Morgunblaðið - 17.02.2002, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 17.02.2002, Blaðsíða 14
14 B SUNNUDAGUR 17. FEBRÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ anlegan samning. Það var ekki vegna minnar græðgi, það var einfaldlega ljóst að mér buðust betri laun annars staðar. Hjá Bolton urðu engin leið- indi, þar gerðu menn sér grein fyrir því að þeir höfðu fengið mig frítt og högnuðust heldur betur þegar þeir seldu mig.“ Þóttist vera svalur í símtali við Vialli „Nafn Chelsea kom fljótlega upp í þessum umræðum og dag einn hringdi umboðsmaðurinn í mig og sagði að Colin Hutchinson hjá Chelsea væri búinn að hafa samband og bjóða í mig fjórar milljónir punda. Gianluca Vialli, knattspyrnustjóri Chelsea, hringdi í mig til Íslands og ég hef aldrei verið jafnstressaður í símtali. Ég átti ekki aukatekið orð, Vialli sjálfur í símanum og vildi sjá mig í blárri treyju á næsta tímabili. Sannleikurinn er sá að um leið og ég heyrði af áhuga Chelsea vildi ég ólmur komast þangað og hugsaði með mér að það væri eins gott að þetta færi ekki út um þúfur. En ég hringdi samt í Vialli og þóttist vera svalur. Ég sagði honum að það yrði að koma í ljós hvað ég gerði, það væru mörg önnur lið inni í myndinni. Um leið hugsaði ég með sjálfum mér: „Hvað er ég að bulla, ég fer til Chelsea ef færi gefst.“ Og ég flaug til London með pabba og fór í læknisskoðun sem stóð í sex klukkutíma. Þar var farið yfir allt saman, enda miklir peningar í húfi og menn kaupa ekki gallaða vöru. Það sáust enn afleiðingar af mínum gömlu meiðslum, beinvöxtur í ökkla og styrkleikamunur á vinstri og hægri, sem er reyndar enn til staðar. En ég fékk græna ljósið, og þá fyrst hugsaði ég með mér: „Ég er að fara að skrifa undir hjá Chelsea.“ Fyrr þorði ég ekki og leyfði mér ekki að hugsa það mál til enda. Ég fór með pabba og um- boðsmanninum á skrifstofu Chelsea og gekk frá samningi til fimm ára.“ Eiður segir að viðbrigðin að fara frá Bolton til Chelsea hafi verið enn meiri en hann bjóst við. „Ég átti í raun ekki aukatekið orð. Allt í einu var ég orðinn nógu góður til að spila fyrir Chelsea. Þetta var risaskref frá Bolton, þar sem allir höfðu reynst mér vel; Bolton var frábært félag en hjá Chelsea var allt meira. Stærri persónuleikar og meiri atvinnumenn á öllum sviðum. Þetta var sumarið 2000, ég átti að mæta eftir fríið og æfa með heimsmeisturum og nýkrýndum Evrópumeisturum, Marcel Desailly og Franck Leboeuf, og með Gian- franco Zola, sennilega besta fótbolta- manni sem klæðst hefur búningi Chelsea. Ég hugsaði með mér hvern- ig í ósköpunum ég ætti að fara að því að sóla Desailly á æfingum.“ Eiður segist hafa átt erfitt upp- dráttar hjá Chelsea fyrst í stað. „Mér gekk erfiðlega á æfingum til að byrja með og hugsaði með mér: „Er ég nógu góður til að vera hérna?“ Það erfiðasta við að koma í nýtt félag er að ávinna sér virðingu hinna leikmann- anna. Það er alltaf búist við því að nýr maður geti eitthvað og sýni eitthvað. Mér fannst ég ekki sýna mitt rétta andlit á undirbúningstímabilinu og fyrstu 2-3 mánuðina hjá Chelsea. Mér fannst ég ekki ná að sýna þann Eið Smára sem ég vissi um en enginn hjá Chelsea hafði séð. Mitt fyrsta tæki- færi kom í fjórða leik, gegn Aston Villa, og þar gekk mér þokkalega, ég lagði upp tvö marktækifæri sem nýtt- ust ekki og leikurinn endaði 0:0. En fljótlega eftir þennan leik hætti Vialli, sem var mikið áfall, og Claudio Ran- ieri var ráðinn í staðinn.“ Ekki nóg að sýna sitt besta Eiður hafði upplifað stjóraskipti hjá Bolton en þetta var annað og meira. Skyndilega var horfinn á braut sá sem hafði keypt hann fyrir háa fjárhæð og í staðinn kominn ítalskur stjóri sem aldrei hafði starfað í Bret- landi og fæstir þekktu eitthvað til. „Þetta voru mikið róttækari um- skipti en hjá Bolton. Þar vissi ég að ég væri einn af bestu leikmönnunum, svo framarlega sem ég sýndi hvað ég gæti myndi ég ekki missa sæti mitt þó að nýr maður tæki við. Hjá Chelsea var þetta allt annað mál. Þar hafði ég strax á tilfinningunni að þó að ég sýndi mitt besta, væri það ekki endi- lega nóg til að komast í liðið því þar væru bara aðrir betri menn fyrir. Breiddin var mikil og samkeppnin gíf- urleg. En í fyrsta deildarleiknum undir stjórn Ranieris, gegn Liver- pool, var ég í byrjunarliðinu í fyrsta skipti. Þar átti ég líklega einn af fimm bestu leikjum mínum á ferlinum til þessa. Eftir 15 mínútur hugsaði ég með mér að ég myndi aldrei ná að ljúka hálfleiknum, ef þetta yrði alltaf svona gæti ég þetta ekki. Hraðinn í leiknum var ótrúlegur, ég náði ekki andanum og var með hálfgerða brauðfætur. En ég komst í gegnum hálfleikinn, og þar með var ég búinn að venjast hraðanum. Ég lagði upp mark fyrir hlé, skoraði mitt fyrsta mark fyrir Chelsea í seinni hálfleik og við unnum 3:0. Ég var valinn maður leiksins í blöðunum og þetta létti mik- illi pressu af mér. Mér tókst að ávinna mér meiri virðingu meðal leikmanna liðsins og stuðningsmenn Chelsea sáu hvað í mér bjó. Þessi leikur rökstuddi þá ákvörðun forráðamanna Chelsea að borga fjórar milljónir punda fyrir mig, hann réttlætti kaupin á mér.“ Sýndu að ég þurfi ekki sóknarmann Þegar Eiður Smári var keyptur til Chelsea var ekki að sjá að félagið væri á flæðiskeri statt. Jimmy Floyd Hass- elbaink var keyptur frá Atletico Madrid á sama tíma og fyrir voru þeir Zola og norski markaskorarinn Tore Andre Flo. Samkeppnin var því gíf- urleg en Flo átti erfitt með að sætta sig við að spila ekki í hverri viku og ákvað að fara til Glasgow Rangers. „Þarna fóru af stað miklar vanga- veltur um hver yrði keyptur í staðinn. Ranieri kom til mín og sagði: „Eiður, ég vil ekki að þú sért að spá í þetta. Það getur vel verið að ég kaupi ein- hvern, og það getur vel verið að ég kaupi ekki neinn.“ Skömmu síðar kallaði hann mig á fund, með Desailly sem túlk, og sagði: „Eiður, nú vil ég að þú sýnir mér að ég þurfi ekki að kaupa annan sóknarmann.“ Mitt tækifæri kom í desember þegar Jimmy fór í leikbann og mér tókst að skora fimm mörk í fjórum leikjum. Þar með var sjálfstraustið endanlega kom- ið og ég hafði fest mig í sessi innan hópsins. Mér tókst að skora 13 mörk um veturinn, þar af 10 í deildinni, og ef einhver hefði sagt mér það fyrirfram hefði ég verið fljótur að samþykkja þá tölu! Ég var ekki alltaf sáttur þegar ég var ekki valinn í liðið og fannst þá og finnst enn oft ósanngjarnt að vera á bekknum. Svo hugsa ég með mér: „Zola er besti leikmaður sem Chelsea hefur átt.“ Samt finnst mér oft fárán- legt að hann sé að spila en ekki ég, þó að það sé svo sannarlega ekkert til að skammast sín fyrir. En ég hef aldrei verið þjakaður af minnimáttarkennd, ég hef alltaf haft trú á sjálfum mér. Ég vissi alltaf að ég hefði hæfileika sem myndu komast á yfirborðið með réttu hugarfari og brjálaðri vinnu.“ Nógu góðir til að vinna titla í vetur Eiður Smári hefur átt góðu gengi að fagna í framlínu Chelsea í vetur og hefur þegar skorað 17 mörk, þar af 11 í úrvalsdeildinni. Hann segist stefna að 20 mörkum. „Það er skemmtileg tala, góð við- miðun, og allt þar framyfir er plús. Við erum nógu góðir til að vinna titla í vetur, og það er aðalmarkmiðið hjá mér; að vera í sigurliði og lyfta bik- urum. Við erum í námunda við efstu liðin, og ef við vinnum 3-5 leiki í röð er aldrei að vita hver staðan verður. Okkar vandamál er að þrátt fyrir ein- ungis fjóra ósigra í deildinni höfum við gert ellefu jafntefli og misst mikið af stigum að óþörfu. Við höfum spilað glimrandi vel gegn toppliðunum. Manchester United átti ekki mögu- leika gegn okkur þegar við unnum þá 3:0. Við lögðum Liverpool 4:0 og Leeds 2:0, en svo hafa komið leikir eins og gegn Southampton, Middles- brough og Bolton á heimavelli þar sem við höfum misst vænlega stöðu niður í jafntefli eða tap. Með fullri virðingu fyrir þessum liðum, þá eig- um við að sigra þau á heimavelli. Í bikarnum eigum við heimaleik gegn Preston í 16 liða úrslitum og ef allt verður eðlilegt, ef við verðum vel stemmdir eigum við að komast áfram, og þá getur allt gerst.“ Eiður ber samherjum sínum hjá Chelsea vel söguna. „Þetta er mjög góður hópur sem nær vel saman og það er mikið hlegið og fíflast. Hér eru fjölmargir „egóistar“, í jákvæðri merkingu; góðir leikmenn sem allir vilja spila hvern einasta leik með fé- laginu og eru allir nógu góðir til þess. Það er hinsvegar engin togstreita á milli manna, heldur gagnkvæm virð- ing. Ég segi fyrir mig að ég mun alltaf óska þeim leikmanni sem tekur mína stöðu alls hins besta, og fagna þegar hann skorar mörk. Þjálfarinn velur liðið, það er ekki leikmanninum að kenna að hann sé tekinn framyfir mig, og ég verð bara að taka mig á og gera betur. Þegar allt kemur til alls erum við eitt lið, sem stefnir að því saman að ná árangri, og til þess þurfa allir að leggja sitt af mörkum.“ Enskan ræður ríkjum Mikill fjöldi erlendra leikmanna leikur í ensku úrvalsdeildinni og Chelsea hefur verið í hópi stórtæk- ustu liðanna í þeim efnum. Af 25 leik- mönnum í aðalliðshópi félagsins eru aðeins fimm Englendingar en hinir koma hvaðanæva úr heiminum. Eiður telur þetta ekki há liðinu á neinn hátt. „Auðvitað þyrfti kjarninn í hverju liði að vera skipaður leikmönnum úr heimalandinu. Englendingarnir eiga ekki að þurfa að laga sig að hinum; út- lendingarnir eiga að laga sig að ensku menningunni. Við erum vissulega með marga erlenda leikmenn en það hefur að mínu mati tekist mjög vel. Svona er þetta meira og minna í öllum liðum og það eru ekki margir Eng- lendingar seldir á milli félaga því ef þeir geta eitthvað rýkur verðið á þeim upp úr öllu valdi. Það hefur verið mik- ið talað um útlendingafjöldann hjá Chelsea, og ef liðið á lélegan leik er sagt að það hafi verið of kalt fyrir út- lendingana sem vilji bara spila í góðu veðri. En þó að þeir séu margir er enskan alltaf tungumálið sem ræður ríkjum og er notað í samskiptum manna á milli. Ég tala hollensku við Hollendingana þegar ég er einn með þeim en það væri óvirðing við aðra leikmenn að nota það mál í stærri hópi. Ef nýir leikmenn tala ekki ensku eru þeir sendir í kennslu og þeir ná fljótlega valdi á málinu. Rani- eri var algerlega mállaus þegar hann tók við og það er ekki auðvelt fyrir mann á hans aldri að læra nýtt tungu- mál en honum hefur tekist það vel.“ Claudio Ranieri hefur mátt þola talsverða gagnrýni frá því hann tók við stjórnartaumunum hjá Chelsea og margir telja að hann eigi að ná meiru út úr stjörnum prýddu liði sínu. „Ranieri er ítalskur, og það segir ansi margt, því eins og svo margir landar hans er hann smámunasamur og haldinn ákveðinni fullkomnunarár- áttu. Hann leggur gífurlega áherslu á mataræðið, maður má ekki fá sér mjólk í kaffið fyrir leik, ekki borða smjör, ekki klippa á sér táneglurnar fyrir leik. Það má hlæja að þessu en allt er þetta rökrétt á sinn hátt. Rani- eri beitir líka sálfræðinni mikið. Hann vill að við hugsum um leikinn 4-5 dög- um áður en hann fer fram og veltum því fyrir okkur hvernig við bregðumst við í ákveðnum stöðum. Þetta er sér- staklega mikilvægt fyrir sóknarmann sem sér fyrir sér sjálfan sig skora mörk, og þjálfar með því hugann. Romario var einhvern tíma spurður um hvað hann hugsaði þegar boltinn væri á leið til hans. Hann svaraði: „Þá er ég búinn að skora tíu mörk frá öll- um mögulegum sjónarhornum.“ Þetta er einmitt málið, þegar ákveðin aðstaða kemur upp veit hugurinn hvernig á að bregðast við. Það er alltaf ákveðið bil á milli þjálfara og leikmanna en Ranieri er ágætur og hefur reynst mér vel. Ég er ekki alltaf sammála honum, sér- staklega ekki þegar hann velur mig ekki í liðið eða tekur mig af velli! En það var hann sem gaf mér tækifærið hjá Chelsea, ég náði mér á strik með hans hjálp. En hjálpin dugar aðeins að hluta, þegar á reynir er það enginn sem gerir hlutina fyrir mann.“ Ég er í draumastarfinu Eiður Smári og Ragnhildur búa ásamt sonum sínum, Sveini Aroni og Andra Lúkasi, sem fæddist 29. jan- úar, í rólegu hverfi í vesturhluta London. „Okkur líður afar vel hér í London. Við erum búin að kaupa okk- ur hús og búum skammt frá æfinga- svæði Chelsea þannig að ég er aðeins tíu mínútur að keyra á æfingu. Það er gott að búa hérna, margt hægt að gera í frítímanum og það er mjög auð- velt fyrir fólk að koma í heimsókn til okkar. Ég er í draumastarfinu og get þakkað guði á hverjum degi fyrir að geta spilað fótbolta og fengið fyrir það góð laun. Þetta er fjölskylduvænt starf, það er oft mikill frítími í miðri viku þar sem maður reynir að hvíla sig og byggja sig upp fyrir næsta leik og eyða sem mestum tíma með fjöl- skyldunni. Vinnutíminn er stuttur, yf- irleitt æfing fyrir hádegi, borðað á æf- ingasvæðinu og síðan farið heim. Fjarveran er helst í kringum leiki um helgar. Ef við spilum hér í London, á heimavelli eða útivelli, er yfirleitt komið saman á leikdegi, borðað og hvílt á hóteli í nágrenni vallarins. Í leiki utan London förum við daginn fyrir leik, og fljúgum í alla leiki sem taka meira en tvo klukkutíma í keyrslu. Þetta er öðruvísi en hjá Bolt- on þar sem allar ferðir voru farnar með rútu og það tók stundum sex tíma að komast á leikstað.“ Kostirnir við að starfa sem atvinnu- knattspyrnumaður eru margir; draumastarf eins og Eiður segir sjálf- ur, en því fylgir ekki eintóm ánægja. „Stærsti gallinn er að sjálfsögðu sá að maður býr við pressu á hverjum einasta degi. Hver vinnandi maður er undir ákveðnu álagi en það er mikið meira og erfiðara í íþróttaheiminum. Fólk er stöðugt að fylgjast með þér og sér hvað þú ert að gera, hvort þú stendur þig eða ekki. Fjölmiðlar og áhangendur búast alltaf við því að þú sért fullkominn og að það eigi ekki að vera hægt að klikka á dauðafæri. En stundum gerist það. Það er auðvelt að sitja við sjónvarpið og segja að það hefði verið lítið mál að skora úr þessu færi. Spurningin er hinsvegar sú hvort viðkomandi hefði komist í þetta færi á þessum tíma með 40 þúsund áhorfendur í kringum sig og sjónvarp og aðra fjölmiðla tilbúna til að gagn- rýna sig ef hann skorar ekki. Það er allt annar hlutur. Það er ekki erfitt að skora úr vítaspyrnu á æfingasvæðinu en í leik er það allt annað mál.“ Alltaf jafn hissa á myndatökunum „Þessi utanaðkomandi pressa er mjög áberandi hér í Englandi því knattspyrnumenn eru mikið í sviðsljós- inu. Það skrýtnasta hefur verið, sem ég gerði mér ekki grein fyrir áður en ég kom til Chelsea, að ef maður er úti að borða eða á skemmtistað eru kannski skyndilega komnir ljósmyndarar að mynda þig í bak og fyrir. Það hafa verið teknar myndir af mér að versla niðri í bæ. Ég get ekki sagt að þetta sé dag- legt brauð en ég furða mig alltaf jafn mikið á þessu. Ég held að ég sé ekki sá frægasti, eða þá að við, leikmenn Chelsea, séum í hópi þeirra þekktustu í þessari stóru borg. En fótboltinn er að vísu mjög áberandi í þjóðfélaginu, áhuginn er mikill, stórar peningaupp- hæðir í spilinu og umfjöllunin eftir því.“ Eiður hefur ekki aðeins verið í frétt- Eiður Smári í harðri baráttu við Robbie Keane, leikmann Leeds, í leik liðanna í úrvalsdeildinni í lok janúar. Eiður skoraði fallegt mar enn einu sinni góðan sigur á einu toppliða deildarinnar. Verr hefur gengið gegn liðum í neðri hluta hennar.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.