórmenn-
inganna á Ragnari Ben. ÍS og var
heldur slæptur eftir volkið þegar
blm. Morgunblaðsins hitti hann
að máli á heimili hans í Ólafsvík í
gærkvöld.
„Dauðinn hefur aldrei viljað
mig,“ sagði hann og glotti við
tönn. „Ég drepst ekki í sjó úr
þessu. En ég get lítið sagt frá því
sem þarna gerðist — það verður
að bíða sjóprófanna. Ég get þó
sagt, að það er erfitt að kyngja
þessu. Þarna hef ég siglt framhjá
hundrað sinnum og eitthvað hefur
villt um fyrir manni. Það var að
vísu vont skyggni og dálítill sjór
en ég hef nú áður siglt í verra
skyggni og veðri en þarna var.“
Guðmundur kvaðst þess full-
viss, að það hefði bjargað
mannskapnum að bátinn tók
niðri. „Þeir komust allir upp og ég
varð síðastur í sjóinn. Stýrishúsið
fyllti af sjó á einni sekúndu. Ég
gat ekki einu sinni opnað dyrnar á
stýrishúsinu og enn síður náð í
kalltækið, sem var við höndina á
mér. Ég opnaði næsta glugga og
komst þar út og hrópaði í leiðinni
í strákana að skera bátinn frá.
Mátti ekki tæpara standa
Hvernig ég komst upp á lunn-
inguna og eftir henni veit ég ekki.
En ég lenti í frákastinu og var að
sogast út en festi lappirnar í ein-
hverju drasli og tókst að rífa mig
lausan. Þegar ég náði í mastrið
var ég alveg búinn. Þar sat ég í
kortér áður en ég lagði í að reyna
aftur að komast upp á skerið.
Maður er ekki eins léttur á sér og
áður — ég sparkaði þó af mér
stígvélunum enda orðinn rosalega
þungur svona blautur."
Af mastrinu klóraði Guðmund-
ur skipstjóri sig að handriði á
lunningunni. Þá var stefnið og
brotið mastrið í kafi að mestu.
Skyndilega kom lag sem henti
honum áfram að skerinu, þar sem
Kristján sonur hans náði taki á
honum. „Það var engin leið fyrir
mig að stökkva af mastrinu og ég
lagði ekki í að að synda í land
enda braut látlaust á bátnum og
sjórinn ólgaði í kringum mig. Ég
skreið því frekar fram. Það mátti
örugglega ekki tæpara standa.
Síðan fór úr bátnum á augabragði
og raunar gerðist þetta allt svo
fljótt, að það var ekki tími til eins
eða neins nema að reyna að klóra
sig lausan og halda lífinu," sagði
Guðmundur Kristjónsson, skip-
stjóri, að lokum.
Eina hugsunin hvort við
kæmumst lífs af
„Það var hryllilegt að þurfa að
horfa upp á baráttu Guðmundar
skipstjóra í sjónum og á mastr-
inu. Við vorum búnir að telja
hann af þegar hann lenti í sjónum
fyrst, en svo náði Kristjón honum
af mastrinu og upp á skerið. Það
var ákaflega erfitt að komast á
kjölinn með gúmmíbuxurnar á
hælunum og það virtist líða óra-
langur tími áður en okkur tókst
að losna við þær. Þá var eina
hugsunin hvort við kæmumst lífs
af, því þetta leit óneitanlega ekki
vel út,“ sögðu þeir Ómar Þórhalls-
son, 18 ára háseti, og Guðmundur
Guðmundsson, 22 ára matsveinn á
Ragnari Ben. ÍS 210, sem fórst í
gær við Krossavík á Snæfellsnesi.
„Við vorum að koma úr drag-
nótarróðri rétt fyrir klukkan 18
og við tveir og Kristjón vorum
niðri í lúkar að spila. Við urðum
ekki varir við neitt fyrr en við
heyrðum dynki og báturinn fór á
hliðina og fylltist af sjó á svip-
stundu. Við komumst svo á kjöl-
inn en báturinn brotnaði í mél við
skerið við Krossavík, það voru
bara möstrin eftir. Okkur þremur
tókst að stökkva af kili, í sjóinn og
ná upp á skerið.
Guðmundur skipstjóri var í
brúnni, sem fylltist þegar bátur-
inn fór á hliðina, en hann náði að
komast út um glugga og á kjölinn.
Þegar hann ætlaði að stökkva yfir
á skerið mistókst það. Hann fór á
kaf í brimið og við héldum að
hann væri farinn, en þá kom hann
upp aftur með mastrinu. Hann
náði að halda sér á því í stund-
arfjórðung og var þá orðinn mjög
kaldur og aðframkominn. Krist-
jón náði þá að komast að honum
og ná honum upp á skerið.
Gúmmíbáturinn hentist upp á
skerið til okkar en ekki var viðlit
að fara á honum í land, þó stutt
væri, vegna brimsins. Við héldum
því kyrru fyrir á skerinu og skut-
um upp neyðarblysum. Það hefur
verið um hálfur tími, sem við bið-
um björgunarsveitarmanna á
skerinu, blautir og kaldir. Þegar
þeir komu, skutu þeir björgunar-
línu út til okkar og drógu okkur í
land á bátnum. Við vitum hrein-
lega ekkert hvað gerðist," sögðu
þeir Guðmundur og Ómar um leið
og þeir óskuðu þess að koma á
framfæri þakklæti til skipverj-
anna á Báru frá Rifi og björgun-
arsveitarmanna á Hellissandi.
Fer ekki á sjóinn framar
„Þetta er óþægilegasta lífs-
reynsla, sem ég hef lent í og ég er
mjög feginn að allir komust lífs
af. Eg dáist að dugnaði skistjór-
ans er hann var að berjast í sjón-
um og komst loks upp á skerið. Ég
fer örugglega á sjóinn aftur.
Svona slys geta alltaf skeð og
maður heldur áfram í þeirri von,
að þetta komi ekki aftur fyrir
mig,“ sagði Ómar Þórhallsson.
„Ég er ákveðinn í því að fara
ekki á sjóinn framar. Ég hef alltaf
verið sjóhræddur, en þetta atvik
hefur gert útslagið, ég fer ekki
meira á sjóinn," sagði Guðmund-
ur Guðmundsson.