Morgunblaðið - 17.02.2002, Blaðsíða 5

Morgunblaðið - 17.02.2002, Blaðsíða 5
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17. FEBRÚAR 2002 B 5 Í KVIKMYNDUM hefur vitnis-burður Nýja testamentsins umJesú Krist oft verið til umfjöll-unar. Auk hefðbundinna mynda um ævi og störf Krists, hafa persónur með sterka tilvísun til orða hans og athafna verið vinsælt viðfangsefni í kvikmyndum. Slíkar persónur hafa stundum verið kall- aðar kristsgervingar. Dr. Arnfríður Guðmundsdóttir, lektor við guð- fræðideild Háskóla Íslands, ræddi sérstaklega um kvenpersónur, sem flokkaðar hafa verið sem krists- gervingar og skoðaði þær út frá for- sendum kristsfræði og femínisma á rabbfundi á vegum Rannsóknastofu í kvennafræðum í Norræna húsinu síðastliðinn fimmtudag. Auk þess að fjalla um einkenni svokallaðra kristsgervinga, tók hún dæmi af þekktum kvenpersónum í tveimur nýlegum bíómyndum, þeim systur Helen í „Dead Man Walking“ og Bess í „Breaking the Waves“, en báðum hefur þessum persónum oft verið líkt við kristsgervinga. Arnfríður færði m.a. rök fyrir því að á meðan réttilega væri hægt að kalla systur Helen kristsgerving, væri réttara að tala um Bess sem neikvæðan kristsgerving, sem gerir tilkall til samanburðar við frásögn guðspjallana en felur í sér and- hverfu við frelsunar- og kærleiks- boðskap Krists. „Bess er nefnilega holdgervingur hefðbundinna hug- mynda um fórnareðli kvenna og í myndinni er fyrirmyndin að hinni fórnfúsu konu upphafin. Þar koma einnig vel fram þau skaðlegu áhrif, sem krafan um sjálfsfórn kvenna hefur oft haft í för með sér.“ Guðfræðin skrifuð af körlum Arnfríður útskrifaðist með emb- ættispróf í guðfræði frá Háskóla Ís- lands árið 1986, en hélt svo til Bandaríkjanna og lagði stund á framhaldsnám við þrjá háskóla vestanhafs, University of Iowa, University of Chicago og Lutheran School of Theology í Chicago, á ár- unum frá 1987 til 1996 er hún lauk doktorsprófi í guðfræði með trú- fræði sem sérgrein. Femínísk sýn á guðfræðina segir hún að hafi lengi fylgt sér og hafi doktorsritgerðin reyndar fjallað um femíníska end- urskoðun á fræðunum um Krist sem aftur tengdist áhuga hennar á kristsmyndum. Í dag starfar hún sem lektor við guðfræðideild Há- skóla Íslands. „Femínísk trúarumræða er ná- tengd kvennabaráttunni enda engin tilviljun að hún kom mjög sterkt fram í dagsljósið upp úr 1970. Guð- fræðin var skrifuð í samfélagi, þar sem karlar réðu ríkjum, og er þar af leiðandi mótuð af karllægu gildis- mati. Það kom að því að konur fóru að endurmeta stöðu sína innan kirkjunnar enda var konum lengi meinað að mennta sig sem guðfræð- ingar og taka prestsvígslu. Þessi femíníska umræða hefur oft fengið á sig mjög neikvæðan stimpil enda hefur hún gjarnan viljað fara út í mikla einföldun þegar til dæmis verið er að bítast um það hvort Guð sé karl eða kona. Guð er að sjálf- sögðu hvorki karl né kona, en það kemur ekki í veg fyrir að við getum notað bæði karllegar og kvenlegar myndir um Guð. Enginn þarf á hinn bóginn að efast um að hinn sögulegi Jesús hafi verið karlkyns.“ Arnfríður segir að ganga þurfi út frá þeirri grunnforsendu að allar persónur, konur og karlar, séu skapaðar í mynd Guðs, eins og stað- fest sé í lífi og starfi Jesú Krists og myndi kjarna kristinnar trúar. „Því hefur verið haldið fram að það sé tímanna tákn að umfjöllun um per- sónu og starf Jesú Krists fari ekki lengur fram í svokölluðum Jesú- myndum, enda hafi þær flestar ver- ið bæði umdeildar og misheppnað- ar. Nú fari umfjöllunin hinsvegar fram í myndum þar sem aðalpersón- an sker sig úr fjöldanum á einhvern hátt eða tekur að sér hlutverk frels- arans, umbreytir lífi fólks og deyr að lokum píslarvættisdauða. Slíka persónu hafa margir kallað krists- gerving. Ekki er þó almenn sam- staða um hvaða eiginleikum krists- gervingur þurfi að vera gæddur, en flestir eru sammála um að persóna kristsgervingsins þurfi að vera nógu sterk til þess að geta staðið ein og sér, án þess að skírskotunin til Krists komi upp á yfirborðið. Undir yfirborðinu búi hinsvegar dýpri merking, sem er tilvísun til persónu Jesú Krists.“ Mennska og guðdómur Kven-kristsgervingar í kvik- myndum eru sérstaklega áhuga- verðir af því að þeir neyða okkur til að fást við mikilvægar spurningar um það hver Kristur er og hverjir möguleikar kvenna eru til þess að gerast staðgenglar hans, að sögn Arnfríðar. Kven-kristsgervingar geti þannig hjálpað okkur við að fást við hina klassísku kristsfræði- legu spurningu um mennsku og guðdóm Krists. „Danski leikstjór- inn Carl Theodor Dreyer setur fram augljósan kven-kristsgerving í mynd sinni um þjáningu og dauða Jóhönnu af Örk frá árinu 1928. Í þessari mynd er sögð píslarsaga frægasta klæðskiptings vestrænnar sögu. Það sem gerir hana áhuga- verða í þessu samhengi er sá sam- anburður sem Dreyer gerir á písl- arsögu Jóhönnu og píslarsögu Krists, þar sem Jóhanna er túlkuð sem kristsgervingur og þjáning hennar og dauði endurspegla þján- ingu og dauða Krists. Í myndinni er ekki að finna lífs- sögu Jóhönnu heldur eingöngu yf- irheyrslurnar yfir henni og aftöku hennar. Aðaláherslan er á sann- leiksgildi opinberana Jóhönnu og hvort hún sé raunverulega dóttir Guðs, eins og hún segist vera. Þrátt fyrir ungan aldur, kemur skýrt fram hversu mikil ógnun hún er andlegum sem veraldlegum yfir- völdum. Ógnun hennar við hina and- legu valdhafa felst í efasemdum hennar um réttmæti valds þeirra, því hún efast um réttmæti einok- unar þeirra á hjálpræðinu. Þegar hún neitar að viðurkenna að hafa á röngu að standa og hætta að klæð- ast karlmannsfötum, eru örlög hennar ráðin. Hermennirnir hæðast að henni og setja jafnvel kórónu á höfuð hennar áður en þeir færa hana á bálið. Hún lætur líf sitt á bál- inu með kross með líkama Krists á í fanginu og með skilti yfir höfði sér sem á er letrað „skurðgoðadýrk- andi, trúvillingur og trúníðingur“.“ Kvikmynd danska leikstjórans Lars von Trier, Brimbrot eða Breaking the Waves frá árinu 1996, er augljóslega undir sterkum áhrif- um frá mynd Dreyers um Jóhönnu af Örk, segir Arnfríður. „Bess er ung, saklaus og einföld stúlka, sem elst upp í strangtrúuðu kalvínsku sjávarþorpi í Skotlandi þar sem öld- ungaráð kirkjunnar, skipað körlum, gegnir lykilhlutverki. Konurnar sinna hinum „kvenlegu“ störfum, hlýða, hafa stjórn á eigin tilfinning- um og bera harm sinn í hljóði. Frá byrjun er ljóst að Bess á erf- itt með að uppfylla væntingar sam- félagsins og andstætt vilja þess gift- ist hún aðkomumanninum Jan, sem starfar á olíuborpalli í Norðursjón- um. Ást hennar er einlæg og hún gefur sig honum á vald. Söknuður- inn verður því óbærilegur er Jan þarf að hverfa á ný til vinnu sinnar. Bess leitar til Guðs í örvæntingu sinni og Jan kemur heim fyrr en ráðgert hafði verið, illa slasaður. Bess kennir sjálfri sér um hvern- ig komið er fyrir Jan, en er stað- ráðin í að gera það sem í hennar valdi stendur til að sanna ást sína og þegar hann biður hana að fara og vera með öðrum karlmönnum og koma síðan og segja sér frá reynslu sinni, gerir hún það. Þrátt fyrir við- varanir, gengur Bess sífellt lengra í hlýðni sinni við Jan, sannfærð um að bati hans sé á hennar valdi. Að lokum deyr Bess af áverkum sem hún hlýtur um borð í togara og end- ar myndin á því að Jan, sem er „upprisinn“ úr rúmi sínu og kominn á hækju, kastar líki konu sinnar í sjóinn og hljómur kirkjuklukkna af himni gefur vísbendingu um yfir- náttúrulegar ástæður þess að jarð- neskar leifar Bess sjást ekki á ratsjá skipsins. Neikvæður kristsgervingur Arnfríður segir að sjá megi í Bess holdgervingu hefðbundins skilnings á guðlegum kærleika og af þeim sökum hafi Bess oft verið túlkuð sem kristsgervingur. Aftur á móti þurfi að vinna gegn áframhaldandi misnotkun krossins. Ekki sé nauð- synlegt að hver sá sem vill feta í fót- spor Krists og endurspegla mynd hans, endurtaki fórn Krists á krossi. „Þegar öllu er á botninn hvolft, er Brimbrot dæmi um það sem fem- ínískir guðfræðingar hafa réttilega kallað misnotkun krossins, þegar kross Krists hefur verið notaður til þess að réttlæta þjáningu hinna valdalausu, sem í svo mörgum til- fellum eru konur. Myndin er með öðrum orðum dæmi um afbökun á kærleikshugtakinu og rangtúlkun á krossi Krists. Þetta er mynd um misnotkun og valdbeitingu, sem sýnir áhrif skaðlegrar mistúlkunar á krossi Krists. Bess er leiksoppur þeirra sem með völdin fara, þeirra sem taka sér vald yfir henni. Hún er valdalaus kona í samfélagi sem byggist á gildismati karlaveldisins, þar sem frelsun karlsins kostar hina fullkomnu fórn konunnar. Í þessari mynd tekur Guð afstöðu með hinum sterku, gegn þeim sem minna mega sín, í sterkri mótsögn við þann Guð sem í guðspjöllunum opinberast í persónu og starfi Jesú Krists.“ Bess í mynd von Triers mætti, að mati Arnfríðar, hugsanlega flokka sem neikvæðan kristsgerving þar sem hún gerir ákveðið tilkall til saman- burðar við frásögn guðspjallanna en felur í sér andhverfu við frelsunar- og kærleiksboðskap Krists. Jákvæður kristsgervingur Aðalpersóna Dead Man Walking frá árinu 1995 eftir bandaríska leik- stjórann og handritshöfundinn Tim Robbins hefur að sama skapi verið kölluð kristsgervingur þó margt greini systur Helen frá Bess. Helen er rómversk-kaþólsk nunna, sem kynnist fanga er bíður þess að verða tekinn af lífi fyrir hrottalegan glæp. Kvikmyndin byggist á sannsöguleg- um atburðum, sem lýst er í sam- nefndri bók eftir systur Helen Prej- ean, og fjallar myndin um samskipti Helenar og fangans Matthews Poncelet vikuna fyrir aftökuna. Systir Helen kemur úr vel stæðri fjölskyldu, en ákveður ung að ger- ast nunna. Straumhvörf verða í lífi Helenar þegar henni berst bréf frá fanga, sem biður hana að hjálpa sér við að fá áfrýjuðum dauðadómi, sem hann hafði fengið fyrir að nauðga og myrða tvö ungmenni. Þrátt fyrir viðvaranir, ákveður Helen að gera sitt besta. Að mati Arnfríðar er hlutverk Helenar trúverðugt dæmi um endursögn guðspjallanna í gegnum kven-kristsgerving. „Í myndinni verður hún ímynd Krists er hún notar hæfileika sína og að- stöðu til þess að leiða fram hið besta í öðrum án þess að gera út af við sig sjálfa. Þessi kvenpersóna er kröftug fyrirmynd, sem af fúsum og frjáls- um vilja notar frelsi sitt til þess að ganga enn lengra í þeim tilgangi að framfylgja köllun sinni.“ Skaðleg áhrif Í ljósi þeirra skaðlegu áhrifa, sem boðskapur kristinnar hefðar um fórnarkærleikann hefur oft haft á konur, er mikilvægt að konur í dag fái að sjá trúverðuga kvenkrists- gervinga, eins og systur Helen, til þess einfaldlega að sjá möguleika sína til þess að flytja áfram boð- skapinn um Guð sem tók á sig hold og bjó með okkur, segir Arnfríður. „Systir Helen er trúverðug fyrir- mynd fyrir nútímakonur vegna þess að við sjáum í henni konu, sem er fær um að setja mörk, velja og yf- irstíga hindranir hins kyngreinda valds í samfélaginu.“ Konur sem kristsgervingar Morgunblaðið/Golli Bess í myndinni Breaking the Waves og systir Helen í Dead Man Walking. Báðum persónum hefur verið líkt við kristsgervinga. Feminísk trúarum- ræða er nátengd kvennabaráttunni. Jóhanna Ingvarsdóttir rabbaði við dr. Arnfríði Guðmunds- dóttur, lektor við HÍ, um konur í kristshlutverkum í kvikmyndum. „Guð er hvorki karl né kona, en það kemur ekki í veg fyrir að við getum notað bæði karllegar og kvenlegar myndir um Guð,“ segir Arnfríður.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.