Morgunblaðið - 18.04.1984, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 18.04.1984, Blaðsíða 26
26 MORGUNBLAÐÍÐ, MIÐVIKUDAGUR 18. APRÍL 1984 ar að einni meginviðmiðun efna- hagsstarfseminnar, er veiti bæði atvinnurekendum og launþegum það aðhald um þróun verðlags og framleiðslukostnaðar, sem svo mjög hefur skort á á undanförn- um árum. Sveigjanleg gengisskráning hefur gengið sér til húðar Eftir að fastgengiskerfið fór að losna úr böndunum á árunum 1971 til 1973, var smám saman tekin upp hér á landi sveigjanlegri gengisskráning, þar sem tekið var tillit bæði til mismunandi þróunar framleiðslukostnaðar innanlands og erlendis og breytinga á ytri skilyrðum atvinnuveganna. Um skeið virtist þessi sveigjanlega gengisskráning gefa íslendingum kost á að verjast ytri áföllum og halda uppi hærra atvinnustigi en aðrar þjóðir. Með tímanum hefur hins vegar komið í ljós, að án harðara aðhalds í gengismálum fá víxlhækkanir launa og verðlags lausan tauminn, unz gengið sjálft er orðið hluti af hinu vélgenga vísitölukerfi. Mér virðast flest rök hníga að því, að þessi notkun gengisins hafi gengið sér til húðar í óðaverðbólgu síðustu ára og að frá henni verði að hverfa ekki að- eins um eins eða tveggja ára skeið, heldur til frambúðar, svo að tryggt verði að saga undanfarinna ára endurtaki sig ekki. Á grund- velli stöðugleika í gengismálum verða samningar milli hagsmuna- aðila, t.d. um launakjör og fisk- verð, byggðir á þekktum forsend- um, en jafnframt er með þessum hætti bezt tryggt, að launabreyt- ingar, sem eru í samræmi við bætt afköst og framleiðsluaukningu skili sér til launþega í formi raunhæfra kjarabóta. Mér er vissulega ljóst, að sveifl- ur í afkomu sjávarútvegsins hafa þráfaldlega á undanförnum ára- tugum grafið undan tilraunum til gengisfestu hér á landi. Þá reynslu má þó ekki túlka sem röksemd fyrir því að nota gengið sem höf- uðtækið til tekjutilfærslu innan þjóðfélagsins, eins og hér hefur gerzt undanfarinn áratug. í stað þess verður aftur að taka upp þráðinn og vinna að sveiflujöfnun innan sjávarútvegsins með endur- reisn Verðjöfnunarsjóðs og öðrum hliðstæðum aðgerðum, svo að þessi vandamái mæði ekki á geng- inu einu með þeim afleiðingum, sem öllum mega nú vera ljósar. Þróun í fjármálum tiltölulega hagstæð Næst mun ég víkja nokkrum orðum að fjármálahlið ríkisins og öðrum málum, sem þeim eru tengd. Ríkisfjármálin hafa verið mjög til umræðu undanfarnar vik- ur, þar sem ríkisstjórnin hefur verið að leita leiða til að koma í veg fyrir verulegan halla, sem blasað hefur við í afkomu ríkis- sjóðs á þessu ári. Hér er ekki um að ræða mál, sem ég hef aðstöðu til eða tel rétt að ræða á þessum vettvangi, en vil þó fagna ein- dregnum yfirlýsingum ríkis- stjórnarinnar um það, að hún telji nauðsynlegt að leysa þennan mikla vanda og sé tilbúin til að gera viðhlítandi ráðstafanir, svo að það megi takast. Ég vil hins vegar fjalla nokkuð um stefnuna í ríkisfjármálum frá almennara sjónarmiði og tengsl hennar við þróun peningamála. Sé borið saman við þróun ríkis- fjármála I öðrum löndum Vestur- Evrópu undanfarin ár virðist þróunin í fjármálum ríkisins hafa verið tiltölulega hagstæð hér á landi. Hagstæður jöfnuður var á rekstri A-hluta ríkissjóðs á árun- um 1979—1982, og fór staða ríkis- sjóðs gagnvart Seðlabankanum þá batnandi ár frá ári. Einnig eru umsvif ríkisins í hlutfalli við þjóð- arframleiðslu ennþá verulega minni hér á landi en í flestum ná- lægum löndum, og sama gildir um samneyzlu á vegum ríkis og sveit- arfélaga. Að ýmsu leyti er þó þróun opinberra fjármála hér á landi óhagstæðari en þessi tvö at- riði gefa til kynna. í fyrsta lagi gefur afkoma A-hluta ríkissjóðs á engan hátt fullnægjandi mynd af umsvifum ríkisins eða áhrifum þess á láns- fjármarkaðinn. Samtímis því, sem ríkissjóður hefur í þessum þrengra skilningi verið rekinn án halla, hafa lánsfjárþarfir opin- berra fyrirtækja og sjóða farið sí- fellt vaxandi, og úr þeim verið leyst með erlendum lántökum, sem hafa verið ein helzta orsök vaxandi erlendrar skuldabyrði. í öðru lagi var góð afkoma ríkis- sjóðs á árunum 1981 og þó sér- staklega 1982 að verulegu leyti að þakka miklum tekjum, er beinlínis stöfuðu af verðbólgu og innflutn- ingi, sem var langt umfram efni þjóðarinnar. Og í þriðja lagi er ljóst, að síaukin útgjöld ríkissjóðs vegna samneyzlu án tillits til aukningar þjóðarframleiðslu er alvarlegt vandamál hér á landi ekki síður en annars staðar. Hef ég áður í máli mínu bent á hina miklu aukningu samneyzlu undan- farin ár, þrátt fyrir stöðnun þjóð- artekna. Allir þessir veikleikar komu í ljós í þeim umskiptum, sem urðu í ríkisfjármálunum á árinu 1983, en þá varð greiðsluhalli ríkissjóðs 1.260 milljónir króna, en skulda- aukning ríkissjóðs og ríkisstofn- ana gagnvart Seðlabankanum nam 1.380 milljónum króna, ef ónotað erlent lánsfé er frá talið. Meginorsök þessara umskipta var tekjulækkun vegna samdráttar í þjóðarframleiðslu og minni inn- flutnings. Jafnframt héldu ríkis- útgjöld og samneyzla áfram að vaxa. Er þessi þróun að ýmsu leyti hliðstæð við það, sem áður hefur gerzt á tímum efnahagslegs sam- dráttar, t.d. á árunum 1967 til 1968 og 1974 til 1975. Þótt hér sé þannig að nokkru leyti um að ræða hagsveifluvandamál, sem muni að hluta leysast i batnandi árferði, er að verulegum hluta um að ræða djúpstæðari vanda bæði að því er varðar tilhneigingu til aukins halla og lánsfjárþarfar í opinberum rekstri og hins vegar varðandi fjármögnun þessara þarfa. Innlendur fjármagns- markaður og þröngur Fyrra vandamálið, sem kalla mætti sjálfheldu velferðarríkis- ins, er orðið eitt meginviðfangs- efnið í efnahagsstjórn flestra vestrænna lýðræðisríkja, og ætti nú að vera flestum kunnugt. Það felst annars vegar í því, að ríkis- valdið og aðrir opinberir aðilar hafa tekið á sig vaxandi skuld- bindingar til hagsbóta fyrir al- menning og til þess að verja ein- staklinga, landshluta og jafnvel fyrirtæki fyrir áföllum. Með ókeypis þjónustu, styrkjum og lánafyrirgreiðslu leggjast þannig síauknar kröfur á ríkissjóð, sem mönnum finnst þeir eiga rétt til að gera og bera litla ábyrgð á að greiða. Jafnframt eru menn ekki að sama skapi fúsir til þess að sætta sig við síhækkandi skatt- byrði til þess að standa undir auknum útgjöldum ríkisins, auk þess sem mörg dæmi sýna, að of þungar skattklyfjar geta oft á tíð- um haft neikvæð áhrif á fram- leiðslustarfsemina og þannig auk- ið á vandann í stað þess að leysa hann. Afleiðingin hefur því verið tilhneiging til hallarekstrar, sem fjármagnaður hefur verið með sí- vaxandi lántökum. í stærri hagkerfum með þróað- an verðbréfamarkað hefur yfir- leitt verið unnt að fjármagna halla ríkissjóðs án beinna pen- ingalegra þensluáhrifa. Neikvæð áhrif hallans hafa þá einkum komið fram í hærri raunvöxtum en ella og í samkeppni um lánsfé, sem þrengt hefur fjáröflunarleiðir fyrirtækja og þannig dregið úr hagvexti. Hér á landi hefur vand- inn hins vegar verið sá, að hinn innlendi fjármagnsmarkaður hef- ur verið allt of þröngur og ófull- kominn til þess að fjármagna nema lítinn hluta af lánsfjárþörf opinberra aðila og sjóða. Hefur smæð markaðarins vafalaust átt sinn þátt í þessu, en meginskýr- ingarinnar er þó tvímælalaust að leita í áhrifum langvarandi verð- bólgu og neikvæðra vaxta á fjár- magnsmyndun í landinu. Þetta hefur síðan leitt til þess, að þessi fjárhagsvandi hefur fyrst og fremst verið leystur með erlend- um lántökum. Eg hef þegar rætt um erlenda skuldabyrði þjóðar- innar og nauðsyn þess, að gætt sé fyllsta aðhalds um erlendar lán- tökur á næstu árum. Ekki er síður nauðsyn að koma í veg fyrir frek- ari skuldasöfnun ríkissjóðs hjá Seðlabankanum og stefna í stað þess að endurgreiðslu þeirra skulda, sem myndazt hafa á síðara ári og á fyrri hluta þessa árs, enda hefur skuldasöfnun ríkissjóðs við Seðlabankann bein áhrif bæði til aukinnar peningaþenslu og rýrn- unar á gjaldeyrisstöðu. Á þessum vanda verður hins vegar ekki ráð- in bót nema hvort tveggja komi til aðhald í fjármálum ríkis og ann- arra opinberra aðila og aukin fjár- magnsmyndun á innlendum mark- aði. Er ég þá kominn að þriðja meginþættinum, sem ég mun fjalla um að þessu sinni, þróun peningamála og lánsfjármarkaðs. Aðlögun að breyttum viðhorfum ekki auðveld Mikið jafnvægisleysi hafði ríkt í peningamálum á árinu 1982, og fór það enn versnandi á fyrra helm- ingi síðasta árs. Ört vaxandi verð- bólga hafði í för með sér lækkandi raunvexti af óverðtryggðum inn- og útlánum, hallarekstur var al- mennur í útflutningsframleiðslu og fleiri greinum, og aukin verð- bólga kallaði á meira rekstrarfé og kynnti jafnframt undir spá- kaupmennsku og óeðlilegri eftir- spurn eftir innflutningi. Við þess- ar aðstæður var ekki að undra, þótt mikill þrýstingur væri á bankakerfið, enda fór útlánaaukn- ing bankanna langt fram úr eigin ráðstöfunarfé þeirra á þessu tíma- bili og lausafjárstaða þeirra gagn- vart Seðlabankanum versnaði mjög. Eftir að efnahagsaðgerðirnar í maí voru farnar að koma fram í minnkandi verðbólgu breyttust viðhorfin í peningamálum og skil- yrði fóru að skapast til þess að koma á jafnvægi. Aðlögunin að breyttum viðhorfum var þó hvergi nærri auðveld, þar sem annars vegar var þörf sterks peningalegs aðhalds til að tryggja þann árang- ur, sem náðist á sviði launa- og gengismála, en hins vegar var rekstrarstaða margra fyrirtækja enn veik, og atvinnureksturinn þurfti tíma til að bæta fjárhags- stöðu sína. Við þessar aðstæður hefur dregið mjög hægt úr útlána- aukningu innlánsstofnana, þrátt fyrir minnkandi verðbólgu, bæði á síðustu mánuðum ársins 1983 og það sem af er þessu ári. Hefur lausafjárstaða þeirra því enn heldur versnað á þessu tímabili. Er hér um að ræða mjög alvarlega þróun, sem brýna nauðsyn ber til að snúa við hið allra fyrsta, þar sem áframhaldandi útlánaaukn- ing innlánsstofnana í þeim mæli, sem verið hefur undanfarna mán- uði og sú lausafjárstöðurýrnun, sem henni fylgir, getur hæglega stefnt þeim árangri, sem náðst hefur í efnahagsmálum, í hættu. Mun Seðlabankinn leggja mikla áherzlu á, að breyting verði á í þessu efni og mun hann ekki veita bönkum frekari fyrirgreiðslu veg- na lausafjárerfiðleika, nema þeir hafi sýnt viðunandi árangur í því að draga úr útlánaaukningu. Verður gripið til frekari ráðstaf- ana í því efni ef nauðsyn krefur. f þeim sviptibyljum, sem gengið hafa yfir bankakerfið á undan- förnum tveimur árum, hafa enn komið í ljós veikleikar í uppbygg- ingu þess, sem kom m.a. fram í skorti á sveigjanleika og mismun- un í fyrirgreiðslu milli fyrirtækja og atvinnugreina. Það bankakerfi, sem við búum við, er að miklu leyti vaxið upp á tímum og í skjóli lánsfjárskömmtunar, sem hefur leitt til óeðliiegs kapphlaups um innstæður, offjölgunar stofnana og afgreiðslustaða og óeðlilegrar sérhæfingar bankanna í þjónustu við einstaka atvinnuvegi. Brýna nauðsyn ber til þess, að hér verði hið bráðasta breyting á og banka- kerfið fylgist með í þeirri þróun í átt til aukinnar samkeppni og nýbreytni í rekstri og starfshátt- um, sem nú setur æ meiri svip á þróun efnahagsstarfsemi í heim- inum. Ég vil að lokum ræða stutt- lega um þrennt, sem ég tel miklu skipta fyrir framgang þeirrar stefnu. Samruni inn- lánsstofnana í fyrsta lagi tel ég nauðsynlegt, að ríkisvaldið hafi forustu um samruna innlánsstofnana og verkaskiptingu þeirra. í hálfan annan áratug hafa hvað eftir ann- að verið lagðar fram tillögur um aðgerðir í þessu efni, en þær aldrei fengið nægilegan stuðning til þess að ná fram að ganga. Ef litið er til þess, að tveir þriðju hlutar banka- starfsemi í landinu eru í höndum ríkisbanka, ef miðað er við innlán, en mun hærra hlutfall, ef öll bankastarfsemi er með talin, er augljóst, að umtalsverðar breyt- ingar ná seint fram að ganga, nema forustu ríkisvaldsins njóti við. Endurskoðun bankalöggjafar er nú enn á dagskrá, en fátt er mikilvægara í þeim efnum en til- lögugerð um sameiningu banka og endurskoðaða verkaskiptingu ríkisbankanna. Annar mikilvægur þáttur i nauðsynlegri skipulagsbreytingu bankakerfisins er að draga úr hin- um sjálfvirku endurkaupum af- urðalána fyrir milligöngu Seðla- bankans. Sú breyting verður þó að nokkru að haldast I hendur við breytta verkaskiptingu milli viðskiptabankanna, þar sem en- durkaupin hafa m.a. haft þann til- gang að flytja fjármagn milli inn- lánsstofnana. Mikilvægt er, að rikisstjórnin hefur nú gert flutn- ing afurðalána til viðskiptabank- anna að stefnumáli, og hefur viðskiptaráðherra óskað tillagna Seðlabankans um framkvæmd málsins. í janúar síðastliðnum gerði Seðlabankinn siðan tillögu um það, að öll afurðalán út á framleiðslu fyrir innlendan mark- að yrðu flutt til viðskiptabanka, en innlánsbinding lækkuð á móti. Eftir að hafa átt viðræður um þessa tillögu við ýmsa aðila, sem hlut eiga að máli, virðist ljóst, að ekki séu enn skilyrði til þess að taka svo stórt skref án óæskilegra truflana í þjónustu við viðkom- andi atvinnuvegi. Því hefur bankastjórnin nú ákveðið fyrir sitt leyti, að fyrsta skrefið skuli verða almenn lækkun endur- kaupahlutfalla um sem næst fimm prósent að meðaltali. Með þessum hætti væri stigið fyrsta skrefið í flutningi þessara viðskipta til inn- lánsstofnana. Telur Seðlabankinn mikilvægt, að tekin verði fleiri skref í sömu átt síðar á árinu og yrði þá innlánsbindingin lækkuð á móti. Með þessari lækkun endur- kaupahlutfalla er auk þess náð því marki að leiðrétta núverandi mis- ræmi á milli endurkeyptra afurða- lána og verðbréfa frá innláns- stofnunum annars vegar og þess bundna fjár, sem Seðlabankinn hefur til varðveizlu frá þessum stofnunum, hins vegar. Hér er því einnig um að ræða aðhaldsaðgerð varðandi útlán bankanna, sem nú er full þörf á. Kaunhæfir vextir Er ég þá kominn að síðasta og mikilvægasta skilyrði nauðsyn- legra umbóta í banka- og lánsfjár- málum, en það eru raunhæfir vextir í öllum peningaviðskiptum og aukið frjálsræði í vaxtamálum. Mikil breyting hefur þegar orðið í þessum efnum frá því á síðasta hausti. Eftir að greinilegt var orð- ið í september, að verðbólguhrað- inn hafði minnkað verulega, var sú stefna mörkuð að lækka vexti í áföngum í hátt við minnkandi verðbólgu. Jafnframt var að því stefnt, að raunvextir yrðu jákvæð- ir á öllu sparifé f lok þessa aðlög- unartíma, og jafnað var misræmi innan vaxtakerfisins, svo sem á milli endurkaupanlegra afurða- lána og annarra rekstrarlána. Síð- asta almenna vaxtalækkunin af þessu tagi varð í janúar, en eftir hana hefur ávöxtun á óverð- tryggðu sparifé verið á bilinu 15—20%, en útlánsvextir yfirleitt á bilinu 20—23%. Miðað við það, að verðbólguhraðinn hefur verið um eða undir 15% á þessu tímabili og fer fremur lækkandi frá því, er hér um verulega jákvæða raun- vexti að ræða. Þessu til viðbótar hefur ríkis- sjóður tekið upp ýmsa nýbreytni í því skyni að stuðla að aukinni inn- lendri fjármögnun opinberra framkvæmda og sjóða. Gefin hafa verið út verðbréf, þar sem höfuð- stóll og vextir eru bundin gengi á sérstökum dráttarréttindum, raunvextir á verðtryggðum spari- skírteinum hafa verið hækkaðir og hafin regluleg útgáfa ríkis- víxla, þar sem vextir ráðast með opinberu útboði. Og nú síðustu dagana hafa bankarnir farið að bjóða ný innlánsform með hærri vöxtum en áður í samræmi við heimildir, sem þeir fengu með vaxtaákvörðun Seðlabankans fyrr á árinu. Ýmsum kann að virðast, að sú samkeppni um sparifé lands- manna, sem þannig er hafin, geti stefnt út í öfgar. En þá er þess líka að gæta, að það hlýtur að taka nokkurn tíma áður en jafnvægi næst á lánamarkaðnum eftir þær miklu breytingar, sem bæði hafa orðið á verðlagi og lánskjörum á undanförnum þremur ársfjórð- ungum. Seðlabankinn telur það hlutverk sitt við þessar aðstæður að leitast við að beina þróuninni inn á réttar brautir án þess að hefta þær breytingar í átt til frjálsara vaxtakerfis, sem nauð- synlegar eru. Seðlabankinn mun ekki skipta sér af því, hvaða vexti innlánsstofnanir bjóða, en þær geta hins vegar ekki búizt við því, að útlánsvextir verði hækkaðir, þótt þeir bjóði nú hærri innláns- vexti. Það verður fyrst að sýna sig, hvað innlánsstofnanirnar geta boðið í þessu efni og hvaða áhrif hækkaðir innlánsvextir hafa á samkeppnisstöðu þeirra. Lánsfjármarkaðurinn tekur hvarvetna stakkaskiptum Margt fleira mætti vissulega ræða varðandi hin nýju viðhorf, sem nú eru að skapast á lánsfjár- markaðnum, en til þess er ekki ráðrúm á þessum vettvangi. Ég ef- ast ekki um, að margir þeirra, sem notið hafa skjóls eða forréttinda í því miðstýrða, en þó sundurhólf- aða banka- og sjóðakerfi, sem hér hefur þróazt á undanförnum ára- tugum, muni líta með nokkrum ugg til þess að verða skipað til sama borðs og öllum öðrum og þurfa þar að sæta þeim kjörum, sem markaðurinn býður. En í þessa átt eina getur þróunin stefnt. Til þess bendir ekki ein- göngu reynsla okkar sjálfra, held- ur ekki síður þróunin í nágranna- ríkjunum, þar sem lánsfjármark- aðurinn er hvarvetna að taka stakkaskiptum fyrir áhrif aukinn- ar samkeppni og nýrrar tækni, sem hefur breytt peningamark- aðnum meir á örfáum árum en gerzt hafði á áratugum þar á und- an. Þessi nýju viðhorf munu þó ekki sízt gera kröfur til fjármála- stofnananna sjálfra og stjórnenda þeirra, sem nú munu þurfa að taka þátt í samkeppni á lánsfjár- markaðnum með allt öðrum og áhættusamari hætti en áður. Um leið fær bankakerfið tækifæri til þess að verða leiðandi afl í því að opna hagkerfið fyrir nýjum straumum í viðskiptaháttum og tækni, er munu svipta burt úrelt- um sjónarmiðum í atvinnumálum. Það á við nú, eins og svo oft áður, að tímabil þrenginga f lífi þjóða jafnt sem einstaklinga eru til þess fallin að knýja menn til að endurskoða afstöðu sína og móta nýja stefnu. f þeim sporum standa fslendingar nú. Miklum árangri hefur þegar verið náð með lækkun verðbólgunnar í lítið brot af því, sem hún var fyrir ári, en fram- undan er þó enn meira starf, ef nýta á tækifærið, sem nú gefst til þess að byggja framfarasókn á frjálsari viðskiptaháttum og stöð- ugleika í verðlagi og gengi.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.