Morgunblaðið - 27.09.2001, Page 39
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 27. SEPTEMBER 2001 39
aldar aldursmunur var jú á okkur.
En amma var óvenjuleg hvað þetta
varðaði. Hún átti mjög auðvelt með
að umgangast fólk á öllum aldri og
var lífleg, opin og skemmtileg.
Nokkrir kunningja minna kynntust
henni og þótti gaman að spjalla við
hana. Fólk sem annaðist hana þar
sem hún bjó síðasta æviskeiðið
hafði á orði hvað hún væri létt í
lund og skemmtileg. Þessir eðl-
iskostir hennar voru áberandi allt
undir það síðasta. Svo hress var
hún vikuna fyrir andlátið að ég var
þess fullviss að ég færi á undan
henni yfir móðuna miklu. Það var
ekki fyrr en um síðustu helgi að ég
áttaði mig á því að hún væri á för-
um næstu daga. Ég var undir það
búinn. Maður gat ekki verið svo
eigingjarn að ætlast til þess að fá
að njóta samvista hennar endalaust
í þessu jarðlífi. Og ég áttaði mig á
því að amma Agga var ekkert að
fara frá mér. Hún er og verður
alltaf hluti af mér og minn betri
helmingur. Það er ekki slæmt.
Atli Örn Hilmarsson.
Í dag er kvödd hinstu kveðju frú
Steinunn Pétursdóttir, lengi til
heimilis á Grettisgötu 43. Hún var
ekkja eftir Þormóð Jónasson hús-
gagnasmið, sem lést árið 1989, en
Steinunn og Þormóður voru miklir
vinir foreldra okkar, Guðrúnar
Einarsdóttur og Árna J. Árnason-
ar. Þessi vináttutengsl gengu í arf
til þeirrar kynslóðar sem á eftir
kom.
Það var alltaf mikil gleði hjá
okkur á Mánagötu 24, þegar Stein-
unn og Þormóður komu í heimsókn
til okkar með börnin. Þá var ekki
sími á hverju heimili og því vissum
við að jafnaði ekki fyrr en knúið
var dyra og á tröppunum stóðu
Steinunn og Þormóður með hópinn
sinn. Og auðvitað voru heimsókn-
irnar gagnkvæmar og því eigum
við margar ljúfar minningar frá
hinu fagra og hlýlega heimili á
Grettisgötu 43. Það hvarflar að
okkur að á þessum löngu liðna
tíma hafi vináttutengsl verið þeim
mun betur rækt sem þau voru
minna trufluð af sjónvarpi, bílferð-
um, símtölum og öllu því tilstandi
öðru sem fylgir lífi nútímafólks.
Okkur systkinunum sýndi Stein-
unn ævinlega mikinn kærleika og
gjafmildi og má segja að hún hafi
umgengist okkur eins og værum
við hennar eigin börn. Á hverjum
aðfangadegi biðum við spennt eftir
jólapakkanum frá Steinunni og
Þormóði og það brást aldrei að
hann skilaði sér áður en hátíðin
gekk í garð.
Steinunn Pétursdóttir var föngu-
leg kona og hvar sem fólk var sam-
ankomið var hún ævinlega hrókur
alls fagnaðar. Röddin var björt og
falleg og frásagnargáfan í besta
lagi, og það fór ekkert á milli mála
að hún hafði gott auga fyrir því
skoplega og skemmtilega í tilver-
unni. Þegar við hugsum til hennar
á kveðjustund, þá er eins og við
heyrum ennþá óminn af björtum
hlátri hennar. Steinunn var orðlögð
fyrir þrifnað og snyrtimennsku og
heimili hennar bar þessum eigin-
leikum fagurt vitni. Og hér má
bæta því við að ljúfmennið Þor-
móður, sá góði smiður og mikli
eljumaður, var óþreytandi við að
fegra og bæta hús og heimili.
Steinunn og Þormóður voru einkar
samrýnd og í okkar fjölskyldu
gekk hún alltaf undir nafninu
„Steinunn hans Þormóðs“.
Árið 1949 lést faðir okkar, Árni
J. Árnason húsgagnasmiður, langt
um aldur fram. Við munum aldrei
gleyma því hvernig nærvera og
vinátta Steinunnar og Þormóðs
urðu okkur öllum til stuðnings á
þessum erfiðu tímamótum fyrir
rúmlega hálfri öld. Móðir okkar,
Guðrún, lést í hárri elli árið 1995
og hélst vinátta hennar við Stein-
unni óbreytt til hinstu stundar.
Að leiðarlokum biðjum við Stein-
unni Pétursdóttur blessunar Guðs
um leið og við systkinin þökkum
henni og hennar fólki áratuga
tryggð og vináttu. Börnum Stein-
unnar og öðru ættfólki sendum við
innilegustu samúðarkveðjur.
Inga og Steinunn Árnadætur.
✝ Eva SigríðurBjörnsdóttir
fæddist í Reykjavík
30. ágúst 1931. For-
eldrar hennar voru
Björn Jónsson vél-
virkjameistari, f. 8.
okt. 1905, d. 23. jan.
1981, og Anna Lilja
Jónsson, fædd Jen-
sen, f. 15. júní 1905,
d. 28. maí 1975. Eva
var næstelst í systk-
inahópnum en þau
voru fimm talsins.
Elst var Guðrún
Ester, f. 1928, d.
2000, Aðalheiður, f. 1934, Hrafn-
hildur Steingerður, f. 1940, og
Björn Haraldur, f. 1946.
Hinn 6. október 1953 gekk Eva
í hjónaband með Gísla Hauki Jó-
hannssyni, f 14. feb. 1933. For-
eldrar hans voru Jóhann Bene-
diktsson, f. 6. janúar 1886, d. 4.
júlí 1962, og Halldóra Gísladóttir,
f. 5. ágúst 1895, d. 12. ágúst 1968.
Synir þeirra eru Steinar fulltrúi,
f. 30. desember 1954, kvæntur El-
ísabetu Ólafsdóttur skólaliða og
eiga þau saman soninn Hauk Örn,
rafvirkja og nema í Tækniskól-
anum, f. 1979. Fyrir átti Elísabet
tvö börn, Ólaf Þór og Ragnheiði.
Arnar viðskiptafræðingur, f. 9.
desember 1959, kvæntur Svan-
hvíti Axelsdóttur lögfræðingi og
eiga þau þrjár dætur, Unni Evu,
nema í Verslunarskólanum, f.
1982, Jóhönnu Jór-
unni, f. 1987, og Mar-
gréti Halldóru, f.
1990.
Eva lauk almennu
barnaskólanámi og
hóf byrjunarnám við
Menntaskólann í
Reykjavík. Hún sótti
nám í gegnum kvöld-
skóla KFUM og K.
Einnig var hún sum-
arlangt ásamt nokkr-
um öðrum íslenskum
stúlkum við almennt
nám á Sture Restrup
Husmandsskole við
Limafjörð í Danmörku og hélt
góðu sambandi gegnum árin við
danska og íslenska skólafélaga. Á
sínum yngri árum vann hún mest
við handverk eins og töskugerð
og saumaskap hjá þekktum fyr-
irtækjum þeirra tíma. Lengst af
sinnti Eva og hlúði að heimili fjöl-
skyldunnar og studdi Gísla mann
sinn heilshugar í starfi hans. Eva
lagði mikla rækt við ömmubörnin
sín fjögur og áttu þau öll ótal-
margar ánægjustundir á heimili
ömmu og afa. Auk þess hafði Eva
mikla ánægju af að taka þátt í
sjálfboðaliðastarfi á vegum
Rauða krossins síðustu tuttugu
árin með afgreiðslu í sölubúð á
Landspítalanum.
Útför Evu fer fram frá Foss-
vogskirkju í dag og hefst athöfn-
in klukkan 15.
Hver minning dýrmæt perla að liðnum
lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem
gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast
þér.
(I.S.)
Kæra systir.
Ég kveð þig með trega og söknuði.
Allar yndislegu stundirnar sem við
áttum saman og sú vinátta sem þú
hefur alltaf sýnt mér hefur verið mér
ómetanleg. Allt frá því að við lékum
okkur saman í æsku til dagsins í dag
höfum við safnað saman ógleyman-
legum minningum sem munu lifa
með okkur að eilífu. Nú er komið að
kveðjustund. Ég sendi Gísla, Stein-
ari, Arnari og fjölskyldum ykkar
mínar innilegustu samúðarkveðjur
og bið algóðan Guð að veita ykkur
styrk á erfiðum tímum.
Þín systir
Aðalheiður.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti,
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfin úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð.
Þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sig.)
Í dag kveð ég móðursystur mína
Evu Sigríði Björnsdóttur, eða Evu
eins og hún var jafnan kölluð. Í mín-
um huga var Eva ákaflega hjartahlý
og góð kona sem ég kveð með mikl-
um söknuði. Þegar hugurinn reikar
til baka man ég hversu gott það var
að koma í heimsókn í Háagerðið til
ykkar. Það var alltaf tekið hlýlega og
vel á móti mér. Þegar foreldrar mínir
þurftu að láta passa mig vildi ég helst
hvergi annars staðar vera en hjá Evu
og Gísla í Háagerðinu því þar leið
mér alltaf vel. Þegar faðir minn lést
man ég hvað þú reyndist okkur vel
og fyrir það verð ég alltaf þakklátur.
Einnig koma upp í hugann ættar-
mótin í Skorradalnum þar sem oft
var glatt á hjalla og naut Eva þess að
vera innan um barnabörnin og öll
litlu frændsystkinin enda var hún
með eindæmum barngóð kona. Þrátt
fyrir erfið veikindi lét Eva sig ekki
vanta síðastliðið sumar, heldur mætti
með bros á vör til að hitta ættingjana
og eiga með þeim glaða stund. Í veik-
indum sínum háði hún hetjulega bar-
áttu við erfiðan sjúkdóm og kvartaði
aldrei. Í mínum huga voru það for-
réttindi að eiga hana að sem frænku.
Ég vil þakka þér fyrir allar gleði-
stundirnar og alla þá væntumþykju
sem þú sýndir mér. Minningin um
þig mun lifa í huga mínum, minning
um góða umhyggjusama konu sem
nú er horfin á brott. Við viljum að
lokum votta Gísla eigmanni hennar,
Steinari, Arnari og fjölskyldum
þeirra okkar dýpstu samúð. Megi
Guð styrkja ykkur í þessari miklu
sorg.
Brynjar, Katrín og fjölsk.
Það er margs að minnast þegar
maður hugsar til Evu. Hún hefur
alltaf verið hluti af tilveru minni, hún
var bæði einstök persóna og frænka.
Það var alltaf svo frábært að koma í
Háagerðið til Evu og Gísla þar sem
þau bjuggu lengst af. Þar hafði Eva
búið Gísla og sonunum tveimur,
Steinari og Arnari, fallegt heimili.
Maður hlakkaði alltaf til að fara til
Evu hvort sem það var í pössun eða í
heimsókn. Augnablikin koma hratt
upp í hugann, góðu smákökurnar
hennar og dótið sem stóru strákarnir
hennar höfðu átt. En það var eitt-
hvað miklu meira, það voru í raun
forréttindi að eiga Evu sem frænku,
hún var næstum því eins og önnur
mamma, alltaf í góðu skapi, hlý, góð
og yndisleg. Árin liðu og alltaf var
Eva manni ofarlega í huga hvort sem
var á afmælisdaginn, þegar ég fór ut-
an sem skiptinemi eða við skólaút-
skriftir, hún samgladdist alltaf. Eva
var einstök og gefandi persóna sem
börn löðuðust að.
Þegar við eignuðumst fyrri son
okkar fyrir nokkrum árum varð Eva
strax vinkona hans og komu þá upp
ýmsar minningar um yndislega konu
sem hafði 25–30 árum áður veitt mér
sömu vináttu. Það lýsir Evu best hve
sonur okkar hændist að henni og
spurði hann okkur oftar en ekki af
hverju hún Eva passaði hann ekki.
Það eru ekki nema þrjár vikur síðan
sonur okkar var búinn að hringja í
bestu vini sína og bjóða þeim í fimm
ára afmælið sitt en segir svo: „Pabbi,
við gleymdum einni, við gleymdum
að bjóða Evu vinkonu minni.“ Því
miður komst Eva ekki enda var hún
orðin mjög veik og barðist hetjulegri
baráttu við erfið veikindi, en hún
kvartaði ekki þótt fársjúk væri. Hún
lét sér fátt fyrir brjósti brenna þegar
kom að börnunum hvort sem var að
veita þeim hlýju eða dansa „break-
dans“ úti í náttúrunni eins og hún
gerði fyrir tveimur árum á ættar-
mótinu. Á þeirri stundu hefði okkur
ekki dottið í hug að við værum að
skrifa þessar línur nú.
Það kemur margt upp í hugann og
miklu meira en þessar fáu línur. Okk-
ur langar til að minnast einstakrar
frænku og vinkonu með eftirfarandi
orðum:
Einstakur er orð sem notað er, þegar lýsa
á því sem engu öðru er líkt, faðmlagi eða
sólarlagi eða manni sem veitir ástúð með
brosi eða vinsemd.
Einstakur lýsir fólki sem stjórnast af rödd
síns hjarta og hefur í huga hjörtu annarra.
Einstakur á við þá sem eru dáðir og dýr-
mætir.
Og hverra skarð verður aldrei fyllt.
Einstakur er orð sem lýsir þér.
(Terri Fernandez.)
Mestur er söknuðurinn hjá Gísla
eiginmanni hennar, sonunum,
tengdadætrum og barnabörnum en
þau ylja sér við bjartar minningar
eins og við öll. Guð varðveiti þau og
styrki í sorginni.
Ingvar, Guðrún og synir.
Með þessum fáu orðum viljum við
kveðja vinkonu okkar Evu Sigríði
Björnsdóttur.
Við kynntumst fyrir hálfri öld þeg-
ar við fórum fjórar frá Íslandi á sum-
arskóla í Store Restrup í Danmörku.
Við vorum fyrsti hópurinn sem sótti
skólann héðan og kynntumst þar
góðum skólasystrum og afbragðs
kennurum, þeirra á meðal skóla-
stjórahjónunum Bergljótu og Sven
Höjgaard. Þau hafa alla tíð haft sam-
band við íslenska nemendur sína og
bæði þau og aðrir kennarar hafa
komið oft í heimsókn til Íslands.
Kynni okkar þriggja hafa haldist síð-
an og vinátta Evu er okkur mikils
virði. Það er ómetanlegt að fá að eiga
vináttu svo góðrar manneskju, sem
var svo prúð, kurteis, tillitssöm og
glaðleg. Við sáum okkur til huggunar
og uppörvunar hvað hún var æðru-
laus í veikindum sínum og hvernig
þau Gísli maður hennar studdu hvort
annað sem alltaf fyrr. Við skulum
ekki vera hrædd þegar við mætum
dauðanum. Við skulum trúa á Guð,
við skulum trúa á Jesúm.
Þegar Jesús kvaddi vinkonur sínar
og vini og borðaði með þeim kvöld-
máltíð í síðasta sinn huggaði hann
þau.
Hann sagðist fara burt til að búa
þeim stað og svo myndi hann koma
aftur og sækja þau.
Hann gæti ekki hugsað sér annað
en hafa þau alltaf hjá sér.
Það er nóg pláss í húsi Guðs, sagði
hann, og ég er vegurinn þangað.
Og Marta frá Betaníu mundi þá
það sem hann hafði sagt henni.
Hann sagði: Ég er upprisan og líf-
ið, þau sem trúa á mig munu lifa þótt
þau deyi.
Þess vegna getum við haldið áfram
að lifa þótt við missum, þakka fyrir
allt sem var svo gott, fyrir alla vinátt-
una, horfa á fugla himinsins og tré
haustsins, þakka Guði fyrir lífið og
treysta því.
Ragnhildur Smith og
Yrsa Ingibjörg
Vilhjálmsdóttir.
Það var upp úr miðjum fjórða ára-
tugnum að ungar fjölskyldur voru að
flytja í „nýju verkó“ og hún Reykja-
vík var að taka miklum breytingum.
Nokkrar smátelpur fylgdust með og
horfðu feimnislega hver á aðra. En
feimnin var fljót að víkja og vinátta
myndaðist sem haldist hefur ævi-
langt. „Af bernskuglöðum hlátri
strætið ómar...“ kvað Tómas. Ein í
hópnum var Eva, mín ævivinkona,
sem nú er með söknuði kvödd. Það er
mér mikilsvert að hafa átt vináttu
hennar. Eva var kona fríð og föngu-
leg, stillt, og talaði ávallt yfirvegað.
Orðaval hennar var ætíð í samræmi
við hógværð hennar og skapaði jafn-
framt þá eftirsóknarverðu og traustu
persónu, sem hún var. Þessa kosti
gjafvaxta stúlkunnar sá ungur
sveinn, sem bjó fyrir „austan læk“,
og í fyllingu tímans festu þau ráð sitt
og hafa síðan í huga okkar verið eitt
og alltaf „Eva og Gísli“.
Nú á kveðjustund leitar hugurinn
til baka. Við minnumst allra skíða-
ferðanna, veiðiferðarinnar eftir-
minnilegu í Eldvatnið, sem og allra
samverustundanna hérlendis sem
erlendis. Vegna starfs Gísla sem
framkvæmdastjóra Danfoss á Ís-
landi urðu Danmerkurferðir þeirra
hjóna ófáar og varð þeim þar vel til
vina, og oftar en ekki hittumst við á
danskri grund. Það fer því vel á sorg-
arstund að hverfa til danskrar speki,
þar sem segir: „Livet, det er ikke de
dage, der er gået, men de dage, man
mindes.“
Það kom okkur mjög á óvart þegar
Eva tjáði okkur fyrir hartnær fjórum
mánuðum að hún hefði greinst með
ólæknanlegan sjúkdóm og skammt
væri til vistaskipta. Þá kom hennar
sterki persónuleiki í ljós og hversu
æðrulaus hún mætti því, sem ekki
varð umflúið. Sannaðist þá hið forn-
kveðna að sá sem lifað hefur vel, þor-
ir einnig að deyja. Blessuð sé minn-
ing Evu Sigríðar Björnsdóttur.
Auður Albertsdóttir,
Jón R. Steindórsson.
Ég sit hér norður í landi, hnípin,
eftir að hafa fengið þá fregn, að góð
samferðakona okkar hjóna er fallin í
valinn.
Vinskapurinn hefur staðið í rétt
tæp fjörutíu ár og alltaf jafn ljúfur.
Minningarnar renna eins og kvik-
mynd í gegnum hugann. Ég sé fyrir
mér allar skemmtilegu tjaldútileg-
urnar á meðan börnin voru lítil. Um
nánast hverja helgi var veðrið kann-
að á landinu og lagt af stað þangað
sem sólin átti að skína hvað glaðast.
Saumaklúbburinn, þar sem við
hittumst hálfsmánaðarlega yfir vet-
urinn, í fyrstu sem myndarlegar ung-
ar konur með handavinnu, er síðar
breyttist í spjallklúbb, þar sem við
púuðum vindla og sáum vart hvor
aðra fyrir reyk, þetta vakti okkur
kátínu því hvorug okkar reykti nema
við þessi tækifæri. Í eina utanlands-
ferð fór saumaklúbburinn, til Dan-
merkur. Nutum við þess að fara út að
borða og eyða dönsku krónunum í
stórmörkuðunum.
Gleðin í kringum dansskóla Her-
manns Ragnars, þar sem við vorum í
námi og leik, tókum þátt í danssýn-
ingum og nutum þess sem þar var í
boði.
Nýársfagnaðirnir sem við héldum
í góðra vina hópi, ár hvert, til margra
ára. Öllu þessu fylgdi gleði sem ég
held að ekkert okkar hefði viljað
missa af.
Nú allra síðustu árin höfum við
sést sjaldnar, barnabörnin hafa þurft
sinn tíma og aldurinn færst yfir okk-
ur hægt og hægt, úthaldið minna til
skemmtana, sambandið samt aldrei
rofnað.
Ef eitthvað hefur staðið til hjá
okkur hafa Eva og Gísli ætíð verið
með þeim efstu á gestalistanum. Fal-
legt var heimili þeirra hjóna, enda
Eva einstaklega natin og hafði næg-
an tíma þar sem hún starfaði ekki ut-
an heimilis, fyrr en nú síðustu árin,
að hún starfaði sem sjálfboðaliði fyrir
Rauða krossinn og afgreiddi í versl-
un Landsspítalans við Hringbraut.
Eva og Gísli ferðuðust mikið, þá
var Danmörk þeim sérstaklega hug-
leikin og fóru þau margar ferðir
þangað. Hef ég haft það á tilfinning-
unni að Danmörk hafi verið eins og
þeirra annað land, þar áttu þau
marga vini sem þau heimsóttu og
sem sóttu þau heim. Ég heyrði á
Evu, að þau nutu þess að gera vel við
þessa vini sína og voru stolt af fallega
landinu okkar.
Skyndilega er klukkan stöðvuð, en
minningin um góða konu verður ekki
frá okkur tekin.
Gísli minn, við Garðar vottum þér
okkar dýpstu samúð, megir þú öðlast
þann styrk sem mildar harm og
söknuð.
Steinari, Arnari og fjölskyldunni
allri biðjum við Guðs blessunar á erf-
iðri stundu.
Jóhanna G. Halldórsdóttir.
EVA SIGRÍÐUR
BJÖRNSDÓTTIR