Morgunblaðið - 11.01.1997, Blaðsíða 41

Morgunblaðið - 11.01.1997, Blaðsíða 41
MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR LAUGARDAGUR 11. JANÚAR 1997 41 menn með hesta og vögur sunnan frá Jörva í Flysjuhverfi, og skyldi haldið að Hrauni í Helgafellssveit (Berserkjahrauni) og fluttu þeir með sér Víga-Styr dauðan. Þegar kom hjá Eiðhúsum gerðist kista Víga-Styrs svo þung að hana varð að skilja þar eftir þar til síðar, en varða var hlaðin þar og mun hafa staðið fram á tíma vegagerðar, en varð þá tomtímd með öllu af al- kunnu hugsunarleysi. Mér hafa lengi legið landmunir á því, að vita nákvæmlega hvar þessi varða stóð, ogjafnvel að því að láta hlaða hana upp. Hefi þó ekki haft kjark til þess að nefna þessháttar við nokkurn mann. Síðast er ég kom að Litlu-Þúfu, spurði ég Ingveldi hvort hún vissi hvar varðan hefði staðið. Hún hélt það nú, og við bundum fastmælum að ég sækti hana einhvern góðan veðurdag og skyldi hún benda mér á staðinn. Það er svo sleifarlagi undirrit- aðs að kenna að af þessu varð ekki. Ætli að með Ingveldi hafi ekki horfið síðasta vitnið sem gat borið um það hvar Styrsvarðan stóð? Nú er litli, og að sumu leyti fornlegi bærinn í Litlu-Þúfu auð- ur. Þar þótti Ingveldi gott að una, ein sér, eða með öðrum. Gott er að sofna við nið Laxár á vor- og sumarmorgnum; jafnvel gott að sofna við dyn og gný veðra ofan úr Eiríksdalnum á vetrum, enda þótt iðulega fylgdu skari og haglkorn. Vakna síðan að morgni og ganga út „undir blæ himins blíðan“ - eða stríðan - eftir atvik- um, til sinna daglegu og árstíða- bundnu starfa. Þessi stórbrotna heiðurskona er til grafar borin í dag, að þeirri kirkju sem hún lét sér svo annt um, og mun bera vitni um stórhug hennar. Vonandi um langa hríð. Þessar línur eru lítill þakklætis- vottur frá sveitungunum fyrir langa samfylgd og fylgja með samúðarkveðjur til þeirra sem næst henni stóðu. Erlendur Halldórsson. Það er búin að vera svo einstök veðurblíða það sem af er þessum vetri, að það á sér vart hliðstæðu. Margir hafa lýst upp húsakynni sín núna á jólaföstunni bæði utan sem innan dyra. En þegar hin mikla hátíð ijóss og friðar stóð sem hæst kvaddi þennan heim heiðurs- konan Ingveldur í Litlu-Þúfu. Margs er að minnast þegar hugsað er til baka um okkar kynni í gegnum árin, þó svo ég sé ekki orðinn gamall. Inga í Þúfu, eins og hún var oftast kölluð, var við fyrstu kynni nokkuð hrjúf vegna snaggaralegra tilsvara, eins var fas hennar sér- stakt og tóku ókunnugir sérstak- lega eftir því þó svo við sem þekkt- um hana vissum betur því þarna fór sérstakur persónuleiki sem hafði sínar skoðanir á hlutunum, sem oftast voru vel ígrundaðar af hennar hálfu. Þeir sem þekktu Ingu vissu vel að þarna var mjög vel gefin og góð kona, sannkallað náttúrubarn. Snyrtimennska, nægjusemi, lagni og ást á dýrum voru hennar aðalsmerki sem bóndi í Litlu-Þúfu. Eg tel mig mjög lánsaman að hafa kynnst henni frá barnæsku og síð- a.n áfram í gegnum árin. Núna, einkum síðustu ár, fól hún mér ýmis smá viðvik fyrir sig, sem ég er stoltur af að hafa fengið að vinna fyrir þessa heiðurskonu. Inga og Ásta systir hennar sköpuðu sér nafn í listasögunni með sinni höfðinglegu gjöf sem þær færðu Fáskrúðarbakkakirkju fyrir tveimur árum með aðstoð og útfærslu Benedikts Gunnarssonar listmálara. Gluggaskreyting kirkjunnar segir allt sem þarf að segja um þann hug sem hún bar til kirkjunn- ar sinnar. Ekki er hægt annað en minnast á vinkonu hennar Abelínu sem bjó hjá henni í tugi ára. Það fór vel á með þeim, þær voru samtaka við öll störf bæði inni sem úti. En nú síðustu ár hefur Lína verið á Dval- arheimili aldraðra í Borgarnesi vegna heilsubrests. Það var gott að koma í Litlu- Þúfu og þiggja nýbakaðar pönnu- kökur og kaffi í litla, notalega eld- húsinu hjá þeim Ingu og Línu. Þessi fátæklegu orð mín eru þakklæti og virðing frá foreldrum mínum og mér við hina einstöku konu, Ingu í Þúfu, sem við kveðjum í dag. í gegnum áranna rás ríkti alltaf mikii vinátta og hjálpsemi hjá fólk- inu á Borg og Litlu-Þúfu, sem aldr- ei bar skugga á. Það sem þú hefur skilið eftir þig er ómetanlegt og verður hluti af sögu þjóðarinnar. Hafðu þökk fyrir allt í gegnum árin. Ég sendi Astu Láru, Abelínu, skyldfólki hennar og öðrum að- standendum hugheilar samúðar- kveðjur. Auðunn Pálsson. Ingveldur Jóhannsdóttir í Litlu- Þúfu lést á heimili Ástu" systur sinnar aðfaranótt tuttugasta og sjöunda desember sl., áttatíu og sjö ára að aldri. Aðeins tæpri viku áður var hún Inga mín í stúdent- sveislu dóttur okkar hjóna, vel ern og sjálfri sér lík. I vor verða hins vegar liðin fjörutíu og sex ár frá því ég kom í fyrsta sinn til sumardvalar í Litlu-Þúfu í Miklaholtshreppi, þá aðeins fjögurra ára drengur, hálf- hræddur og einmana. Vandalausir voru beðnir fyrir snáðann og man ég eftir óloftinu í fimm klukku- stunda rútuferðinni vestur á Snæ- fellsnes, en þá tíðkuðust reykingar í áætlunarbifreiðum. Það var því heldur lágt risið á kappanum þeg- ar komið var á ókunnan bæ, hjá ókunnu fólki og heimurinn allur ókunnuglegur. En Inga hafði næman skilning á hugarástandi þess nýkomna og sótti alveg ein- dæma fallega og blíða kisu og þornuðu tárin þá fljótlega. Það var mitt lán í lífinu að vera kominn í sumarvist til þeirra Jó- hanns, Ingu og Línu í Litlu-Þúfu og urðu sumrin ellefu talsins að viðbættum tveimur vetrum. Á þessum litla hreinlega bæ ríkti andrúmsloft sem ómetanlegt er að alast upp í. Hlýja og umhyggja ríkti í samskiptum heimilisfólksins og einnig heiðarleiki, festa og áreiðanleiki, sem hún Lína krydd- aði oft með léttu spaugi og sak- lausri stríðni. Heyskaparaðferðir voru á þess- um árum frumstæðar miðað við nútímamáta, en vinnusemi bætti þar margt upp. Þó hélt tæknin að hluta til innreið sína í Litlu-Þúfu, eftir því sem lítil bújörð gat staðið undir, en töfrar eldri en jafnframt erfiðari heyskaparhátta voru jafn- an til staðar meðan búskapur hélst. Eftir lát Jóhanns föður síns stjórnaði Inga búskapnum með röggsemi og af skörungsskap. Hún var skarpgreind kona og ákveðin, jafnvel hvöss ef með þurfti, en alltaf réttsýn og réttlát. Mér verður ætíð minnisstæður skilningur Ingu á náttúru og dýra- lífi, enda naut ég góðs af. Hún kenndi mér að þekkja aila fugla sem til sást og þá sérstaklega að taka eftir hugarástandi þeirra í harðri lífsbaráttu. Gleði- og ham- ingjusöngur einkennir vorhljóð þeirra, en þegar líður á sumarið og ábyrgðin vex, heyrast oftar áhyggjufullir tónar og trega- blandnir frá þessum ljúfu nágrönn- um, sem voru Ingu svo afskaplega hugleiknir. Þessi árvissa endur- speglun mannsævinnar er mín sumarmynd frá Litlu-Þúfu. Við hjónin eigum margs að minnast frá heimsóknum okkar til Ingu og Línu síðastliðin þrjátíu ár. Síðustu árin bjó Inga ein og það var eftirtektarvert hvað hún fylgd- ist vel með þjóðmálum til æviloka. Raunverulegt jafnrétti kynjanna og ölmusustaða íslenskra bænda voru málefni sem hún talaði tæpi- tungulaust um.. Inga bjó síðustu æviárin ein í Litlu-Þúfu og naut þar góðra granna í sveitinni. Hún hélt sjálf- stæði sínu og reisn til dauðadags. Það voru forréttindi að fá að kynnast og eiga lífsgöngu með jafn heilsteyptri manneskju og henni Ingu. Sterkur persónuleiki hennar snart alla sem kynntust henni. Þakka þér fyrir lífsnestið sem þú gafst mér, Inga mín. Hún Lína bað mig fyrir orð til þín á þessa leið: Elsku vinkona. Nú hafa leiðir okkar skilið um stund. En ég kvíði ekki endurfund- um og veit að þú verður búin að búa vel í haginn fyrir okkur báð- ar, þegar við hittumst aftur á nýj- um stað. Þín Lína. Við hjónin vottum Ástu og Línu innilega samúð okkar. Gylfi og Hjördís. Að morgni 27. desember bárust þær fréttir að Ingveldur Jóhanns- dóttir í Litlu-Þúfu væri látin. Ing- veldur var 87 ára gömul þegar hún lést en hafði haldið góðri heilsu til hins síðasta. Með Ingveldi er gengin merk kona og er mér ljúft að minnast margra góðra stunda sem við átt- um saman. Hún bjó yfir miklum fróðleik frá fyrri árum og hafði gaman af að segja frá liðnum tíma, ekki bara erfiðleikum heldur einn- ig ýmsu skemmtilegu um menn og málefni. Ingveldur hafði undanfarin ár eytt jólahátíðinni hjá Ástu systur sinni í Reykjavík og svo var einnig nú. Ég kom til Ingveldar daginn áður en hún héit suður. Þá var allt tilbúið til ferðarinnar, hvít- skúrað eldhúsgólf og hver hlutur á sínum stað. Hún var full tiihlökk- unar og ekki vildi hún missa af stúdentsveislu sem hún var boðin til rétt fyrir hátíðarnar. Ingveldur hafði orð á því að hún ætlaði að vera róleg fyrir sunnan fram yfir þrettándann og víst dvaldi hún þar svo lengi, en koma hennar heim í sveitina kæru er með öðrum hætti en ætlað var. Inga var virk í starfi kvenfélags- ins Liljunnar meðan kraftar leyfðu og var þar féhirðir til margra ára. Hún var hreinskiptin og sagði ætíð meiningu sína. Hún hafði gaman af mannfagnaði ýmiskonar og naut þess að fara í ferðalög ef það bauðst. Ekki lét hún ganga á eftir sér að vera með í konfekt- gerð hjá kvenfélaginu nú í byrjun desember. Búskap stundaði Ingveldur af myndarskap ásamt Línu (Abelínu Kristjánsdóttur) til ársins 1991. Þá flutti Lína á Dvalarheimili aldr- aðra í Borgarnesi þar sem hún býr nú, tæplega 91 árs gömul. Þegar árin færðust yfir fargaði Ingveldur fénu sínu en ekki var það sársaukalaust fyrir búkonu eins og hana. Þá talaðist þannig til að við Halldór tókum fáeinar kindur sem hún hafði uppáhald á í vetrarfóðrun og var það okkur sönn ánægja að geta veitt henni þá gleði. Var vel tekið á móti ánum og lömbunum á vorin þegar þeim var skilað í sumarhagana, sem voru túnið í Litlu-Þúfu. Með ánum þótti Ingu gott að fá heytuggu í poka svo hún gæti gefið þeim nokkur strá í gömlu fjárhúsunum, sem höfð voru opin fyrir ærnar yrði veður slæmt. Engum gat Ing- veldur iiðið slæma meðferð á dýr- um, sama hvort það var búpening- ur eða gæludýr. Ingveldur var ógift og barniaus en ófá voru börnin, skyld og óskyld, sem nutu sumardvalar í Litlu-Þúfu. Við Halldór vottum Ástu systur hennar og öðrum ættingjum sam- úð okkar. Einnig Línu, sem nú hefur misst sína kæru vinkonu. Blessuð sé minning Ingveldar í Litlu-Þúfu. Inga Guðjónsdóttir, Minni-Borg. EINAR JÚLÍUSSON Einar Júlíusson ' fyrrverandi byggingafulltrúi í Kópavogi var fæddur í Hafnar- firði 14. febrúar 1915. Hann lést á Hjúkrunarheimil- inu Sunnuhlíð 4. janúar sl. Júlíus var einkabarn for- eldra sinna, Júlíus- ar Þorlákssonar og Herdísar Stígs- dóttur. Einar kvæntist 17.3. 1945 Ólafíu G. Jóhannesdóttur, f. 10.12. 1913, d. 3.9. 1994. Börn Einars og Ólafíu eru Helga Sigurrós, f. 10.1. 1947, Herdís Júl- ía, f. 24.8. 1948, Sigríður Jóhanna, f. 28H. 1950, Sig- rún Ólöf, f. 10.1. 1952, Jón Magnús, f. 25.9. 1955, og Ólöf, f. 4.6. 1959. Barnabörnin eru tólf og barna- barnabörnin sjö. Utför Einars fór fram frá Kópavogskirkju 10. janúar. Vinur minn og tengdafaðir, Einar Júlíusson, er dáinn. Það er bláköld staðreynd, sem ég verð að sætta mig við. Mér finnst veröldin kaldari og fátækari eftir en áður. Hjarta- hlýja Einars og traust, kyrrlát vin- átta hans í minn garð eru með dýr- mætustu perlum minninga minna. Þrátt fýrir ýmislegt mótlæti, sem Einar varð fyrir, svo sem föðurmissi á unga aldri og ótímabært heilsu- leysi, tel ég hann hafa verið gæfurík- an og hamingjusaman mann. Ég held líka að það hafi honum fundist sjálfum. Hann var augasteinn móður sinnar meðan hún lifði, hann eignað- ist yndislega eiginkonu og hann átti sex böm, sem elskuðu hann og virtu. Mikla sköpunargáfu, listfengi og smekkvísi átti hann og nutu sam- ferðamenn hans þess í ríkum mæli, bæði vegna starfa hans sem bygg- ingafulltrúa og á öðrum vettvangi. Okkar kynni, sem hófust fyrir röskum tuttugu og tveimur árum, urðu mér ómetanleg og stöðugt dýr- mætari. Minningin um hlýtt hjartað, góðlátlegan húmorinn og glettnis- Iegt brosið hans fylgir mér meðan ég lifi. Örlætið og góðsemin líka. Hafðu þökk fyrir allt, gamli vin- ur, og kysstu hana Lóu tengda- mömmu frá mér þegar þú hittir hana hinum megin. Það veit ég að verða fagnaðarfundir. Öllum aðstandendum og vinum votta ég samúð. Sturla Frostason. Ætli ég hafi ekki verið 16 ára þegar ég kom fyrst í heimsókn á Álfhólsveg 15 ásamt nokkrum fé- lögum. Við þóttumst vel að okkur í bókmenntum og ræddum af spak- legu viti um Þórberg og Stein og jafnvel Einar Ben. Bókum þeirra söfnuðum við og snuðruðum hjá fornbókasölum til að eignast frum- útgáfur. Minnisstætt er mér kvöldið þegar Einar Júlíusson leiddi okkur með sér niður í kjallara og sýndi okkur bókasafn sitt. Þar var allt það sem við höfðum talað um og í raun aldrei gert okkur vonir um að_ eignast. Þórbergur, Laxness, Steinn og Einar Ben. Allt í frumútgáfu, í góðu bandi, skipulega frá gengið. Það var eins og við værum komnir til himna. Ég kom oft á Álfhólsveg 15 og oft sýndi Einar mér einhvern af dýrgripunum, sagði frá skáldunum eða því hvernig hann hefði eignast þessa og hina bókina. Fyrir þær stundir vil ég þakka nú þegar Einar Júlíusson er kvaddur. Það eru góðár minningar tengdar þeim hjónum Einari og Ólafíu. Ingólfur V. Gíslason. LÁRUS KJARTANSSON + Lárus Kjartansson fæddist í Austurey í Laugardal 5. apríl 1927. Hann lést á heimili sínu 22. desember síðastliðinn og fór útför hans fram frá Selfosskirkju 4. janúar. Það voru sorgarfréttir sem okkur systkinunum voru færðar rétt fyrir jól, að kæri Lalli væri látinn. Við vorum sem börn og ungling- ar í sveit hjá honum og Hermanníu í mörg sumur. Alltaf var jafn gam- an og yndislegt að koma þangað og eyddum við öllum okkar frí- stundum þar. Á föstudögum, um leið og skólinn var búinn, var hlaup- ið heim, skipt um föt og svo lá leið- in beint í Austurey og helginni eytt þar í góðu yfirlæti. Við litum á Austurey sem okkar annað heim- ili og alltaf reyndust þau hjónin og börn þeirra okkur afskaplega vel. Við bundumst miklum tryggða- böndum við alla fjölskylduna í Austurey og urðum öll góðir vinir. Eftir að við urðum fullorðin héld- ust þessi tryggða- og vinabönd. Undanfarin ár hafa heimsóknir okkar í Austurey verið færri en skyldi þar sem við búum bæði er- lendis ásamt fjölskyldum okkar. En það er okkur mjög dýrmætt að hafa hitt þessi indælu hjón síðastliðið sumar. Því miður sjáum við systkinin okkur ekki fært að vera viðstödd útför Lalla, en við erum með fjölskyldu hans í huga og hjarta. Við viljum með þessum fátæklegu orðum kveðja þennan gamla vin okkar. Elsku Hermannía, Daddi, Raggi, Magga og Hanna, við send- um ykkur og fjölskyldum ykkar okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum algóðan Guð að varð- veita ykkur öll á þessari erfiðu stund. Kallið er komið, komin er nú stundin, vinaskilnaðar viðkvæm stund. Vinirnir kveðja vininn sinn látna, er sefur hér hinn síðsta blund. Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Guði sé lof fyrir liðna tíð. Margs er að minnast, margs er að sakna. Guð þerri tregatárin stríð. (V. Briem.) Guðlaug og Þórður. Handrit afmælis- og minningargreina skulu vera vel frá gcngin, vélrituð eða tölvu- sett. Sé handrit tölvusett er æskilegt, að disklingur fylgi útprentuninni. Auðveldust er móttaka svokallaðra ASClI-skráa, öðru nafni DOS-textaskrár. Ritvinnslukerfin Word og Wordperfect eru einnig auðveld ! úrvinnslu. Senda má greinar til blaðsins í bréfasfma 5691115,’eða á netfang þess Mbl@eentrum.is en nánari upplýsingar þattum má lesa á heimasíðum. Það eru vinsamleg tilmæli að lengd greina fari ekki yfir eina örk A-4 miðað við meðallfnubil og hæfilega línulengd — eða 2.200 slög. Höfundar eru beðnir að hafa skírnarnöfn sfn en ekki stuttnefni undir greinunum.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.