Morgunblaðið - 18.04.1984, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 18.04.1984, Blaðsíða 34
34 MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 18. APRlL 1984 Hjónaminning: Steinunn Björg Júlíus- dóttir - Þórður Olafsson Steinunn Björg: Fædd 20. marz 1895 Dáin 13. fcbrúar 1984 Þórdur: Fæddur 24. ágúst 1887 Dáinn 9. apríl 1984 Það var skammt á milli hjón- anna í Innri-Múla á Barðaströnd. Steinunn Björg andaðist 15. febr. sl. og nú 10. apríl sl. andaðist mað- ur hennar, Þórður Ólafsson, á 97. aldursári. Þórður Ólafsson var fæddur í Miðhlíð á Barðaströnd 24. ágúst 1887 og ólst þar upp við kröpp kjör, enda var Barðastrandar- hreppur þá mjög einangrað byggð- arlag og talinn um aldamót einn fátækasti hreppur landsins. Að- eins ellefu ára fór Þórður fyrst til sjóróðra að Látrum í Rauða- sandshreppi. Tognaði vel úr hon- um við árina. Var hann á sinni tíð með hærri mönnum, þrekinn, vel á sig kominn og karlmenni að burð- um. Hann var eins og þeir Mið- hlíðarbræður glæsimenni. Á þeim tíma var ekki um skóla- menntun að tala fyrir fátæka bændasyni. Vinna til sjós og Iands, skóli lífsins, var hlutskipti flestra. Þórður var maður athug- ull og vel gefinn, hæglátur og hógvær og drerigur góður. Hann var vinsæll maður, sem starfaði um skeið allmikið að félagsmálum sveitar sinnar. Var hann m.a. lengi í hreppsnefnd Barðastrand- arhrepps með vini sínum Hákoni í Haga. Forðagæslumaður hrepps- ins var hann um langt árabil. Árið 1916 gekk Þórður að eiga frænku mína Steinunni Björgu Júlíusdóttur, glæsilega og vel gefna stúlku. Steinunn var fædd á Hreggsstöðum á Barðaströnd 20. mars 1895. Enga skólamenntun fékk Steinunn í æsku, en hún var lengi í vist hjá frú Björgu Ein- arsdóttur Thoroddsen, fyrri konu Hákonar alþingismanns í Haga á Barðaströnd, sem var mikil höfð- ingskona og fyrirmyndar húsmóð- ir. Var vistin í Haga Steinunni ómetanlegur skóli. Steinunn og Þórður hófu búskap sinn í húsmennsku i Haga. Þar bjuggu þau í fimm ár og þar eign- uðust þau fjögur elstu börnin. Frá Haga fluttu þau að Innri-Múla á Barðaströnd, sem þau fengu ábúð- arrétt á. Innri-Múli var á þessum tíma lítið kot, sem tilheyrði hinum svonefndu Hagaeignum, en þær voru höfuðbólið Hagi á 3arða- strönd, Innri-Múli, Ytri-Múli, Tungumúli, Grænhóll og Sauðeyj- ar. Var Hákon í Haga eigandi að Hagaeignum að hálfu, en um 1950 varð hann einn eigandi að Haga- eignum. Seldi Hákon þá Þórði og Sveini, syni hans, jörðina Innri- Múla og þar bjuggu Þórður og Steinunn síðan áfram alla tíð. Á ellefu árum eignuðust Stein- unn og Þórður níu börn. Þau eru eftir aldri talin: Björg, húsfreyja í Tungumúla, Ólafur Kr., kennari í Reykjavík, Jóhanna, húsfreyja á Patreksfirði, Júlíus, bóndi á Skorrastað í Norðfirði, Björgvin, leigubílstjóri í Hafnarfirði, Karl, starfsmaður í Áburðarverksmiðj- unni, býr á Seltjarnarnesi, Krist- ján, bóndi á Breiðalæk á Barða- strönd, fyrrverandi oddviti hreppsins, Steinþór, bóndi í Skuggahlíð í Norðfirði og Sveinn, bóndi í Innri-Múla. Það var mikil ómegð í Innri- Múla og mikil fátækt. Til að færa björg í bú fór Þórður lengi vel á hverju vori til sjóróðra að Látrum í Rauðasandshreppi. En það var vel sinnt um börnin í Innri-Múla. Voru þau hjónin bæði fágætir uppalendur. Þórður gæfur og góð- ur heimilisfaðir og Steinunn óvenju ástrík móðir, sem yljaði og hlúði að börnunum. Steinunn var kvenskörungur, þar sem ást og agi héldust í hendur í uppeldisstarf- inu. í Innri-Múla voru fornar dyggð- ir hafðar í heiðri. Þar var börnun- um kenndur guðsótti og góðir siðir með manngildis- og friðarboðskap kristinnar trúar að leiðarljósi. Frá þessu fátæka heimili komu vel upp alin og prúð börn, sem snemma fóru að hjálpa til innan heimilis og utan, enda sérstaklega verklagin og dugleg. Allt er þetta vel gefið fólk, sem komist hefur vel áfram í lífinu og verið foreldr- um sínum og byggðarlagi til sóma, hvar sem það hefur farið. Barðastrandarhreppur er ekki lengur einangrað og fátækt hreppsfélag. Miklar framfarir hafa átt sér stað hin síðari ár. M.a. í nýjum atvinnuþáttum til sjós og lands. Úrbætur í samgöngu-, skóla-, félags- og ferðamálum skipa Barðastrandarhreppi nú á bekk með framsæknustu byggð- arlögum landsins. Þar hafa m.a. afkomendur Steinunnar og Þórðar komið mjög við sögu. Ég kynntist Steinunni, frænku minni, og Þórði, þegar ég bjó um skeið á Patreksfirði. Mér er minn- isstætt hve alúðlega þau tóku strax á moti mér. Ég kom oft að Innri-Múla og á margar góðar minningar af kynnum mínum af þessum góðu hjónum. Þau gátu sannarlega litið með stolti yfir farinn veg og glaðst yfir barnaláni og löngu og merku ævistarfi. Heiðurshjón hafa kvatt. Blessuð sé minning þeirra. Ásberg Sigurðsson Sunnudaginn 12. febrúar voru þau Steinunn og Þórður flutt á sjúkrahús Patreksfjarðar við erf- iðar aðstæður sökum þess tíðar- fars, sem ríkt hefur á Vestfjörðum í vetur. Þegar þessi ákvörðun var tekin var búist við að eitthvað meira væri hægt að gera á sjúkra- húsi þeim til hjálpar en í heima- húsi. Bæði voru þau með fullri rænu og áttu erfitt með að yfir- gefa heimili sitt á Innri-Múla, þar sem þau höfðu átt heima í 62 ár. Flutningurinn varð til þess eins, svo sem þau bæði hafði grunað, að deyja annars staðar en í rúminu sínu, en þá von voru þau búin að ala með sér í langan tíma. Þannig hafði það gerst með feður þeirra og mæður, afa þeirra og ömmur, leiðin frá baðstofu til grafar krókalaus. En þar sannaðist, að enginn veit sína æfina fyrr en öll er. Þó sá tími sem hér um ræðir væri stuttur var hann báðum strangur og dauðinn sjálfur það sem þau áttu best með að sætta sig við. Andlegu heilbrigði héldu þau bæði fram til hins síðasta, þó Ííkamlegt þrek hafi látið undan fyrir nokkru. Steinunn dó um nóttina að lokinni ferð á sjúkra- húsið, en Þórður tæpum tveim mánuðum síðar. Þó að þessir erfiðleikar séu rifj- aðir upp mega þeirra nánustu ekki gleyma því, að hið langa æfikvöld þeirra hjóna í skjóli sonar síns, Sveins Þórðarsonar, og konu hans, Kristínar Hauksdóttur, veitti þeim svo mikla gleði að fátítt mun vera. Þó sól gengi bak við fjöllin var sól inni. Börn þeirra Sveins og Kristínar fæddust með jöfnu millibili þannig að það yngsta er nú tæpra tveggja ára er Þórður fellur frá, 96 ára að aldri. Þrjú önnur börn þeirra Stein- unnar og Þórðar hafa búið ekki aillangt frá Múla ásamt fjölskyld- um sínum og litu þau einnig til með foreldrum sínum. Voru það Björg, Kristján og Jóhanna. Jó- hanna býr á Patreksfirði og var hjá þeim báðum er yfir lauk. Önn- ur börn þeirra hjóna eru: Ólafur, Björgvin og Karl búsettir á Reykjavíkursvæðinu og Júlíus og Steinþór búsettir á Norðfirði. Steinunnar hefur þegar verið minnst í tveimur ágætum minn- ingargreinum, en hér verður ekki um neina æfisögu að ræða heldur stiklað á stóru og rifjaðar upp fá- einar minningar. Þau voru gefin saman í Haga þann 9. september 1916, þar sem þau voru þá í vinnumennsku hjá Hákoni Kristóferssyni og fyrri konu hans, Björgu Einarsdóttur. Mánuði síðar fæddist þeim fyrsta barnið svo nauðsyn bar til að setja saman bú. Húsnæði fengu þau í Haga á dyralofti, sem auðvitað var bara eitt herbergi og kamína notuð til hitunar. Þann 10. maí 1921 fluttust þau svo að Innri- Múla. Þá voru börnin orðin fjögur, það yngsta aðeins 11 daga gamalt. Jörðin var búin að vera í eyði ein- hvern tíma og allt óhrjálegt að- komu. Á lífi er einn þeirra góðu nágranna á Ytri-Múla, Jóhann Jónsson, nú búsettur á Patreks- firði, en það var einmitt hann sem færði þeim eldinn til að kveikja í hlóðunum í fyrsta skipti. Túnið var kargþýft og talið gefa af sér hey handa einni kú. Ungu hjónin hófust þegar handa svo allt varð að víkja. Óhrjáleiki baðstof- unnar breyttist svo úr varð hlýleg vistarvera og Þúfnareitirnir urðu að fallegum sléttum í höndum ræktunarmannsins Þórðar Ólafs- sonar. Þórður stundaði þó enn sjó, sem hann hafði gert frá unglings- aldri mest á þilskipum frá Bíldu- dal. Hann mun hafa byrjað sjó- mennsku á opnum skipum frá ver- stöðinni Brunnum vestan Látra- bjargs. Þegar ég heyrði þau hjón rifja upp liðna tímann var það áberandi hvað samferðafólkið átti þar mikið rúm og aldrei getið nema að góðu, og næstu nágranna af einstakri virðingu svo sem fólksins á Ytri-Múla og í Haga. Þá var eins og þeim fyndist aldrei fullþakkað þeim tveim manneskjum sem gerðu búskap- inn og uppeldi barnanna svo bæri- legt er raun bar vitni. Þetta voru móðir Steinunnar, Jóna Jónsdótt- ir, og fóstursonur hennar og frændi, Gísli Þórðarson. Gísli var á Múla þar til hann setti sjálfur saman heimili. Einstakir kærleik- ar voru með Þórði og þessum manneskjum báðum. Ég kom fyrst að Múla vorið 1949 sem tilvonandi tengdadóttir þeirra hjóna. Ég var öllum ókunn- ug þarna og því hálfkvíðin, en það var þó óþarfa hræðsla því það var eins og að koma heim. Þetta var mikið harðindavor, kalt og gróð- urlaust og allt daglegt líf á heimil- inu snerist um líf fólksins og fén- aðarins þessa köldu vordaga, og sennilega hefur allt þeirra líf ver- ið helgað því að láta mönnum og málleysingjum líða vel. Börnin þeirra níu, sem fæddust á ellefu árum og komust öll til manns, segja sína sögu um dugnað þessa fólks því ekki voru þægindin í þá daga hvorki innan húss né utan. Það vakti strax athygli mína á þessu heimili og hefur alla tíð gert hve vel var farið með alla hluti. Vatnsföturnar hans Þórðar, sem hann brynnti kúnum í, entust í tugi ára og frá öllu snyrtilega gengið hvar sem maður leit. Það sama var hjá Steinunni, engu var fleygt frá sér, jafnvel ekki í ógáti. Postulínsstellið, sem drukkið var úr í veislunni þegar hún sjálf var skírð, er ennþá heilt og leirskálin sem hann Þórður borðaði úr í sjö- tíu ár hvern einasta dag er enn til. Hann Þórður tengdafaðir minn var alveg sérstakur maður, svo rólegur og traustvekjandi dags daglega, samt duglegur og fylginn sér í allri vinnu. Hann var svo skemmtilega kíminn og sagði svo skemmtilega frá að maður gleymdi sér við að hlusta. Eins hafði hann yndi af lestri ljóða og kunni heil ósköp af vísum og kvæðum og svo var einnig með Steinunni. Þau Þórður og Steinunn voru sérstaklega hamingjusöm hjón og mikil var umhyggjan sem þau báru hvort fyrir öðru. Sem betur fer voru þau lítið aðskilin svo sem vegna sjúkrahúsvistar. Ferðin hans Þórðar í sjúkrahús nú í lokin var hans fyrsta á slíka stofnun á 96 ára langri æfi. Starfsdagurinn var oftast lang- ur en þau voru bæði bráðvel greind og fóru létt með að skipu- leggja dagsverkið og stjórna þessu stóra heimili. Ég er búin að fara oft vestur og vera þar í mörgum stórveislum. Þar var öllu stjórnað af röggsemi og festu og aldrei nein vandræði á ferðum þó ekki væru neinir veislusalir en gestir oft fjöl- margir á öllum aldri. Eg kveð þau með virðingu og þökk. „Ver sjáum hvar sumar rennur með sól yfir dauðans haf og lyftir í eilífan aldingarð því öllu, sem Drottinn gaf.“ (Matth. Joehumsson.) Blessuð sé minning þeirra Þórð- ar og Steinunnar á Múla. Jóna Ármann Já, nú eru þau bæði dáin amma mín og afi, Steinunn og Þórður á Innri-Múla á Barðaströnd. Fá- tækleg minningarorð, rituð af barnabarni segja lítið, en sam- ferðamennirnir, sem best hefðu getað sagt frá gifturíku lífshlaupi þeirra hjóna eru flestir á undan til grafar gengnir. Hafi þau afi minn og amma ver- ið dæmigerð fyrir þá íslendinga sem sóttu sjálfstæðið í greipar Danaveldis, þá fær maður skilið þann dugnað og þrautseigju er að baki bjó. Þau voru þann veg hugs- andi að hver skyldi bjarga sér sem best hann gæti og álitu það neyð- arbrauð hverri fjölskyldu að sækja í almenningssjóði sér og sínum til framfærslu. Samtrygging þess tíma fólst í hjálpsemi hvers við annan og veit ég að þau létu þar ávallt meira af hendi rakna en við var tekið. Má þar minna á, að farandkennarar höfðu um lengri tíma aðsetur á Innri-Múla og kenndu þar börnum úr sveitinni. Kennurum þess tíma voru vandaðir gististaðir og heim- ili Þórðar og Steinunnar var einn slíkur þótt húsnæði teldi einungis þrjár vistarverur, eldhús, baðstofu og stofu, sem kennarinn hafði að sjálfsögðu útaf fyrir sig. Þórður afi minn var mikill geðprýðismaður. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir samfélag sitt á Barðaströnd. Éðli margra slíkra starfa hefur breyst þótt nafnið sé enn hið sama í dag. Slíkt er starf ásetningsmanns, er sjá skyldi til þess að bændur héldu fjölda búpenings innan þeirra marka er heyforði sagði til um. Því starfi gegndi afi lengst af með Þorsteini bróður sínum í Litlu- Hlíð. Þetta starf bauð eðli sínu samkvæmt upp á árekstra en Þórður leysti það af hendi á þann veg sem honum var lagið með skilning og sáttfýsi að leiðarljósi. Steinunn amma mín var stjórn- söm í meira lagi. Höfðu hún og móðir hennar, Jóna Jóhanna Jónsdóttir, án efa alla daglega stjórn á heimilinu með höndum meðan báðar lifðu. En grunur minn er sá að aldrei hafi þær ráð- ið svo neinum hlut að þar færi ekki saman við vilja afa míns, enda harla ólíklegt að slíkir kær- leikar sem voru með þeim öllum og þvílíkt jafnvægi sem ríkti jafnt hið innra sem ytra á heimilinu hefði þá verið raunin. Það var svo þegar Sveinn, yngstur af níu börnum þeirra hjóna, festi sitt ráð með Kristínu Hauksdóttur, að gömlu hjónin fóru að draga sig í hlé. Reyndar hafði Steinunn amma mín hönd í bagga við stjórnun heimilisins eins og búast mátti við af hennar hálfu. Verður seint metinn hlutur Kristínar í því sambandi. Börn þeirra Sveins og Kristínar urðu fljótt sú kjölfesta elliáranna, sem gömlu hjónin gátu aldrei hugsað sér að skilja við í lifanda lífi. Þau nutu þess ævikvölds sem þau helst óskuðu sér með nýrri kynslóð Múlasystkina. En það er skarð fyrir skildi hjá þeim yngstu úr þeim hópi, sem fyrst eftir brottför afa og cmrnu vestur á Patreks- fjörð knúðu dyra á herbergi þeirra og vildu njóta frekari samvista. Allt frá fyrstu tíð er ég sem barn heimsótti afa og ömmu á Múla skynjaði ég kærleikann í millum þeirra. Umhyggja hvors fyrir öðru var einstök. Því var það að þeirra einlægasta ósk var að fá að deyja saman og þá helst heima á Múla. En líkamlegri heilsu þeirra hrakaði ört síðasta árið og þrátt fyrir ómælt álag Sveins son- ar þeirra og heimilisins á Múla til að verða við þeim óskum varð að flytja þau vestur í sjúkrahúsið á Patreksfirði þar sem amma dó 13. febrúar og afi 9. apríl. Ég tel mig lánsmann að hafa fengið að kynnast afa og ömmu. Þá veit ég að öll barnabörnin og börn þeirra, sem þau báru svo mikla umhyggju fyrir og reyndu að halda tengslum við með árleg- um jólagjöfum eða öðrum hætti, hafa sömu sögu að segja. Það verður gjöfinni frá ömmu og afa á Múla færra í mörgum jólapakk- anna í ár. Nú hafa þau hjón verið til graf- ar borin. Áfi var jarðsettur 17. apríl, á þeim degi er Jónína systir hans hefði orðið 100 ára, en hún er látin fyrir nokkrum árum. Minn- ingin um Steinunni og Þórð á Innri-Múla stendur eftir, eitthvað sem allir láta eftir sig, en þau með þeim hætti að niðjarnir geta verið stoltir af. Guð blessi þá minningu. Þórður Júlíusson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.