Þjóðviljinn - 13.01.1989, Blaðsíða 21

Þjóðviljinn - 13.01.1989, Blaðsíða 21
HELGARMENNINGIN Lúsíana verst blíðulátum Antifólusar sem hún heldur að sé mágur sinn en er reyndar bróðir hans... Steinunn H. Knútsdóttir og Halldór Magnússon. Allt í misgripum í Hafnaifirði Litið inn á æfingu hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar Hafnfirðingargeta farið að hlakkatil því á morgun, laugardaginn 14.janúar, verður frumsýndur í Bæjarbíói einn af gamanleikjum Wil- liams Shakespeares, Allt í misgripum, í þýðingu Helga Hálfdanarsonar. Það’erHá- var Sigurjónsson sem setur leikinn á svið með einvalaliði áhugafólks. Allt í misgripum er talið vera meðal þess fyrsta sem Shakespe- are skrifaði, þá jafnvel á þrítugs- aldri sjálfur eins og leikararnir hans margir í Hafnarfirði. Hug- myndina fékk hann úr tveim leikritum eftir latneska skáldið Plautus sem uppi var um 200 f.Kr. Hann samdi vinsæla gaman- leiki sem Shakespeare hefur kannski lesið sem skólapiltur, en líka var algengt að þessi leikrit og fleiri væru sett upp á heimilum menntamanna og aðals á tímum Shakespeares. „Það er geníalt hvernig Shak- espeare notar plottin frá Plautusi,“ sagði Hávar í spjalli í hléi á æfingunni. „Eins og ævin- lega vinnur hann sjálfstætt úr hugmyndunum sem hann tekur frá öðrum.“ í öðru verkinu eftir Plautus segir frá því þegar Júpiter verður hrifinn af konu nokkurri og tekur á sig gervi manns hennar til að koma sér í mjúkinn hjá henni. Petta á sér beina sam- svörun hjá Shakespeare. Hitt verkið er um misskilning vegna tveggja bræðra eins og Allt í mis- gripum og inn í það kemur atriðið með gleðikonuna sem Shakespe- are notar líka. „En Shakespeare gerir meira en að steypa þessum tveim leikritum saman, til að ná meiri dýpt og breidd í verkið bæt- ir hann við öðrum tvíburum, Drómíóunum, sem eru þjónar aðaltvíburanna, Antifólusanna, og skopleg endurspeglun á þeim.“ Dagur í Efesus Eins og undir eins má sjá er leikritið dálítið flókið og skiptir miklu - eins og oft er í leikritum Shakespeares - að forsagan kom- ist vel til skila. Leikritið gerist á einum degi í grísku borginni Ef- esus, og þegar það hefst er furst- inn í Efesus að dæma kaupmann frá Sýrakúsu til dauða nema hann geti samdægurs greitt sekt fyrir að láta sjá sig á þessum slóðum. Furstinn er þó mildingur og biður _ kaupmanninn að skýra hvers vegna hann hafi verið að koma til Efesus sem Sýrakúsumönnum er bannað. Kaupmaðurinn segir þá furstanum harmsögu lífs síns þeg- ar hann týndi konu sinni og barn- ungum tvíburasyni f skipreika. Sjálfur hélt hann eftir öðrum syni - hinum tvíburanum. En sá tví- burinn þráði svo heitt að finna bróður sinn að átján árum seinna yfirgaf hann föður sinn og lagði land undir fót til að leita hans og móður sinnar. Eða eins og hann segir: heiminum er ég eins og dropi af vatni sem leitar annars dropa í hafsins djúpum, fellur til þess að finna þar sinn líka, og glatar sjálfum sér í þeirri leit. Nú er gamli maðurinn sjálfur farinn af stað til að leita að syni sínum og þjóni hans, hina í fjöl- skyldunni telur hann af, og hefur hann borið til Sýrakúsu á leið sinni. Forsöguna segir faðirinn, Ege- on, í löngu máli en í sýningunni er áhorfendum léttur leikurinn með því að sýna söguna í látbragðsleik á pöllum bakatil á sviðinu. „Þessi látbragðsleikur kom ekki til fyrr en æfingatíminn var langt kom- inn,“ sagði Hávar, „en hann gerði allt mun auðveldara fyrir Hallgrím sem leikur Egeon og væntanlega áhorfendur líka.“ Misgripin sem leikurinn fjallar um verða svo þegar tvíburabróð- urinn frá Sýrakúsu ber til Efesus ásamt þjóninum Drómíó og fólk þar kemur fram við hann eins og hann sé heimamaður. Lengst af koma bræðurnir til skiptis inn á sviðið, þekkja ekki í sundur þjóna sína og þjónamir ekki þá og svo framvegis. Ekki bætir úr skák að tvíburarnir ganga undir sama nafni og veldur það Antífó- lusi og Drómíó frá Sýrakúsu endalausri undrun að allir í Efes- us skuli nefna þá með nafni, að- komumennina. Aðalfjörið verð- ur þó þegar eiginkona, mágkona og hjákona Antífólusar í Efesus þekkja bræðurna ekki í sundur og eiginkonan lokar eiginmanninn úti en tekur hinn með sér á hæga- loft. Gróteskl en ekki harmrænt Á ensku heitir leikritið The Comedy of Errors og er vinsælt í skólum og meðal leikhópa ungs fólks í heimalandinu vegna þess að nær allar aðalpersónurnar eru ungar manneskjur. í eina skiptið sem leikritið hefur verið sett upp hér á landi áður var það einmitt í skóla, þá stjórnaði Ævar R. Kvaran því hjá Herranótt árið 1967. Engir aukvisar voru í hlut- verkum þá frekar en nú því Pétur Gunnarsson lék Antifólusana báða og Þórarinn Eldjárn báða þjónana. „Þetta verk var leikið í skólan- um mínum úti í Bretlandi þegar ég var þar, en ég átti engan þátt í þeirri uppfærslu," sagði Hávar. „Hins vegar sá ég tvö myndbönd með því núna á æfingatímanum. Annað er uppsetning frá BBC sem sjónvarpið á og þar sem öll áherslan er lögð á hryllinginn í verkinu. Auðvitað koma voða- legir hlutir fyrir fólk í leikritinu, en ef þeir eru teknir í alvöru og búið til sálfræðilegt drama úr öllu saman þá hrynur allt! Þetta er gróteskt verk, misskilningsfarsi, ekkert hversdagsraunsæi. Hin uppfærslan sem ég sá á bandi var frá Konunglega Shak- espeareleikhúsinu í Stratford frá því fyrir tíu árum. Þar var gerður úr leikritinu viðamikill söng- leikur, geysilega skemmtileg sýn- ing. Ég er feginn hvað ég sá hana seint, annars hefði hún haft of mikil áhrif á mig.“ Leikritið er dillandi fjörugt, textinn safaríkur og persónu- sköpun skemmtileg. Hlutverk tvíburanna tvennu bjóða upp á mikil tilþrif, þjónarnir ærslast um sviðið og nota frábæra málgáfu sína til að lýsa barsmíðunum sem þeir fá út úr misskilningnum. Antifólusarnir sýna margvíslegri viðbrögð enda fleira sem dynur á þeim en högg. Móðirin, skassið og meyjan Það sem á þó áreiðanlega eftir að vekja hvað mesta athygli í Hafnarfirði í ár eru kvenhlut- verkin og orðin sem konurnar fá að segja. Þetta eru vitaskuld staðlaðar kvengerðir og boð- skapurinn hjá Shakespeare eins og í Skassið tamið sá að kona eigi að vera manni sínum undirgefin. En ekkert er einfalt hjá skáldinu. í 2. þætti er bráðgott samtal milli Aríönu, eiginkonu Antifólusar í Efesus, og systur hennar, Lúsí- önu, þar sem Lúsíana er að reyna að stilla skap systur sinnar og af- sakafjarvistireiginmannsins. Ar- íana segir aftur á móti að taumhlýðni verði ösnum einum kennd og systir hennar myndi syngja annan söng ef hún væri gift sjálf: Létt er að þreyja, þegar ekkert bagar, þolgœði er auðvelt, meðan vel til hagar... og þú, sem engan þrjót þig lœtur kúga, til þolinmæði í raunum vilt mér snúa; en hrepptirþú þá hörmung sem mig kvelur, þín heimska þolinmœði stykki í felur. Ekki er að efa að Shakespeare hefur fundist hin ljúfa Lúsíana betri til eftirbreytni fyrir kven- fólk, hún sem segir að hlýðnin komi á undan ástinni og kona eigi ekki að spyrja neins þótt bóndinn fari á flakk. En hann leggur Arí- önu, skassinu, bráðgóð orð í munn - kannski hafði hann meira gaman af henni þrátt fyrir allt. Undir lok verksins þegar fjöl- skyldan hittist öll aftur eftir langan aðskilnað heldur móðir bræðranna snöfurlega ræðu yfir tengdadótturinni um hversu fara skuli að karlmönnum. Þar á nú ekki að brúka járnhendur nema í silkihanska séu. Alltgaman hans varheftafþínu nöldrí, holl skemmtun læst og lokuð; hvað hlaust af annað en dimm og döpur hugarnauð... Efmatró, gleði og hvíldin holla flýr, þá hljóta að œrast bæði menn og dýr. Afbrýðin hefur hug þinn fastan tekið og hyggju bónda þíns í sturlun rekið. Eiginkonan tekur tilsögninni vel þó að auðvitað sé sturlunin bara í misgripum, og í lokin fellur allt í ljúfa löð eins og vera ber í gamanleik. Hamingjusamur endir er áréttaður í sýningunni með fagnaðarlátum og lófataki eins og í veislu eftir kosninga- sigur. Leikför til Indlands Æfingatíminn hefur verið þrír mánuðir enda er texti leikritsins drjúgur og miklu máli skiptir að hann komist vel til skila. „Ég er mjög ánægður með það, að mér finnst leikurinn standa undir sýn- ingunni. Þó að vinnan hafi verið erfið og miklum tíma eytt í fram- sögn eins og eðlilegt er í leikriti eftir Shakespeare munaði um að allir leikararnir hafa leikið áður, nokkrir talsvert mikið, og sumir hafa fengið tilsögn.“ Tónlistin í verkinu er sérstak- lega samin fyrir þessa uppfærslu. Þetta er flaututónlist eftir Hróðmar Sigurbjörnsson sem Petrea Óskarsdóttir leikur. Hún er á sviðinu allan tímann, leiðir leikritið áfram með músíkinni og kynnir og boðar persónur inn á sviðið því aðalpersónurnar eiga sitt stef, bræðrapörin, konurnar og furstinn. Stefin fléttast svo saman þegar persónurnar hittast og takast á. Til mikils er að vinna því hóp- urinn fer með leikritið alla leið til Indlands í febrúar þar sem það verður leikið á leiklistarhátíð í Nýju Dehlí. Við óskum leik- hópnum góðrar ferðar, og vonum að áður en til þess kemur flykkist bæði Hafnfirðingar og aðrir íbúar á höfuðborgarsvæðinu í Bæjarbíó og skemmti sér við listileg uppá- tæki tvíburanna tvennu og þeirra fólks. SA Antifólus í Efesus tekurþjónsinn Drómíóhaustaki. DavíðÞórJóns- sonogLárusH. Vilhjálmsson. Hópmynd af leikurum í sýningu Leikfélags Hafn- arfjarðar á Allt í misgripum eftirW. Shakespeare. Fimmtudagur 12. janúar 1989 NÝTT HELGARBLAÐ - SÍÐA 21

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.