Morgunblaðið - 17.01.2001, Blaðsíða 36
UMRÆÐAN
36 MIÐVIKUDAGUR 17. JANÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
SUNNUDAGSKVÖLDIÐ 14.
janúar horfði ég á einn af þáttum
Ómars Ragnarssonar, fréttamanns
á Ríkissjónvarpinu, um
helstu atburði 20. ald-
ar. Í brennidepli var
árið 1915 og hófst þátt-
urinn á að tíunda þær
breytingar sem urðu
með nýrri stjórnarskrá
það sama ár. Fullyrt
var að með stjórnar-
skránni hefðu íslensk-
ar konur fengið kosn-
ingarétt og kjörgengi
til Alþingis til jafns á
við karlmenn. Þetta er
ekki rétt því réttindin
fengu aðeins þær kon-
ur sem voru 40 ára og
eldri. Aldurstakmarkið
skyldi lækka um eitt ár
næstu 15 árin, eða þar til 25 ára
aldri væri náð en það voru þau mörk
sem almennur kosningaréttur karla
miðaðist við. Og þá er rétt að geta
þess að við sama tækifæri, 19. júní
1915, fengu þeir karlar sem voru
vistráðin hjú kosningarétt með
sömu skilyrðum og konur. Ástæðan
fyrir aldurstakmarkinu var sú að
stjórnvöld (karlar) töldu hina nýju
kjósendur ekki nægilega þroskaða
til að takast á við kosningaréttinn og
töldu að ef þeim yrði öllum hleypt að
kosningaborðinu í einu gæti það
haft ófyrirsjáanleg áhrif á niður-
stöður kosninga. Um þetta höfðu
þingmenn skeggrætt árum saman á
Alþingi áður en stjórnarskráin var
samþykkt og loks staðfest af kon-
ungi.
Í kjölfar sambandslaganna árið
1918 urðu breytingar á stjórnar-
skránni og tóku þær gildi árið 1920.
Þar voru takmarkanirnar frá 1915
felldar niður og konum og körlum 25
ára og eldri veittur
kosningaréttur til Al-
þingis. Það er því ekki
fyrr en 1920 sem karl-
ar og konur verða loks
jöfn að lögum að því er
snertir kosningarétt
og kjörgengi til Al-
þingis.
Önnur alvarleg mis-
sögn var í þættinum.
Frá kosningaréttinum
1915 var stokkið til
ársins 1916 og sagt frá
því að það ár hefðu
konur boðið fram sér-
stakan kvennalista við
bæjarstjórnarkosning-
arnar í Reykjavík.
Fullyrt var að á listanum hefðu ver-
ið fjórar konur sem allar hlutu kosn-
ingu. Þetta er ekki rétt. Það var árið
1908 sem kvenfélögin í Reykjavík
sameinuðust um fyrsta kvennafram-
boðið á Íslandi. Fjórar konur skip-
uðu listann, þar á meðal kvenrétt-
indafrömuðurinn Bríet
Bjarnhéðinsdóttir, og komust þær
allar í bæjarstjórn – fyrstar kvenna
hér á landi. Við bæjarstjórnarkosn-
ingar næstu árin var að jafnaði sér-
stakur kvennalisti í framboði og
geta fróðleiksfúsir lesið um kvenna-
framboðin 1908–1922 (síðarnefnda
ártalið miðast við framboðslista
kvenna til alþingiskosninga en eins
og kunnugt er hlaut Ingibjörg H.
Bjarnason skólastýra þá kosningu
til Alþingis, fyrst kvenna) í verkum
Auðar Styrkársdóttur stjórnmála-
fræðings. Árið 1916 buðu kvenfélög-
in í Reykjavík fram sérstakan lista
sem skipaður var konum í tveimur
fyrstu sætunum en körlum í þremur
næstu. Enginn af þessum lista náði
kosningu. Árið 1916 urðu aftur á
móti þau tímamót að kona, Bríet
Bjarnhéðinsdóttir, tók sæti á fram-
boðslista við alþingiskosningar
(Heimastjórnarflokk Hannesar
Hafstein) og var það í fyrsta sinn
sem kona bauð sig fram til Alþingis.
Þá má geta þess, fyrst það var á
annað borð stokkið aftur til ársins
1911 í þættinum og stofnunar Há-
skóla Íslands getið, að það sama ár
fengu íslenskar konur ótakmarkað-
an rétt til menntunar og embætta.
Þær höfðu því frá upphafi sama rétt
og karlar til náms við Háskóla Ís-
lands og það sem er ef til vill enn
mikilvægara: sama rétt og karlar til
hvers þess embættis eða starfs sem
hugurinn girntist. Annað mál er svo
hvernig konum gekk að fylgja þess-
um réttindum eftir.
Það getur verið erfitt að gera
sjónvarps- eða útvarpsþátt, hvað þá
að skrifa bók um sögulegt efni, án
þess að villur slæðist með. Það olli
mér hins vegar verulegum ama að
þar sem fjallað var um konur í þætt-
inum skyldu vera svo alvarlegar
missagnir, ekki síst vegna þess að
auðvelt er að hafa uppi á þessum at-
burðum í fræði- og uppflettiritum.
Það er von mín að þar sem kvenna
og merkra atburða úr íslenskri
kvennasögu verður getið í næstu
þáttum verði farið rétt með sögu-
legar staðreyndir.
Missagnir um
áfanga í
sögu kvenna
Erla Hulda
Halldórsdóttir
Ríkissjónvarp
Það olli mér verulegum
ama, segir Erla Hulda
Halldórsdóttir, að í
umfjöllun um konur
skyldu vera svo
alvarlegar missagnir.
Höfundur er sagnfræðingur og
forstöðumaður Kvennasögusafns
Íslands.
ÁRIÐ byrjar ekki
vel fyrir húsnæðis-
félög sem eru að
reyna að fóta sig á erf-
iðum markaði í rekstri
íbúðarhúsnæðis.
Veruleg vaxtahækkun
er nú boðuð sem gerir
áframhaldandi upp-
byggingu frjálsra
félagasamtaka nánast
ómögulega. Enn eru
stjórnvöld að ýta und-
ir séreignarstefnu Ís-
lendinga sem hefur
leitt þúsundir fjöl-
skyldna í gjaldþrot.
Árið byrjar enn síður
vel fyrir þá sem minna
mega sín í tekjum og eiga því rétt á
svokölluðum viðbótarlánum. Þeim
tekjulægri er nú gert að greiða
hærri vexti af viðbótarlánum en al-
menningi er gert að greiða af hús-
bréfum! Hún hefur farið frekar
hljótt, þessi umræða, og því velti
ég upp þeirri spurningu hvort vér
mótmælum hreint aldrei. Hvað
þarf til að hreyfa við okkur þegar
slík kjaraskerðing er ákveðin með
litlum eða engum fyrirvara? Búseti
fékk árið 1999 lánsloforð til bygg-
ingar á myndarlegu húsi í Graf-
arvoginum. Vaxtakjörin voru
ákveðin 3,2% til 50 ára. Húsnæð-
iskostnaður reiknaður út eftir
kúnstarinnar reglum, kynntur og
íbúðarréttur seldur til félags-
manna. Nú þegar húsið er afhent í
byrjun janúar blasir við hækkun á
mánaðarlegum kostnaði upp á 25–
30% og fyrirvarinn er 5 dagar.
Vissulega hafa legið í loftinu þau
áform stjórnvalda að vextir skyldu
fylgja markaðsvöxtum en á sama
tíma hefur það einnig legið fyrir að
endurskoða þurfi leiðir til lækk-
unar húsnæðiskostn-
aðar í formi hærri
vaxtabóta eða stofn-
styrkja.
Þegar lögum um
húsnæðismál var
breytt fyrir rúmum
tveimur árum höfðu
margir áhyggjur af af-
leiðingum þess að loka
á einu bretti fyrir
uppbyggingu í hinu
svokallaða félagslega
kerfi. Því var lokað á
einu bretti án þess að
neinar aðgerðir kæmu
í staðinn. Allt í einu
hurfu af markaðnum
3–400 nýjar íbúðir á
höfuðborgarsvæðinu einu. Á sama
tíma hefur straumur fólks af lands-
byggðinni til borgarinnar aldrei
verið meiri. Það má að sjálfsögðu
rökræða með hvað hætti stjórnvöld
vilji eða eigi koma að niðurgreiðslu
á íbúðarhúsnæði fyrir landsmenn. Í
dag fær allur þorri almennings
með einum eða öðrum hætti hús-
næðisbætur, annað hvort vaxta-
eða húsaleigubætur. Það má líka
rökræða hvort það sé réttlætanlegt
að húsnæðisfélög eins og t.d. Bú-
seti fái enn frekari fyrirgreiðslu en
almenningur. Það eru margar
ástæður sem réttlæta umframnið-
urgreiðslu vaxta til húsnæðis-
félaga. Fyrst má nefna að félaga-
samtök eru góður viðskiptavinur
sem tekur lán til lengri tíma en al-
menningur og því er ódýrari um-
sýsla á fjármunum. Því væri rétt-
ara að tala um lægri vexti, betri
kjör. Félagasamtök ná líka að deila
niðurgreiðslunni á fjölmargar fjöl-
skyldur á löngum lánstíma. Það
eru ekki einstakir lánþegar sem
taka út niðurgreiðsluna til per-
sónulegra nota ef svo má að orði
komast. Húsnæðisfélög eru líka
nauðsynlegur hlekkur í flóru úr-
ræða á húsnæðismarkaðnum. Það
er alþekkt að einstaklingar og fjöl-
skyldur taka sitt fyrsta skref til
kaupa á almennum markaði hjá
Búseta. Það er einnig mjög þekkt
staðreynd að Búseti er oft eina úr-
ræði þeirra sem hafa orðið undir í
fjármálum, lent í gjaldþroti og eiga
ekki í nein hús að venda þrátt fyrir
ágæta greiðslugetu á mánaðarleg-
um húsnæðiskostnaði.
Það er von mín að stjórn Íbúða-
lánasjóðs fái ný fyrirmæli um
vaxtaákvarðanir frá yfirmanni sín-
um, félagsmálaráðherra. Að öðrum
kosti blasir við að uppbygging okk-
ar mun verulega dragast saman því
við eigum mjög erfitt með að bjóða
okkar félagsmönnum húsnæði á
viðráðanlegu verði á þeim kjörum
sem nú bjóðast. Það þarf eitthvað
að koma á móti. Við getum þá verið
að tala um hærri vaxtabætur,
stofnstyrki til nýbygginga eða rétt
eins verið hefur, betri vaxtakjör til
félagasamtaka.
Mótmælum vér aldrei?
Gunnar
Jónatansson
Húsnæðismál
Það eru margar
ástæður, segir Gunnar
Jónatansson, sem
réttlæta umframnið-
urgreiðslu vaxta til
húsnæðisfélaga.
Höfundur er framkvæmdastjóri
Búseta hsf.
V
enice Beach. Það er
tekið að rökkva á
sunnudagssíðdegi um
miðjan janúar – í
svartasta skammdeg-
inu hér í Kaliforníu. Það fyrirbæri
hefur einhvernveginn allt aðra
merkingu hér innan um pálmatrén
og kókoshneturnar en á ísa köldu
landi, en hinum innfæddu finnst
engu að síður kalt. Hrollkalt. Íbúar
Los Angeles, eða angelenos eins
og þeir eru kallaðir, eru enda ekki
vanir kuldakasti eins og hér hefur
staðið yfir undanfarna daga. Hiti
um eða yfir 15 stig, kaldara á næt-
urnar. – Já, það er satt. Það er
auðvitað hrollkalt...
Veðurfræðingurinn á CNN
heldur því fram að betri tíð sé
framundan og líklega hefur hann
rétt fyrir sér. Í borg englanna sem
teygir sig yfir ógnarstórt svæði út
frá strönd Kyrrahafsins inn til
landsins er árið um kring fremur
stabílt veður. Eitt orð myndi duga
vel í veðurlýsingum flesta daga.
Gott.
Allt frá því
Spánverjar
ákváðu að
koma upp án-
ingarstað þar
sem nú heitir El Pueblo fyrir her-
menn sína árið 1781, hefur byggð
verið í mótun á þessum slóðum
sem áður voru heimkynni um
30.000 indíána af fjölmörgum þjóð-
flokkum, flestum afar smáum.
Trúboð Fransiskusreglunnar sótti
fram í Kaliforníu á þessum tíma og
fórnarlömb hennar urðu því miður
fleiri en fylgjendur. Þegar flestir
hinna heiðnu úr hópi frumbyggj-
anna höfðu verið stráfelldir, segir
sagan, sóttu hinir kristnu Spán-
verjar lengra inn í landið með ljós-
ið og trúna að vopni.
Bækistöð spanjólanna var ekk-
ert meira en það næstu áratugina
á eftir. Þannig bjuggu alls 315 á
þessum slóðum árið 1800 og á
þrettánda þúsund kýr. Frelsisbar-
átta Mexíkóa átti þó eftir að breyta
miklu og árið 1822 voru prestar af
spænskum ættum gerðir burtræk-
ir úr Kaliforníu, trúboðin leystust
að kalla upp og við valdataumum
tóku öflugar fjölskyldur nokkurra
landeigenda sem áttu í vinfengi við
mexíkóska stjórnarherra. Úr
þessu umhverfi spruttu stór býli
eins og við Íslendingar þekkjum
aðeins úr kvikmyndum og bókum;
risastórir búgarðar með víðfeðm-
um sléttum þar sem fótfráir hestar
flytja hugdjarfa kúreka með riffl-
ana sína. Sumir þeirra voru að
sögn skjótari en skugginn að
skjóta.
En síðan eru liðin mörg ár.
Kalifornía tilheyrir ekki lengur
Mexíkó, heldur gekk ríkið í banda-
lag við ríki Norður-Ameríku árið
1850 og hefur síðan sífellt verið að
vaxa ásmegin í samfélagi ríkjanna
hér í landi. Sumpart vegna gíf-
urlegrar fólksfjölgunar sem staðið
hefur yfir nánast látlaust eftir að
lestarsamgöngur við austur-
ströndina komust á 1886. Sumpart
þar sem flest öflugustu afþrey-
ingar- og fjölmiðlunarfyrirtæki
heims hafa hér höfuðstöðvar og
breiða héðan út „fagnaðarerindið“,
ekki einasta til annarra ríkja
Bandaríkjanna heldur og til
heimsbyggðarinnar allrar.
Þegar lestarsamgöngur hófust
af alvöru frá austurströndinni
flykktust innflytjendur á Vest-
urströndina í góða veðrið og nátt-
úrugæðin. Flestir höfðu lagt eitt-
hvað verðmætt að veði fyrir förina
góðu fyrir sig og sína og afrakst-
urinn varð miði aðra leið. Fyrir
vikið breyttist 10.000 manna bær á
svipstundu yfir í 130.000 manna
borg og sannkallað góðæri fór í
hönd. Það reyndist raunar skamm-
vinnt, en á heildina litið hefur stað-
ið yfir linnulaus fólksfjölgun í
borginni Los Angeles æ síðan. Og
þar búa nú um tíu milljónir manna,
meira ef reiknað er með „Stór Los
Angeles-svæðið“. Borg englanna
er önnur stærsta borg Bandaríkj-
anna, á eftir New York en á undan
Chicago. Engin borg eða nokkurt
byggðarlag hefur þó roð í hana
hvað umfang snertir. Los Angeles
er gríðarlega stór borg.
Á þeim tímum þegar rætt er um
„þéttingu byggðar“ á höfuðborg-
arsvæðinu heima er fróðlegt að
velta fyrir sér skipulagsmálum í
Los Angeles. Þar er ekki skýja-
kljúfunum fyrir að fara, þrátt fyrir
fólksmergðina. Ekki heldur stóru
fjölbýlishúsunum. Nei, í borg engl-
anna hefur landrýmið verið haft að
leiðarljósi og því teygist byggðin
út um allt. Til sjávar og sveita.
Vestur og austur. Norður og niður.
Los Angeles teygir sig yfir 1.200
ferkílómetra svæði. Almennings-
samgöngur á öllu þessu flæmi eru í
algjöru lágmarki. Hér er það
einkabíllinn sem ræður. Borgar-
stjórinn í Reykjavík sagði í Morg-
unblaðinu fyrir helgi að borgaryf-
irvöld ættu í erfiðri samkeppni við
einkabílinn þegar almenningssam-
göngur væru annars vegar. Hér í
Los Angeles hefur aldrei verið
nein samkeppni. Bíllinn ræður.
Gatnakerfið er hins vegar að
mörgu leyti stórsniðugt. Risastór-
ar, tíu til tólf akreina hraðbrautir
kljúfa byggðina með reglulegu
millibili, grafnar ofurlítið niður í
stokka með grænum pálmatrján-
um á hvora hönd. Þarna má keyra
vasklega þegar svo ber undir, enda
eru menn víst líka að flýta sér rétt
eins og norðar á jarðarkringlunni,
en aðstæðurnar eru líka til þess.
Með skipulegu millibili koma síðan
akreinar inn í borgarhverfin, eða
smáborgirnar. Þar eru göturnar
vitaskuld minni og fáfarnari. Samt
gengur umferðin giska vel fyrir
sig. Alla jafna. Óþolinmóðum skal
þó bent á að halda sig fjarri á
álagstímum tvisvar á dag; milli 7
og 9 á morgnana og 4 og 6 síðdegis.
Það á víst um fleiri staði.
Það er í borg englanna og
bílanna sem fólk hvaðanæva úr
heiminum hefur kosið að eiga sér
heimkynni. Hér eru allra þjóða
kvikindi í víðtækustu merkingu.
Litla-Tókýó, Kínahverfið, Arm-
enia og fleiri hverfi eru til vitnis
um það og í þeim halda þjóð-
arbrotin saman. Fyrst og fremst
er borgin þó latino eins og nafnið
gefur til kynna.
Óljúgfróðir segja að fleiri tali
hér spænsku en ensku.
Hvaðanæva úr veröldinni
streyma ferðamenn til borg-
arinnar í milljónavís til að líta eigin
augum það sem borið hefur hróður
hennar allt frá Grímsey til Gvate-
mala og Kópaskeri til Kamsjatka.
Hér er nefnilega Hollywood. Og
Beverly Hills. Malibu, Bel Air,
Long Beach, Santa Monica og San
Fernando. Sum örnefnin eru vita-
skuld þekktari en önnur. En eftir
aðeins stutta dvöl meðal engla og
annarra læðist að manni sá grunur
að það sé fyrst og fremst kúltúr
hinna fjölmörgu þjóðarbrota –
þessi hrærigrautur – sem geri Los
Angeles svo heillandi. Ekki glam-
úrinn og glysið, þótt það sé auðvit-
að hreyfiaflið í öllu saman.
Meira um það síðar.
Á vit engla
En eftir aðeins stutta dvöl meðal engla
og annarra læðist að manni sá grunur
að það sé fyrst og fremst kúltur hinna fjöl-
mörgu þjóðarbrota – þessi hrærigrautur
– sem geri Los Angeles svo heillandi.
VIÐHORF
Eftir Björn Inga
Hrafnsson