Þjóðviljinn - 05.03.1983, Blaðsíða 14

Þjóðviljinn - 05.03.1983, Blaðsíða 14
14 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Helgin 5. - 6. mars 1983 Steinunn Jóhannesdóttir: Hótelið brennur Harmsaga konu í svikulum heimi Sá sem ekki kemst oft til út- landa, þarf svo sem ekki að kvarta undan fréttaleysi þaðan, einkum getur hann búist við að vera bæri- lega upplýstur um stríð og slys á heimsbyggðinni, þó hann sé að öðru leyti með öllu ófróður um staðinn, þar sem bálið kviknar hverju sinni. Næst besti kostur við þann að ferðast sjálfur er sá, að eiga vini og kunningja, sem geta brugðið sér bæjarleið og komið aftur með fréttir, ilm og bragð af heimsmenningunni. Vinkona mín fór á ráðstefnu sl. haust eins og ungar menntakonur gera stundum. Þegar hún kom aftur hafði hún með sér bók að lána mér og það var einmitt bókin, sem mig hafði langað svo mikið til að lesa frá því ég sá hennar fyrst að góðu getið í Newsweek eða Time fyrir u.þ.b. einu ári. Hvíta hótelið eftir D.M Thomas er þriðja skáldsaga höfundar, sem er breskur og fæddur 1935. Bókin kom út í heimalandi hans 1981 og hlaut strax slíka frægð að útkoma hennar mun í undirbúningi í 16 löndum, ef ekki er þegar orðið af henni víðar. Hún hefur reyndar fengist í vasabrotsútgáfu hjá Máli og menningu á ensku, en vonandi hefur fyrirtækið þegar tryggt sér þýðingar- og útgáfurétt á henni, því þetta er bók, sem á erindi við fleiri en þá, sem lesa erlendar tung- ur. Freud og sjúklingur hans Hvíta hótelið er listavel skrifuð saga, sem lýsir andrúmsloftinu í Mið- og Austur-Evrópu á fyrri helmingi þessarar aldar um leið og hún er djúpkönnun á mannssálinni við þær kringumstæður og þó sér í lagi kvensálinni. í þeim tilgangi að lýsa konunni, sem er höfuðpersóna bókarinnar, notar D.M. Thomas býsna frumlega og skemmtilega aðferð og samt liggur hún svo í augum uppi að ég er hissa, ef eng- inn hefur gert það sama á undan honum. Hann gerir sem sagt Sig- mund Freud að mikilvægri persónu í sögu sinni og söguhetjuna að sjúk- lingi hans um tíma. Þar með er hin fræga aðferð læknisins í Vín, sál- könnunin eða analísan orðin augljós og sjálfstæður þáttur í byggingu sögunnar, en ekki meira og minna falin eins og hjá flestum höfundum, sem skrifa undir áh- rifum frá Freud eða eru honum andlega skyldir. Og þetta bragð á sinn stóra þátt í því, hvað sagan verður spennandi og uppgröftur- inn úr fortíð konunnar sjálfsagður. Fyrst gerir hún sjálf grein fyrir sér með sínum hætti, síðan kemur greining Freuds á henni og loks er það hinn, hefðbundni sögumaður, höfundurinn alsjáandi, sem lýkur frásögninni. En frumleg aðferð við að segja sögu dugar skammt, ef efnið er ekki áríðandi eða minnisvert. Það skortir ekki hér. Og því sannast enn, að fátt er betur fallið til að glæða skilning manns á mannlífinu, en góður skáldskapur. Líkami og sál Elísabeth Erdman er af rúss- neskum gyðingaættum. Hún elst upp í Odessu við upphaf þessarar aldar. Ung að árum missir hún móður sína, sem ferst í hótelbruna í Moskvu ásamt elskhuga sínum. Sautján ára er hún í Pétursborg við dansnám og kynnist þar fyrstu stóru ástinni. Hún elskar ungan D.M.Thomas eldheitan byltingarmann, sem tekur þó baráttuna fram yfir hana. Um sama leyti gefst hún upp við að verða ballerína, m.a. vegna þess, að hún er orðin of mikil um mjaðmir og brjóst. í staðinn hefur hún tónlistarnám í Vín og býr þar undir verndarvæng móðursystur sinnar. Hún reynist mjög efnileg tónlistarkona, en velur engu að síð- ur á milli framavonar og þess að giftast ungum aðalsmanni af löngun til að eignast heimili og barn. En skuggi stríðsins grúfir yfir og maður hennar er kvaddur í her- inn. Þá tekur hún aftur til við cel- lóið og verður vel ágengt. Þegar von er á manninum, sem hún elsk- ar, heim í leyfi, þá fer hún að kenna sjúkleika, sem hún fyrst varð vör við eftir að hún horfði upp á sjó - liðauppreisninaí Odessusembam. Hún fær andþrengsli og við bætist sár verkur í brjósti og eggjastokk. Veikindin ágerast og verða síðar til þess að hún ákveður að skilja við mann sinn, sem hún telur sig aldrei muni geta gert hamingjusaman, og leitar til Freuds. Þá er hún orðin 29 ára. Hún gefur honum síðar leyfi til að gefa út sjúkdómssögu sína og greiningu, þar sem henni er lýst undir dulnefninu Frú Anna G. Meðferð Freuds fólst í því, að fá þessa konu, sem taldi sig fyrst og fremst líkamlega veika, en ekki með mein í sálinni, til að rifja upp brot úr sögu sinni, einkum bernskuminningar og segja honum drauma sína. Þegar fram liðu stundir lét hún hann svo fá nótna- hefti með Don Juan eftir Mozart, þá farin að stunda söngnám, og í þetta nótnahefti hafði hún skrifað inn eigið líbretto, sem mest gekk út á kynferðislega draumóra hennar sjálfrar. Skömmu síðar afhendir hún honum eigin skilgreiningu á því, sem hún hefur skrifað á nótna- blöðin, eins konar dagbók, sem er enn frekari útmálun á draumum hennar og ímyndunarafli, þar sem allt snýst um unga elskendur á hvítu hóteli í nær órofa samförum, en alsælan fær alltaf endi í hroða- legu slysi, þar sem hundruð manna farast með válegum hætti ýmist í hótelbruna, jarðskjálftum, skriðu- föllum eða drukkna. Lísa blygðast sín ákaflega fyrir það, sem hún hefur skrifað, en Fre- ud hælir henni aftur á móti fyrir hugrekkið að sýna sér það og finn- ur að hann er að komast að kvik- unni í konunni. Þau ræða síðan þýðingu drauma hennar, eins og þeir lýsa sér í skrifunum og setja þá í samband við ýmis æviatvik, sem nú fara að rifjast æ betur upp fyrir Lísu. Stundum eru þau sammála um túlkun, stundum ósammála, en smátt og smátt hverfa sjúkdóms- einkennin og þau ákveða að slíta meðferðinni. Síðar á ævinni á Lísa eftir að stunda nokkurs konar sjálfs- greiningu til að halda sjúkdómnum niðri, þegar einkennin fara aftur að koma í ljós, og endurskoðar þá ým- islegt sem henni og Freud fór á milli, en virðing hennarfyrir mann- inum, sem hjálpaði henni til sjálfs- hjálpar þverr aldrei. En þá er höf- undur sjálfur farinn að segja sögu hennar. Til Babí Jar Mikil straumhvörf verða í lífi Lísu Erdman, þegar henni er boðið að taka við óperuhlutverki af rúss- neskri stórsöngkonu á La Scala í Mílanó. Það er hátindurinn á söng- ferli hennar, þá fertugrar, en það sem meira er um vert, með henni 1 og söngkonunni Veru Serbrjako- vu, sem á von á barni, tekst mikil vinátta. Vera deyr síðan af barns- förum og það verða örlög Lísu, að ganga syni hennar í móðurstað og giftast ekklinum Viktor Beren- stein, sem einnig var frægur söngv- ari. Þau lifa um hríð í velsæld og virðingu og nokkrum forréttindum ! sem listamenn í Kiev, en síðan er Viktor sendur í fangabúðir Stalíns og honum gefið að sök að hafa sett á svið óperu, sem reyndist ekki standast hugmyndafræðilega rann- sókn Flokksins. Endalok Lísu Erdman og stjúp- sonar hennar Kolja eru síðan um það bil þau hrottalegustu, sem boðið hefur verið upp á á þessari jörð. Þau eru smánuð og leidd til nlðntæknistofnun íslands Frá og með 15. mars hættir tæknibókasafnið almenn- um útlánum bóka og tímarita frá Skipholti 37. Eftir 1. apríl verður hægt að fá aðgang að tæknibókum og tímaritum á Iðntæknistofnun íslands Keldnaholti, sími 85400. PÓST- OG SlMAMÁLASTOFNUNIN óskar að ráða LOFTSKE YT AM ANN/ SÍMRITARA til starfa í VESTMANNAEYJUM. Nánari upplýsingar verða veittar hjá starfsmannadeild Reykjavík og stöðvarstjóra Vestmannaeyjum. slátrunar ásamt þúsundum rúss- neskra gyðinga, kvenna, karla, barna, gamalmenna, skotin og hrint limlestum ofan í fjöldagröfina í Babí Jar til að kafna þar í kösinni. Þá gröf gisti að lokum fjórðung- ur milljónar manna. Þegar Lísu er ljóst, hvaða örlög bíða hennar, þó hún neyti allra bragða til að koma sér og syni sín- um undan, þegar þau horfa saman á vini sína og samferðafólk leitt nakið fram fyrir byssur nasista „þá veit hún, hvers vegna hún átti aldrei að eignast barn. Og þó var tilhugsunin um að Kolja sonur hennar hefði getað hreppt þau ör- lög að vera hér einn á meðal ó- kunnugra, kannski í barnamergð- inni frá barnaheimilinu hundrað sinnum hryllilegri en óttinn við dauðann.“ Hún tekur hönd barns- ins og þau leiðast á meðan þau eru skotin. Kona og barn Hvíta hótelið er harmsaga konu í svikulum, stríðshrjáðum heimi. Hún er jafnframt sálgreining á konu, sem getur ekki átt barn, af því hún vill ekki eignast barn af ótta við, að hótelið brenni. Hvíta hótelið er ótryggur samastaður í til- ( verunni. Hvíta hótelið er Hótel Jörð. Lísa Erdman dregur þann lærdóm af dæmi móður sinnar lítil stúlka, að „laun ástarinnar sé dauðinn". Óeirðir, bylting og stríð eiga Síðan stærstan þátt í að kæfa hverja hamingjuvon, sem hún eygir, þess vegna er það eins og vörn gegn enn meiri óhamingju, að verða sér úti um sjúkdóm, sem gagnast henni eins og ómeðvituð en sársaukafull getnaðarvörn, svo hún þurfi aldrei að bera ábyrgð á barni í svo grimmum heimi. Samt kemst hún ekki undan móðurhlut verkinu og að lokum er eins og hún hafi helst lifað til þess að deyja með lófa lítils drengs í sínum. Hvíta hótelið er engin kvenna- bók í nýjasta og þrengsta skilningi þess orðs, auk þess skrifuð af karl- manni, en samt má vera að hún sé flestum bókum betur fallin til að auka skilning á ýmsum sálarkimum konunnar, sem oft er tilhneiging til að þegja um. Hún er saga konu, sem efast líkamlega um réttmæti þess að framlengja lífið með nýju lífi, af því hún treystir ekki á ham- ingjuna, er þess fullviss, að á augnabliki sælunnar muni eldurinn brjótast út. Hvíta hótelið er eitt þeirra fj öl- mörgu listaverka,sem virðasthafa þann tilgang m.a. að lýsa hinni þögulu þjáningu þolendanna í stríði, þeirri þjáningu, sem ekki skilar sér í erlendum fréttum, þó tölur um fjölda fallinna séu þuldar, eða staðsetningu eldflauga lýst, í þeirri von að þjáningarbræður og systur taki að lokum höndum saman og komi í veg fyrir að okkar Hvíta Hótel Jörð verði eldinum endanlega að bráð. Rvík. 15. febr. Steinunn Jóhannesdóttir |j| Tilboð óskast Staðgreiðslutilboð óskast í notað byggingar- efni: Timbur, spónaplötur, bárujárn og ein- angrun er selja skal í einu lagi. Vörur þessar verðatil sýnis mánudaginn 7. mars kl. 13-16 að Korpúlfsstöðum við Vesturlandsveg. Tilboðum sé skilað inn til Söludeildar Reykja- víkurborgar Borgartúni 1 fyrir kl. 15 þriðju- daginn 8. mars þar sem þau verða opnuð. Söludeild Reykjavíkurborgar

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.