Morgunblaðið - 22.02.1984, Blaðsíða 7
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 22. FEBRÚAR 1984
39
spatiale kemur frá samevrópskum
verkefnum. Sýningarsvæði fyrir-
tækisins var samanlegt tíu þúsund
fermetrar og kenndi þar margra
grasa. Það sem mesta athygli
vakti voru sýningaflug Airbus
310/200-farþegaþotunnar, eftirlík-
ing af ATR 42-skrúfuþotunni (sjá
kaflann Ítalía), eftirlíking af flug-
stjórnarklefa framtíðarinnar og
loks hin mikla breidd í þyrlu-
framleiðslunni.
Airbus 310/200 er farþegaþota
ætluð fyrir meðalvegalengdir og
er ein nýjasta og þróaðasta breið-
þotan í heiminum. Hún tekur 216
farþega í sæti á svokölluðu blönd-
uðu farrými, sem er venjulegasta
útgáfan, og flugdrægið miðað við
þennan farm er allt að 6.300 km,
en með breyttri innréttingu getur
hún rúmað 280 farþega. Þessi nýi
loftstrætó, eins og Airbus-vélarn-
ar eru gjarnan kallaðar, er að
miklu leyti byggður á stóra bróð-
urnum, Airbus 300, en 210 slíkar
flugvélar hafa verið afhentar og
þótt reynast vel í rekstri. í fljótu
bragði er sjáanlegur munur á vél-
unum sá að A 310 er 7 metrum
styttri en A 300, því það er búið að
stytta afturhlutann og taka sneið
úr miðhlutanum. Stélið er það
sama á báðum vélunum, en lárétti
stélflöturinn er minni á A 310.
Hinsvegar liggur aðalmunurinn í
því að A 310 hefur algjörlega ný-
hannaðan væng, sem er einfaldur,
með mikið burðarþol og byggður á
nýjustu tilraunum þeirra Airbus-
manna í loftkraftsfræði. Nýi
vængurinn er 1 m styttri og 42
fermetrum minni en vængur A
300. Að öðru leyti heldur A 310
60% af byggingarlagi stóra bróð-
ur. í tveggja manna stjórnklefa A
310 er að finna öll nýjustu og full-
komnustu rafeinda- og tölvu-
stjórntæki, sem létta mjög vinnu-
álag flugmannanna. Auk þess að
létta vinnuna hafa verksmiðjurn-
ar gert stjórnklefann þannig úr
garði að flugmenn geta gengið á
milli mismunandi gerða af Air-
bus-vélum án þess að þurfa þjálf-
un á hverja gerð. Þetta, ásamt því
að flugmennirnir eru aðeins tveir,
sparar flugfélögum, sem reka
Airbus-vélar, miklar fjárhæðir.
Kaupendur geta valið um Pratt &
Whitney JT9D-7R4 og General
Electric CF6-80A-hreyfla, sem
framleiða frá 21.800—22.700 kg
þrýsting. Nú þegar hafa 102 A
310-vélar verið pantaðar.
Airbus-áætlunin er glöggt dæmi
um alþjóðasamvinnu í verki, en að
henni standa nú sex þjóðir í Evr-
ópu. Stofnendur voru fyrirtæki í
Frakklandi og Þýskalandi og hófu
þau undirbúning að smíði Airbus
300-vélarinnar. Síðan bættust við
fyrirtæki frá Spáni og Bretlandi
og enn síðar, þegar ákveðið var að
hefja framleiðslu á Airbus 310,
bættust við belgísk og hollensk
fyrirtæki. Samanlagt hlutafé
fyrirtækjanna, sem standa að
þessari samvinnu, er langtum
hærra en hjá nokkru öðru ein-
stöku fyrirtæki í flugiðnaði í
heiminum. Allar aðildaþjóðirnar
framleiða hluti í þær tvær vélar,
sem nú eru í framleiðslu, en sam-
setning og lokafrágangur fer fram
í verksmiðjum Aerospatiale í
Frakklandi. Samt sem áður kemur
ýmislegt í vélarnar frá öðrum
löndum, t.d. framleiða 475 banda-
rísk fyrirtæki hluti í Airbus-vél-
arnar og bandarísk framleiðsla er
30% af hverri vél. Frá upphafi
samvinnunnar hafa 348 Airbus
300 og 310-vélar verið pantaðar af
46 flugfélögum, en aðeins um 250
afgreiddar um sl. áramót og á
hverjum mánuði munu koma 5
vélar frá verksmiðjunum. Á fyrstu
árunum gekk ekki vel að selja A
300, því um þær mundir rauk
eldsneytisverð upp úr öllu valdi og
svartsýni ríkti meðal flugfélaga,
en fjörkippur kom loksins í söluna
árin 1978-1981.
Stærri systurvél A 310 er
-600-gerðin af Airbus 300. Hún
átti að fara í sitt fyrsta reynslu-
flug mánuði eftir að sýningunni
lauk og ef áætlanir standast, byrj-
ar hún farþegaflug í mars 1984
fyrir Saudia, flugfélag Saudi
Árabíu. Með því að tvinna saman
þróaðan tæknibúnað A 310 og
skrokk gömlu A 300-vélarinnar
mun A 300/600 rúma 267—345
farþega. Flugdrægi þessarar vélar
verður 6.100 km. Síðar verða á
boðstólum sparneytnari og lang-
fleygari gerðir. Önnur systurvél A
310 mun verða tekin í notkun árið
1985 hjá flugfélaginu Swissair.
Það er A 310/300, sem hefur hærri
flugtaksvigt og lengra flugþol en
tekur jafn marga farþega. Viðbót-
areldsneytisgeymir verður í lá-
rétta stélfletinum og á flugi má
nota geyminn, sem stýristilli
(trim). Vegna þessa verður vélin
búin nákvæmu kerfi, sem fylgist
stöðugt með þungamiðjunni, en
svipað kerfi er notað í Concorde,
hljóðfráu farþegaþotunni, og hef-
ur reynst vel. Airbus 310/300 hef-
ur u.þ.b. 1.000 km lengra flug-
drægi en A 310/200-vélin. Loks
hafa Airbus-verksmiðjurnar
ákveðið að hefja undirbúning að
smíði A 320, sem á að geta rúmað
150—180 farþega og verður hún
tilbúin árið 1988. Búist er við
harðri samkeppni frá ýmsum öðr-
um stórum framleiðendum, þó
þeir hafi ekki ennþá ákveðið end-
anlega hvort þeir ráðist í smíði
algjörlega nýrra véla í þessum
stærðarflokki.
Þegar til lengri tíma er litið,
hyggjast aðstandendur Airbus-
áætlunarinnar hefja smíði á ann-
arri kynslóð breiðþotna. Formleg
ákvörðun liggur ekki fyrir og mun
ekki gera alveg á næstunni, en
unnið er að útfærslu hugmynda
um þessar breiðþotur framtíðar-
innar, sem bera vinuheitið TA. TA
11, fjögurra hreyfla þotan, mun
hafa mjög langt flugdrægi, eða í
kringum 11.000 km. Verður hún að
mestu leyti byggð á A 310 og A
300/600, en með miklu stærri
væng og auðvitað miklu meira
rými fyrir eldsneyti. Hún mun
taka 230—270 farþega á blönduðu
farrými. TA 9, sem verður tveggja
hreyfla og væntanlega lengri gerð
af A 300/600, mun geta rúmað
320—410 farþega. Flugdrægið
verður 6.500 km. Sem tveggja
hreyfla vél mun hún eyða 30%
minna eldsneyti pr. sæti en eldri
þriggja hreyfla breiðþotur af svip-
aðri stærð, eins og DC 10 og
Lockheed 1011. TA 12 mun geta
rúmað minnst 230 farþega og
verður með sama skrokk og væng
og TA 11, en aðeins tveggja
hreyfla. Sem slík er hún talin
heppileg á löngum flugleiðum,
enda mun flugdrægið verða ná-
lægt 10.000 km. í TA-línunni eru
nú eingöngu tveggja og fjögurra
hreyfla vélar, en aðrir möguleikar,
eins og þriggja hreyfla vélar, eru
einnig í athugun.
Frönsku flugvélaverksmiðjurn-
ar Avions Marcel Dassault Breguet
eru að vísu miklu minni en Aero-
spatiale, en þar vinna samt 16
þúsund starfsmenn. Flestir sem
eitthvað fylgjast með flugmálum,
kannast við Mirage-herþoturnar
og Falcon-einkaþoturnar, en þess-
ar vélar eru uppistaðan í fram-
leiðslu fyrirtækisins. Dassault-
Breguet hefur selt rúmlega 800
Mystére Falcon (MF), einka- og
forstjóraþotur af ýmsum gerðum,
þar af 600 til Bandaríkjanna.
Fyrsta vélin af Falcon-gerð var
MF 20, sem tekur 8—14 farþega og
fór hún fyrst á loft árið 1963 og
síðan hafa selst 470 vélar. Flugfé-
lagið Federal Express, sem sér-
hæfir sig í smápakkaflutningum
innan Bandaríkjanna, var með bás
á sýningunni þar sem lögð var
áhersia á að selja allar MF 20
sérbyggðu vöruflutningaþotur fé-
lagsins, en segja má, að félagið
hafi verið byggt upp með þessum
vélum, en vegna breyttra að-
stæðna henta þær ekki lengur.
Það var eiginlega einkaflugvéla-
deild Pan American, sem tryggði
framleiðslu MF 20-vélarinnar, því
strax í upphafi pantaði hún 54 vél-
ar og þegar þessi deild Pan Am
var sem stærst, átti hún 109 Falc-
on-þotur. Síðar komu MF 10 og
MF 50. MF 10-vélin hefur fengið
andlitslyftingu og nýja Garrett-
hreyfla og heitir nú MF 100. Hún
kom næst á eftir MF 20, er minni
og rúmar 4—7 farþega. MF 50 kom
svo og er eina þriggja hreyfla þot-
an frá fyrirtækinu, en hún rúmar
8—10 farþega og getur flogið 6.300
km vegalengd í einum áfanga. Alls
hafa selst 205 MF 10/100-vélar og
142 MF 50. Nýjasta gerðin sem er
í framleiðslu, er MF 200, sem er
endurbætt gerð af MF 20 og sú vél
sem var á sýningunni var fyrsta
vélin af átta, sem franska strand-
gæslan hyggst kaupa. Hún var
með svipaðan útbúnað og Falcon
HU25 Guardian, sem bandaríska
strandgæslan er með í notkun, en
Bandaríkjamenn keyptu 71 MF
20-vél og breyttu þeim. MF
Guardian var fyrsta litla þotan,
sem var sérstaklea útbúin til
strand- og landhelgisgæslu eftir
að 200 mílna lögsagan varð al-
menn. Bæði MF 200 og Guardian
eru búnar tveimur Garrett ATF3-
6-hreyflum, sem hvor um sig
framleiðir 2.470 kg þrýsting og
með þessum nýju hreyflum jókst
flugdrægnin um tæpa 1.000 km.
Dassault-Breguet tilkynnti á
sýningunni, að hafin yrði smíði á
nýrri þotu, Falcon 900, sem verður
tilbúin seint á árinu 1986. Hún er
hugsuð sem næsta þrep fyrir ofan
MF 50 og með möguleika á að inna
af hendi ýmis sérverkefni sem MF
20 leysir nú, eins og við strand-
gæslu og eftirlitsstörf. Vélin verð-
ur knúin þremur Garrett
TFE731-5-hreyflum, sem ásamt
endurbótum er miða að því að
draga sem mest úr loftviðnámi
vélarinnar, gefa henni rúmlega
7.000 km flugþol. Hámarksflug-
hraðinn verður 890 km/klst., en
hinsvegar verður hagkvæmasti
hraði til að ná sem mestu flugþoli
795 km/klst. Hún verður nokkuð
stærri en MF 200-vélin, tekur 19
farþega og mikið kapp verður lagt
á að útfæra farþegarýmið í breið-
þotustíl. Aðalkeppinauturinn er
talinn vera hin bandaríska
Gulfstream 4.
Dassault-Breguet-fyrirtækið
hefur aldrei átt í eins miklu fjár-
hagslegu basli og undanfarin ár og
vegna fjárhagsörðugleikanna voru
seglin dregin verulega saman. Það
rofaði þó til með þeirri ákvörðun
að hefja smíði MF 900 og strax
fyrstu dagana eftir að hún var
kynnt, höfðu 12 pantanir borist og
bindur fyrirtækið miklar vonir við
þessa vél.
Franska fyrirtækið Snecma
framleiðir m.a. hreyfla fyrir
stærstu farþegaþotur í samvinnu
við General Electric. Stofnuðu þau
í sameiningu þriðja fyrirtækið
CFM International sem framleiðir
og selur hreyfla undir nafninu
CFM56. Snecma varð að leggja út
í miklar fjárfestingar síðasta ára-
tuginn til að geta staðið jafnfætis
GE innan þessa nýja sameignar-
fyrirtækis.
CFM56-hreyflarnir eru einfald-
ir að allri gerð, eru byggðir upp af
17 aðaleiningum og eru með þróað
kerfi, sem auðveldar og flýtir fyrir
að finna bilanir er kunna að verða.
Þeir framleiða frá 9—12 tonna
þrýsting. Fyrsta gerðin, CFM56-2,
sem framleiðir 10,7 tonna þrýst-
ing, var prófuð árið 1979. Hann
knýr nú Douglas DC 8/71-73-far-
þegaþoturnar og hefur verið val-
inn á KC 135 (Boeing 707) elds-
neytisbirgðavél bandaríska flug-
hersins og á E 6-vélarnar (B 707)
sem kemur til með að annast fjar-
skipti við Trident-kafbáta banda-
ríska flotans. Allar þessar þrjár
vélar eru þekktar úr farþegaflug-
inu en fá nýtt heiti um leið og þær
fá nýja hreyfla og eru endurbætt-
ar að ýmsu öðru leyti.
CFM56-2-hreyfillinn er 15—25%
eyðslugrennri og miklu hljóðlátari
en þeir hreyflar sem fyrir voru á
þessum gömlu farþegaþotum og
eru að verða úreltir, m.a. vegna
hávaðatakmarkana. CFM56-3,
sem framleiðir 9 tonna þrýsting,
kemur til með að knýja hina nýju
Boeing 737/300, sem fer í sitt
fyrsta reynsluflug í marsmánuði á
þessu ári. Nýjasti hreyfillinn er
svo CFM56-4, sem er að nokkru
leyti ennþá á teikniborðinu en
verður sennilega prófaður seinni
hluta ársins 1986. Hann mun
framleiða yfir 11 tonna þrýsting
og er ætlaður fyrir 150 sæta þotur
eins og Airbus 320, sem væntan-
lega verða komnar á markaðinn
seinni hluta þessa áratugs.
ftalía
Flugvélaverksmiðjurnar Aerit-
alia voru stærsta ítalska fyrirtæk-
ið, sem sýndi í París. Það var
stofnað árið 1969 af ýmsum ítölsk-
um fyrirtækjum, sem áður höfðu
unnið hvert í sínu horni, en mest
munaði þó um aðild FIAT-risafyr-
irtækisins. Aeritalia hefur tekið
þátt í nokkrum stærri verkefnum
McDonnell Douglas, eins og við
smíði DC 9 og DC 10.
Mikilvægasta verkefni fyrir-
tækisins núna er örugglega smíði
ATR 42-skrúfuþotunnar í sam-
vinnu við Aerospatiale. ATR-
hjónaband Frakkanna og ítalanna
var opinberað seinni hluta árs
1981 og nokkrum mánuðum síðar
var stofnaður samstarfshópur
með aðsetur í frönsku borginni
Toulouse til að hrinda ATR-
áætluninni í framkvæmd. Heim-
anmundur Frakkanna er mikils
virði því þeir hafa öðlast mikla
reynslu við smíði Airbus-vélanna
og nýjasta tækni, sem notuð var
við smíði þeirra, verður notuð við
smíði ATR 42. Því er ekki ólíklegt
að ATR 42 verði í framtíðinni eins
konar Airbus skrúfuþotnanna. í
byrjun verða stærstu einingarnar
í vélina framleiddar í báðum lönd-
unum, en endanlegur frágangur
verður í höndum Frakka. Tvær til-
raunavélar eru nú í smíðum, en
fyrsta flugið verður næsta sumar.
Því var einungis líkan af stjórn-
klefa og farþegarými í fullri stærð
til sýnis og vakti það mikla at-
hygli, sérstaklega bar mikið á
starfsmönnum flugfélaga sem
skoðuðu það gaumgæfilega, enda
margir eflaust væntanlegir kaup-
endur.
ATR 42 er háþekja, knúin
tveimur Pratt & Whitney PW
100-2-hreyflum, sem skila 1.700
hestöflum hvor. Hún nær 513 km
hámarkshraða og fullhlaðin getur
hún flogið tæplega 1.300 km vega-
lengd. Hámarksflugtaksþungi er
uppgefinn 14.715 kg og 200 gerðin
hefur 830 kg hærri flugtaksvigt.
Vélin tekur 42—50 farþega, en það
fer m.a. eftir innréttingum. Full-
hlaðin og við eðlilegar flugvallar-
og veðuraðstæður þarf hún ekki
nema 1.000 m flugbraut. Stjórn-
klefinn verður búinn nýjustu gerð-
um flugmælitækja þar sem upp-
lýsingar birtast á sjónvarpsskjám,
en það verður nýjung í vélum af
þessari stærð. Aðalmarkmiðið
með smíði ATR 42 er að bjóða
flugvél, sem er mjög ódýr í rekstri.
Yfirburðirnir yfir eldri gerðir
flugvéla af svipaðri stærð eru ein-
kum fólgnir í 30% minni eldsneyt-
iseyðslu, hljóðlátari hreyflum,
ódýru viðhaldskerfi og nýjustu
gerð flugmælitækja. Þá má heldur
ekki gleyma því að farþegarýmið
verður einstaklega rúmgott og
býður upp á þægindi eins og þau
gerast best um borð í breiðþotum.
ATR 42 býður upp á ýmsa þróun-
armöguleika og verður að sögn
framleiðandans fyrsta og jafn-
framt ekki sú síðasta í ÁTR-
fjölskyldunni. Þegar er farið að
huga að öðrum gerðum af vélinni,
bæði fyrir almenna og hernaðar-
lega notkun. T.d. eru áætlanir um
gerðir, sem rúma 65 farþega og
jafnvel enn lengri vélar, sem rúma
80—100. Fyrsta vélin verður af-
hent í árslok 1985, sem þýðir að
ATR 42 verður síðasta nýja
skrúfuþotan af a.m.k. fimm, sem
eru að koma á markaðinn, en hörð
samkeppni mun ríkja milli þeirra.
Talsmenn ATR eru þó hvergi
hræddir og benda á að þeirra vél
verði stærst þessara véla og því
ekki í svo mikilli samkeppni við
hinar minni. Þá benda þeir líka á,
að betri kaup séu í ATR 42 vegna
þess að hún sé ódýrari bæði í inn-
kaupum og rekstri pr. sæti, en
minni vélarnar. Þeir ætla að reyna
að selja 500 vélar og telja að ATR
42 gæti komið í stað eldri véla,
sem hætt er að framleiða, eins og
DC 3 og Viscount og fleiri. Það er
talið, að rúmlega 900 slíkar úrelt-
ar vélar séu ennþá í notkun.
ATR-menn líta líka hýru auga á
markaðinn þar sem fyrir eru vélar
eins og Fokker F 27 og BAe 748. í
því sambandi hefur nafn Flugleiða
verið nefnt, því það er ljóst, að
félagið þarf að endurnýja innan-
landsflugflotann á næstu 3—5 ár-
um og athyglin beinist m.a. að
ATR 42. Eitt af flugfélögunum,
sem þegar hafa pantað vélina er
finnska flugfélagið Finnair, en
það hefur haft samvinnu við Flug-
leiðir um viðhald og skoðanir á
Fokker F 27-vélunum, sem ATR 42
kemur til með að leysa af hólmi.
Alls hafa borist liðlega 60 pantan-
ir í hina nýju vél.
Airbus 310/200 er nýjasta farþegaþotan frá Airbus-verksmiðjunum sem nú er í notkun. Þessi nýi „loftstrætó“
rúmar 216 farþega á blönduðu farrými.