Dagblaðið Vísir - DV - 30.12.1995, Blaðsíða 22

Dagblaðið Vísir - DV - 30.12.1995, Blaðsíða 22
LAUGARDAGUR 30. DESEMBER 1995 22 ■' sérstæð sakamál J,, ’wP’' • — , Duíarfulla bréfið Þann 21. desember 1986 lést séra Samuel Baily áttatíu og sex ára. Allt fram á síðasta dag var hann andlega hress og ósjaldan glímdi hann við þá gátu sem varð honum og öðrum mikið umhugsunarefni. Hún tengist bréfi sem hann fann í Biblíunni sinni í apríl 1941. Um það sagði hann við blaðamann rúmum þrem- ur áratugum síðar: „Ég hef enga skýringu á því sem gerðist. Ég hafði aldrei heyrt um Thomas Nowry, sem virðist hafa skrifað undir bréfið. Ég er fyrir löngu kominn á þá skoðun að Nowry hafi á einn eða annan hátt tekist að koma til mín boðum úr gröfinni. Mér er það gáta hvers vegna hann valdi mig, en staðreynd- irnar tala sínu máli.“ Bréfið Staðreyndirnar voru óvenjulegar. Um það verður ekki deilt, og þær urðu upphaf einhverrar furðuleg- ustu rannsóknar sem breska lög- reglan hefur nokkru sinni þurft að standa fyrir. Snemma sunnudagsmorgun einn í apríl 1941 kom séra Bailey inn í vinnuherbergi sitt til þess að leggja síðustu hönd á predikun sína. í Biblíunni fann hann þá bréf, sem var vandlega skrifað með upphafs- stöfum og var á þessa leið: „John Pinney og James Daugher- ty rændu mig og drápu. Síðan grófu þeir mig á akri nærri Kirkham. Láttu þá kom fyrir dómara." Nafnið undir bréfinu var Thomas Dowry. Séra Bailey hafði aðeins þjónað kirkjunni í Blackburn, Lancashire, í tvö ár, en hann kannaðist vel við John Pinney, enda var hann einn þeirra sem sóttu kirkjuna reglulega. Hin tvö nöfnin í bréfinu kannaðist hann ekki við. Þegar kona hans vaknaði sýndi hann henni það. Hún kannaðist ekki við nöfnin tvö, og það gerði öldruð móðir hans heldur ekki. Skriftin hverfur Meðal kirkjugesta þennan sunnu- dagsmorgun var Philip Ricks, full- trúi í rannsóknarlögreglunni, en hann þekkti séra Bailey vel. Hálfum mánuði áður hafði hann skírt dótt- ur hans. Eftir messu bað séra Bailey Ricks að ræða við sig. Hann tók fram bréflð, en honum til mikillar furðu var blaðið þá autt. Ekkert stóð á því, og í pappírnum voru ekki einu sinni rákir sem bentu til þess að á hann hefði verið skrifað. Séra Bailey sagði Ricks fulltrúa sögu sína. Fulltrúinn hlustaði á hana, og hefði einhver annar en sóknarpresturinn átt i hlut hefði hann ef til vill hafnað þvi sem hann heyrði eins og hverjum öðrum hug- arburði. En Ricks þekkti prest af góðu einu og ákvað að kanna málið. í ljós kom að farandsali að nafni Thomas Nowry var á lista yfir fólk sem hafði horfið sporlaust. Kona hans, Daphne, hafði tilkynnt hvarf hans, eftir að hann sneri ekki heim til hennar fóstudagskvöld eitt í ágúst 1938. Þau höfðu þá búið í Blackpool. Thomas fór um og seldi vörur á afborgunum. Húsmæður sem skiptu við hann borguðu í fyrstu inn á það sem þær festu kaup á, en hann fór síðan reglulega til þeirra til að innheimta afborganir. Hafði hann verið í slíkri innheimtu- ferð daginn sem hann hvarf. Fingraför Ricks fulltrúi sá í lögregluskýrsl- um að bíll Nowrys hafði fundst á að- alveginum milli Blackbum og Blackpool, nærri Kirkham, en Now- ry hafði aldrei fundist. Tæknimenn lögreglunnar höfðu leitað fingrafara í bílnum og höfðu flest reynst vera af Nowry, eins og við hafði mátt bú- ast. En að auki höfðu fundist fingra- för tveggja annara manna, en þau höfðu hvergi verið á skrá og því hafði ekki tekist að upplýsa af hverjum þau voru. Ricks fulltrúi komst að því að annar mannanna sem tilgreindur var í bréfinu, John Pinney, vann i verksmiðju sem smíðaði hergögn. Þá komst Ricks að því að nánasti vinur hans hét James Daugherty. í samráði við yfirmenn verk- smiðjunnar var sett á svið innbrot í hana. Tilgangurinn var að fá tæki- færi til að taka fingrafór allra starfs- mannanna, en þeim var sagt að úti- loka þyrfti að einhver þeirra hefði átt hlut að máli. Þau voru tekin og kom þá í ljós að fingrafór þeirra Pinneys og Daughertys komu heim og saman við þau sem fundist höfðu á stýri og hurð bíls Nowrys. Handtaka og yfirheyrsla Pinney og Daugherty voru nú teknir höndum og færðir á lögreglu- stöð. Var hvorugum sagt að hinn hefði verið handtekinn. Við fyrstu yfirheyrslur neituðu báðir að geta varpað nokkru ljósi á hvarf Thomas Nowry, enda sögðust þeir engan hafa þekkt með því nafni. Þegar þeir voru hins vegar beðnir að gefa á því skýringu hvers vegna fingraför þeirra hefðu fundist í bíl hans féll Daugherty saman. Hann gaf nú þá skýringu að þeir hefðu fengið far með Nowry, en hann hefði neitað því að þekkja hann af því honum hefði verið kunnugt um hvarf hans og ekki viljað tengjast því. Erfitt hefði verið að sýna fram á að Daugherty segði ósatt hefði ekki komið til að við húsleit. á heimili hans fannst vasaúr sem á stóð „Til Toms, með ástarkveðju. Daphne. 13. 1. ’37“. Úrið hafði verið gjöf Daphne, konu Thomas Nowry, til hans á sex- tugsafmæli hans. Pinney lýsti yfir því að hann hefði keypt úrið af Nowry kvöldið sem þeir Daugherty hefðu fengið far með honum. Daugherty, sem fékk ekki að heyra nema hluta af því sem fram kom í yfirheyrslunum yfir Pinney, sagðist hins vegar ekkert vita um kaup félaga síns á úrinu. Ný frásögn Pinney varð að taka alla frásögn sína til endurskoðunar þegar hon- um var sýnt fram á að frásögnum þeirra Daughertys bæri ekki saman. Pinney sagði nú eftirfarandi: „Við Jim (Daugherty) fengum okkur neð- an í því. Við vissum að gamli mað- urinn var vanur að fara í inn- heimtuferð á fostudögum. Við geng- um því út frá því að hann yrði með talsverða peninga á sér og ákváðum að ræna hann.“ Pinney sagði að þeir félagar hefðu farið á mótorhjóli út á veginn við Kirkham, en þeir hefðu vitað að Nowry færi um hann. Þegar þeir hefðu séð til hans hefðu þeir veifað og hann stöðvað bíl sinn. Þeir hefðu þá sagt honum að mótorhjólið hefði bilað og beðið hann um að aka öðr- um þeirra til Kirkham til að ná í viðgerðarmann. Nowry tók vel í það, að sögn Pin- neys. En á nær sama augnabliki sagði hann Daugherty hafa dregið fram járnstöng sem hann hefði geymt uppi i erminni og slegið Now- ry í höfuðið. Hefði hann látist sam- stundis. Hvor um sig ásakar hinn „Ég hafði ekki hugmynd um að Daugherty ætlaði að drepa gamla manninn," sagði Pinney. „Það var heldur ekki tilgangurinn. Við ætl- uðum bara að ræna peningunum af honum.“ Pinney sagði þá félaga hafa dreg- ið Nowry út úr bílnum og grafið lík- ið utan vegar en síðan haldið burt á mótorhjólinu. Þegar Daugherty var skýrt frá játningu Pinneys neitaði hann að hafa slegið Nowry og sagði að Pinn- ey hefði gert það. Bauðst hann til að sýna lögreglunni hvar líkið væri grafið. Það fannst svo um fimmtíu metra utan vegarins sem bíll Nowrys hafði fundist á. Þegar málið kom fyrir rétt var því haldið fram af hálfu saksóknara að i raun skipti engu refsingarinnar vegna hvor þeirra Pinneys og Daug- hertys hefði banað Nowry. Báðir yrðu að teljast jafnsekir, því þeir hefðu skipulagt árásina og ránið. Kviðdómur var aðeins tæpar tíu mínútur að komast að niðurstöðu, og var hún á þá leið að báðir teldust mennirnir sekir. Voru þeir dæmdir til dauða, en dauðarefsing var þá enn í gildi í Bretlandi. Aftakan Móðir Pinneys og eiginkona hans hófu undirskriftasöfnun til þess að reyna að fá liflátsdóminum breytt í fangelsisdóm. Töldu þær að ef þeim tækist að fá ekkju Thomas Nowry til að skrifa undir beiðnina yrði meira mark tekið á henni en ella. En svar Daphne Nowry var á þessa leið: „Ég léti mér ekki til hugar koma að skrifa undir slíka beiðni. Þessir tveir menn gerðu mig að ekkju með því að drepa manninn sem ég elskaði og hafði verið hamingjusam- lega gift í nærri fjörutíu ár. Mér er sama þótt þeir fari beinustu leið til vítis. Og þvi fyrr því betra.“ Svo skellti hún hurðinni á konumar tvær. Sjö vikum síðar voru báðir menn- irnir teknir af lífi. Rannsóknir á bréfinu Nú var aðeins eftir að upplýsa á hvern hátt séra Bailey hafði borist bréfið sem hann hafði fyrst lesið einn en síðan með konu sinni. Tæknimenn reyndu öll þekkt ráð til að kalla fram horfnu skriftina á blaðinu en án árangurs. Og það var ekki aðeins reynt einu sinni, heldur í hvert sinn sem ný tækni á þessu sviði kom fram. Aldrei tókst hins vegar að sýna fram á að nokkru sinni hefði nokkuð verið skrifað á þetta blað. „Ég notaði Biblíuna mína á laug- ardagskvöldinu þegar ég samdi predikunina," sagði sér Bailey. „Þá var ekkert bréf í henni. Og hvorugt okkar hjónanna lagði það í hana. Þá voru útidyrahurðirnar læstar og all- ir gluggar lokaðir. Það er því aðeins einn maður sem gat komið bréfinu i Biblíuna, Thomas Nowry, sem gat ekki fúndið frið fyrr en morðingjum hans yrði refsað og hann jarðsettur í vígðum reit.“ Þar við situr, og ólíklegt þykir að önnur skýring fáist á bréfinu sem upplýsti skýrum stöfum það sem gerðist, en varð svo að auðu blaði.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.