Morgunblaðið - 06.11.1984, Blaðsíða 17
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 6. NÓVEMBER 1984
17
Kammertónleikar
Tónlist
Jón Ásgeirsson
Fyrstu tónleikar Kammermús-
íkklúbbsins á þessu starfsári voru
haldnir á Kjarvalsstöðum sl. laug-
ardagskvöld við húsfylli. Á efn-
isskránni voru kammerverk eftir
Mozart. Fyrsta verkið var flautu-
kvartett í D-dúr, K.285. Hol-
lenskur auðmaður búsettur i
Mannheim mun hafa „pantað" hjá
Mozart þrjá kvartetta fyrir flautu,
fiðlu, lágfiðlu og selló, en sakir
þess hve þeir tveir seinni voru á
allan hátt lakari en sá fyrsti, mun
Mozart hafa átt í vandræðum með
að fá greiðslu fyrir verkin. Mozart
var á þessum tíma á ferðalagi til
Mannheim og Parísar og má rekja
gerð seinni flautukvartettanna til
erfiðleika tónskáldsins við að fá
eitthvað að gera og að yfir hans
hlut sátu fremur lítilþægir tón-
listarmenn, sem áttu allt í að
verja, þar sem aðstaða þeirra var.
Kvartettar þessir eru merktir 285,
285a og 285b. Fyrsti kvartettinn
(285) er eins konar „consertante"-
verk fyrir flautu, sem er nær ein-
ráð allt verkið. Adagio-þáttur
verksins er frábærlega fallegur,
sennilega eitt af því fallegasta
sem Mozart samdi fyrir þetta
hljóðfæri. Martial Nardeau lék á
flautu ásamt strengjaleikurunum
Rut Ingólfsdóttur, Helgu Þórar-
insdóttur og Noru Kornblueh.
Nardeau er góður flautuleikari og
var leikur hans mjög fallegur, án
allrar yfirtroðslu, sem svo algeng
er hjá einleikurum, m.ö.o fallegur
samleikur. Annað verkið á tónleik-
unum var tríó fyrir klarinett,
víólu og píanó K.493. í forskrift-
inni fyrir verkið segir Mozart að
„fiðluröddina má og skal leika á
klarinett". Verk þetta mun Mozart
hafa samið fyrir Jacquin-fjöl-
skylduna og þá sérstaklega dótt-
urina, Franciscu, sem lék á píanó-
ið er verkið var flutt I fyrsta sinn.
Mozart lék sjálfur á lágfiðluna og
Anton Stadler á klarinettið.
Verkið er fyrir margra hluta sakir
mjög sérstakt og sérstaklega fyrir
fínleika sinn og óvenjuleg „temat-
ísk“ vinnubrögð. Margt var fallega
gert í þessu viðkvæma verki, sér-
staklega hjá klarinettleikaranum,
Kjartani óskarssyni. Hrefna Egg-
ertsdóttir er góður píanóleikari,
en hefði mátt leggja ögn meiri
áherslu á styrkleikamun og þarf
nauðsynlega að gæta að notkun
„pedals”, en að því er virðist er
það eitt af einkennum íslenskra
píanóleikara að þeir beinlínis
„frasera" með pedalnum, svo að
nær öll ritháttarmerking hverfur
út í eina allsherjar líðandi. Þetta
þýðir ekki að notkun Hrefnu á
pedalnum hafi verið óhófieg, held-
ur of mikil fyrir ljósgegnsæjan
stíl Mozarts, þar sem staccato
hverfur ef notaður er pedall og
leikandi línurnar verða að eins
konar samhljóman. Síðasta verkið
á tónleikunum var kvartett fyrir
píanó, fiðlu, viólu og selló, í Es-
dúr, K.493. Vinur Mozarts, Franz
Anton Hoffmeister, keypti til út-
gáfu þrjá píanókvintetta en gaf
aðeins út einn. Þann seinni, sem
Mozart samdi, vildi hann ekki gefa
út því hann taldi verkið of erfitt
fyrir almenning og fólk myndi því
trauðla kaupa það.
Þetta snilldarverk samdi Moz-
art um það bil fimm vikum eftir
að hann hafði lokið við Brúðkaup
Figarosar. Larghetto-kaflinn er
glæsileg tónsmíð og var hann
nokkuð vel leikinn og síðasti kafl-
inn sömuleiðis. Um þetta verk
sagði Haydn, að það sýndi „óað-
finnanlega smekkvísi Mozarts og
það sem meira er, óvenju djúpa
þekkingu hans á tónsmíði". Á
þessum tíma voru fáir aðrir en
Haydn sem töluðu vel um tón-
smíðar Mozarts, en þrátt fyrir að
hafa verið uppi á „gullöld tónlist-
arinnar", hlýtur Mozart að hafa
fundist annað nafn eiga betur við
þennan tíma smásmugulegheit-
anna. Það var þokki yfir þessum
tónleikum en það vantaði meiri
snerpu í leikinn.
Leiklist
Jóhann Hjálmarsson
Ríkisútvarpið Sjónvarp:
ÞETTA VERÐUR ALLT f
LAGL
Sjónvarpsleikrit eftir Svein-
björn I. Baldvinsson.
Leikstjóri: Steindór Hjörleifs-
son.
Myndataka: Einar Páll Einars-
son.
Hljóð: Vilmundur Þór Gíslason.
Leikmynd: Gunnar Baldursson.
Stjórn upptöku: Tage Amm-
endrup.
Af hverju er verið að
byggja, spurði skáldið forðum
og lét orðin gilda sem dæmi
um vegferð manna á þessari
jörð. Hvað sagði spýtan, spyr
aftur á móti Sveinbjörn I.
Baldvinsson í sjónvarpsleik-
riti sínu Þetta verður allt í
lagi.
Sveinbjörn I. Baldvinsson
hefur vakið athygli fyrir ljóð
sín. Hann er meðal þeirra
ungu skálda sem eftir er tek-
ið. Nú reynir hann fyrir sér
sem leikritahöfundur og
freistar þess að tjá sig með
hjálp sjónvarps, þess sem fólk
almennt metur meira en ljóð.
Eftir sjónvarpsleikriti
Sveinbjörns I. Baldvinssonar
að dæma hefur hann margt
að segja um samtímann,
hversdagslegt amstur manna
í lífsgæðakapphlaupi, en
hann gerir það á yfirvegaðan
hátt og án mikillar vandlæt-
ingar.
Þrátt fyrir raunsæilegt yf-
irbragð Þetta verður allt í
lagi sem leiðir jafnvel hugann
að vandamálaleikritun vill
Sveinbjörn fyrst og fremst
fjalla um manneskjur, per-
sónulegan vanda þeirra. Það
eru líka kostir Þetta verður
allt í lagi hvernig hann sýnir
okkur manninn nakinn gagn-
vart þeim vanda sem er ekki
bara misheppnað þjóðfélag
með vitlausu bankakerfi.
Eins og skáldi sæmir ieitast
Sveinbjörn við að spegla og
skilgreina manneskjuna.
Ungu hjónin sem eru að
byggja og standa andspænis
ótímabærri fjölgun í fjöl-
skyldunni eru dæmigerð fyrir
mig og þig. Þeirra vandi er
vandi margra. En þegar upp
er staðið er það ekki algengt
vandamál þeirra sem leikritið
fjallar um, heldur sígildur
vandi mannsins í tilverunni.
Á þetta hefði Sveinbjörn vit-
anlega getað lagt ríkari
áherslu, en við skiljum samt.
Því miður hefur ekki tekist
sem skyldi að sýna þá kvöl
sem þrátt fyrir allt er undir-
staða verksins. Nokkuð skort-
ir á að verkið öðlist dýpt.
Ekki vil ég kenna leikstjóran-
um einum um það.
Eitt hefur tekist ágætlega í
Þetta verður allt í lagi. Það er
að túlka húmorinn sem er
verkinu samgróinn. Oft kem-
ur þetta leikrit til móts við
áhorfanda með nærgöngulum
hætti, en stundum er líkt og
það gerist í eins konar fjar-
lægð. Erfitt er að ákvarða
hvor eigi sökina höfundur eða
leikstjóri.
Sólveig Pálsdóttir og Pálmi
Gestsson léku hjónin sem eru
að byggja, Önnu og Jens.
Pálmi Gestsson hefur látið að
sér kveða á leiksviði og nær
góðum tökum á hlutverki
sínu. Sólveig Pálsdóttir er
sannfærandi í sínu hlutverki.
Leikur hennar er í fyllsta
máta eðlilegur og samkvæm-
ur. Hún gæðir þau orð lífi
sem henni eru falin.
Þetta verður allt í lagi er
vissulega frumraun ungs höf-
undar og verður að líta á það
frá þeim sjónarhóli. En
verkið leynir á sér.
Hvað sagði spýtan?
Pálmi Gestsson og Sólveig Pálsdóttir I hlutverkum sínum í Þetta verður allt í lagi.
Ríkisvíxlar eru ein hagkvæmasta
skammtímaávöxtun sem völ er á.
Meðaltals ársávöxtun
í undangengnum útboðum
hefur verið sem hér segir:
Júlíútboð 25,6%
ágústútboð 25,8%
septemberútboð 27,8%
októberútboð 27.7%
RÍKISSJÓÐUR ÍSLANDS