Morgunblaðið - 23.11.2000, Blaðsíða 13
MORGUNBLAÐIÐ
FIMMTUDAGUR 23. NÓVEMBER 2000 1 3
FRÉTTIR
Fjörugar umræður á málþingi sem haldið var um táknmál trúar og auglýsinga
Morgunblaðið/Kristinn
Fyrir jólin verður veitt viðurkenning þeim auglýsingum, útstillingum og því kynningarefni sem þykja mest í
samhljómi við anda jólanna.
Kirkjan nýti nýjar
samskiptaleiðir
Þegar jólaundirbúningurinn nálgast er því
gjarnan velt upp hvort farið geti svo að
verslunar- og auglýsingaæði yfírskyggi
sjálfan boðskap jólanna. Birna Anna
Björnsddttir sat málþing þar sem fulltrúar
kirkjunnar, verslunarmanna og auglýsenda
ræddu táknmál trúar og auglýsinga.
KIRKJAN þarf að nýta sér nýjar
leiðir til koma boðskap sínum á
framfæri, enda hefur hún í gegnum
tíðina verið í fararbroddi í því að
nýta sér öflugustu boðmiðlunartæki
hvers tíma. Þetta er meðal þess sem
kom fram á málþingi sem haldið var
á mánudag þar sem fjallað var um
táknmál trúar og auglýsinga.
Til málþingsins buðu Biskups-
stofa, Samtök verslunarinnar, Sam-
band íslenskra auglýsingastofa,
Húsfélag Kringlunnar og Þróunar-
félag miðborgarinnar og var það lið-
ur í samstarfi ofantaldra sem felst
meðal annars í því að veita viður-
kenningu þeim auglýsingum, útstill-
ingum og því kynningarefni sem
þykja mest í samhljómi við anda jól-
anna. Sverrir Bjömsson frá auglýs-
ingastofunni Hvíta húsinu, sr. Irma
Sjöfn Óskarsdóttir og Guðmar
Magnússon frá Samtökum verslun-
arinnar fluttu framsöguerindi og að
þeim loknum voru almennar um-
ræður.
Krossinn og Coca Cola-merkið
eru frægustu vörumerki heims
I upphafi erindi síns bar Sverrir
Bjömsson saman „tvö frægustu
vömmerki heims,“ eins og hann
orðaði það, annars vegar krossinn
og hins vegar Coca Cola-merkið.
Hann benti á að krossinn hefði ver-
ið við lýði í 2000 ár og boðskap hans
fylgdi loforð um eilíft líf, en Coca
Cola-merkið hefði verið við lýði í
100 ár en auglýsingum og kynning-
um þess fylgdi loforð um Ufsham-
ingju og lífsfyllingu. Sverrir sagði
að þetta kynni að vera heldur
kaldranaleg uppstilling og saman-
burður, en hafa þyrfti í huga að
auglýsingar sem slíkar hefðu „ekki
skoðun á því hvað væri gott og hvað
væri slæmt,“ heldur væra þær tæki
til að koma einhverju á framfæri.
Hann benti á að stjómmálaflokkar
og samtök af ýmsu tagi, svo sem
mannréttinda- og umhverfisvemd-
arsamtök, notuðu gjarnan aug-
lýsingar til að kynna hugmyndir
sínar og velti upp þeirri spurningu
hvort kirkjan mætti ekki leyfa sér
að gera meira af slíku. Hann
greindi frá því að sú auglýsing sem
auglýsingafræðin telur að hafi verið
fyrsta auglýsingin og kom fram á
fimmtándu öld, hafi einmitt komið
frá presti sem var að auglýsa
sálmabók.
Sverrir benti jafnframt á að áður
fyrr hafi kirkjan beitt fyrir sig öfl-
ugum áróðursmeisturam, til dæmis
á sviði byggingar- og myndlistar.
Þannig hafi kirkjan jafnan nýtt sér
færastu menn á sviði boðmiðlunar á
hverjum tíma og minnti hann á að
þegar prentlistin kom til sögunnar
hafi kirkjan verið í fararbroddi við
að reisa prentsmiðjur og nota þær
til að miðla boðskapi sínum. Hins
vegar væri það svo að kirkjan hefði
ekki verið í fararbroddi við að nýta
sér miðla nútímans, útvarp, sjón-
varp og Netið, en það væra helst
„ofsatrúarhópar" sem hefðu notað
þessa miðla til að boða trú. Sverrir
benti á að erlendis hefðu kirkjur
staðið fyrir vel heppnuðum auglýs-
ingaherferðum til að kynna kristinn
boðskap. Hann sagði að kirkjan yrði
að sýna framkvæði í því að kynna
boðskap sinn, annars gæti farið svo
að tákn hennar yrðu tekin og notuð
af öðrum. Til dæmis væri jóla-
sveinninn, sem varð bústinn, góð-
legur og rauðklæddur í meðfóram
Coea Cola, í raun kaþólski dýrðling-
urinn heilagur Nikulás.
Fjölmiðlar litnir neikvæðum
augum innan kirkjunnar
Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir
ræddi um tákn kristinnar trúar í
nútímasamfélagi og minnti á að að
baki táknum byggi veraleiki. Hún
sagði að Jesús hafi talað í táknum
og að auglýsendur hugsuðu gjarnan
í táknum. Hún benti á að helstu
tákn kristinnar trúar hefðu verið
tekin úr daglegu lífi fólks sem var
uppi á sama tíma og Jesú og því
væri nokkuð algengt að fólk nú á
tímum væri ólæst á tákn kirkjunn-
ar. Hún sagði að kirkjan gæti tekið
sig á í þessum efnum og farið að
nota ný tákn úr daglegu lífi fólks.
Bæði væri mögulegt að finna alveg
ný tákn og taka eldri tákn og reyna
að endumota þau og jafnvel ljá
þeim nýja merkingu.
Irma sagði að stundum hefði ver-
ið litið svo á innan kirkjunnar að
fjölmiðlar væra neikvætt fyrirbæri,
en sér fyndist að kirkjan yrði að
gera sér grein fyrir því að fjölmiðl-
ar era hluti af samfélaginu en ekki
aðskildir frá því og að kirkjan eigi
einmitt að vinna með þeim. Þannig
ætti kirkjan að nota auglýsingar til
að hreyfa heiminn til samúðar.
Enda hafi einhvemtímann verið
sagt að guðfræðin væri of dýrmæt
til að láta guðfræðinga eina um
hana.
Guðmar Magnússon frá Samtök-
um verslunarinnar sagði í erindi
sínu að jólin væri sá árstími þar
sem fólk hefði jafnan mesta þörf til
að gleðja aðra. Hann minntist á það
sjónarmið sem fram hefði komið að
jólaverslun væri gengin út í öfgar
og að hún skyggði jafnvel á sjálfa
hátíðina, en sagðist gera ráð fyrir
því að mikill meirihluti fólks vildi
hafa þetta eins og það væri. Hann
sagði að það að veita auglýsingum
viðurkenningu fyrir að vera í sem
bestum samhljómi við anda jóla-
hátíðarinnar yrði að öllum líkindum
til þess að margir auglýsendur
myndu nýta sér í auknum mæli hið
margbreytilega táknmál kirkjunn-
ar.
Kirkjan nýti nýjar leiðir til
að færa fram boðskapinn
I umræðum að loknum framsögu-
erindum sagði sr. Halldór Reynis-
son, prestur í Neskirkju, að við
stæðum andspænis nýjum heimi
hvort sem okkur líkaði betur eða
verr og kirkjunnar menn yrðu
hreinlega að nýta sér nýjar sam-
skiptaleiðir til að koma boðskap sín-
um á framfæri. Hann sagði að
kristnir menn vildu varðveita
merkileg og nauðsynleg lífsgildi og
þeir vildu sjá til þess að kristin trú
lifði af í þessum heimi markaðssetn-
ingar og auglýsinga og til þess
þyrfti að nota nútímalegar leiðir.
Einnig sagði hann að það væri hag-
ur auglýsenda að auglýsingar
þeirra hefðu inntak en væra ekki
aðeins umgjörð.
Biskup Islands, Karl Sigur-
bjömsson, vakti máls á því hve gíf-
urlegur áhrifamáttur auglýsinga
væri og sagði að hann hefði líklega
aldrei verið meiri en nú. Talið væri
að 7 ára bam á Vesturlöndum hefði
séð um 20.000 sjónvarpsauglýsingar
að jafnaði og að fjármagn innan
auglýsingageirans á Vesturlöndum
væri talsvert meiri en innan skóla-
kerfisins.
Hann sagði vert að staldra við og
huga að boðmiðlunarleiðum og
táknum trúarinnar og hvemig megi
miðla boðskap jólanna þannig að
hann snerti við fólki.
Þó nýjar leiðir yrðu notaðar til að
koma boðskap kristinnar trúar á
framfæri gæti Guð helgað þetta allt
til að koma því á framfæri sem máli
skiptir og benda fólki á í hverju hin
raunveralegu lífsgæði og lífsgleði
séu fólgin.
Björn Bjarnason, menntamálaráðherra og formaður Þingvallanefndar
Skilin verði skýr milli starfsemi
kirkjunnar og þjóðgarðsins
Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Þingvallakirkja og Þingvallabær.
BJÖRN Bjamason, menntamála-
ráðherra og formaður Þingvalla-
nefndar, leggur áherslu á að
Þingvallanefnd sé með ákvörðun
sinni um breytingu á afnotum Þing-
vallabæjar að draga skýra línu milli
starfsemi þjóðgarðsins annars vegar
og starfsemi kirkjunnar hins vegar.
Hann segir enn fremur ástæðulaust
að túlka bréf nefndarinnar til
kirkjunnar á þá leið að nefndin sé að
skorast undan því að koma að rekstri
og viðhaldi Þingvallakirkju.
„Þingvallanefnd leggur ár hvert
um eina milljón króna til viðhalds og
reksturs á Þingvallakirkju. Nefndin
vill að til þess sé litið þegar hlutur
hennar er metinn án þess að nefndin
sé að skorast undan þessu verkefni,"
segir hann.
Björn bendir á að fram komi í bók-
um Þingvallanefndar og fundargerð-
um að biskupsembættinu hafi verið
það Ijóst um áratugaskeið að Þing-
vallabærinn væri eign ríkisins og i
umsjá Þingvallanefndar. Og enn-
fremur að bærinn væri ekki prests-
bústaður.
Þingvallabærinn hefur verið nýtt-
ur á tvennan hátt undanfarna ára-
tugi. Annars vegar hefur syðri hluti
hússins, sem reistur var undir tveim-
ur burstum fyrir þjóðhátíðamefnd
árið 1974 ávallt verið nýttur sem op-
inber bústaður forsætisráðherra; til
einkaafnota eða móttöku opinberra
gesta. Og hins vegar hefur nyrðri
hluti hússins, sem reistur var undir
þremur burstum fyrir alþingishátíð-
ina árið 1930, verið nýttur sem skrif-
stofa og bústaður fyrir umsjónar-
mann þjóðgarðsins á Þingvöllum.
Seint á sjötta áratugnum tók þáver-
andi þjóðgarðsvörður, séra Jóhann
Hannesson, jafnframt við prestsemb-
ætti á staðnum og hefur þessi hluti
bæjarsins síðan þá verið nýttur sem
bústaður Þingvallaprests.
Ekki ákveðið hvenær starf
fræðslufulltrúa verði auglýst
Bjöm segir aðspurður að Þing-
vallanefnd hafi fullan hug á því að í
nyrðri hluta hússins verði bæði að-
staða íyrir starfsemi Þingvallanefnd-
ar sem og fyrir presta vegna kirkju-
legra athafna í Þingvallakirkju.
Þama verði því um sameiginleg afnot
að ræða fyrir þá sem þurfa að sinna
embættisverkum á Þingvöllum.
Spurður nánar um fyrirhugað
starf fræðslufulltnia segir Bjöm að
nefndin og framkvæmdastjóri henn-
ar telji nauðsynlegt að í þjóðgarðin-
um starfi maður sem taki á móti
skólafólki og sinni að öðra leyti
fræðslu í Þjóðgarðinum. Gert er ráð
fyrir því að starf fræðslufull-
trúa verði auglýst þegar verksvið
hans hefur verið nánar skilgreint.
En mælir eitthvað gegn því að
Þingvallaprestur verði ráðinn
fræðslufulltrúi? „Við ætlum okkur
ekki að ráða mann í tvöfalt starf. Við
viljum hafa skýr skil milli okkar
starfsemi og kirkjunnar og teljum
það báðum til hags þegar litið er til
framtíðar," segir Bjöm að lokum.
Verslunarskóli
Islands
Stunda-
kennsla
ekki færð í
fyrra horf
STUNDAKENNARAR við
Verslunarskóla íslands hafa
ekki fært skipulag kennslu til
fyrra horfs, eins og verkfalls-
stjórn Kennarasambands ís-
lands fór fram á í bréfi til
þeirra í byrjun vikunnar. í
samtali við Morgunblaðið
sagði einn stundakennaranna
að líklega yrði kennslan ekki
færð.
„Ég býst ekki við að þetta
verði fært aftur í sama horf,
sagði stundakennarinn. „Það
er líka örlítið eftir af kennslu,
en samkvæmt kennsluáætlun
lýkur henni í lok næstu viku.
Við eigum fund með skóla-
stjóra á morgun og þá verður
framhaldið skipulagt."
Samkvæmt mati verkfalls-
stjórnar hefur kennslutími
stundakennara verið færður
inn á kennslutíma þeirra
kennara sem eru í verkfalli og
að þeirra mati hefur það dreg-
ið úr áhrifum verkfalls Félags
framhaldsskólakennara.