Morgunblaðið - 11.01.1997, Blaðsíða 37
MORGUNBLAÐIÐ
LAUGARDAGUR 11. JANÚAR 1997 37
í störf björgunarsveitarinnar og að
auki vélfræðifræðslu og þekkingu
á skellinöðrum og síðar bílum hjá
Erni. Hann var óþreytandi við að
leiðbeina þeim og hjálpa og ræða
áhugamál þeirra. Var þá ekki verið
að spyrja um tíma eða fyrirhöfn.
Björgunarsveitin Víkveiji þakkar
Erni af alhug áratuga starf innan
sveitarinnar.
Þó að Örn starfaði með einvala
liði á verkstæði Kaupfélags Skaft-
fellinga og lengi framan af undir
annarra verkstjórn varð það næst-
um að reglu þegar komið var þang-
að með bilaða hluti eða vandamál
að viðkvæðið var: „Sýndu Erni
þetta,“ eða: „Talaðu við Örn.“
Svo fjölhæfur var hann, víðlesinn
og fijótur að komast inn í hvernig
hlutir virkuðu og voru uppbyggðir
að þar virtist allt liggja fyrir honum
sem opin bók. Var þar sama hvort
hann ræddi við rafmagnsverkfæð-
inga eða vélaverkfræðinga og held
ég að enginn hafi talið sér minnkun
í að þiggja af honum leiðbeiningar
eða ráð, enda bar hann með sér
hógværð, lítillæti og hjálpsemi í
öllu sínu hátterni.
Þar sem ég starfaði lengi við
rekstur þungavinnuvéla urðu sam-
skipti mín við verkstæðismenn
Kaupfélagsins mikil. Þegar unnin
var vaktavinna á þessum vélum og
eitthvað bilaði var óhjákvæmilegt
að fá gert við hlutina strax og
mörg urðu sporin mín til þessara
manna og sér í lagi til Arnar, jafnt
að nóttu sem degi.
Ekki var aðeins að gera við hlut-
ina heldur þurfti oft að endursmíða
þá, endurbæta og breyta og þar var
Örn í essinu sínu og ekki kvartaði
hann eða barmaði sér að ég væri
núna að spilla nætursvefni eða frí-
tíma hans, heldur reyndi hann frek-
ar að tala kjark í oft niðurbeygðan
og þreyttan mann.
Þegar mér bauðst eitt sinn að
fara á vélasýningu til Bandaríkj-
anna fékk ég því til leiðar komið
að Erni var boðið líka. Þetta var
mikil fræðsla fyrir okkur báða. Ég
sá þarna fjölda tækja, bæði stór og
smá og ýmsa möguleika til hvers
mætti nota þau, en Örn sá ekki
einungis það, heldur einnig hönnun
þeirra, uppbyggingu og hvernig þau
virkuðu að innri gerð. Á þessum
tölvutímum þegar talað er um af-
kastagetu, vinnsluminni o.fl. í
megabætum, verður mér oft hugsað
til þess hversu miklu stærra hans
geymslu- og vinnsluminni var, en
okkar flestra.
Eftir að Kaupfélagssmiðjurnar
voru lagðar niður rak Örn lengst
af verkstæði á eigin vegum í gamla
Halldórsverslunar-húsinu sem hann
keypti. Þangað komu Mýrdælingar
og fleiri með allskonar tæki til við-
gerða, allt frá rafeindatækjum til
ýmiskonar véla, en mest vann hann
þó að viðgerðum á kæliskápum,
frystikistum og rafmótorum. Einnig
var mikið um það að fólk kæmi til
hans með ónýta hluti, ef hann gæti
notað eitthvað úr þeim til annarra
viðgerða. Það vildi því safnast mik-
ið á verkstæðið og vinnuborðið, sem
í augum leikmanns virtist drasl, en
það var sama hversu haugurinn var
stór, ef Örn vantaði eitthvað vissi
hann nákvæmlega hvar það var að
finna. Margt ófáanlegt varastykkið
var dregið upp úr þessum haug og
notað og var þá ekki verið að verð-
leggja það eða tíunda hversu mikið
þetta hefði sparað viðkomandi.
Þá eru ótalin ýmis önnur áhuga-
mál, rannsóknir og verkefni, sem
Örn vann að ásamt fleirum síðustu
árin á sviði rafmagnsfræðinnar og
rafsegulstrauma, sem ég er ekki
fær um að segja frá.
Örn var reglumaður og lifði
lengst af piparsveinslífi, en fyrir sex
árum hóf hann sambúð með Guð-
laugu Guðlaugsdóttur og giftu þau
sig nokkru síðar.
Þó að örn kvartaði ekki undan
piparsveinslífínu, fór það ekki fram-
hjá neinum að með Guðlaugu hafði
hann eignast ástvin og félaga, sem
bjó honum fallegt og ástríkt heim-
ili, hjúkraði honum og studdi í erf-
iðri baráttu við sjúkdóm sem að
síðustu hafði yfírhöndina.
Reynir Ragnarsson.
MINNINGAR
AGUSTINGI
SIG URÐSSON
+ Ágúst Ingi Sig-
urðsson fæddist
í Reykjavík 15.
október 1957. Hann
lést á heimili sínu
5. janúar síðastlið-
inn. Foreldrar Ág-
ústs eru hjónin Sig-
urður Ágústsson og
Erla Eyjólfsdóttir.
Eiginkona Ág-
ústs er Hugrún E.
Bjarnadóttir, börn
þeirra eru Sigurð-
ur, Jónína Bjarney
og Selma.
Útför Ágústs fer
fram frá Selfosskirkju í dag,
og hefst athöfnin klukkan
15:30.
Hinsta kveðja frá systkinum
„Þegar þú ert sorgmæddur, skoð-
aðu þá aftur huga þinn, og þú
munt sjá, að þú grætur vegna þess,
sem var gleði þín.“ (Spámaðurinn.
Kahlil Gibran).
Elsku bróðir. Morguninn sem þú
fórst þá fraus. Þetta frost sem boð-
aði enda hlýindanna boðaði líka
komu sorgarinnar í hjörtu okkar.
Við vorum öll í heljargreipum þess
doða sem fylgir svo miklum missi.
Þú svo heilbrigður og aðeins
hálfnaður á lífsgöngunni, varst hrif-
inn á brott frá fjölskyldu þinni og
vinum. Hugrún og börnin voru þér
allt, því fjölskyldan og heimilið voru
það sem þú lifðir fýrir. Nú ertu
horfinn og söknuður þeirra er sár.
Við bíðum þess nú að ylur minn-
inganna bræði ísinn í hjörtum okkar
og að máttvana reiðin víki fyrir
gleði, þeirri gleði sem þú veittir
okkur í lífi þínu.
Vertu sæll, elsku bróðir.
Eygló, Margrét, Hrönn
og Eyjólfur Már.
Það er með söknuði sem við kom-
um saman tíl að minnast látins vin-
ar okkar, Ágústs Inga Sigurðsson-
ar, sem svo snögglega var kallaður
á brott úr þessu lífi, langt um aldur
fram.
Kynni okkar af Gústa, eins og
hann var ávallt kallaður, hófust á
gagnfræðaskólaárum okkar, sem
oft voru mjög fjörug og skemmti-
leg. Og við minnumst margra góðra
stunda, t.d. er hann fékk far með
skólabílnum okkar niður í sveitina
sína, eins og hann kallaði hana, en
það var í sömu sveit og við vorum
uppalin í.
Þegar Gústi varð sautján ára
hafði hann þegar eignast. sinn fyrsta
bíl. Uppfrá því hittumst við oftar
og vináttan varð tryggari. Oft var
farið á rúntinn að ógleymdum öllum
ballferðunum og útihátíðunum sem
við fórum á saman. Oft var leitað
til Gústa þegar eitthvað bilaði í bíl-
unum hjá okkur og stóðu þá bíl-
skúrsdyrnar á Engjavegi 11 ávallt
opnar og þar fyrir innan drengur
góður sem hafði ráð undir rifi hverju
og var það ætíð að við leituðum til
Gústa ef við réðum ekki við það sem
við vorum að gera.
Gústi var glaðlyndur og hress í
bragði, tryggur og traustur vinum
sínum. Það kom vel í ljós þegar
alvara lífsins tók við, er hann stofn-
aði sitt heimili og eignaðist fjöl-
skyldu, hve Gústi var ástkær eigin-
maður og faðir og sinnti fjölskyldu
sinni af mikilli alúð, án þess þó að
gleyma vinum sínum sem ávallt
voru velkomnir á heimili þeirra
Gústa og Hugrúnar.
Kæri vinur, með þessum fátæk-
legu orðum þökkum við þér sam-
fylgdina. Minningin um góðan vin
lifir.
Elsku Hugrún, Sigurður, Bjarney
og Selma, foreldrar, systkini,
tengdamóðir og aðrir ástvinir, við
sendum ykkur okkar innilegustu
samúðarkveðjur. Megi Guð styrkja
ykkur í sorginni.
Karl, Kári og Gyða.
Það var svartur
sunnudagur í hjörtum
okkar hjóna hinn 5.
janúar síðastliðinn, eft-
ir að hafa fengið þær
fréttir að hann Gústi
vinur okkar væri dáinn.
Enn einu sinni spyr
maður sömu spurning-
arinnar. Hvers vegna
hann?
Ég kynntist Gústa á
þorrablóti sem föður-
fjölskylda konunnar
minnar hefur haldið
árlega í mörg ár. Enn
þann dag í dag er mér
minnisstætt þetta fyrsta þorrablót
mitt, ég með konunni minni að hitta
fjölskylduna hennar í fyrsta sinn,
þá nokkuð feiminn við allt þetta
ókunnuga fólk. Það var mikið sung-
ið og spilað enda mikit tónlistarfjöl-
skylda þar á ferð. Gústi kom til
mín, settist hjá mér og sagði á sinn
létta og hlýlega hátt: „Sæll, ég
heiti Gústi og þú ert Kiddi og ert
maðurinn hennar Jónínu. Syngur
þú ekki?“ 0g síðan rak hann upp
þennan sérstaka smitandi hlátur
sinn, sem gat fengið þunglyndustu
menn til að hlæja með honum.
Þannig var Gústi, alltaf glaðvær
og síbrosandi, alveg sérstakur mað-
ur, heill í gegn, hógvær og hlýr.
Alls staðar þar sem hann kom
breyttist andrúmsloftið í gleði sem
hann smitaði út frá sér á svo eðlileg-
an og látlausan hátt og með
ógleymanlegum smitandi hlátri. Við
eigum ekki eftir að heyra hann
hlæja og skemmta sér með okkur
á komandi þorrablótum. En hann
mun þó ætíð vera með okkur í minn-
ingunni.
Við erum þess fullviss að nú rík-
ir gleði fyrir handan, Gústi er kom-
inn heim, þangað sem leiðir okkar
allra munu að endingu liggja. Þar
hefur hans verið mikið saknað, enda
kallaður héðan langt fyrir aldur
fram. Hann hefur lokið því ætlunar-
verki sem skaparinn ætlar okkur
öllum á þessu lífi og skilað því með
miklum sóma.
Okkar hryggð og sorg er þó hjóm
eitt í samanburði við þá gífurlegu
sorg sem nú er lögð á elsku Hug-
rúnu og börn þeirra, Sigurð, Jónínu
Bjarneyju og Selmu, foreldra hans
og aðra ástvini. Megi aigóður Guð
vera með ykkur og gefa ykkur styrk
á þessum erfiðu stundum.
Að lokum þökkum við hjónin
Gústa fyrir þær gleðistundir sem
hann hefur deilt með okkur.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
(V. Briem.)
Kristinn og Jónína.
Sú harmafregn barst út sl.
sunnudag að Ágúst Ingi Sigurðsson
hefði orðið bráðkvaddur þá um
morguninn. Gústi starfaði hjá
S.B.S. hf. síðastliðin 14 ár, fyrst
og fremst við viðgerðir og viðhald
bifreiða á verkstæði félagsins, en
einnig greip hann af og til í akstur
ef á þurfti að halda.
Þótt Gústi væri lærður bifreiða-
smiður hafði hann aflað sér yfir-
gripsmikillar þekkingar á öðrum
tæknigreinum og var t.d. lykilmaður
í öllu viðhaldi varðandi raifmagn og
fjarskiptatækni í bifreiðum félags-
ins. Gústi vílaði ekki fyrir sér að
takast á við hin flóknustu viðfangs-
efni og var alltaf jafn yfirvegaður
þótt verkefnið virtist snúið. Dáðust
menn oft að þeirri þolinmæði sem
hann sýndi við úrlausn flókinna
vandamála og gat hann þannig iðu-
lega lagfært liluti sem aðrir töldu
ónýta eða illframkvæmanlega.
Gústí var einstaklega dagfars-
prúður og skapgóður maður. Við
hittum hann brosandi og hressan
að morgni sem kvöldi og þannig
minnumst við hans. Það var sama
á hveiju gekk, alltaf hélt hann ró
sinni og sýndi öðrum prúðmennsku
í framkomu. Þrautseigju hans var
viðbrugðið og gekk hann aldrei frá
óleystu verkefni, sama hvort það
var stórt eða smátt. Gústi var gott
dæmi um fyrirmyndarstarfsmann
sem vildi leysa úr öllum hlutum eins
vel og mögulegt var og helst aðeins
betur.
Hans verður sárt saknað hjá fyr-
irtækinu, ekki einungis vegna sinna
góðu mannkosta, heldur ekki síður
vegna þess að hann bjó yfir djúpri
og mikilli þekkingu á ýmsum svið-
um, tengdum bifreiðum fyrirtækis-
ins, sem aðrir höfðu ekki sett sig
eins vel inn í vegna þess að þeir
treystu á Gústa og hans sérþekk-
ingu.
Á þessari sorgarstundu sendum
við eiginkonu hans, börnum, for-
eldrum og öðrum fjölskyldumeðlim-
um okkar innilegustu samúðar-
kveðjur og biðjum þeim guðs bless-
unar.
Blessuð sé minning Ágústs Inga
Sigurðssonar.
Stjórnendur SBS hf.
Það kom eins og þruma úr heið-
skíru lofti þegar sú frétt barst okk-
ur að hann Gústi okkar væri allur.
Það vakna upp spurningar um rang-
læti lífsins, en það er sagt að þeir
sem Guð elskar deyi ungir. Því reyn-
um við að trúa því að Guð hafi
valið hann Gústa okkar til að sinna
mikilvægum störfum hjá sér vegna
þess hversu góðan mann hann hafði
að geyma.
Síðastliðin þrettán ár starfaði
Gústi hjá SBS. Litum við vinnufé-
lagarnir á hann sem ómissandi per-
sónu bæði í starfi og leik. Sama
var hvað hann tók sér fyrir hend-
ur, öll verk vann hann af vand-
virkni. Þegar við vinnufélagarnir
gáfumst upp við einhver verk á
verkstæðinu gátum við alltaf leitað
til Gústa sem ávallt fann lausnir á
málunum. Kölluðum við hann því
oft Gústa góða. Hann vann öll verk
með jafnaðargeði og ávallt var stutt
í hans blíða bros sem við þekktum
svo vel.
Gústi tók þátt í félagsstarfi okk-
ar og var hann búinn að sitja í
stjórnum og nefndum í starfs-
mannafélaginu. Einkum var hann
virkur _ í fjölskylduskemmtunum
okkar. í vorferðum okkar með börn-
in var hann ávallt liðtækur við grill-
ið og tilbúinn í fótbolta og aðra
leiki með börnunum á eftir.
Við fráfall Gústa er stórt skarð
höggvið í hóp okkar félaganna. Við
eigum eftir að sakna hans en hann
mun þó lifa áfram með okkur í
minningunni.
Við vinnufélagarnir viljum votta
fjölskyldu hans okkar innilegustu
samúð og biðjum Guð að styrkja
hana og styðja i þessari miklu sorg.
Vinnufélagar SBS.
Hátíð ljóssins er að ljúka, nýtt
ár hafið og annasömu starfsári
Karlakórs Selfoss lokið. Miklar
væntingar eru bundnar við nýbyijað
ár og menn horfa björtum augum
til framtíðar.
Skyndilega er eins og ekkert hafí
tilgang, fregnin berst eins og eldur
um sinu og enginn trúir eigin eyrum.
Hann Gústi er dáinn, ungur maður
í blóma 'lífsins kvaddi lífsvist sína
og eftir standa aðstandendur og fé-
lagar þrumu lostnir og máttvana.
Ágúst Ingi Sigurðsson var félagi
í Karlakór Selfoss undanfarin ár
og gegndi þar ýmsum trúnaðar-
störfum. Alltaf mátti treysta á
Gústa, hann var boðinn og búinn
til að aðstoða hvenær sem þörf var
á og ljúfur og léttur gekk hann til
verka, hvers manns hugljúfi og stoð
og stytta félaga sinna.
Mikill er söknuður félaganna, þó
söknuður sá sé hjóm eitt miðað við
þá sorg sem eiginkona og börn
bera. Þeim vottum við okkar dýpstu
samúð. Gústa kveðjum við með
söng og biðjum guð að geyma hann.
Sárt er vinar að sakna.
Sorgin er djúp og hljóð.
Margar úr gleymsku rakna.
Svo var þín samfylgd góð.
Daprast hugur og hjarta.
Húmskuggi fél! á brá.
Lifir þó ljósið bjarta,
lýsir upp myrkrið svarta.
Vinur þó félli frá.
Góða minning að geyma
gefur syrgjendum fró.
Til þín munu þakkir streyma.
Þér munum við ei gleyma.
Sofðu í sælli ró.
Kveðjur frá
Karlakór Selfoss.
Það er erfitt að setjast niður og
ætla að skrifa kveðjuorð til hans
Gústa, því það er svo fjarri því að
maður trúi þessari helfregn, né
sætti sig við orðna hluti. Hvers
vegna Gústi? Hann sem var í blóma
lífsins, undi glaður og sæll við sitt
með sinni fjölskyldu, var hvers
manns hugljúfi, virkur i félagsmál-
um og ávallt með rétt svör á réttri
stundu. Glensið var aldrei langt
undan og húmorinn alveg á réttum
stað. Hann var konu sinni sem klett-
ur og hef ég sjaldan séð samrýnd-
ari hjón og samhentari fjölskyldu.
Börnum sínum var hann ástríkur
faðir. Tengdamóður sinni og for-
eldrum var hann mikil hjálparhella
og öllum frændgarðinum sannur og
traustur vinur.
En þegar stórt er spurt er fátt
um svör. Við verðum að treysta því
að honum hafí verið ætlað annað
hlutverk þarna uppi hjá þeim sem
öllu ræður. Á þann eina hátt verður
hægt með tímanum að sætta sig
við hið ótímabæra fráfall hans
Gústa.
Við Hugrúnu, Sigga, Bjarneyju
og Selmu getum við aðeins sagt:
Megi guð styrkja ykkur og hugga
á þessari stundu og með þessum
orðum þökkum við Gústa fyrir allt.
Vottum öllum aðstandendum okkar
dýpstu samúð.
Blessuð sé minning hans.
Fjölskyldan Grashaga 12.
Hann Gústi okkar er dáinn. Þessi
ótrúlegu orð eiga eftir að hljóma í
eyrum okkar lengi. Hver trúir þvi
að stálhraustur maður eins og Gústi
var, en Gústi var hann kallaður af
ættingjum og vinum, sé hrifinn
burt úr lífi okkar svona skjótt, langt
um aldur fram. En það er víst að
máltækið sannar sig alltaf, „engin
ræður sínum næturstað".
Við viljum minnast Gústa í
nokkrum orðum eins og við fengum
að kynnast honum og geymum
minninguna um hann í hugum okk-
ar.
Gústi var rólegheita- og sóma-
maður mikill í alla staði. Félags-
lyndur og góður húmoristi svo ætíð
geislaði af honum, hann átti ekki í
vandræðum með að skella sér í hlut-
verk leikarans ef svo bar undir og
var alltaf kátur og hress.
Gústi var mikill fjöiskyldumaður
og hjálpsamur og ætíð var hann
tilbúinn að rétta öllum hjálparhönd.
Hann var handlaginn með eindæm-
um og hinn besti söngmaður og
mesti söngunnandi. Sérstaklega
fannst okkur Gústi hafa fallega og
góða borðsiði og höfum við átt það
til að minnast á það, „að taka Gústa
til fyrirmyndar“, þegar við höfum
viljað taka það rólega við matar-
borðið. Allstaðar var Gústi vel lið-
inn, hvar sem hann kom og er okk-
ur mikill heiður að hafa fengið að
kynnast honum.
Við viljum þakka þér samfylgd-
ina, elsku Gústi okkar. Um leið og
við kveðjum svo góðan dreng sem
þig, kemur efst í huga okkar lítið
minningarljóð sem tengdafaðir þinn
orti fyrir nokkrum árum.
Minningin er mild og góð,
man ég alúð þína,
stundum getur lítið ljóð,
látið sorgir dvina.
Elsku Hugrún okkar, Siggi,
Bjarney og Selma, við biðjum guð
almáttugan að styrkja ykkur og
foreldra hans, systkini og önnur
ættmenni og vini í þessari miklu
sorg.
Guðmundur Steindórsson
og fjölskylda.