Morgunblaðið - 16.11.2000, Side 49
MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
FIMMTUDAGUR 16. NÓVEMBER 2000 49
mjög að ekki varð lengra ratað.
Ástvinir hans lúta nú höfði í þvílík-
um sársauka að hjartað rúmar
hann ekki.
Tærar eins og bamsaugu,
bláar eins og himindjúp
starið þið á ferðalang
án furðu og spumar.
Hvílist hann á mosa,
en mildir hljómar
veita honum aftur
vorljósa ró -
lágvær kliður,
án kæti, án hryggðar,
handan fóðurlegra kletta,
þar sem flæðir úr sprungu.
Tærar eins og bamsaugu,
bláar eins og himindjúp
svæfið þið ferðalang
meðan fjallvegir bíða.
(Olafur Jóhann Sigurðsson.)
Veri hann svo kært kvaddur,
stóri strákurinn okkar hrausti og
sterki, með heitar hendur og heitt
hjarta. Gangi hann á Guðs vegum.
Og þegar tíminn hefur spunnið
sinn glitrandi vef yfir götu mann-
anna, þá máist og mildast hið sára,
hið dapra, en eftir verða góðu tím-
arnir, björtu minningarnar, fegurð-
in, birtan og gleðin.
Halla og Viðar, Asum.
Helgi vinur minn er látinn. Þegar
pabbi kom til mín sunnudaginn fyr-
ir viku síðan og sagði mér að hann
væri dáinn var mér mjög brugðið.
Eg sat dofinn og hugurinn leitaði
aftur til ársins ’89 er við kynnt-
umst.Við urðum strax miklir vinir
og það var eins og við hefðum alltaf
þekkst. Helgi var góður félagi og
aldrei heyrði ég hann hallmæla
neinum eða tala illa um fólk. Hann
var vinur vina sinna en einnig mik-
ill einfari. Hans aðal áhugamál var
að keyra um landið. Við ferðuðumst
mikið saman, fórum bæði á fjöll og
út á sjó eða upp í hreppa eins og
Helgi var vanur að kalla það að
fara austur í Gnúpverjahrepp þar
sem hann hafði verið í sveit þegar
hann var strákur. Það var mjög
gaman að ferðast með Helga hvort
sem það var í fjallaferðum eða út á
sjó eða bara hvai’ sem var um land-
ið því hann var vel kunnugur öllum
kennileitum og virtist þekkja nöfnin
á flestum hólum og hæðum. Hann
var einnig mikill veiðimaður og
eyddi hann flestum sínum frístund-
um uppi á fjöllum við veiðar.
Síðasta ferð okkar saman var
fyrir nokkrum árum, fórum við þá
norður í Aðalvík á Ströndum og
vorum þar í þrjá sólarhringa að
standsetja sumarhús fjölskyldu
minnar. Það var frábær tími, við
veiddum silunga í vatninu, gengum
um allt svæðið, nutum stórkostlegr-
ar náttúru og félagsskapar hvors
annars. Á svona stað naut Helgi
síns best, úti í náttúrunni. Já, þetta
voru frábærir dagar sem ég mun
geyma í minningunni.
Ekki er hægt að minnast á Helga
án þess að nefna hve laginn hann
var í höndunum, það var alveg
sama hvað hann tók sér fyrir hend-
ur, hvort heldur sem var að taka í
sundur utanborðsmótora, mála eða
hvað sem var, allt lék þetta í hönd-
unum á honum. Hann bar titilinn
þúsundþjalasmiður með rentu.
Hans verður sárt saknað og tóm-
legt verður að koma inn í Tengi,
engar veiðisögur og ekkert spjall,
en ég trúi því að núna sé hann
kominn á betri stað og hann mun
kanna nýjar slóðir sem hann mun
fræða mig á er við hittumst á ný.
Elsku Ester mín, Oddný Hanna,
Elva Ösp, Ella, Alli og Siggi. Guð
gefi ykkur styrk á þessum erfíðu
tímum. Við eigum öll minningar um
góðan dreng sem gott er að hugga
sig við.
Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert
bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig
hvílast,
Leiðir mig að vðtnum, þar sem má næðis
njóta.
Hann hressir sál mína,
Leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir
nafns síns.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
Ottast ég ekkert illt, því þú ert hjá mér,
Sproti þinn og stafur huggar mig.
Þú býrð mér borð frammi fyrir fjendum
mínum;
Þú smyrð höfuð mitt með olíu,
Bikar minn er barmafullur,
Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga
mína.
Og í húsi Drottins bý ég langa ævi.
(Davíðssálmur 23.)
Ásgeir Sigurjónsson.
Einn fagran sumardag fyrir rúm-
lega átta árum komu þeir Ásgeir
sonur okkar og Helgi vestur í Aðal-
vík að Sæbóli, þar sem við Anna
dvöldum með dætrum okkar og
tengdasyni. Við þekktum Helga
ekki mikið á þeim tíma, vissum að-
eins að þeir voru félagar hann og
Ásgeir og að Helgi bjó í Kópavogi
og starfaði við málningarvinnu hjá
Ása málara.
Okkur féll strax vel við Helga,
enda naut hann sín sannarlega við
þær aðstæður sem Aðalvíkin býður
upp á, þ.e. sjóinn, vatnið, fjöllin og
hina óspilltu náttúru. Það kom
fljótt í ljós að allt lék í höndum
Helga og var hann mjög liðtækur
við hvers kyns leiki og störf og sér-
lega laginn við veiðarfæri og þess
háttar og naut hann sín vel, enda
sannkallað náttúrubarn, en aðal-
áhugamál hans voru alla tíð útivera
og veiðimennska. Það hefur trúlega
verið vegna þess að við gerðum
okkur grein fyrir hve mörgum góð-
um kostum Helgi var búinn að
þannig fór að við réðum hann til
starfa hjá okkur í Tengi ehf. í sept-
ember 1992 og starfaði hann með
okkur þar til yfir lauk. Margs er að
minnast úr fámennu fyrirtæki þar
sem menn tengdust sterkum bönd-
um. Helgi var traustur starfsmaður
og góður vinur. Hann gekk í flest
þau störf sem til féllu og hafði
starfað sem bílstjóri, lagermaður,
viðgerðarmaður og sölumaður. Öll
þessi störf leysti hann jafn vel af
hendi. Hann var sérlega vinsæll og
var mér kunnugt um að hvar sem
hann kom á bflnum var honum vel
fagnað og alstaðar virtist hann eiga
vini og félaga. Þegar Helgi gerði
hlé á útkeyrslunni og fór að vinna
innan dyra, tók ég oft eftir að
margir viðskiptavinir fóru rakleiðis
til hans þegar þeir komu í fyrirtæk-
ið og vildu gi’einilega spjalla við
hann áður en þeir snéru sér að er-
indinu, enda var hann hress og
skemmtilegur og átti auðvelt með
samskipti við alla menn. Eins og
áður sagði vann Helgi öll sín störf
af alúð og samviskusemi, en þó held
ég hann hafi notið sín einna best í
viðgerðum á ýmsum tækjum. Hann
var sannkallaður þúsundþjalasmið-
ur og fór létt með að lagfæra ýmis-
konar tæki og tól. Hann var sér-
fræðingur í að gera við
blöndunartæki hvaða gerðar sem
þau voru og breytti engu hvort þau
voru hitastýrð eða rafeindastýrð.
Hann var sérlega fljótur að átta sig
á nýjungum og kynna sér til hlítar
allar þær vörur sem við seljum og
þjónum. Við áttum því láni að fagna
að hafa farið í kynnisferðir ásamt
Helga með góðum hópi viðskipta-
vina til framleiðanda bæði í Svíþjóð
og Danmörku. Kom þá vel í ljós
hversu mikinn áhuga Helgi hafði á
tæknihliðinni og lagði hann sig sér-
staklega fram við að að læra sem
mest.
Eitt af því sem einkenndi Helga
hvað mest, var hve hraustur hann
var. Hann var bæði sterkur og
kattliðugur, gekk um léttklæddur
þótt kalt væri í veðri og varð sjald-
an misdægurt.
Hann var mikill fjallamaður og
það leið sjaldan sú helgi að ekki
væri farið til fjalla eða út á sjó enda
stundaði hann næstum allar þær
veiðar sem hér tíðkast bæði af sjó
og landi. Hann var djarfur og hug-
aður og það hefði kannske átt betur
við hann að vera skipstjóri, vita-
vörður eða jafnvel bóndi, því hann
naut þess að takast á við höfuð-
skepnurnai'.
Helgi átti góða foreldra og fjöl-
skyldu sem honum var annt um.
Mér er sagt að hann hafi erft hand-
lagnina og þörfina fyrir útveru frá
pabba sínum og eflaust voru margir
hans góðu kostir komnir frá móður
hans.
Helgi hefur verið í góðri sambúð
með Ester Bjarnadóttur frá því áð-
ur en við fyrst kynntumst og eiga
þau saman dótturina Elvu Ösp sem
er aðeins sextán mánuða en einnig
átti Helgi dótturina Oddný Hönnu,
ellefu ára, sem var pabba sínum
mjög kær. Okkur er minnistætt
vinnufélögunum þegar Helgi var að
sækja Oddnýju þegai' hún var
yngri, þá kallaði hann hana alltaf
„þá stuttu“. Nú hefur þessi ágæti
vinur hvatt þessa jarðvist. Ef til vill
er hann horfinn til hinna eilífu
veiðilendna, en við trúum því að
Helgi sé genginn á vit ljóssins og
að hann. gangi nú í ljósinu.
Við Anna kveðjum góðan dreng
með söknuði og vottum Ester og
börnunum, foreldi’um, bróður og
tengdaforeldrum ásamt allri fjöl-
skyldu hans okkar dýpstu samúð og
biðjum algóðan guð að styrkja þau í
sorginni.
Sigurjón G. Sigurjónsson.
Það voru þungbærar fréttirnar
sem mér voru sagðar á sunnudags-
morguninn 5. nóvember að Helgi,
kær vinur minn og samstarfsfélagi
til margra ára væri látinn.
Þetta er svo óraunverulegt, ótrú-
legt, manni líður eins og einhver
hafi tekið hjartað og kramið það,
maður líður áfram í einhverjum
doða, eins og þetta sé bara martröð
sem maður muni vakna upp af.
En þetta er kaldur raunveruleik-
inn.
Við kvöddumst eins og vanalega í
lok vinnudags á föstudeginum,
Helgi ætlaði á skytterí eins og hann
var vanur, en í þetta skiptið sneri
hann ekki til baka.
Vegir Guðs eru órannsakanlegir
og hann hefur greinilega ætlað
Helga eitthvert aðkallandi hlutverk.
Eftir standa aðstandendur og
vinir með ótal spurningar sem
aldrei fást svör við.
Landið hefur misst einn af sínum
mætu sonum, því Helgi var engum
líkur, sannkallað náttúrubarn, og
það eru ekki margir sem þekktu
landið okkar eins vel og hann gerði,
enda var hann búinn að fara víða.
Hálendið átti hug hans og hann
þekkti hverja einustu sprænu og
hól með nafni, hann átti heilt safn
af landakortum í bílnum sem hann
geymdi í möppu.
Helgi æfði aldrei líkamsrækt svo
ég viti til, hann hafði þetta allt frá
náttúrunnar hendi, kraftalegur,
fimur og sérlega hraustur, veik-
indadagar hans frá vinnu eru telj-
andi á fingrum annarrar handar.
Þegar kalt var úti og flestir í
peysum var Helgi eins og vanalega
á stuttermabol, honum var aldrei
kalt.
Hann hefði sómt sér vel með
goðsögnum á tímum víkinga og
hefði farið létt með að stökkva hæð
sína í loft upp í öllum herklæðum.
Helgi hafði þá náðargáfu að geta
gert við nánast allt sem hann tók
sér fyrir hendur, ef eitthvað var í
ólagi var Helgi fenginn til að kíkja
á málið og hann kom því í lag.
Hann kynnti sér vel hvernig hlut-
irnir voru búnir til, tók þá í sundur
og setti saman aftur.
Helgi var léttur og skemmtilegur
og alltaf í góðu skapi og oft mátti
heyra hann flauta lagstúfa sem
heyrðust um allt fyrirtækið.
Hann átti líka marga vini og það
var gaman að sjá að þeir voru líka
á meðal viðskiptavina okkar sem oft
komu íyrst til hans og spjölluðu um
veiðina og fleira áður en þeir
keyptu það sem þá vantaði.
Elsku Ester, Elva Ösp, Oddný
Hanna, foreldrar Helga og aðrir
aðstandendur, ég votta ykkur mína
dýpstu samúð.
Missir ykkar og sorg er mikil, en
eftir stendur minningin um góðan
dreng og sú minning mun lifa að ei-
lifu.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfu ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum.)
Þórir Sigurgeirsson.
Það var bjartur sunnudagsmorg-
unn þegar okkur starfsfélögunum
var tilkynnt um fráfall Helga.
Helgi hafði kvatt okkur á föstu-
dag glaður í bragði eins og honum
var einum lagið, því eyða átti helg-
inni við veiðiskap á fjöllum.
Það var líf og yndi Helga að ferð-
ast um fjöll og firnindi. Hann var
mikill veiðimaður að eðlisfari og
hafði allt í sér sem góðum veiði-
manni sæmir. Það voru ófáar
stundirnar sem fóru í að skoða kort
og lýsa leiðum sem voru farnar eða
átti að fara í. Þegar Helgi var
spurður út í staðhætti þá kom mað-
ur ekki að tómum kofanum, því það
voru ófáii’ staðirnir sem hann hafði
ekki komið á eða kynnt sér.
Helgi var traustur og góður
starfsfélagi og það er hægt að telja
það á fingrum annarrar handar
hversu oft hann var veikur eða
komst ekki til vinnu á þessu átta
árum sem hann starfaði með okkur.
Þegar einhver vandamál komu
upp varðandi sturtuklefa eða eitt-
hvað annað var alltaf kallað á
Helga, því ef hann gat ekki lagað
hlutina, þá var það ekki hægt, það
var allavega okkar skoðun á hand-
lagni hans. Það er erfitt að sætta
sig við að hann svona ungur og með
allt lífið framundan skuli vera fall-
inn frá. Hans verður sárt saknað
hérna hjá okkur í Tengi.
Elsku Ester og fjölskylda, megi
góður Guð styrkja ykkur í þessari
miklu sorg.
Starfsfélagar.
Með þessum brotum úr ljóði
Tómasar Guðmundssonar viljum
við kveðja þig Helgi.
Guð geymi þig og varðveiti.
Og þvi varð allt svo hljótt við helfregn
þína
sem hefði klökkur gígjustrengur brostið.
Og enn ég veit margt hjarta, harmi
lostið,
sem hugsar til þín alla daga sína.
En meðan árin þreyta hjörtu hinna,
sem horfðu eftir þér í sárum trega,
þá blómgast enn, og blómgast ævinlega,
þitt bjarta vor í hugum \dna þinna.
(Tómas Guðm.)
Elsku Ester, Oddný, Elva, Alli,
Ella og Siggi. Guð gefi ykkur styrk
á erfiðum tímum.
Davíð, Svava og drengir.
í örfáum línum langar okkur að
minnast fallins félaga. Helgi vinur
okkar skilur eftir sig skarð í okkar;
samheldna hópi þar sem prúð-
mennska haris og glatt sinni er það
sem okkur er efst í huga.
Helgi var glaðbeittur félagi sem
ávallt var reiðubúinn til hverra
þeirra starfa sem til falla í hóp sem
okkar. Hann var til fyrirmyndar
sem íþróttamaður, ávallt tilbúinn
þegar reyna skyldi með sér og
ævinlega stutt í hlátur eða í það
minnsta glannalegt glott þegar við
átti.
Grallaraleg orðatiltæki hrukku
stundum af vörum þegar ekki gekk
allt sem skyldi: „det er nu det“ ...
eða jafnvel án samhengis: „betra er
ein gæs í hendi en hundrað í túni“
og svo kom smitandi hlátur og.
sprellandi augnaráð. Það var gott'
að fíflast með Helga og það er jú
eitt af því sem allir þurfa að gera
pínulítið - eða hvað?
í því unglingastarfi sem stundað
er hjá Skotíþróttafélagi Hafnar-
fjarðar var Helgi góð fyiirmynd og
vinur, ávallt reiðubúinn við tilsögn
og vangaveltur og átti hann sér þar
einlæga aðdáendur og er sárt sakn-
að í þeim hópi.
Við kveðjum félaga okkar með
trega og söknuði. Góð minning er
það sem góðir drengir skilja eftirf
sig og er það ósk okkar að sú minn-
ing megi styrkja Ester og litlu
stúlkurnar hans í ókominni framtíð.
Foreldrum Helga og fjölskyldu allri
vottum við okkar innilegustu sam-
úð.
Hvíldu í friði, góði vinur.
Skotíþróttafélag
Hafnarfjarðar.
Birting afmælis- og
minningargreina
MORGUNBLAÐIÐ tekur afmælis- og minningargreinar til birtingar
endurgjaldslaust. Greinunum er veitt viðtaka á ritstjóm blaðsins í
Kringlunni 1, Reykjavík, og á skrifstofu blaðsins í Kaupvangsstræti 1,
Akureyri. Þá er enn fremur unnt að senda greinarnar í símbréfi (569
1115) og í tölvupósti (minning@mbl.is). Nauðsynlegt er, að símanúmer
höfundar/sendanda fylgi.
Um hvern látinn einstakling birtist formáli, ein uppistöðugrein af
hæfilegri lengd, en aðrai- greinar um sama einstakling takmarkast við
eina örk, A-4, miðað við meðallínubil og hæfilega línulengd, - eða 2.200
slög (um 25 dálksentimetra í blaðinu). Tilvitnanir í sálma eða ljóð tak-
markast við eitt til þrjú erindi. Greinarhöfundar eru beðnir að hafa
skírnai’nöfn sín en ekki stuttnefni undir greinunum.
Við bii’tingu afmælisgreina gildir sú regla, að aðeins eru birtar grein-
ar um fólk sem er 70 ára og eldra. Hins vegar eru birtai’ afmælisfréttir
ásamt mynd í Dagbók um fólk sem er 50 ára eða eldra.
Mikil áhersla er lögð á, að handrit séu vel frá gengin, vélrituð eða
tölvusett. Sé handrit tölvusett er æskilegt, að disklingui’ fylgi útprent-
uninni. Það eykur öryggi í textameðferð og kemur í veg fyrir tvíverknað.
Auðveldust er móttaka svokallaðra ASCII-skráa sem í daglegu tali ei-u
nefndar DOS-textaskrár. Þá eru ritvinnslukerfin Word og Wordperfect
einnig auðveld í úivinnslu.
jjiiljgr
Þegar andlát
ber að höndum
Önnumst alla þætti útfararinnar.
Vesturhlíð 2
Fossvogi
Sími 5S1 1266
www.utfor.is
Við Útfararstofu kirkjugarð-
anna starfa nú 14 manns
með áratuga reynslu við
útfaraþjónustu. Stærsta
útfararþjónusta landsins
me^ Þjónustu allan
sólarhringinn.
Prestur
Kistulagning
Kirkja
Legstaður
Kistur og krossar
Sálmaskrá
Val á tónlistafólki
Kistuskreytingar
Dánarvottorð
Erfidrykkja
UTFARARSTOFA
KIRKJUGARÐANNA EHF.