Morgunblaðið - 03.12.1983, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 03.12.1983, Blaðsíða 34
34 MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 3. DESEMBER 1983 Kristinn Helgason Halakoti — Minning Fæddur 5. júní 1918 Dáinn 20. nóvember 1983 Eitt eigum við mennirnir víst að tíminn sem við höfum til að heils- ast og kveðjast, hryggjast og gleðjast er innan takmarka, einn daginn en stundaglasið tæmt, vin- urinn og félaginn horfinn bak við hið þykka tjald sem aðskilur heimana. Kristinn Helgason í Halakoti varð bráðkvaddur laugardaginn 19. nóv. sl. aðeins 65 ára að aldri. Tæpir ellefu mánuðir skildu þau Svanhildi konu hans að, bæði féllu þau frá langt fyrir aldur fram og skarðið er stórt sem eftir stendur autt í okkar litla samfélagi. Kristinn í Halakoti var enginn hversdagsmaður og um margt ólíkur sínum samferðamönnum, hvarvetna vakti hann nokkra at- hygli. Eg minnist hans fyrst frá mín- um uppvaxtarárum, að hann kom sem gestur á heimili foreldra minna, sjaldnast gerði hann boð á undan sér hann kom oftast ríðandi og stundum óvænt útúr kvöldinu eða nóttunni. Hann var ólíkur þeim mönnum nútímans sem verða að finna sér erindi sé ná- granninn sóttur heim, málefni líð- andi stundar og sannleikurinn forni „að maður er manns gaman" varð Kristni í Halakoti að erindi á mörg heimili í þessu héraði og víð- ar. Ég minnist þess hversu mér varð starsýnt á þennan óvenju há- vaxna og grannbyggða mann sem iðaði af lífsfjöri og einstakri glettni, alltaf lá honum jafn mikið á hjarta, rómurinn sérstæður og hláturinn smitandi. Við alla talaði hann, jafnt okkur krakkana sem fullorðna fólkið, kynslóðabil þekkti hann aldrei og unga fólkið hændist að honum sem félaga, þess nutum við systk- inin og áttum með honum margar góðar stundir hvort heldur var á hestbaki í „nóttlausri voraldarver- öld“, þar sem þeyst var á góðum hestum um víðáttur Flóans eða farið á mannfagnaði. Kristinn hóf búskap í Halakoti við fráfall föður síns aðeins 24 ára að aldri. Á fáum árum endur- byggði hann öll húsakynni á jörð- inni og jók ræktun sem var mikið átak á þeim tíma. Lífsbaráttan Islendinga hefur í gegnum allar aldir verið hörð, meitlað svip þeirra og sett á mennina mark sitt. Barátta þeirra Halakotshjóna, Kristins og Svanhildar Kristvinsdóttur frá Enniskoti í Víðidal, var engin und- antekning frá þessari reglu. Ráðdeild og hagsýni varð að beita til að endar næðu saman enda slíkt báðum eðlilegt, ekki síst Svanhildi sem kunni að gera mikið úr litlu. Kristinn var mjög áhugasamur félagsmaður strax á unga aldri og gat sér fljótt orðstír á þeim vett- vangi. Hugsjónir ungmennafélag- anna heilluðu hann og á þeim vettvangi starfaði hann mikið fyrir félag sitt, Baldur í Hraun- gerðishreppi, bæði sem félagi og formaður um langt skeið og sótti Héraðsþing Skarphéðins fyrir þess hönd um árabil og er enn mörgum minnisstæður frá þeim árum. Einnig starfaði hann mikið að málefnum hestamanna, var um skeið formaður hestamannafé- lagsins Sleipnis, sótti landsmót og landsþing á þeim vettvangi. Hann tók virkan þátt í starf- semi Framsóknarflokksins, ekki síst framan af ævi. Sakir þess hversu félagslyndur Kristinn var og róttækur í skoðunum féll hon- um vel að starfa að málefnum í fjöldafélögum sem unnu að marg- víslegum hugsjónum, enda nutu hæfileikar hans sín vel þar. Vel lesinn, minnugur og hugmynda- ríkur setti hann svip á umhverfið, eftirminnilegur ræðumaður á mannfundum svo að jafnan ríkti eftirvænting þegar hann kvaddi sér hljóðs. Ræður sínar kryddaði hann oft eftirminnilega og hafði einstakt lag á að skapa stemmn- ingu og hleypa fjöri í umræður, var lengi eftirsóttur ræðumaður á samkomum, talaði jafnan blaða- laust og náði góðum tökum á full- um sal af fólki svo stundum mátti heyra saumnál detta eða allt ætl- aði að rifna af fögnuði. Það sem þó veitti Kristni mesta gleði var leiklistin; að túlka hinar ýmsu persónur á leiksviði var hon- um létt verkefni. Hann hóf sinn leiklistarferil í Þingborg og þar lék hann einnig sitt síðasta hlut- verk fyrir tæpum tveimur árum og fagnaði fjörutíu ára afmæli á fjölunum og kvaðst hættur. Mörg eru hlutverkin sem hann fór með og sum stór, hygg ég að hann hafi verið með allra hæfustu áhugamannaleikurum hér austan fjalls. Féll túlkun hans jafnan í góðan jarðveg enda fór hann oft á kostum í hlutverki sínu. í eðli sínu var Kristinn við- kvæmur tilfinningamaður sem þoldi illa ófrið og mótlæti, hann gat reiðst væri hann beittur órétti en var jafnan skjótur til sátta. Hann kynntist mörgu fólki, átti kunningja um land allt úr öllum stigum og stéttum þjóðfélagsins, honum var það jafn eðlilegt að ræða framtíðina í hópi unga fólks- ins sem það liðna við rekkju öld- ungsins. Heimilið og fjölskyldan í Hala- koti var honum þó kærust, þar ríkti friður og þau hjón voru óvenju samhent og samrýnd og var hugleikin velferð barna sinna. Halakotshjónin kunnu að gera sér dagamun, hvíldin var stundum sótt inní kyrrð öræfanna eða höf- uðborgin var sótt heim, þá voru leikhúsin efst á blaði. Við leiðarlok vill undirritaður sérstaklega þakka Kristni náin kynni og samstarf sem aldrei féll skuggi á. Ferðalögin og stundirnar heima í Halakoti voru margar, oft rann dagur á loft áður en samfundum lauk, skemmtiefni var sett á blað, hlustað á frásagnir húsbóndans um liðna menn og atburði eða að málefni líðandi stundar voru kruf- in. Kristinn er horfinn langt fyrir aldur fram en minningin lifir um sérstæðan alþýðumann sem átti hvarvetna vinum að fagna. Börnum Kristins og fjölskyldum þeirra vottar undirritaður djúpa samúð. Guðni Ágústsson, Selfossi. Árið 1952 settist ég að á Selfossi með fjölskyldu mína og bjó þar til ársins 1969 eða í rúm 16 ár. Á þessum árum kynntist ég og átti mikið samstarf við Kristin Helga- son, bónda í Halakoti í Hraun- gerðishreppi. Tókst með okkur traust vinátta, sem haldizt hefur æ síðan. Kristinn andaðist aðfara- nótt sunnudagsins 20. nóvember sl. og langar mig að minnast hans með nokkrum þakklætis og kveðjuorðum. Samstarf okkar Kristins og sameiginleg áhugamál tengdust einkum félagsmálastarfi vegna samvinnuhugsjónarinnar og stjórnmálum henni tengdum. Þau fimmtán ár, sem ég hafði afskifti af þessari félagsmálabaráttu, starfaði ég með mörgum frábær- um körlum og konum, bæði í hópi pólitískra samherja og andstæð- inga, og Kristinn var einn þeirra, sem ég og fjölskylda mín tengdist órofa tryggð. Þótt ég færi frá Sel- fossi, tókst að halda sambandinu og alltaf urðu fagnaðarfundir, þegar Kristin bar að garði. Föstudagskvöldið 18. nóvember sl. leit hann inn til okkar hjón- anna í Kópavogi. Þótti okkur hann ólíkur sjálfum sér og þyngsli grúfa yfir honum, þótt eðlislægri glettni hans og glöðum hlátri brygði fyrir. Ekki kvartaði hann yfir neinu en kvaðst þreyttur og ætla að hvíla sig yfir helgina hjá vinum sínum í Breiðholti. Þangað ók ég honum en næsta sunnudags- morgun barst okkur andlátsfregn- in. Kristinn var borinn til þeirra lífskjara, sem hverfandi kynslóð þjóðarinnar hlaut í arf, fátæktar, strits og lítillar félagslegrar fyrir- greiðslu, en góðra gáfna og manndóms kynstofnsins. Skóla- menntun hlaut Kristinn litla en fjölþættar gáfur og listrænir eiginleikar voru sú guðsgjöf, sem Kristinn miðlaði börnum sínum og vinir hans og hann sjálfur nutu óspart á góðum stundum. Hiklaust tel ég, að Kristinn hafi verið vel menntaður maður og að hann hafi notið menntunar sinnar vel. Mér eru minnisstæðar skarpar og fjörmiklar ræður hans, sem hann flutti við ólíkustu tækifæri á fé- lagsfundum og við mannfagnaði. Ekki fyrnist í huga mínum ræða, er hann flutti í brúðkaupi Sifjar, dóttur minnar. Ræðan var þrung- in innsæi og glóði af léttri kímni. Eitt einkenni persónuleika Kristins var hve unglingar hænd- ust að honum. Einlæg vinátta tókst með honum, Þór syni mínum og Sif dóttur minni og sama er reyndar að segja um allt mitt fólk. í tengslum við þá gleði, sem Kristinn hafði af því að starfa með ungu fólki verður að telja yndi hans af leiklist. Þótti hann vel liðtækur leikari. Þegar hafðir eru í huga per- sónuþættir Kristins, kemur ekki á óvart, að hann var hestamaður af lífi og sál, en á þeim vettvangi átti ég litla samleið með honum, en fjölskylda mín í þeim mun ríkari mæli. Þá kemur heldur ekki á óvart, að Kristinn, sem mat mannlega göfgi umfram annan auð, sæi göfgi hjá dýrum. Einatt sagði hann mér sögur af lunderni og öðru persónugervi hesta sinna og fann ég, að hann mat þá sem góðvini. Ekki minnist ég þess, að í sam- tölum okkar Kristins bæri trúmál á góma, en sá, er þekkti Kristin svo vel sem ég, efaðist ekki um trú hans. Hún var letruð í hjarta hans til samferðafólksins á lífsleiðinni, einkum þess, er minna mátti sín, og af hjálpfýsi hans við menn og málleysingja, en hún var partur af persónu hans. Létt lund hans og æðruleysi yljaði ávallt í meðbyr og mótbyr og víl fannst ekki á hans tungu. Kristinn syrgði sárt sína góðu eiginkonu, Svönu, sem lézt fyrir tæpu ári, en nú fagna þau endur- fundi. Börnum Kristins óska ég til hamingju að hafa átt hann að föð- ur og Svönu að móður, og ég bið guð að styrkja þau í hryggð þeirra að hafa nú séð á bak foreldrum sínum báðum. En gleði munu þau finna í því, að hafa erft frá þeim kærleiksríkar minningar, mann- kosti og góða hæfileika. Ég og fjöl- skylda mín færum þeim einlæg- ustu samúðarkveðjur. Matthías Ingibergsson, apótekari. I heimsstyrjaldarslitrunum þegar Evrópa gamla logaði og unga ísland upplifði sitt gullæði, var ungur maður í Flóanum að hugsa um annað. Við fráfall föður síns hafði hann fest kaup á lítilli jörð sem foreldrar hans höfðu haft á leigu. Að vísu hafði hann ekki ætlað sér hlutskipti bóndans, en úr því sem komið var og örlögin höfðu haslað honum völl hér, var eins gott að byrja á því að stækka völlinn. Bændur í Króknum höfðu lagt í púkk og keypt traktor sem að sjálfsögðu hlaut jafnið Krókur: risavaxið flykki á járnskaflahjól- um. Á þessu ferlíki hlykkjaðist nú Kristinn í Halakoti og braut land. Áhöld voru um hvor reykti meira hann eða traktorinn enda maður- inn ákafur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Þið megið bóka að hann hefur ekki setið svipbrigða- laus við verkið: þótt rymjandi vél- in yfirgnæfi orðin, hreyfir hann varirnar, leggur kollhúfur og skellir upp úr. Þetta er ástfanginn maður, nýbúinn að útsirkla sér konuefni: kolsvarthærða stúlku og fráneyga eins og í Ljóðaljóðunum, ættuð úr Húnavatnssýslu og alin upp í Engey við fótskör Reykja- víkur. 28. febrúar 1948 gekk Krist- inn að eiga Svanhildi Lilju Krist- vinsdóttur og taldi það æ síðan hápunkt ævi sinnar eins og hver sá skilur sem eitthvað til Svönu þekkti. Að sjálfsögðu vildi Kristinn búa þessu djásni sínu veglega umgjörð og réðst í að býggja myndarlegt steinhús. Og enn vildi hann gera betur því til er skemmtileg saga af honum þar sem hann gengur á fund málhags vinar síns á Selfossi og færir í tal við hann nýtt nafn á Halakotið (ugglaust viljað tengja Svönu ljóðrænna nafni). Og það sýnir hve þessi vinur hans hefur í raun verið mikill smekkmaður að hann kvað strax upp úr með að Halakot skyldi það áfram heita og færði þau rök fyrir skoðun sinni að Kristinn í Halakoti væri þá þegar orðinn slík goðsaga að of seint yrði að söðla um. Kristinn frá Smáragrund eða Kristinn frá Sunnuhlíð einfaldlega gengi ekki. Kristinn í Halakoti var fæddur 5. júní 1918, einkasonur Vilborgar Jónsdóttur frá Vorsabæ á Skeið- um og Helga Jónssonar frá Stóru-Reykjum. Þau Vilborg og Helgi voru systkinabörn og áttu auk Kristins, dæturnar Fjólu og Helgu. Skólaganga Kristins var eins og þá tíðkaðist öll í skötulíki þar til hann var tólf ára að heima- vistarkennsla hófst í splunkunýju samkomuhúsi að Þingborg. Nem- endur sváfu í samkomusalnum og þar fór kennslan fram, en þar eð hér var jafnframt eini samkomu- salur sveitarinnar var hann iðu- lega rýmdur og slegið upp fundi ef mikið stóð til í þjóðlífinu. Hér má segja að Kristinn hafi tekið þá þjóðmálabakteríu sem grasseraði í honum æ síðan. 12 ára gamall sat hann aðalfund Mjólkurbús Flóa- manna en vorið eftir var þingrof með holskeflu framboðsfunda. Það var því mælskumaður sem út- skrifaðist úr barnaskólanum og strax unglingur var Kristinn tek- inn að elta uppi stjórnmálafundi hjólandi eða ríðandi. Orðsins list var honum hugstæð og fáir með munninn eins tvímælalaust fyrir neðan nefið. Mér er næst að halda að hann hafi líka tekið leiklistar- bakteríuna þar sem hann svaf undir sviðinu í Þingborg og seinna sem formaður Ungmennafélagsins gerðist hann frumkvöðull mikillar leiklistarstarfsemi í Hraungerð- ishreppi. Á tímabili leið ekki svo vetur að hann skemmti ekki sveit- ingum sínum á leiksviði og stund- um barst leikurinn í önnur sveit- arfélög, já alla leið til Reykjavík- ur. Margur hláturskrampinn skrifast á hans reikning og hann var höfundur að mörgum augn- krókstárum. Það var ekkert leynd- armál að helst hefði Kristinn kos- ið að helga sig leiklist, en úr því að sú gat ekki orðið raunin, fór hann langt með að breyta hversdags- leikanum í samfellt leikhús. Hon- um var gefin sú gáfa að magna allt í kringum sig og dramatísera þannig að Halakot birtist manni einatt sem konungsríki er fjöllin á Suðurlandi áttu fullt í fangi með að umvefja — menn og skepnur voru tæplega af þessum heimi. Glaðværð Kristins og samleikur þeirra hjóna gerðu Halakot að segulmögnuðum stað. Þau um- gengust börn af virðingu sem lét mann stækka í eigin augum enda var ég krónískur dvalargestur þar í sumarleyfum og skólahléum flest mín bernsku- og unglingsár. Kristni og Svönu varð fimm barna auðið en bjuggu að öðru leyti við lítinn auð eins og nærri má geta þegar haft er í huga að þau keyptu jörðina, byggðu hana og ræktuðu. Ef þau fengu því við komið voru þau framsækin og nú- tímaleg í búskaparháttum en um það leyti sem ég réðst til þeirra má segja að þessi ungu hjón hafi staðið fyrir lifandi þjóðháttasafni: Öll tækni var frá fortraktorískum tíma, hestar í öllum aðalhlutverk- um. Og hestar voru ein af ástríð- um Kristins, á hestbaki var hann bókstaflega í essinu sínu ekki síð- ur en á leiksviði eða í ræðustól. Um árabil var hann formaður hestamannafélagsins Sleipnis og lagði jafnan kapp á að eiga góða hesta. Mér er minnisstætt sumar- ið þegar tamningastöðin var starf- rækt að Halakoti og allt heimilið var undirlagt af hestamennsku, hóffjaðrir algengasta naglateg- undin og maður óð hóftálgurnar í ökkla. Það voru mikil forréttindi að vera snúningastrákur í veröld sem gekk í jafn ríkum mæli fyrir leik og gleði og það skrifast á reikning Halakots að strax átta ára fékk ég þá ranghugmynd að sveitalíf væri einhvers konar Guð- dómlegur gleðileikur. Seinna kynntist ég ranghverf- unni á goðsögunni og undraðist tíðum hve lífsstíll Kristins gat farið fyrir brjóstið á ókunnugum. Það var eins og fólk ætti erfitt með að fyrirgefa honum að hann skyldi ekki gefast upp fyrir kot- ungskjörum sínum. Én Kristinn var þeirrar gerðar að hann lét ekki amstrið smækka sig og lífs- gleði hans heimtaði útrás. Fyrir bragðið voru fáir sem fylltu eins vel út í lífið og athygli vakti hann hvar sem hann fór, með hæstu mönnum, lá hátt rómur og hló annáluðum hlátri. Síðustu tíu árin vann Kristinn launavinnu við Sláturhúsið á Sel- fossi þótt áfram byggju þau hjón að Halakoti þar sem Svana sat og prjónaði fyrir markað. Það kostar sálarstríð þegar ævistarfið endist ekki út ævina og menn þurfa á efri árum að laga sig að nýjum at- vinnuháttum, ekki síst þegar um- skiptin eru jafn gagnger og frá búskap til launavinnu í kaupstað. Þrátt fyrir allt held ég að búhokr- ið hafi gefið Kristni meira svig- rúm og hentað betur hans hippa- stíl. Þó má segja að þau hjónin hafi fyrst þessi síðustu ár þreifað á bankaseðlum og árið sem Krist- inn varð sextugur hleyptu þau heimdraganum með eftirminni- legum hætti, flugu um hnöttinn þveran til Los Angeles í Kali- forníu með viðkomu í heimsborg- inni New York. Þá þegar hafði Svana tekið þann sjúkdóm sem dró hana til dauða í desember síð- astliðnum. Með fráfalli hennar var höggvið nærri Kristni og nú kom bert í ljós hve mikill tilfinn- Birting afmœlis- og minningargreina ATHYGLI skal vakin á því, að afmælis- og minn- ingargreinar verða að berast blaðinu með góðum fyrirvara. Þannig verður grein, sem birtast á í mið- vikudagsblaði, að berast í síðasta lagi fyrir hádegi á mánudag og hliðstætt með greinar aðra daga. I minningargreinum skal hinn látni ekki ávarpaður. Þess skal einnig getið, af marggefnu tilefni, að frum- ort ljóð um hinn látna eru ekki birt á minningar- orðasíðum Morgunblaðsins. Handrit þurfa að vera vélrituð og með góðu línubili.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.