Morgunblaðið - 08.08.2001, Blaðsíða 6
FRÉTTIR
6 MIÐVIKUDAGUR 8. ÁGÚST 2001 MORGUNBLAÐIÐ
STJÓRN Spalar ehf. hefur ákveð-
ið að láta gjaldskrá fyrir umferð
um Hvalfjarðargöng óhreyfða út
árið þrátt fyrir nokkuð mikið
gengistap fyrirtækisins síðasta ár.
„Síðustu níu mánuði hafa tekjur
aukist nokkuð í kjölfar aukinnar
umferðar. Hins vegar er stærstur
hluti skulda í erlendri mynt þann-
ig að við höfum farið mjög illa út
úr þessu gengissigi sem hefur orð-
ið,“ sagði Gísli Gíslason, stjórnar-
formaður Spalar ehf. sem á og
rekur Hvalfjarðargöng.
Hann segir gengistapið mest
hafa orðið liðlega 700 milljónir en
það hafi gengið að nokkru til baka
síðasta mánuðinn og vonast hann
eftir áframhaldi þeirrar þróunar.
Gjaldskráin
óbreytt út árið
„Á fundi stjórnarinnar í gær [í
fyrradag] var farið yfir níu mán-
aða uppgjör og ákveðið að þrátt
fyrir þessar breytingar ætluðum
við að láta gjaldskrána óhreyfða
þetta árið, meðal annars í þeirri
von að þróunin verði jákvæð
áfram,“ sagði hann. „Hins vegar
má segja að fyrstu tvö árin sem
göngin voru í rekstri hafi geng-
isþróunin verið hagstæð, þannig
að með umferðaraukningu og
þrátt fyrir lækkun á gangagjaldi
höfum við staðið mjög vel gagn-
vart endurgreiðslutíma [lána]. En
þróunin síðustu 12 mánuði eða svo
hefur þýtt að við erum komnir á
eðlilegan uppgreiðslutíma miðað
við samninga,“ bætti Gísli við.
Upphafleg áætlun kvað á um 20
ára endurgreiðslutíma en Gísli
sagði vonir hafa staðið til að geta
stytt tímann um fjögur til fimm ár,
gengisþróunin hafi hins vegar fært
fyrirtækið aftur á byrjunarreit.
Í tölum frá Speli ehf. kemur
fram að heldur hafi dregið úr
aukningu umferðar um göngin sé
miðað við júlímánuð milli ára. Milli
áranna 1999 og 2000 var aukningin
5,3 prósent en var nú 3,6 prósent
milli 2000 og 2001. Aukning í
nettótekjum í júlímánuði miðað við
síðasta ár nemur 2,76 prósentum
en þær aukast úr 113.892.140
krónum í 117.036.222 krónur.
Öryggi og
eldvarnir
Aðspurður um hvort von væri á
auknum eldvörnum í göngunum
segir Gísli að fyrirtækið hafi ekki
fengið neinar beinharðar tillögur
sem kalli á sérstakar úrlausnir
varðandi öryggi og eldvarnir. „Við
höfum svo sem margítrekað að
göngin uppfylla allar þær kröfur
sem voru settar fram þegar þau
voru byggð,“ sagði hann og bætti
við að vegna skorts á reglum um
brunavarnir í göngum hér á landi
hafi verið gripið til þess ráðs að
nota staðla frá Noregi en þar væri
rík hefð fyrir jarðgöngum. „Við
höfum gert ýmislegt til að fara
umfram þær kröfur sem settar
eru á okkur og lítum ekki síður á
þær ráðstafanir sem hluta af
brunavörnum,“ sagði Gísli og
nefndi í því sambandi hraða-
myndavélar sem settar voru upp
nýverið. „Því með því að draga úr
umferðarhraða er öryggið aukið
verulega,“ sagði hann og áréttaði
að settur hafi verið upp ýmis ann-
ar búnaður í göngunum sem snerti
brunavarnir beint, umfram þann
sem áskilinn væri. „Eftir sem áður
erum við sífellt að ræða öryggis-
mál almennt í göngunum og telj-
um að miðað við það sem þekkt er
hér á landi séum við vel þolanlega
tryggðir fyrir því sem upp getur
komið,“ sagði hann.
Vill fórna tekjum
fyrir öryggi
Gísli segist í raun talsmaður
tveggja sjónarmiða varðandi flutn-
ing hættulegra efna um göngin því
hann sé bæjarstjóri Akraness en
bæjarstjórnin vilji banna flutning
á bensíni um göngin en stjórn
Spalar hafi ítrekað ályktanir á þá
leið að takmarka beri flutning
hættulegra efna frekar en nú er
gert. „Própangas er reyndar ekki
flutt um göngin en það er fyrst og
fremst ákvörðun olíufélaganna að
gera það ekki. Okkar skoðun er að
slíkt eigi fortakslaust að banna,“
sagði Gísli og vonaðist til að nefnd
um flutning hættulegra efna um
jarðgöng skili áliti sínu sem allra
fyrst en ekki ætti að þurfa langan
tíma til að komast að niðurstöðu í
þeim málum. „Ég tel tekjutap sem
göngin yrðu fyrir ef bensínflutn-
ingum um þau yrði hætt vel ásætt-
anlegt til að auka öryggi,“ sagði
hann.
Rekstur Spalar ehf. á Hvalfjarðargöngum
Gengistap setur
strik í reikninginn
KOMNIR eru um 1.200 laxar úr
Norðurá og sögðu veiðimenn sem
voru í ánni um helgina að mikill lax
væri í ánni og enn væri bærilegur
reytingur þótt laxinn tæki nú verr en
fyrir fáeinum vikum. Best veiðist
„frammi á dal“ eins og menn nefna
svæðið fyrir ofan Glitstaðabrýr og er
þar víða mikill lax í hyljum. Búast
má við að veiði haldist jafnari í ánni
út mánuðinn þar eð hætt hefur verið
maðkveiðum í ánni út vertíðina.
Verður þá engin stórveiði eftir flugu-
tíma eins og verið hefur og því meira
af laxi í ánni fram á haust.
Strauma svipuð
og í fyrra
Um helgina voru komnir um 110
laxar á land úr Straumfjarðará sem
er svipuð veiði og á sama tíma í fyrra
að sögn Ástþórs Jóhannssonar, stað-
arhaldara við ána. „Veiðin í heild
telst hafa verið alveg þokkaleg, það
er talsvert af laxi í ánni og um
helgina var stórstreymt og von á
seinni stórgöngu sumarsins.
Strauma er síðsumarsá og fiskur að
ganga í hana út ágúst. Veiðin var
treg framan af, en júlí kom vel út og
vatnið í ánni hefur haldist þokkalegt
fram að þessu. Það væri þó fínt að fá
hressilega rigningu bráðlega,“ sagði
Ástþór.
Líflegt í Reykjadalsá
Pálmi Gunnarsson, leigutaki
Reykjadalsár í Reykjadal, segir ána
hafa verið líflega og sérstaklega sé
mikið af laxi á miðsvæði hennar. „Ég
kíkti til veiðimanna í fyrrakvöld og
þeir settu í þrjá á stuttum tíma, sá
stærsti var um 16–17 pund. Í gær-
morgun hringdi svo í mig kampakát-
ur veiðimaður sem hafði sett í sjö
laxa á stuttum tíma við Illukeldu.
Hann sagði mikið af laxi í ánni á
þeim slóðum og mikið af nýgengnum
smálaxi á ferðinni. Ég reikna með að
þetta séu ekki ómerkilegri fréttir af
veiðislóð en hvað annað,“ sagði
Pálmi.
Morgunblaðið/Einar Falur
Þriggja punda bleikja stekkur eftir að hafa tekið flugu Sigurðar Árna
Sigurðssonar, myndlistarmanns, í Ármótahyl í Brunná.
Síðsumarsbrag-
urinn að byrja
ERU
ÞEIR AÐ
FÁ’ANN?
ATHUGASEMDIR við áform um
Villinganesvirkjun eiga að berast
Skipulagsstofnun í síðasta lagi í dag
en þeir sem stunda ferðaþjónustu í
Skagafirði hafa gagnrýnt áformin,
einkum vegna áhrifa sem virkjunin
er sögð munu hafa á fljótasiglingar á
Austari- og Vestari-Jökulsám. Í
skýrslu um mat á umhverfisáhrifum
Villinganesvirkjunar segir að með
tilkomu virkjunarinnar muni fljóta-
siglingar niður Austari- og Vestari-
Jökulsá leggjast af í þeirri mynd sem
þær eru stundaðar í dag.
Sigurður Ásbjörnsson, sérfræð-
ingur hjá Skipulagsstofnun, segir að
samkvæmt þeim áformum sem uppi
eru um Villinganesvirkjun muni lón-
ið og stíflan verða á því svæði sem
fljótasiglingar eru stundaðar.
Hefur áhrif á gljúfur
Héraðsvatna
„Þar með er búið að taka mjög
mikið af flúðasvæðinu sem yrði þá að
lóni með kyrrstæðu vatni,“ segir Sig-
urður og bendir á að í skýrslunni
segi að stærstu hlutar árfarvega jök-
ulánna og efri hluta Héraðsvatna,
sem nú séu nýttar undir siglingar,
lendi undir lóninu.
Önnur umhverfisáhrif sem nefnd
eru í skýrslunni eru þau að gljúfur
Héraðsvatna fara undir vatn á
tveggja metra kafla auk þess sem
vatnsborðshækkunar mun gæta á
um fjögurra til fimm kílómetra kafla
upp eftir gljúfrum Vestari- og Aust-
ari-Jökulsár. Er tekið til þess að
gljúfrin og aðliggjandi landslag þyki
sérstakt á landsvísu. Þá segir að rof í
farvegum neðan virkjunar geti orðið
nokkurt og búast megi við að virkj-
unin hafi áhrif á stöðu lands við
ströndina í Skagafirði vegna minnk-
andi aurburðar til sjávar.
Einnig er nefnt að með stíflu í far-
vegi Héraðsvatna sé lokað fyrir
göngur sjóbleikju og lax upp í jökul-
árnar og hliðarár þeim tengdum en
að áhrif á staðbundna bleikjustofna
ofan virkjunar verði lítil. Þá geta
breytingar á rennsli og framburði
Héraðsvatnanna haft áhrif á bú-
svæði og fæðuframboð fiska neðan
virkjunar. Til mótvægis verður
rekstri virkjunar hagað með þeim
hætti að áhrif rennslisbreytinga
verði lágmarkaðar, að því er segir í
matsskýrslunni.
Þá er sagt frá því að á virkjunar-
svæðinu sé sérstætt varp hrafna þar
sem þeir verpa óvenjulega þétt en að
um helmingur varpstaða hrafnanna
færi undir vatn vegna virkjunarinn-
ar. Heiðargæsavarp er einnig nokk-
urt í gljúfrunum.
Í námunda við virkjunina er að
finna gamlar leifar um búsetu á
svæðinu og segir í skýrslunni að
Keldulandslag sem getið er um í
heimildum frá 17. öld muni lenda
undir vatnsborði lóns virkjunarinn-
ar. Hús og rústir Tyrfingastaðabæj-
ar eru og nálægt framkvæmdasvæði
virkjunarinnar og er tekið fram að
gæta þurfi varúðar við framkvæmdir
svo minjum verði ekki raskað. Allar
minjar sem liggja í minna en 20 km
fjarlægð frá framkvæmdasvæðum
virkjunarinnar verða girtar af til
verndar.
Mat á umhverfisáhrifum Villinganesvirkjunar í Skagafirði
Flúðasvæði
Jökuláa verð-
ur að lóni
Tölvumyndin sýnir hvar lón Villinganesvirkjunar yrði í innanverðum Skagafirði.
JIM Hensel, aðstoðarforstjóri
Columbia Ventures, móður-
félags Norðuráls, segir að fjár-
festingar Columbia Ventures í
gervihnattasímafyrirtækinu
Globalstar muni ekki hafa áhrif
á frekari stækkun álversins á
Grundartanga.
Eins og fram hefur komið í
Morgunblaðinu greindi Bloom-
berg-fréttaþjónustan frá því
nýlega að Kenneth Peterson,
eigandi Columbia Ventures,
hefði byrjað að kaupa skulda-
bréf fyrirtækisins Globalstar
um miðjan janúar eftir að fyr-
irtækið hætti að standa í skilum
á greiðslum af skuldabréfum.
„Við erum að skoða ýmsa
möguleika. Þetta snýst um
hvert menn vilja setja fjár-
munina. Eins og er hefur þetta
ekki haft nein áhrif [á Grund-
artanga]. Og eins og ég hef áð-
ur sagt í fjölmiðlum er þetta
spurning um að skila fjárfest-
um viðunandi arði,“ segir Hen-
sel.
Hensel segir að eins og við sé
að búast yfir sumartímann þok-
ist viðræður við stjórnvöld
vegna stækkunar á álverinu við
Grundartanga hægar en ella.
Hann segir allt of snemmt að
svo komnu máli að spá fyrir um
hvenær framkvæmdir við
þriðja áfanga álversins geti
hafist.
Columbia Ventures
um kaup á hlut
í símafyrirtæki
Hafa ekki
áhrif á
stækkun
Norðuráls