Morgunblaðið - 24.12.1995, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 24.12.1995, Blaðsíða 27
26 SUNNUDAGUR 24. DESEMBER 1995 MORGUNBLAÐIÐ MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 24. DESEMBER 1995'27 STOFNAÐ 1913 UTGEFANDI FRAMKVÆMDASTJÓRI 1 RITSTJÓRAR Árvakur hf., Reykjavík. Hallgrímur B. Geirsson. Matthías Johannessen, Styrmir Gunnarsson. JOLASAGAN ENDURTEKUR SIG FÆÐINGU Jesú Krists á hin- um fyrstu jólum fyrir tæpum tvö þúsund árum má með gildum rökum kalla mikilvægasta atburð- inn í sögunni, enda er tímatal okkar við hann miðað. Enginn hefur markað dýpri spor í söguna en barnið, sem fæddist í útihúsinu á jólanótt. Heimsveldi þess tíma, Rómaveldi, og þau, sem á eftir hafa risið, hafa hrunið í rústir, en kristin kirkja stendur á bjargi og hefur aldrei átt sér fleiri fylgj- endur um allan heim. Þótt margt hafi verið kristinni trú og kirkju mótdrægt í aldanna rás, fer ekki á milli mála að kristn- in hefur mótað hugsunarhátt okk- ar, menningu og sögu, þótt við gerum okkur ef til vill ekki ætíð ljósa grein fyrir því. Án fæðingar Krists værum við ekki það, sem við erum, og öllu myrkara væri í mannlegum samskiptum, jafnt á íslandi sem um gjörvalla heims- byggðina, hefði kristindómsins ekki notið við. Hvar værum við stödd, hefði kristnitakan árið þús- und aldrei farið fram? Því getur hver svarað fyrir sig. Oft er hins vegar sagt að sagan endurtaki sig, og það virðist ósjaldan mega til sanns vegar færa. Oftar en ekki verða þau gömlu sannindi einkum til að sýna mönnum fram á, að þeir hafi ekki lært af reynslu sögunnar; að þeir haldi áfram að gera sömu mistök- in. Slíkt á ekki sízt við þegar hörmungar styrjalda skella yfir: Yfirleitt sjá menn hina sögulegu hliðstæðu — stundum ekki fyrr en eftir á — en hafa ekki komið auga á lausnina, sem hefði getað hindrað stríð. Og þá spyija menn oft hvað hafi farið úrskeiðis og hvað sé til ráða. Nær íslendingum stendur ef til vill sú sögulega endurtekning, að yfir þetta harðbýla land okkar dynja oftsinnis á hverri öld ógur- legar náttúruhamfarir, sem hafa höggvið stór skörð í fámenn byggðarlög. Tvisvar sinnum á þessu ári hafa íslendingar staðið frammi fyrir mannskaða af völd- um snjóflóða og um leið hafa rifj- azt upp hamfarir fyrr á árum eða öldum, sem enginn gat stöðvað frekar en nú. Og sorgin hefur lagzt yfir bæi og þorp eins og svo oft áður. En hveijar sem hörmungarnar eru og hversu svart sem myrkrið sýnist, er alltaf ljós, sem vísar veginn til bjartari framtíðar. Á hveiju ári höldum við hátíð ljóss- ins, á sama tíma og heiðnir forfeð- ur okkar fögnuðu því að aftur tók að birta eftir svörtustu skamm- degisdagana. Hin kristnu jól hafa hins vegar miklu víðtækari skír- skotun: Þau eru til merkis um að ævinlega birtir til í lífi einstakl- ings, þjóðar, mannkyns, ef við fylgjum ljósinu í trú á Krist. Sagan af sigri ljóssins á myrkr- inu er þess vegna sú, sem við megum ætíð eiga víst að endur- tekur sig á hveiju ári. Fagnaðar- erindið, sagan af fæðingu Jesú á jólanótt, er alltaf í sama gildi: „Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum; því að yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs." í fjárhúsinu í Betlehem var fæddur frelsari, lítið barn sem í sakleysi sínu og fátækt reyndist mesti leiðtogi sögunnar. Það er táknrænt að nú á jólaföstunni yfirgefur hernámslið ísraela Betlehem og fulltrúar þjóðanna, sem áður stóðu í stríði, takast í hendur og semja nýjan frið í anda Krists í fæðingarborg hans. Sagan af fæðingu Jesúbarnsins beinir sjónum okkar að því feg- ursta og bezta í samskiptum mannanna. Hún sviptir hismi dag- legs amsturs, átaka og efnislegs yfirborðs utan af kjarnanum, því sem máli skiptir: Kærleika, ást, umburðarlyndi og bræðralagi. Fæðing Krists markaði upphaf nýrrar heimssögu. Jólin, sem við höldum á hveiju ári til að minn- ast hennar, eru tími sem við ætt- um að nota til að hugleiða boð- skap hans og leyfa honum jafnvel að marka upphaf nýrrar sögu af sjálfum okkur; upphaf betra lífs með Kristi og í anda boðskapar hans. í þeim boðskap er fólgin lausn allra átaka; friður í stað styijalda; huggun handa syrgj- endum; fyrirheit um eilíft líf, sig- ur mannsandans á öllum erfiðleik- um. Megi jólahátíðin verða tími hamingju, samveru og friðar á öllum íslenzkum heimilum. Morg- unblaðið óskar lesendum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla. 1AA MARM- 1UU#ARI er málsvörn fyrir einæði sem vill afnema allar refsingar. Dæmið ekki svoað þér verðið ekki dæmdir, við þurf- um ekki að hugsa langt til að hafna í fýrirmynd þessa boðskapar. Leik- ritið verður þannig með undarlegum hætti kristileg málsvöm fyrir þá sem myrtu höfund þess: Þér getið framið morð og haft meiri sálarg- öfgi til að bera og verið hættu- minni fyrir þjóðfélagið en allir þeir, sem hafa aldrei gert sig seka í neinu lögbroti. Þér getið framið hvern glæp á fætur öðrum án þess að gera yður sekan í nokkrum ódreng- skap. Það er ódrengskapurinn, ekki glæpurinn, sem saurgar anda mannsins og grefur um sig eins og átumein í sál hans. Segir Robert Belford fyrir munn höfundar síns. Hann telur jafnframt að sá sem iðrast eftir synd sína drýgi hana tvisvar. Við þurfum ekki heldur að leita langt til að fínna þessari setn- ingu stað í trúarbrögðum. Hún er jafnheiðin og andrúmið í upphaf- skafla þeirrar skáldsögu Guðmund- ar Kambans sem sprottin er úr Eyrbyggju, Vítt sé ég land og fag- urt. Það er andrúm Oðins. Andrúm þessa svala og miskunnarlausa heiðindóms sem við tókum einnig í arf og leynist í litningunum einsog hver önnur reynsla genginna kyn- slóða. En svölu miskunnarleysi fylg- ir drengskapur og eftirsókn eftir því að herðast í hættum. Ungur sá ég Guðmund Kamban fyrir mér sem goðsögn. Hann bauð hættunni birginn. Hann tók afleið- ingum. Og hann dó inní goðsögn. Allt stórt er hættulegt, segir Robert. Ég elska hættuna, bætir hann við. Þannig hef ég séð Guðmund Kamban fyrir mér. Og svo einnig í þessum orðum Roberts, Hjá einum merkir þóttinn hroka, hjá öðrum merkir þóttinn andlega tign. Allt sem kristallast í stórum og töfrandi persónuleika verður töfrandi og stórt. Guðmundur Kamban lifði ekki mannhættulausu lífi, það sjáum við ekkisízt í verkum hans. STUNDUM ER sagt að •skáld sjái fyrir dauða sinn eða upplifí hann í verkum sín- um án þess gera sér grein fyrir því. Þannig lýsir Shelley dauða sín- um í frægu ljóði. Ungur var Kam- ban þekktur fyrir dulræna hæfileika. sem fylgdu honum alla tíð. Innsæi hans var sérstætt og mikilvægt. Marmari er sprottinn úr þessu inn- sæi. Og í þetta mótsagnakennda leikrit getum við sótt skýringar á þeim óhugnanlegu atburðum sem fléttuðu örlög Kambans inní þann vef dauða og tortímingar sem spunninn var úr illsku og átökum blóðidrifinnar nútímasögu. En verk hans lifa. List hans er smitandi gleði í samtíð okkar. í samtíð allra alda á íslandi, Þuríðar og Bjöms Ásbrandssonar; Daða og Ragnheiðar Brynjólfsdóttur — en um Skálholt sagði Ámi prófessor Pálsson að enginn þekkti 17. öldina á íslandi betur en höfundur þeirrar miklu skáldsögu. Kamban var ávallt í tengslum við það sem var stórt og mikið. Vann jafnvel að kvikmyndahandriti fyrir Grundgenz, þekktasta leikara Þýzkalands sem síðar gerði ódauð- lega mynd eftir Faust Goethes. Hún er augljós undanfari margfrægrar kvikmyndar Ingmars Bergmans uppúr Töfraflautunni. Sjálfur tel ég kynni mín af Skálholti einhvem mesta og mikilvægasta atburð æsku minnar og hef raunar aldrei þorað að koma nálægt þeirri bók síðar, svo magnþrungnum seiði við- kvæmu og óheftu ímyndunarafli drengs á þeim áram. Síðar kynntist ég þessu kunnuglega og borgara- lega þjóðfélagi þeirra Guðmundar Kambans og Werfels og hef nú reynslu fyrir því að Vér morðingjar er gangfagurt listaverk þegar vel er að sýningu staðið. Áð öðrum kosti heldur berskjölduð viðkvæmni og óskilgóð, einsog oft vill verða. Kamban unni Oscari Wilde. Verk hans vora honum nautn og fyrir- mynd. Goðsöguleg og hrikaleg ör- lög ungum manni íhugunarefni. Þeim var ég verst sem ég unni mest, merkir einfaldlega: að drepa yndi sitt. Tvöfalt eðli mannsins brýzt hvarvetna fram í miskunnar- lausri áskorun. Og þótt það séu alkunn sannindi að kempan tekur sér spjót í hönd en heigullinn færist undan, þá vitum við það með systur Snorra goða á Helgafelli að guðim- ir nærast ekki af lífínu, heldur af dauðanum. Líf Guðmundar Kam- bans og dauði, svo ógnleg martröð sem hann var, era áleitnari um- hugsunarefni en verk hans öll og eru þau þó einstök og sérstæð. Þau eru sólskinið í lífi hans, nú þegar hann er horfinn frá þeim. Dauðinn forsælan. Dauðlegir menn geta ekki óskað lífi sínu sólar án forsælu. Slík sól er yfimáttúruleg og einung- is í tengslum við eilífðina. Slík sól lýsti upp Skálholtsstað þegar guð helgaði sér hann, einsog helgisaga Kambans um Ragnheiði byskups- dóttur minnir okkur á. En úr einni forsaélu í aðra göngum við inní vinalega þögn tunglsins, minnug þess að það end- urspeglar þá sól sem gleður okkur hvern vorlangan dag við litla týs- fjólu og tístað sólskríkjulag. En - ég orka’ ekki meir, enda þarf ekki það, á þráðnum er hvergi gróm Ef blóðugur er hann á einum stað, er orsökin sú að hann spannst inní góm. (Spunakonan, 1911) HELGI spjall REYKJAVIKURBREF Laugardagur 23. desember ILIÐINNIVIKU FLUTTU FIMM þingmenn þingsályktunartil- lögu á Alþingi, þar sem dóms- málaráðherra er falið að skipa nefnd til að endurskoða gild- andi lög um vernd trúnaðar- sambands fjölmiðlamanna og heimildarmanna þeirra. í tillög- unni er lagt til, að við þá endur- skoðun verði 53. grein laga um meðferð opinberra mála skoðuð sérstaklega og mat lagt á, hvort þörf sé á frekari lög- gjöf til að tryggja aðstöðu blaðamanna og annars fjölmiðlafólks við starf sitt, svo sem vernd gagna sem fjölmiðlamenn kom- ast yfir og vemd starfsstöðva þeirra gegn rannsóknaraðgerðum yfirvalda. Tillaga þessi er augljóslega flutt í til- efni af málarekstri þeim, sem Rannsókn- arlögregla ríkisins að fyrirlagi ríkissak- sóknara hefur hafið á hendur Agnesi Bragadóttur, blaðamanni Morgunblaðs- ins, vegna greinaflokks, sem birtist hér í blaðinu snemma á sl. ári um endalok Sambands ísl. samvinnufélaga sem við- skiptaveldis og uppgjör skulda Sambands- ins við Landsbanka íslands. í forystu- grein Morgunblaðsins fyrir rúmri viku var skýrt tekið fram, að greinaflokkur þessi var saminn að frumkvæði og í nánu sam- ráði við ritstjóra Morgunblaðsins, sem bera fulla ábyrgð á birtingu hans. Ekki er úr vegi að fjalla um notkun nafnlausra heimilda í fréttaflutningi í framhaldi af tillögu þingmannanna fimm. Hefur raunar á skort, að fram fari fagleg- ar umræður um ýmsa þætti í störfum blaða- og fréttamanna, ekki sízt á seinni áram, þegar fjölmiðlar hafa fengið vax- andi vægi í þjóðmálaumræðum. Um allan hinn vestræna heim a.m.k. nota blaðamenn nafnlausar heimildir í fréttaskrifum. Frægasta dæmi í okkar samtíma um notkun slíkra heimilda eru vafalaust fréttir bandaríska stórblaðsins The Washington Post um Watergate-mál- ið svonefnda, sem leiddi til afsagnar Ric- hards Nixons, Bandaríkjaforseta, fyrir rúmum tveimur áratugum. Tveir blaða- menn skrifuðu helztu fréttir blaðsins um þetta mál en kjarni þeirra var byggður á heimildarmanni, sem nefndur var á ensku „Deep Throat“ og þeir hafa að sjálfsögðu aldrei gefið upp hver var, enda ekki full- víst, að þeir hafi vitað það sjálfir. Aug- ljóst var hins vegar, að hann var annað- hvort í innsta hring ráðgjafa Nixons eða í nánum tengslum við einhvern í innsta hring. Vegferð slíkra upplýsinga er stund- um nánast ótrúleg eins og blaðamenn hér vita og þess vegna væri fráleitt að full- yrða, að „Deep Throat“ sjálfur hafi verið í nánasta ráðgjafahópi forsetans. Það sem máli skiptir hins vegar er, að Watergate-málið hefði sennilega aldrei komizt á það stig, sem raun varð á og Nixon aldrei sagt af sér, ef ekki hefðu komið til þær upplýsingar, sem þessi heimildarmaður blaðamannanna tveggja veitti þeim um það, sem gerðist innan veggja Hvíta hússins. Og væntanlega eru flestir sammála um, að það var í almanna þágu, að þær upplýsingar komust á fram- færi. „Deep Throat“ vann þess vegna verk - áreiðanlega með því að bijóta ein- hvers konar fyrirheit um þagmælsku í starfi - sem stöðvaði misnotkun á emb- ætti Bandaríkjaforseta og lögbrot þess, sem því gegndi og helztu samstarfsmanna hans. Jafnframt stuðlaði heimildarmaður Washington Post að því, að slíkur leikur yrði ekki endurtekinn í Hvíta húsinu. Fréttaflutningur Washington Post er frægasta dæmi um fréttir, sem byggðar era á nafnlausum heimildum í okkar sam- tíma. En notkun slíkra heimilda er regla en ekki undantekning í Bandaríkjunum. Birting Pentagon-skjalanna um Víetnam- stríðið átti mikinn þátt í að afhjúpa mis- gerðir bandarískra stjómvalda í Víetnam. An birtingar þeirra hefði bandarískur al- menningur alla vega ekki á þeim tíma, fengið svo glöggar upplýsingar um hvað raunverulega var að gerast í Víetnam. Þegar horft er til baka efast varla nokkur maður um, að birting skjalanna, sem rit- stjórar nokkurra helztu blaða í Bandaríkj- unum tóku ákvörðun um, þjónaði almanna hagsmunum. Það þarf tvo til, þegar um notkun nafn- lausra heimilda er að ræða. Á almanna vitorði er, að þegar fréttir birtast í banda- rískum fjölmiðlum, sem byggðar era á nafnlausum heimildum en vitnað til hátt- settra starfsmanna t.d. í Hvíta húsinu („senior official in the White House“), er heimildarmaðurinn ýmist forsetinn sjálfur eða nánustu ráðgjafar hans. Þá er um að ræða upplýsingar, sem þeir sjálfir meta svo að mikilvægt sé að komist á framfæri, en þeir geta alltaf harðneitað því að hafa sjálfir átt hlut að máli. í Bretlandi hefur þessi aðferð til upplýs- ingamiðlunar af hálfu stjórnvalda komizt á háþróað stig. Hún á rætur að rekja a.m.k. til ársins 1885, þegar „The Parlia- mentary Lobby“ varð formlega til. Þar byggist þetta kerfi á því að tiltekinn hóp- ur blaðamanna á fjölmiðlum hefur aðgang að háttsettum stjórnmálamönnum og embættismönnum, sem veita þeim með reglulegum hætti upplýsingar án þess að heimilda sé getið. í þessu felast auðvitað ákveðnar hættur fyrir blaðamenn og fjöl- miðla, þ.e. að fréttaflutningi þeirra sé stjórnað með markvissum hætti af brezk- um stjórnvöldum, sem upplýsingamar veita. Það var ein af ástæðunum fyrir því, að þegar brezka dagblaðið The Inde- pendent var stofnað af nokkrum blaða- mönnum, sem m.a. höfðu kynnzt þessu kerfi af eigin raun, tóku þeir ákvörðun um, að Independent mundi ekki verða þátttakandi í því, jáfnvel þótt það leiddi til þess að blaðið missti af einhveijum fréttum af þeim sökum. Uppreisn Inde- pendent varð til þess, að The Guardian og The Scotsman fylgdu í kjölfarið en í atkvæðagreiðslu, sem fram fór í október 1986 í hópi þeirra blaðamanna, sem þátt tóku í kerfinu, var samþykkt með 67 at- kvæðum gegn 55 að viðhalda því. Kerfi hinna nafnlausu heimilda í London er raunar svo háþróað, að Sir Bernard Ing- ham, blaðafulltrúi Margrétar Thatcher var sakaður um að nota það til þess að koma höggi á þá ráðherra í ríkisstjórn Thatcher, sem henni var í nöp við þá stundina. Nigel Lawson, fyrrverandi fjár- málaráðherra Breta kallaði það „svartan áróður“. Hér á íslandi hefur notkun nafnlausra heimilda aukizt á síðasta aldarfjórðungi í þeirri öru þróun, sem orðið hefur í fjöl- miðlaheiminum. Að sumu leyti má segja, að tengsl dagblaða hér við einstaka stjórn- málaflokka hafi byggzt á kerfi í ætt við brezka kerfið. Fyrir mörgum áratugum og fyrir tíma flestra þeirra, sem nú starfa á fjölmiðlunum var beint samráð á milli forystumanna flokka og ritstjóra dag- blaða um t.d. leiðaraskrif og pólitískan fréttaflutning. Síðan þróuðust þessi sam- skipti út í annan farveg, a.m.k. átti það við um samskipti Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins, þ.e. að samráðið var ekki um ákveðin skrif heldur almennt um þjóðmál, sem endurspeglaðist síðan með ýmsum hætti í skrifum og fréttaflutningi blaðsins. Þeim kapítula er lokið eins og allir vita. Auðvitað gat það þýtt, að Morg- unblaðið hefði ekki sama aðgang að viss- um upplýsingum og áður en forsvarsmenn þess töldu hins vegar, að aðrir hagsmun- ir skiptu meira máli. Áður fyrr fóru þessi samskipti ein- göngu fram á milli ritstjóra og stjómmála- manna, en langt er síðan blaðamenn Morgunblaðsins byggðu upp trúnaðar- sambönd við fulltrúa allra flokka þannig að upplýsingastreymið kemur nú eftir atvikum frá þeim öllum en sennilega urðu mest þáttaskil í þessum efnum á tíma vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar 1971-1974. Jafnhliða breyttum aðgangi að upplýs- ingum af vettvangi stjórnmálanna fór að bera á í íslenzkum fjölmiðlum upplýsing- um frá nafnlausum heimildarmönnum af öðrum vígstöðvum í samfélaginu. Á tím- um hins svonefnda „Geirfmnsmáls" var t.d. mikill „upplýsingaleki“, ef svo má að orði komast, úr rannsóknarkerfinu. Síðar var sama „tækni“ notuð á vettvangi við- skiptalífsins, þegar Hafskip hf. lenti í erfiðleikum, sem leiddi til gjaldþrots fyrir- tækisins. í báðum tilvikum stóðu blaða- og fréttamenn hins vegar frammi fyrir alvarlegum vanda, sem var í því fólginn, að nafnlausar heimildir geta verið vara- samar og þeim er ekki alltaf að treysta. Þegar um nafnlausar heimildir er að ræða er hægt að misnota fjölmiðla með afdrifa- ríkum hætti og líklega hafa allir fjölmiðl- ar hér kynnzt því af eigin raun. Misnotkun nafnlausra heimilda ÞAÐ ER AUG- ljóst, að notkun nafnlausra heim- ilda - og hér er að sjálfsögðu átt við heimildir, sem blaða- eða fréttamaður og/eða forsvars- menn fjölmiðils vita hver er, en ekki er gefið upp í viðkomandi fjölmiðli - getur leitt blaðamenn út á þá braut að misnota þá starfsaðferð með því að birta fréttir, sem sagðar eru á grandvelli nafnlausra heimilda en eru kannski nánast tilbúning- ur. Dæmi um þetta hafa ekki komið upp hér, svo að kunnugt sé. Hin hliðin á máhnu er sú, að það er tiltölulega auðvelt, ef menn hafa á annað borð áhuga á slíku, að misnota fjölmiðla í skjóli nafnlausra heimilda. Það tekst þá gjarnan vegna þess, að heimildar- mennirnir eru í þeirri stöðu að það er nánast óhugsandi frá sjónarmiði blaða- manna, að þeim sé ekki treystandi. Á síðustu þremur áratugum hafa ritstjórn Morgunblaðsins orðið á alvarleg mistök af þessu tagi tvisvar sinnum. I báðum tilvikum var um að ræða fréttir úr at- vinnulífinu. í báðum tilvikum voru heimildarmenn í þeirri stöðu, að útilokað var talið, að upplýsingarnar væru rang- ar. í báðum tilvikum reyndust þær vera rangar og blaðið leitaðist árum saman við að rétta hlut þeirra, sem orðið höfðu fyrir barðinu á röngum fréttaflutningi. í öðru tilfellinu var bersýnilega verið að „nota“ blaðið og kannski báðum. Með skipulegum „upplýsingaleka" er hægt að skaða bæði einstaklinga og fyrir- tæki mjög. Og dæmi eru um, að það hafí verið bæði reynt og gert. Sú tíð er að vísu liðin að langmestu leyti - og það er þakkarvert -, að upplýsingar berist út um rannsókn á viðkvæmum málum. En á þeim tíma, sem sú upplýsingamiðlun stóð í blóma gátu mörg álitamál komið á borð stjórnenda fjölmiðla. Hvað voru raunverulegar upplýsingar, sem almenn- ingur átti rétt á og hvað var markviss viðleitni til að koma höggi á einstaklinga eða fyrirtæki? Á tímum „Geirfinnsmálsins" stóðu for- svarsmenn Morgunblaðsins aftur og aftur frammi fyrir því, að margvíslegar upplýs- ingar komu í sumum öðrum íjölmiðlum, sem blaðið taldi sig ekki hafa nægilega traustar heimildir fyrir og birti þess vegna ekki. Á þeim tíma var það sakað um að birta aldrei neitt af því, sem „fólk var að tala um“. Einhvern tíma kemur að því, að ungir rannsóknarmenn í félagsvís- indum taka að sér að kanna fréttaflutning íjölmiðla frá þessum tíma og þá mun koma í ljós, að mikið af þeim „fréttum" voru úr lausu lofti gripnar. Hinum nafn- lausu heimildarmönnum var ekki að treysta. Hið sama gerðist á tímum Hafskips- málsins. Morgunblaðið treysti sér ekki til að birta ýmsar upplýsingar, sem blaðinu bárust á þeim tíma vegna þess, að það taldi, að þeim nafnlausu heimildum væri ekki að treysta. Nú er það ekki alltaf svo, að nafnlaus- ir heimildarmenn vilji vísvitandi misnota fjölmiðil til að koma á framfæri röngum upplýsingum. Á seinni árum hafa ýmsar einingar í þjóðfélaginu, t.d. fyrirtæki stækkað svo mjög, að þeir sem reynsla blaðamanna frá fyrri tíð hafði sýnt að höfðu aðgang að áreiðanlegum upplýs- ingum, hafa það ekki lengur. Minnis- stætt er fyrir allmörgum árum, að Morg- unblaðið birti tvívegis fréttir, sem for- stjóri fyrirtækis gerði alvarlegar athuga- semdir við en voru byggðar á upplýsing- um starfsmanna fyrirtækisins í þeim stöðum, að blaðið taldi ekki álitamál, að á þeim væri byggjandi. í ljós kom hins vegar að fyrirtækið var orðið svo stórt, að einungis fáir einstaklingar höfðu þá yfirsýn, sem dugði til þess að upplýsing- um væri treystandi. Hinir nafnlausu heimildarmenn töldu sig gefa blaðinu réttar upplýsingar og höfðu ekkert annað í huga. Dæmi er um, að Morgunblaðið hafi birt frétt, sem byggð var á upplýsingum frá nafnlausri heimild en nafnlausa heim- ildin kom í hádegisfréttir Ríkisútvarpsins daginn sem fréttin birtist í blaðinu, mót- mælti henni og réðst á blaðið fyrir rang- an fréttaflutning! Þetta var af vettvangi stjórnmálanna. Af því, sem hér hefur verið sagt má hins vegar sjá, að það er ekki vanda- laust fyrir blaða- og fréttamenn að nota nafnlausar heimildir í fréttum. Og blaða- m?nn fara varlega í að nota heimild, sem einu sinni hefur brugðizt. Mikilvægi nafnlausra heimilda ÞÓTT ÞANNIG séu margvíslegar hættur á ferðum fyrir fjölmiðla við notkun nafnlausra heimilda, sem bjóða bæði upp á misnotkun blaðamanna sjálfra en líka og ekki síður misnotkun nafnlausra heimildarmanna á fjölmiðl- um, er mikilvægi þess fyrir almenna upplýsingamiðlun a.m.k. hér á íslandi og í nálægum löndum ótvírætt. Raunar er hægt að fullyrða, að nú orðið er óhugs- andi að stunda almenna upplýsingamiðl- un án þess að nota slíkar heimildir nán- ast á hveijum degi. Hér er ekki endilega um að ræða ein- hver mikilsverð trúnaðarmál. Ástæðan fyrir því að heimildarmenn vilja ekki láta nafns síns getið kann að vera sú, að stjórnmálamaður, embættismaður eða forsvarsmaður fyrirtækis vilji firra sig ákveðnum óþægindum, sem hann getur orðið fyrir, ef hann er borinn fyrir frétt. Mikilvægi fjölmiðla nú orðið byggist ekki eingöngu á almennri fréttamiðlun, heldur og ekki síður á því, að þeir eru að verða eitt helzta aðhaldið í samfélag- inu. Misnotkun Nixons og hans manna á völdum forsetaembættisins er að vísu öfgafullt dæmi um það, sem getur gerzt í valdastofnunum þjóðfélagsins en engu að síður er ljóst, að hið lýðræðislega samfélag byggist m.a. og ekki sízt á stöðugu upplýsingastreymi, sem er virkt aðhald fyrir alla þá, sem fara með ein- hver völd og áhrif, hvort sem um er að ræða á vettvangi stjórnmála, embættis- mennsku, viðskiptalífs eða á öðrum svið- um þjóðlífsins. Sú staðreynd ein, að geta átt von á umfjöllun í fjölmiðlum, getur haldið aftur af mönnum. Stór fyrirtæki og smá gæta þess í vaxandi mæli að haga sér á engan hátt þannig í viðskiptum að það kalli á neikvæða umfjöllun í fjölmiðlum. Stjórn- málamenn, sem liggja undir þrýstingi frá kjósendum um fyrirgreiðslu, geta vísað til þess, að hugsanleg umfjöllun í fjöl- miðlum útiloki slíka fyrirgreiðslu og margt fleira mætti nefna. í lýðræðisþjóðfélagi á fólk rétt á upp- lýsingum og veruleikinn er sá, að margt af þeim upplýsingum mundi aldrei sjá dagsins ljós, ef ekki væri fyrir hendi sú aðferð fjölmiðla að byggja þær á nafn- lausum heimildum. Ef þær upplýsingar kæmu hins vegar ekki fram opinberlega er hætta á, að lýðræðið mundi ekki blómstra með þeim hætti, sem það gerir á Vesturlöndum. Hér eru þess vegna svo ríkir hagsmunir í húfi, að ef í ljós kæmi að íslenzk löggjöf þrengdi um of að blaða- og fréttamönnum í þessum efnum, væri óhjákvæmilegt að gera breytingar á henni. En auðvitað fylgir þessu gífurleg ábyrgð fyrir blaða- og fréttamenn og stjórnendur fjölmiðla. Hér skulu nefnd tvö dæmi úr nútímanum. Fyrir rúmlega tveimur og hálfu ári birti Morgunblaðið upplýsingar um viðhorf innan Bandaríkja- stjómar til endurskoðunar varnarsamn- ingsins á milli íslands og Bandaríkjanna. Þær upplýsingar, sem birtust á forsíðu Morgunblaðsins voru hafðar eftir nafn- lausum heimildarmönnum í Washington en þar er þessi aðferð til upplýsingamiðl- unar háþróuð eins og áður var að vikið. Þegar upp var staðið frá samningaborðinu kom í ljós, að fréttaflutningur Morgun- blaðsins var í öllum meginatriðum réttur. Þegar þessi frétt birtist í blaðinu var kalda stríðinu lokið. Þess vegna töldu forráðamenn Morgunblaðsins ekki álita- mál að upplýsingamar ættu erindi til al- mennings á íslandi. Ef slíkar upplýsingar hefðu hins vegar borizt til blaðsins á dimmustu dögum kalda stríðsins era allar líkur á, að ritstjórar blaðsins hefðu kom- izt að þeirri niðurstöðú að þær ætti ekki að birta vegna þess, að þær gætu komið Sovétríkjunum og fylgifískum þeirra að gagni og ógnað öryggi og hagsmunum Islendinga sjálfra. Þannig þarf að meta aðstæður hveiju sinni og slíkt mat getur verið afstætt. Hitt dæmið snýr að hinum umdeilda greinaflokki um Samband íslenzkra sam- vinnufélaga og Landsbanka íslands. Ef Sambandið hefði verið í fullum rekstri á þeim tíma, sem umræddar greinar lágu fyrir, eru verulegar líkur á því, að Morgunblaðið hefði ekki birt þær a.m.k. ekki á þann veg, sem gert var. Eitt er að birtá sögulegar upplýsingar um enda- lok og skuldaskil í rekstri fyrirtækis, sem í eina tíð var stærsta fyrirtæki á íslandi. Annað að birta slikar upplýsingar um fyrirtækið í fullum rekstri, sem getur skaðað hagsmuni þess og kallað stórfellt skaðabótamál yfír þann fjölmiðil, sem upplýsingarnar birtir. Þegar um er að ræða í fyrsta lagi fyrir- tæki, sem er hætt öllum almennum rekstri, í öðru lagi fyrirtæki, sem sagt var að væri í eigu tugþúsunda íslend- inga, og í þriðja lagi hagsmuni þjóð- banka, sem varðaði hag tugþúsunda við- skiptamanna hans var óhugsandi að líta á málið á annan veg en þann, að það varðaði almanna hagsmuni miklu, að þessar upplýsingar yrðu birtar opinber- lega. Aðrir hagsmunir skipta auðvitað máli. Á dögum þorskastríðanna höfðu íjölmiðl- ar undir höndum upplýsingar um marg- vísleg málefni, sem hefðu getað komið Bretum að gagni og engum datt í hug að birta þá, en hafa ýmist komið fram eða eiga eftir að koma fram, án þess að nokkram þyki það annað en eðlilegt. Það er mikilvægt að bankaleynd sé haldin. En mikilvægi þess snýr að viðskiptum fyrirtækja í fullum gangi svo og einstakl- inga. í því tilviki, sem orðið hefur tilefni þessarar umfjöllunar, er hins vegar um að ræða sögulegar staðreyndir um al- mannasamtök og banka I almannaeigu. Upplýsingar, sem engan hafa skaðað og engan geta skaðað. Þegar á heildina er litið hljóta þeir al- mannahagsmunir að vera mjög miklir að starfsmenn fjölmiðla geti sinnt þeirri skyldu sinni að miðla upplýsingum til al- mennings um hvaðeina, sem er að gerast í samfélagi okkar. „í lýðræðisþjóðfé- lagi á fólk rétt á upplýsingum og veruleikinn er sá, að margt af þeim upplýsingum mundi aldrei sjá dagsins ljós, ef ekki væri fyrir hendi sú aðferð fjölmiðla að byggjaþærá nafnlausum heim- ildum. Ef þær upplýsingar kæmu hins vegar ekki fram opin- berlega er hætta á, að lýðræðið mundi ekki blómstra með þeim hætti, sem það gerir á Vest- urlöndum.“ v

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.