Morgunblaðið - 25.11.2001, Síða 34
SKOÐUN
34 SUNNUDAGUR 25. NÓVEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
REYKJAVÍK er höfuðborg lands-
ins og gegnir því mikilvægu og fjöl-
þættu hlutverki í þjóðfélaginu. Hún
er ekki einungis langstærsta sveitar-
félagið, heldur er hún einnig miðstöð
stjórnsýslu, menningar og mennta á
Íslandi. Höfuðborgin á að þjóna sem
eins konar ljósviti annarra sveitarfé-
laga. Hún á að hafa frumkvæði í því
að finna lausnir og benda á úrræði,
sem önnur sveitarfélög geta tekið til
fyrirmyndar. Höfuðborgin á að vera
merkisberi og staður sem öll þjóðin
á að geta litið til með stolti. Þetta
hlutverk Reykjavíkur gerir því mikl-
ar kröfur til þeirra, sem stjórna mál-
um hennar hverju sinni, og leggur
ríkar skyldur á herðar þeirra.
Forystuhlutverk að tapast
Á undanförnum árum hefur
Reykjavík verið að tapa því forystu-
hlutverki, sem hún gegndi lengst af
meðal sveitarfélaga á landinu. Þess
sér víða merki. Traust og örugg fjár-
málastjórn er ekki lengur aðals-
merki borgarinnar. Skattar og álög-
ur á borgarbúa eru með því hæsta
sem gerist og skuldir borgarinnar
hafa margfaldast að raungildi. Lóða-
framboð hefur verið takmarkað og
stefna borgarinnar í lóðamálum hef-
ur leitt til mikilla verðhækkana á
húsnæðismarkaði. Nýjungar og
framsækni, t.d. í skólastarfi, hefur
færst til annarra. Metnaðarfull upp-
bygging í málefnum aldraðra heyrir
til liðinni tíð.
Íbúðarbyggð í Geldinganesi
Tillaga að nýju aðalskipulagi fyrir
Reykjavík sem nú hefur verið lögð
fram verður tekin til afgreiðslu í
borgarstjórn seinni hluta desember.
Sjálfstæðismenn munu á næstunni
kynna hugmyndir sínar og áherslur
varðandi þróun byggðar og skipulag.
Eitt af því sem þar ber hæst er hvort
íbúðarbyggð eigi að þróast meðfram
ströndinni eða upp til heiða. Fyrir
tuttugu árum var tekist á um það í
borgarstjórnarkosningum hvort
byggja ætti á sprungusvæðunum við
Rauðavatn eða við ströndina. Sjón-
armið sjálfstæðismanna urðu ofan á
og Grafarvogur var byggður. Þar
hefur nú risið tæplega tuttugu þús-
und manna hverfi og byggðin teygt
sig upp að Eiðsvík og Leirvogi, í Vík-
urhverfi og Staðarhverfi fyrir norð-
an Korpúlfsstaði. Nú er mál að halda
áfram og skipuleggja byggð handan
Eiðsins í Geldinganesi og jafnframt
á Gufunesi, þar sem Áburðarverk-
smiðjan stendur í dag. Á Geldinga-
nesinu er eitt ákjósanlegasta bygg-
ingarland í borgarlandinu. Þar er
strandlengja mót suðri og byggð þar
og í Gufunesi munu mynda eftir-
sóknarvert svæði í samspili við ein-
staka náttúru og fjölbreytta útivist-
armöguleika. Jafnframt mun byggð
á Geldinganesi ýta á um gerð Sunda-
brautar, sem er nauðsynleg sam-
göngubót fyrir Grafarvog og allt
þetta svæði yfir Kleppsvík og til mið-
borgarinnar, auk þess sem hún
styttir leiðina norður.
Stóriðjuhöfn víki
Í fyrirliggjandi tillögu að aðal-
skipulagi er gert ráð fyrir að haldið
verði áfram að brjóta niður Geld-
inganesið og byggja inn í það hafn-
arsvæði og gera nesið allt að iðnað-
arsvæði. Engin þörf er á nýjum
hafnarsvæðum í Reykjavík á næstu
áratugum umfram það sem þegar
hefur verið skipulagt og unnið verð-
ur að. Upphaflegar tillögur um höfn í
Eiðsvík byggðu á hugmyndum um
stóriðju sem þyrfti á nálægð við höfn
að halda. Meðal annars var rætt um
byggingu sæstrengsverksmiðju
vegna rafmagnsflutninga til útlanda
í því sambandi. Nú ætti
öllum að vera ljóst að
slík höfn verður aldrei
reist á einu besta bygg-
ingarlandi borgarinn-
ar. Þar verður íbúðar-
byggð að hafa forgang
og minni hagsmunir að
víkja fyrir meiri. Verði
þörf fyrir viðbótar-
hafnarrými eftir 30–50
ár í Reykjavík höfum
við sjálfstæðismenn
bent á að nýta megi það
svæði sem er fremst á
Álfsnesi við Kollafjörð.
Þar er aðdjúpt og höfn
þar lægi vel við sam-
göngum. Auk þess er
líklegt að samstarf sveitarfélaga hér
á höfuðborgarsvæðinu verði orðið
þannig eftir hálfa öld að sjálfsagt
þyki að sameinast um rekstur hafna.
Umhverfisspjöll vinstri grænna
Það er á hinn bóginn merkilegt að
fylgjast með þeirri atlögu að náttúru
strandlengju borgarinnar, sem
grjótnámið á Geldinganesi er. Þar
mola menn niður nesið en tala síðan
fjálglega um umhverfisvernd og
sjálfbæra þróun í hinu orðinu. Fram-
ganga vinstri grænna hér í Reykja-
vík vekur sérstaka athygli í þessu
sambandi og viðbúið að slíkt fram-
ferði væri af þeirra hálfu kallað um-
hverfisspjöll annars staðar, t.a.m. ef
það væri á Austurlandi. En svona er
hægt að hafa meiningar um það sem
gerist í garði nágrannans en hirða
ekki um sinn eigin garð.
Góð búsetuskilyrði
Það skiptir máli fyrir Reykjavík
að almenn búsetuskilyrði séu hag-
felld. Borgaryfirvöld þurfa sérstak-
lega að tryggja það því að Reykjavík
er í samkeppni við önnur lönd um
búsetu fólks. Með auknum alþjóða-
viðskiptum og samstarfi, frjálsu
flæði fjármagns og atvinnu, aukinni
menntun og bættri tækni er auð-
veldara og sjálfsagðara fyrir fólk að
velja sér búsetu erlendis. Að mínu
viti er fátt mikilvægara en að höf-
uðborgin hafi burði til þess að laða
að sér ungt fólk til framtíðarbúsetu.
Mörg þúsund Íslendingar búa og
starfa erlendis og stór hópur þeirra
er vafalaust reiðubúinn að koma
heim og styrkja íslenskt samfélag ef
þeir geta fundið kröftum sínum við-
nám hér. Ýmislegt hefur gerst á
undanförnum árum í þessum efnum
og má t.d. benda á þann fjölda fólks,
sem flust hefur til landsins vegna til-
komu Íslenskrar erfðagreiningar. Af
hálfu ríkisstjórnarinnar er unnið að
breytingum á skattalegu umhverfi
sem miða að því að tryggja fyrirtæki
hér á landi í sessi gagnvart sam-
keppni erlendis frá og laða ný fyr-
irtæki til landsins. Háskóli Íslands
hefur sömuleiðis uppi áætlanir um
uppbyggingu og samstarf við einka-
aðila til að skapa fjölbreytta rekstr-
armöguleika á sviði þekkingar og
vísinda.
Betri menntun
En það er ekki einungis land til
íbúðarbyggðar sem fellur undir al-
menn búsetuskilyrði. Þar koma ýms-
ir aðrir þættir til viðbótar inn í
myndina. Einn þeirra er hvaða skil-
yrði börn og unglingar hafa til góðr-
ar menntunar. Ég heyri æ oftar for-
eldra tala um að börnin sín fái ekki
nógu mikla menntun í skólum hér á
landi miðað við það sem gerist í lönd-
um, sem við kjósum að bera okkur
saman við. Tíminn sé ekki nógu vel
nýttur, sérstaklega ekki meðan
börnin eru yngri. Borgaryfirvöld
verða að hlusta á þessa gagnrýni og
fara rækilega ofan í
það hvernig hægt er að
gera betur. Flestir sem
kynnt hafa sér skóla-
mál erlendis eru sam-
mála um eitt. Íslend-
ingar eru í fremstu röð
þegar kemur að skóla-
byggingunum. Fáar
þjóðir standa okkur á
sporði með það. Gríð-
arlegum fjármunum er
varið í glæsilegar
byggingar og umgjörð.
En höfum við lagt eins
mikið í að byggja upp
hið innra starf? Við
sjálfstæðismenn höfum
lagt áherslu á að skapa
grunnskólum borgarinnar raun-
verulegt sjálfstæði, ekki bara í orði
heldur líka á borði. Þannig verði sá
sköpunarkraftur sem býr í kennur-
um og skólastjórnendum best nýtt-
ur. Hugmyndaauðgi og metnaður til
að gera betur verður að fá nauðsyn-
legt svigrúm og aflétta þarf miðstýr-
ingu í kerfinu. Nýlegir kjarasamn-
ingar við kennara eiga að skapa nýja
möguleika. Þessi kerfisbreyting
kallar að sjálfsögðu á meiri ábyrgð
en ég trúi því og veit að okkar skóla-
menn standa vel undir henni.
Jafnræði með nemendum
er réttlætismál
Greiðslur Reykjavíkurborgar til
einkarekinna grunnskóla hafa verið
deiluefni á vettvangi borgarstjórnar.
Þar hefur meirihlutinn ákveðið að
greiðslur sem einkaskólar, s.s. Ís-
aksskóli og Landakotsskóli, fá séu
ekki hærri en sú viðmiðun sem Sam-
band íslenskra sveitarfélaga hefur
ákveðið að gildi milli sveitarfélaga
þegar börn stunda nám í öðru sveit-
arfélagi en þau eiga lögheimili í. Sú
viðmiðun er eðli málsins samkvæmt
tengd jaðarkostnaði og ófullnægj-
andi þegar verið er að tala um rekst-
ur heils skóla. Þannig er meðal-
kostnaður á grunnskólabarn í
Reykjavík rúmlega 350 þúsund
krónur á ári en einkaskólarnir fá ein-
ungis greiddar um 220 þúsund krón-
ur fyrir hvern nemanda. Hljóta allir
sanngjarnir menn að sjá að þetta
getur ekki gengið. Sjálfstæðismenn
leggja áherslu á að jafnræði ríki með
grunnskólanemendum í Reykjavík
óháð því hvort þeir stunda sitt
skyldunám í skólum reknum af
einkaaðilum eða af borginni. Þetta
er réttlætismál barna og foreldra í
Reykjavík sem verður að ná fram að
ganga.
Rekstrarformi
Orkuveitu breytt
Málefni Orkuveitu Reykjavíkur
hafa verið mikið til umfjöllunar á
vettvangi borgarstjórnar á þessu
ári. Kemur þar einkum tvennt til. Í
fyrsta lagi hafa þær miklu milli-
færslur fjármuna sem verið hafa frá
fyrirtækinu inn í borgarsjóð leitt til
þess að erlendar skuldir Orkuveit-
unnar hafa hækkað verulega. Þann-
ig hafa fjórir milljarðar króna verið
fluttir á milli til að standa undir
auknum útgjöldum borgarsjóðs.
Jafnframt hafa verið uppi stífar
kröfur af hálfu meirihlutans um að
fyrirtækið greiði háar arðgreiðslur
inn í borgarsjóð. Þessar greiðslur
hafa óneitanlega veikt fyrirtækið.
Þetta hefur jafnframt leitt til endur-
skoðaðra samninga við nágranna-
sveitarfélögin, Hafnarfjörð og
Garðabæ, eftir að þau gagnrýndu
áhrif hárra arðgreiðslna á afkomu
fyrirtækisins. Í framhaldi af því hef-
ur verið metið að eðlilegt væri að
þau eignuðust á móti hlut í fyrirtæk-
inu. Í öðru lagi hafa staðið yfir mikl-
ar deilur vegna reksturs fjarskipta-
fyrirtækisins Línu.Nets hf. sem
Orkuveitan á að tveimur þriðju hlut-
um. Kem ég að því síðar. Auk þessa
er rétt að nefna að við sjálfstæðis-
menn lögðum á það áherslu að Orku-
veitu Reykjavíkur yrði breytt í
hlutafélag vegna þeirra breytinga,
sem væntanlegar eru á öllu við-
skiptaumhverfi raforkumála, og
nýrrar löggjafar þar að lútandi. Sú
breyting er nauðsynleg til að fyrir-
tækið geti mætt þeirri samkeppni,
sem framtíðin býður upp á. Önnur
orkufyrirtæki eru þegar farin að feta
þessa slóð og nú hafa tvö hlutafélög
þegar verið stofnuð um rekstur
þeirra. En þá ber svo undarlega við
að í stað þess að samþykkja stofnun
hlutafélags ákveður meirihlutinn að
setja á laggirnar sameignarfélag.
Vitað er að slíkt fyrirkomulag er
mun þyngra í vöfum og mun verri
kostur en hlutafélagið. Auk þess er
enginn lagarammi til um þetta
rekstrarfyrirkomulag. Skýringin
mun vera sú að vinstri grænir innan
R-listans eru með einhverjar undar-
legar bábiljur gagnvart hlutafélög-
um og til að hafa þá góða hafi þessi
leið verið valin. Hagsmunir Orku-
veitunnar eru látnir víkja fyrir póli-
tískum hrossakaupum í aðdraganda
kosninga.
Slæm staða Línu.Nets. hf.
Málefni fjarskiptafyrirtækisins
Línu.Nets hf. hafa alloft verið til um-
fjöllunar á vettvangi borgarstjórnar
og í fjölmiðlum. Kemur þar margt
til. Fyrirtækið var stofnað til að fara
út í rekstur á áhættusömu sam-
keppnissviði. Um það voru skiptar
skoðanir frá byrjun. Ljóst var strax í
upphafi að reksturinn myndi kalla á
miklar fjárfestingar, en meirihlutinn
taldi að einkaaðilar á markaði
myndu fljótlega koma inn í fyrirtæk-
ið með fjármagn. Það hefur ekki
gerst nema að litlu leyti. Fjárþörf
fyrirtækisins hefur reynst gríðarleg
og fjármunir streyma frá Orkuveit-
unni til þess. Í dag nema þessar fjár-
hæðir um 1.650 milljónum króna að
meðtöldum yfirteknum skuldum.
Engin leið er að sjá fyrir endann á
þessari fjárþörf því að allar upplýs-
ingar og fullyrðingar meirihlutans
um það hafa fram að þessu reynst
rangar. Strax að loknu fyrsta starfs-
árinu tók borgarstjóri þá ákvörðun
að minnihlutinn í borgarstjórn
skyldi ekki eiga fulltrúa í stjórn fyr-
irtækisins eins og verið hafði í byrj-
un. Þess í stað voru skipaðir þrír
borgarfulltrúar frá R-listanum í
stjórnina. Þetta hefur að sjálfsögðu
sett mark sitt á alla umfjöllun. Úti-
lokað hefur verið að fá upplýsingar
sem borgarfulltrúar eiga rétt á. Eft-
ir mikinn þrýsting nú í haust var
loks látið undan og árshlutareikn-
ingur fyrir fyrstu níu mánuði þessa
árs lagður fram í borgarráði. Þar
kemur fram að staðan er mun verri
en nokkurn óraði fyrir og fleiri
spurningar vakna við lestur þess
reiknings en hann svarar. Ég hef af
þessu tilefni ritað Borgarendurskoð-
anda og skoðunarmönnum Reykja-
víkurborgar bréf og óskað eftir ít-
arlegu mati og greiningu á stöðu
fyrirtækisins. Mikilvægt er að ljóst
sé hver er raunveruleg staða fyrir-
tækisins, hvaða fjárskuldbindingar
búið er að gera og hvort og hvernig
tryggt verður að þeir fjármunir al-
mennings sem í þetta hafa runnið
skili sér til baka.
Komið í veg fyrir hækkun
fasteignaskatts
Fjárhagsstaða Reykjavíkurborg-
ar er ekki sterk. Hreinar skuldir
borgarinnar hafa sjöfaldast að raun-
gildi í tíð R-listans. Útgjöld borgar-
innar hafa vaxið sífellt og skattar og
álögur hafa verið í hámarki. Nú í að-
draganda kosninga ber hins vegar
við að ákveðið er að nýta ekki heim-
ild sem sveitarfélög fá nú um áramót
til hækkunar útsvars um 0,33% og
það kynnt af hálfu meirihlutans sem
skattalækkun. Enginn vafi er á því
að sú hækkun verður nýtt verði
vinstri menn áfram við völd hér í
Reykjavík miðað við stór orð þeirra
fyrir ári um fjárþörf borgarinnar og
annarra sveitarfélaga. Aftur á móti
höfum við sjálfstæðismenn náð því
fram að hækkun fasteignamats á
þessu ári sem leitt hefði til verulega
hærri fasteignaskatta er ekki látin
ná fram að ganga. Við hinar miklu
hækkanir fasteignamats á undan-
förnum árum höfum við flutt tillögur
um að þær leiddu ekki til hærri fast-
eignaskatta en sem almennum verð-
breytingum næmi. Það hefur ekki
náð fram að ganga og fullyrt af hálfu
meirihlutans af borginni veitti ekki
af tekjunum. Nú hefur hins vegar
orðið breyting á sem ástæða er til að
fagna en ekki er ósennilegt að skýr-
ingin sé sú að skammt er til næstu
kosninga.
Malbikunarstöðin verði seld
Rekstur risavaxins fyrirtækis eins
og Reykjavíkurborg er í raun krefst
vandaðra og agaðra vinnubragða.
Borgarsjóður veltir meira en 25
milljörðum króna og er þá ótalin
velta fyrirtækja borgarinnar. Borg-
arfulltrúum er trúað fyrir skattfé al-
mennings og þeir verða að umgang-
ast það af fullri virðingu. Sífellt
verður að vera í gangi skoðun á því
og eftirlit með að fjármagnið nýtist
eins vel og kostur er. Það sama á við
um rekstur sem einhvern tíma þótti
sjálfsagt að borgin stæði í en með
breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu á
ekki lengur við. Það á til dæmis við
um rekstur malbikunarstöðvar.
Borgin breytti fyrir nokkrum árum
þeim rekstri í hlutafélagið Malbik-
unarstöðina Höfða hf. sem tímabært
er að selja. Sjálfstæðismenn munu á
næsta fundi borgarstjórnar flytja til-
lögu um að þriggja manna sérfræð-
ingahópi verði falið að undirbúa sölu
fyrirtækisins og leggja tillögur um
hvernig best verði að því staðið fyrir
borgarráð og borgarstjórn.
Borgarstjórnarkosningar verða í
Reykjavík eftir sex mánuði. Þá
munu borgarbúar velja þá sem fara
eiga með stjórn borgarinnar næstu
fjögur ár. Sjálfstæðismenn ganga
bjartsýnir til kosningabaráttunnar
með sjálfstæðisstefnuna að leiðar-
ljósi. Hún byggist á því að þegar
frelsi einstaklingsins til orða og at-
hafna er tryggt er hagsmunum
heildarinnar best borgið. Þegar
stefna Sjálfstæðisflokksins hefur
notið sín í Reykjavík hefur staða
borgarinnar verið sterk og hagur
hennar góður. Reykjavík þarf að
taka við forystuhlutverki á nýjan
leik og borgarbúar eiga að geta verið
stoltir af borginni sinni. Stefna Sjálf-
stæðisflokksins þarf á ný að ráða
ferðinni í málefnum Reykjavíkur-
borgar til hagsbóta fyrir alla borg-
arbúa.
REYKJAVÍK Í FORYSTU
Á NÝJAN LEIK
Inga Jóna
Þórðardóttir
Höfuðborgin á að þjóna
sem eins konar ljósviti
annarra sveitarfélaga.
Hún á að hafa frum-
kvæði í því að finna
lausnir og benda á úr-
ræði, segir Inga Jóna
Þórðardóttir, sem önn-
ur sveitarfélög geta tek-
ið til fyrirmyndar. Höf-
uðborgin á að vera
merkisberi og staður
sem öll þjóðin á að geta
litið til með stolti.
Höfundur er oddviti Sjálfstæð-
ismanna í borgarstjórn.