Morgunblaðið - 21.07.2001, Qupperneq 37
arhönd og róa okkur niður fyrir
keppnina miklu. Þú hjálpaðir okkur
meira að segja að klára matinn okk-
ar þegar við vorum lystarlaus af
stressi, eða af öðrum ástæðum.
Þarna úti varstu hrókur alls fagn-
aðar og máttarstólpi skemmtana-
deildar liðsins, sem útnefnt var vin-
sælasta lið keppninnar.
Þú skaraðir fram úr í öllu sem þú
tókst þér fyrir hendur, sem íþrótta-
maður, sem námsmaður og ekki síst
sem góður félagi. Allar minningar
mínar um þig eru af sama meiði, þú
varst hlýr, traustur og á allan hátt
góður drengur. Því er missir okkar,
sem vorum þeirrar gæfu aðnjótandi
að þekkja þig, mikill og sár.
Samúðarkveðjur vil ég senda fjöl-
skyldu og aðstandendum vinar
míns, Bergs. Sérstaka kveðju vil ég
bera Huldu Maríu, mínum elsku-
lega vini.
Kæri vinur. Það er sárt að missa
svo góðan dreng. Vertu blessaður
og megi Guð geyma þig.
Þinn vinur
Geir.
„Þungt er að deyja, skelfilega
þungt, meðan hjartað er enn ungt.“
Ég kynntist Huldu Maríu og
Bergi í lagadeild en einhvern veginn
var sem við hefðum alltaf þekkst.
Bergur var rólegur og yfirvegaður
og gat alltaf séð hið spaugilega í
hversdagsleikanum. Hlátur hans
smitaði svo frá sér að maður gat
ekki annað en hlegið með. Hann var
einstaklega góð eftirherma og náði
fljótt töktum hjá fólki. Ég dáðist að
því hvað hann var skipulagður.
Hann var duglegur í námi, stóð sig
vel í stjórn Orators, stundaði íþrótt-
ir, vann með skólanum og sinnti vin-
um og ættingjum. Hulda María var
samt alltaf númer eitt, þau voru eitt.
Voru saman í lagadeild, saman í
stjórn Orators, unnu saman á kvöld-
in og lærðu við sama skrifborð. Orð
Aristótelesar að sönn vinátta sé ein
sál í tveimur líkömum eiga vel við
um þau.
Gamlárskvöld árið 2000 er
ógleymanlegt. Þá voru þau nýbúin
að trúlofa sig og gleðin skein úr aug-
um þeirra. Minnisstæð er ferð
nokkurra laganema til Washington í
apríl, þar sem málflutningskeppni
milli allra helstu lagaháskóla heims
fór fram. Ástin blómstraði á milli
þeirra er þau leiddust hönd í hönd
um götur borgarinnar. Einstök er
minningin um gönguferðina frá
þinghúsinu að Hvíta húsinu að
kvöldlagi. Eins fann maður hversu
sterkt samband þeirra var þegar við
tvær fórum í helgarferð til London.
Hann hugsaði svo vel til hennar og
hún til hans.
Sviplegt fráfall góðs vinar kemur
sem þruma úr heiðskíru lofti.
Hannes Pétursson orti:
Sá sem eftir lifir
deyr þeim sem deyr
en hinn dáni lifir
í hjarta og minni
manna er hans sakna.
Elskuleg vinkona mín þarf nú að
horfast í augu við lífið án hans. Án
besta vinar síns sem var henni allt,
án ástarinnar í lífi hennar.
Ég bið góðan Guð að veita Huldu
Maríu æðri styrk til að takast á við
þessa miklu sorg. Ég er og verð
ætíð hjá þér.
Þín vinkona,
Sigþrúður Ármann.
Kæri vinur. Það er erfitt að trúa
því að þú sért farinn. Minningar um
samverustundir okkar streyma
fram í huga mínum. Leiðir okkar
lágu fyrst saman fyrir rúmum
þremur árum, þar sem ég hóf mitt
fyrsta sumar sem afleysingamaður í
lögreglunni í Keflavík. Fyrsta hugs-
un mín þegar ég sá þig á stöðinni
var: „Mikið er ég feginn því að hafa
hann í mínu liði.“ Kom það berlega í
ljós að það var ómetanlegt að fá að
starfa með þér. Ráðleggingunum
sem þú gafst mér í starfi og sem vin-
ur gleymi ég aldrei. Eftir að hafa
kynnst þér nokkuð vel fyrsta sum-
arið kom það nokkrum á óvart að þú
skyldir hefja nám ásamt Huldu
Maríu þinni í lögfræði þar sem þú
varst búinn að fá inngöngu í Lög-
regluskólann. En að sjálfsögðu
stóðstu þig vel í lögfræðinni enda
ekki við öðru að búast af þér. Það
var mikil gleði fyrir mig að geta
sagt vinum mínum í lagadeildinni
frá þér því þeir reyndust afar for-
vitnir og spenntir að vita hver þessi
stóri væri.
Annað sumarið mitt í lögreglunni
reyndist dýrmætt. Vinátta okkar
jókst með hverri ferð sem við ókum
saman til Keflavíkur og var mér þá
ljóst hversu mikil persóna þú varst.
Á þessum tíma eyddum við meiri
tíma saman utan vinnunnar og fékk
ég að kynnast öðlingnum í þér og
prakkarastrikum. Þær voru ófáar
klukkustundirnar sem við eyddum í
Techno að lyfta lóðum. Öðrum hefur
eflaust þótt það skondið að sjá okk-
ur lyfta saman, þig náttúrubarnið
og mig sem reyndi hvað ég gat að
lyfta helmingnum sem þú gast.
Með sannfæringarkrafti þínum
og góðum hugmyndum tókst þér að
fá mig til að vinna eitt sumarið í við-
bót í Keflavík. Jafnframt tókstu lof-
orð af mér um að fara á árshátíð lög-
reglumanna það vor. Þú lofaðir mér
að við myndum stoppa stutt en ég
ílengdist fram undir morgun af
góðri ástæðu og þakka ég þér það að
hafa beðið eftir mér.
Það eru margir hlutir sem við
ætluðum okkur en þeir verða að
bíða betri tíma. Þetta er aðeins brot
af þeim minningum sem ég á um
þig.
Elsku Hulda María mín og að-
standendur. Ykkar missir er mikill.
Megi algóður Guð styrkja ykkur á
þessum erfiðu tímum.
Ég kveð þig með trega, kæri vin-
ur. Traustari vin er vart hægt að
hugsa sér.
Þinn vinur,
Gunnar Thoroddsen.
Við þökkum Bergi samfylgdina
og vináttuna með þessari kveðju:
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(V. Briem.)
Við sendum Huldu Maríu og öðr-
um aðstandendum innilegustu sam-
úðarkveðjur okkar og biðjum algóð-
an Guð að styrkja þau og leiða í
þeirra miklu sorg.
Bekkjarfélagar úr lagadeildinni.
Í dag kveðjum við hinstu kveðju
kæran vin og félaga, Berg Kristin
Eðvarðsson, sem látinn er langt fyr-
ir aldur fram. Við fráfall hans er
höggvið stórt skarð í okkar hóp sem
er búinn að vera samhentur í lengri
tíma en stjórnarstörfin hafa varað.
Við bundumst sterkum vinaböndum
fljótlega eftir að laganámið hófst og
hefur margt verið brallað síðan þá.
Minnisstæð er sumarbústaðarferð
fyrir rúmu ári þar sem Hulda María
og Bergur sinntu gestgjafahlut-
verkinu af stakri prýði. Þrátt fyrir
að gasið hafi klárast og vatn hætti
að renna lét enginn það á sig fá og
einhvern veginn var klárað að elda
og heiti potturinn slapp ekki við
heimsókn okkar.
Eftir þetta varð ekki aftur snúið
og buðum við okkur fram til stjórn-
arstarfa í Orator haustið eftir. Það
var einstakt ánægjuefni að Bergur
skyldi ákveða að bjóða sig fram í
embætti alþjóðaritara, sem hann
var kosinn í með glæsibrag. Það
kom strax í ljós að Bergur var
gæddur mörgum góðum eiginleik-
um sem kom okkur ekki á óvart.
Hann var einstaklega skipulagður,
tók hlutunum með jafnaðargeði,
áreiðanlegur með afbrigðum og
brosið var aldrei langt undan. Hann
kom hlutunum í framkvæmd og
undir hans stjórn var haldin glæsi-
leg norræn vika og með stuttum fyr-
irvara náði hann að undirbúa frá-
bæra bandaríska viku. Þátttakan í
norrænu vikunni fór fram úr björt-
ustu vonum og fór Bergur hreinlega
á kostum í henni. Hann lét einnig til
sín taka í almennum stjórnarstörf-
um og var hann ómissandi á fundum
og öllum atburðum á okkar vegum.
Samband Huldu Maríu og Bergs
var einstakt og þau studdu hvort
annað í einu og öllu. Missir hennar
er mikill og sár. Við munum standa
við hlið hennar um ókomin ár og
leggja okkar af mörkum til að
styrkja hana á þessum erfiðu tím-
um. Við þökkum fyrir þann tíma
sem við fengum að eiga með Bergi.
Minningin um yndislegan dreng
mun ávallt lifa í hjarta okkar.
Stjórn Orators, félags laganema.
Með mikla sorg í hjarta kveðjum
við kæran vin okkar, Berg Kr. Eð-
varðsson, sem allt of fljótt er horf-
inn frá fjölskyldu og vinum. Kynni
okkar tókust fljótlega eftir að hann
og Hulda María hófu nám við laga-
deild og þótt ekki sé langt um liðið
frá þeim tíma er óhætt að segja að
vinskapurinn hafi frá upphafi verið
bundinn sterkum böndum. Bergur
var einstakt ljúfmenni og mátti ekki
vamm sitt vita. Það lýsir honum
kannski best að hann var ávallt
reiðubúinn til að rétta fram hjálp-
arhönd við hvaða aðstæður sem var
og hann var einfaldlega sannur vin-
ur vina sinna.
Minningarnar streyma fram,
ferðir okkar saman, stundirnar við
grillið þar sem heimsmálin voru
rædd á meðan smakkað var á kræs-
ingunum eða samstarfið innan
stjórnar Orators – þær eru allar
góðar. Bergur og Hulda María voru
ákaflega samrýnd enda búin að
þekkjast nánast alla ævi og urðum
við fljótt áskynja að þeirra samband
var afar ástríkt og fullt af kærleika.
Fór það ekki fram hjá neinum að
þau voru svo miklu meira en par,
þau voru bestu vinir og sálufélagar.
En nú hefur ský dregið fyrir sólu og
á óskiljanlegan hátt er Bergur horf-
inn og snýr aldrei til baka. Það verð-
ur tómlegt um að litast í skólastof-
unni í haust þegar hann vantar en
tómið er ekki síst í hjarta okkar.
Elsku Hulda María, sorg þín og
missir er mikill. Megi góður Guð
styðja þig og styrkja á þessum erf-
iðu tímum. Við samhryggjumst þér
og fjölskyldum ykkar Bergs inni-
lega, við grátum einstakan gullmola
við hlið ykkar. Hann mun lifa í
minningunni um ókomna tíð.
Árni og Guðrún.
Kveðja frá Lögreglufélagi
Gullbringusýslu
Góður félagi okkar og samstarfs-
maður, Bergur Kristinn Eðvarðs-
son, er nú fallinn frá, langt fyrir ald-
ur fram. Eftir stendur stórt skarð í
lögregluliði Keflavíkur.
Bergur starfaði við sumarafleys-
ingar í lögreglunni með laganámi og
reyndist framúrskarandi starfs-
kraftur en þó fyrst og fremst traust-
ur og áreiðanlegur vinur. Það var
gott að hafa hann við hlið sér og
hann sinnti störfum sínum af alúð
og hlýju.
Kímnigáfa hans var einstök og
ófáar gleðistundirnar sem hann
skilur eftir hjá vinum og félögum.
Á slíkri stundu verða orðin afar
vanmáttug og fátt hægt að segja
sem lýsir viðbrögðum, huggar eða
sefar sorg þeirra sem eftir standa.
Lögreglufélag Gullbringusýslu
vottar unnustu, skyldmennum og
öllum aðstandendum Bergs Eð-
varðssonar sína innilegustu samúð.
Hljóðlátur, hógvær, langur og
mjór. Þannig minnumst við Bergs
þegar hann mætti á sínar fyrstu æf-
ingar hjá okkur. Við komumst samt
fljótt að því að þar fór drengur með
metnað og gífurlegan viljastyrk.
Hann byrjaði töluvert seinna að æfa
en jafnaldrar hans, en bætti það upp
með mikilli elju. Hann var hugljúfi
hvers þjálfara og tók tilsögn og til-
einkaði sér hana. Þær voru ófáar
stundirnar sem hann eyddi í inn-
keyrslunni heima hjá sér eða á
skólalóðinni. Hann lét ekki duga að
æfa sig með boltann heldur tók
hann allt í gegn, t.d. mataræði, lyft-
ingar og teygjur. Hann uppskar
mjög fljótt og var valinn í unglinga-
landslið 18 ára og yngri á sínum
tíma. Hann var ein af hetjum okkar í
bikarmeistaraliðinu 1998.
Þegar Bergur fór síðan í háskóla-
nám ákvað hann að leggja körfu-
boltann til hliðar og einbeita sér að
því. Hann tók á náminu með sömu
elju og samviskusemi, enda gekk
það mjög vel. Við söknuðum hans,
en vonuðum að eftir að þessu verk-
efni hans væri lokið kæmi hann aft-
ur. Sá söknuður er lítilvægur eftir
áfallið við fráfall hans. Farinn er
góður drengur. Við sendum unnustu
hans og aðstandendum þeirra
beggja okkar innilegustu samúðar-
kveðjur. Guð styrki ykkur.
F.h. körfuknattleiksdeildar
UMFG
Eyjólfur Þór Guðlaugsson.
Kæri vinur, þegar sest er niður til
að skrifa minningarorð um þig lend-
ir maður í vandræðum um hvar skal
byrja, ef vel ætti að vera þyrfti að
skrifa heila bók. Þegar þú og Hulda
María byrjuðuð saman var ég ekki
alveg viss um hvernig ætti að taka
þér þar sem ég þekkti þig lítið þrátt
fyrir að hafa vitað af þér síðan við
vorum öll saman í leikskóla, en ég
komst brátt að því að betri lífsföru-
naut hefði hún ekki getað fundið
sér. Með tímanum höfum við orðið
góðir vinir sem höfum átt margar
góðar stundir saman. Ofarlega í
huga er Flórídaferðin sem fjöl-
skyldan fór í um páskana 1999. Þá
áttu Ásta og Hulda María eitthvað
erfitt með að aðlagast tímamismun-
inum og þegar þær voru sofnaðar
komst þú niður og við sátum úti og
spjölluðum saman fram á nótt. Síð-
ast þegar við hittum þig var mikil
gleði á ykkar heimili í 25 ára afmæl-
inu hennar Huldu Maríu, og að
sjálfsögðu var minnst á driver-
brandarann eins og svo oft áður.
Margar aðrar minningar um þig
berum við í brjósti og er söknuður
okkar mikill, munum við ávallt
geyma þær í hjartastað, kæri vinur.
Elsku Hulda María, þú átt hug
okkar allan á þessum erfiðu tímum
og mundu að þegar við erum ekki
hjá þér í persónu þá erum við það í
huga okkar. Guð gefi þér styrk til að
ráða fram úr þessari erfiðu þraut og
finna leið til að lifa lífinu áfram.
Stebbi, Erla og fjölskylda, megið
þið vera hvert öðru stoð og stytta á
þessum erfiðu tímum og ekki
gleyma því að þið eigið góða að.
Helga, Lilli og fjölskylda ykkar,
missir ykkar er mikill og vottum við
ykkur okkar dýpstu samúð.
„… ef við hittumst aldrei aftur fyndist
mér sem allt
ævintýri tilverunnar væri réttlætt
með því að hafa hitt þig.“
(Lewis Mumford, 1895–1990.)
Heiðar og Ásta.
Ég kynntist Bergi fyrst þegar við
hófum báðir nám við lagadeild Há-
skóla Íslands. Bergur var ekki bara
stór maður, hann var líka stór-
menni. Ljúfur drengur og góður
félagi. Enda eignuðust Bergur og
Hulda María, unnusta hans, fljótt
stóran vinahóp í Háskólanum og
voru bæði kosin til trúnaðarstarfa af
félögum sínum í lagadeild. Ég held
að afar fáir menn geti haft sterkar
skoðanir á hlutunum og verið áber-
andi í félagslífi án þess að verða um
leið umdeildir. Þannig var því nú
samt farið með Berg. Aldrei heyrði
ég nokkurn mann segja styggð-
aryrði í garð þessa góða drengs.
Við laganemar kvörtum stundum
undan strembnu náminu. Mikið eru
nú viðfangsefni námsbókanna samt
léttvæg í samanburði við þá raun
sem blasir við Huldu Maríu; að
halda áfram án Bergs. Ég votta
henni og fjölskyldum þeirra beggja
samúð mína.
Heimspekingurinn Sókrates
komst svo að orði rétt fyrir dauða
sinn: „… nú er mál komið, að vér
göngum héðan, ég til þess að deyja,
en þér til þess að lifa. Hvorir okkar
fari betri för, er öllum hulið nema
guðinum einum.“ Og hver veit nema
þeir látnu dvelji eftir allt saman á
betri stað. En mikið hefði nú samt
verið gott að hafa hann Berg lengur
hjá okkur, sem lifum.
Hafsteinn Þór Hauksson,
bekkjarbróðir í HÍ.
Það var alltaf jafngaman að hitta
hann Berg hvort sem það var í Gils-
árstekknum eða á lögfræðiskemmt-
unum. Hann var alltaf jafn rólegur
og yfirvegaður, og alltaf hress og
kátur.
Það sem stendur upp úr í huga
okkar er kvöldið sem við þrír grill-
uðum saman. Skemmtum okkur
konunglega í félagsskap hver ann-
ars og tókum hressilega til matar
okkar.
Bergur, við þökkum þér fyrir
margar ánægjulegar stundir sem
við áttum með þér. Vonandi ertu
kominn á einhvern góðan stað þarna
uppi.
Elsku Hulda María, hugur okkar
er hjá þér og fjölskyldum ykkar
beggja.
Kjartan og Ásmundur.
Við kynntumst Bergi fyrst vegna
vinskapar okkar og Huldu Maríu en
bundumst honum síðan sterkum
böndum í ferðalagi laganema til
Washington í apríl síðastliðnum.
Það var ógleymanleg ferð og erum
við mjög þakklátir fyrir að hafa
fengið að kynnast þessum einstaka
og góða pilti svo vel sem raun bar
vitni. Þegar við hugsum til baka um
Berg sjáum við hann fyrir okkur við
hlið Huldu Maríu, glaðan í bragði,
góðhjartaðan og með bros á vör.
Þannig var hann og þannig munum
við alltaf minnast hans.
Eggert og Ragnar.
Við sitjum hérna saman og reyn-
um að koma orðum á blað um þenn-
an hræðilega atburð sem við viljum
ekki trúa að sé veruleikinn. Við vit-
um ekki hvað við eigum að segja og
við finnum engin orð til að lýsa því
hvernig okkur líður. Við trúum því
ekki að Bergur sé farinn.
Hver minning dýrmæt perla að
liðnum lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug
þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf,
sem gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu
að kynnast þér.
Elsku Hulda María og aðrir að-
standendur, hugur okkar er hjá
ykkur á þessum erfiðu tímum og við
vottum ykkur dýpstu samúð. Guð
blessi minningu Bergs.
Svana og Júlía.
„Einstakur á við þá sem eru dáðir
og dýrmætir og þeirra skarð verður
aldrei fyllt.“
Bergur var einn af gullmolunum
okkar í Technosport, algjör fyrir-
mynd í líkamsræktinni. Það var
unun að fá að fylgjast með Bergi, við
bárum mikla virðingu fyrir honum.
Hann var fallegur og framkoma
hans í alla staði til fyrirmyndar.
Stutt í brosið og ef einhver þurfti á
hjálp að halda var hann alltaf boðinn
og búinn. Með þessum orðum viljum
við kveðja þig, Bergur, og sendum
unnustu þinni, foreldrum og öðrum
aðstandendum okkar innilegustu
samúðarkveðjur.
Starfsfólk og eigendur
Technosports.
Bergur Kristinn Eðvarðsson,
laganemi, starfaði í fimm sumur við
sumarafleysingar hjá lögreglunni í
Keflavík frá 1. júní 1997. Hann afl-
aði sér virðingar samstarfsmanna
sinna og sinnti starfi sínu af sam-
viskusemi og dugnaði. Hans er sár-
lega saknað af öllu samstarfsfólki og
er hann kvaddur með virðingu.
Unnustu Bergs, foreldrum og
öðrum aðstandendum votta ég mína
innilegustu samúð.
Jón Eysteinsson,
sýslumaður í Keflavík.
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 21. JÚLÍ 2001 37