Þjóðviljinn - 08.12.1989, Blaðsíða 23
HELGARMENNINGIN
Rótleysið er
gæfa okkar
ogógæfa
Spjallað við Einar Kárason um Fyrirheitna
landið
„Eyjasögur" Einars Kára-
sonar, „Þarsem djöflaeyjan
rís“ og „Gulleyjan", eru ís-
lenskum lesendum að góðu
kunnar. Fjölskylda Karólínu
spákonu íThulekampinum
varð smám saman mjög ná-
komin fjölda fólks og fæddi af
sérendalausarvangaveltur
og kynjasögur um allt land.
Alls konar fólk þóttist þekkja
fyrirmyndir persóna og víða
um höfuðborginafundu menn
Thulekampi stað. Ekki
minnkaði umtalið þegar Kjart-
an Ragnarsson smíðaði leik-
gerð upp úrsögunum sem
sýnd var fyrir fullu húsi mán-
uðum saman. Og smám sam-
an breiðist hróður bókanna út
fyrir landsteinana því að
Djöflaeyjan hefur komið út
bæði í Danmörku og Svíþjóð
og fleiri þýðingar eru í undir-
búningi.
En nú var Einar Kárason að
senda frá sér nýja bók, Fyrir-
heitna landið, sem er framhald
fyrri bókanna tveggja, síðasta
bindið í “Eyjabálkinum". Hún
gerist nær samtímanum en fyrri
bækurnar, enda þótt persónur
séu að nokkru leyti þær sömu. í
tilefni af útkomu nýju bókarinnar
var spjallað við Einar yfir kaffi-
bolla á Prikinu og hann fyrst
spurður hvað hefði orðið til þess
að hann tók upp þráðinn frá fyrri
bókunum eftir nokkurra ára hlé
og eitt smásagnasafn.
Sögunni var einfaldlega ekki
lokið. Það sem kemur fram í nýju
bókinni var alla tíð nauðsynlegur
og mikilvægur þáttur og kannski
það allra bitastæðasta í þessari
fjölskyldusögu sem ég hafði í
huga í upphafi. Enginn skyldi
ætla að þegar búið er að draga
upp mannlýsingu sé óþarft að
segja meira. Það er eins og að
halda því fram að Sjálfstætt fólk
hefði ekki átt að vera lengri en 50
síður, þ.e.a.s. lýsingin á Bjarti í
Sumarhúsum, og Grettissaga
eitthvað álíka - uden sammenl-
igning i övrigt, eins og Danir
segja. Allir þættir sögunnar, eins
og hún birtist í öllum þremur
bókunum, eru jafn mikilvægir.
Lesandinn
hluti af
fjölskyldunni
Djöflaeyjan og Gulleyjan eru
sagðar í 3. persónu, en Fyrir-
heitna landið er 1. persónu frá-
sögn. Hvers vegna?
Þessi er í 1. persónu vegna þess
að hinar voru í 3. persónu. 3. per-
sónu frásögn felur í sér fjarlægð
frá söguefninu. Röddin sem segir
söguna er gjörsamlega ótengd
söguefninu og persónunum.
Söguhöfundur, og þar með les-
andinn, er í írónískri fjarlægð,
sem gefur marga möguleika.
Auðvelt er að skopfæra og búa til
alls konar grín út úr viðfangsefn-
inu. Það hentaði líka því ætlunar-
verki að búa til goðsagna-
kenndan heim út úr jarðbundnu
og veraldlegu söguefni eins og
braggahverfi í Reykjavík. Þegar
því var lokið var mjög mikilvægt
atriði eftir - að bæði höfundur og
lesendurnir færu inn í þessa ver-
öld, yrðu hluti af fjölskyldunni.
Þetta er eins og munurinn á því
að kynnast landi gegnum sjón-
varp og hinu að verða skiptinemi
í landinu. Þess vegna beiti ég
þessum frásagnarhætti. Einn í
fjölskyldunni segir sögu fólksins
eins og það lifir í nútímanum, les-
endur sjá það með hans augum.
Margir hafa þóst heyra alvar-
legri tón í nýju bókinni. Stafar
það afþví að hinn glaðbeitti sögu-
maður fyrri bókanna er horfinn?
Helstu atburðir nýju sögunnar
eru af mjög svipuðum toga og í
fyrri bókunum. Kannski kristall-
ast munurinn í því að það verður
sjálfkrafa ópersónulegra og
jafnvel spaugilegra að lesa um
þessar gegndarlausu svallveislur
sem haldnar eru í húsi fjölskyld-
unnar í Djöflaeyjunni ef sá sem
segir frá stendur utan við, heldur
en ef það er einn úr fjölskyld-
unni.
í viðtali við Pjóðviljann rétt
áður en Djöflaeyjan kom út hélstu
því fram að margt vœri líkt með
íslensku og bandarísku samfélagi,
hvort tveggja vœru landnema-
samfélög.
Það sem er líkt með þessum
tveimur samfélögum er rótleysi
landnemans. íslendingar á 20.
öld eru afskaplega rótlaus þjóð,
landnemar í nýjum heimi. Þetta
er ónumið land. Við eigum engar
2000 ára gamlar kirkjur og hof
eða fastar minjar um búsetu forf-
eðra okkar. Þetta rótleysi er bæði
gæfa og ógæfa söguhetjanna í
bókum mínum.
Andlit í
smásjá
í Fyrirheitna landinu er amer-
íski hugsunarhátturinn afhjúpað-
ur, en rómantíseraður í fyrri
bókunum. Af hverju endar þú
bálkinn með afhjúpun?
Ég upplifi það ekki sem af-
hjúpun. Það var ekki ætlunin að
þetta yrði neins konar afhjúpun
nema á þann hátt sem hlýtur að
verða þegar skipt er svona um
sjónarhorn. Það er eins og að fara
frá áhorfanda sem situr í bíósal og
sér stórhýsi og breiðstræti til
leikarans sem sér leikmyndina.
Ef þú ferð nógu nálægt ein-
hverju þá hættirðu að sjá það.
Það er hægt að skoða andlit
manns í smásjá og sjá næstum
hverja húðfrumu, án þess að hafa
hugmynd um hvernig maðurinn
lítur út. Frá sjónarhorni frásagn-
arlistarinnar er þetta mjög spenn-
andi og gefandi sjónarhorn, sér í
lagi ef lesandinn hefur einhverja
fyrirfram hugmynd um söguefn-
ið.
íbókinni er helst einhver glæta í
ýmsum kvenpersónum, t.d.
Klöru. Karlmennirnir eru hins
vegar villuráfandi sauðir. Það er
eins og konurnar í sögunni búi
yfir meiri hœfileikum til að lifa af.
Já. Ef einhver aðalpersóna er í
fyrri bókunum þá er það Karó-
lína spákona. í Fyrirheitna
landinu var amma Gógó alltaf
áhugaverðasta persónan frá mínu
sjónarhorni. Hún er einfaldlega
skemmtilegust. Og þegar að er
gáð snýst allt um hana. Hún í sínu
hjólhýsi er eini fasti punkturinn í
lífi annarra söguhetja. Um Klöru
segja hennar nánustu að hún sé
“eina manneskjan með viti“.
Nú hefur þú verið með þennan
sagnaheim í smíðum í u.þ.b. sjö
ár og sögurnar fjalla um afdrifa-
ríkt skeið í íslensku samfélagi.
Breyttist afstaða þín til söguefnis-
ins mikið meðan þú varst að vinna
með það?
Já, hún gjörbreyttist. Það kom
fyrst og fremst til af því að ég hef
lært meir og meir af því að vinna
við þetta. Þetta var ákaflega ge-
fandi og þroskandi viðfangsefni,
hvort sem mér hefur tekist að
nýta mér það.
Söguefnið er
aukaatriði
Hitt er annað að mönnum
hættir til að gera of mikið úr
mikilvægi söguefnis í skáld-
sögum, því þótt það hljómi ótrú-
lega er það yfirleitt bara aukaatr-
iði. Við sjáum þetta ef við
skoðum verk stórra og afkasta-
mikilla höfunda eins og Halldórs
Laxness sem skrifar um svo ólíka
hluti. Efni skáldsagna hans er svo
fjölbreytt og gjörólíkt innbyrðis
sem hugsast getur. En kostir
þeirra allra liggja fyrst og fremst í
höfundarhandbragði hans sem
við þekkjum alls staðar aftur.
Það má líka taka Hamsun,
hann er því betri sem hann hefur
minna efni að moða úr. Stórbrot-
ið efni eins og samfélagsbreyting-
ar eða dramatískir atburðir spilla
yfirleitt hans bókum. Skáldsögur
hans eru bestar þegar hann
leggur upp með nokkurn veginn
ekki neitt. Þetta lærði Hamsun
með tímanum, eins og við sjáum
á síðustu bókinni hans. Þá hafði
hann aldeilis frá miklum atburð-
um að segja, heimsstyrjöld og
föðurlandssvikum, en sleppti
þeim eiginlega alveg. Fyrir vikið
varð þetta stórkostleg bók. Fyrir
góðan höfund skiptir efnið sem
hann hefur í höndunum næstum
engu máli. Og það er alveg sama
hversu stórbrotið söguefni lé-
legur höfundur er að fást við, það
verður aldrei neitt úr því.
Búið er að gefa Þar sem djöfla-
eyjan rís út á Norðurlöndum.
Hvernig hefur bókinni verið tekið
þar?
Viðtökurnar hafa verið alveg
stórfenglegar. Fæstir hér vita af
því að íslenskar nútímabók-
menntir eru allt í einu að verða
einhver stærð utanlands, sérstak-
lega annars staðar á Norðurlönd-
unum. Það hefur orðið mikil
breyting á ekki lengri tíma en síð-
an ég bjó úti í Danmörku 1979-
83. Þá fann maður ekki á bóka-
söfnum íslenskar bókmenntir
eftir tíma Gunnars Gunnarssonar
og Halldórs Laxness nema ein-
hver furðufyrirbæri sem lágu í
eyðilegri hillu, eins og fyrir
slysni. Ef spurt var um íslenskar
nútímabókmenntir á söfnum í
Danmörku var mönnum helst
bent á bókaflokk eftir íslending,
búsettan í Danmörku sem hann
gaf út sjálfur og kallaði Islandsk
verdenslitteratur. Jafnvel þótt
maður hitti fólk sem var áhuga-
samt og lesið í öllum greinum
skáldskapar spurðu flestir hvort
nokkuð hefði gerst eftir blóma-
tíma Laxness.
Núna síðustu fjögur ár hafa
verið að koma út glænýjar ís-
lenskar skáldsögur í þessum
löndum, oft margar á ári. Nöfn
eins og Thor Vilhjálmsson og
Einar Már Guðmundsson þekkja
allir sem hafa áhuga á bók-
menntum. Mínar bækur eru að
koma út og Gunnlaðar saga
Svövu Jakobsdóttur er væntan-
leg. Það sem er eftirtektarverðast
er að fjallað er um þessar bækur
okkar í öllum fjölmiðlum og talað
um þær eins og bók-
menntaviðburði. Hvergi örlar á
því að þetta sé tekið eins og
eitthvert forvitnilegt efni fyrir
fólk með áhuga á skrýtnum þjóð-
um og fornum búskaparháttum.
Hvað er næst á döfinni hjá þér,
Einar?
Nú er ég búinn með þessa trí-
lógíu. Það er að vissu leyti dálítill
léttir því að einhvern veginn varð
þetta efni miklu meira en ég
reiknaði með í upphafi. Allar
góðar hugmyndir sem ég hef
fengið á undanförnum árum hef
ég þurft að leggja á ís þar til ég
væri búinn með þetta. Nú fer
maður að gramsa í fsskápnum.
-ÁÓ
Föstudagur 8. desember 1989 NÝTT HELGARBLAÐ — S(ÐA 23