Morgunblaðið - 09.05.2002, Síða 10
FRÉTTIR
10 FIMMTUDAGUR 9. MAÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ
KYNNINGARFUNDIRNIR voru
liður í að kynna matsskýrslu
Landsvirkjunar um mat á umhverf-
isáhrifum Norðlingaölduveitu, sem
hefur verið lögð fram til Skipulags-
stofunar. Norðlingaölduveita felur í
sér að Þjórsá verði stífluð við
Norðlingaöldu og myndað 29 km²
lón í 575 metra hæð yfir sjávarmáli.
Vatni verði síðan dælt um 13 km
veitugöng yfir í Þórisvatnsmiðlun.
Fyrri fundurinn fór fram á
Laugalandi í Holtum, austan megin
Þjórsár, og mættu einungis um 15
íbúar á hann eða um það bil jafn-
margir og þeir starfsmenn sem
þangað voru komnir á vegum
Landsvirkjunar. Um 80 íbúar
mættu hins vegar á síðari kynning-
arfundinn, sem haldinn var í Árnesi
í Gnúpverjahreppi.
Áhyggjur af rofi
og setmyndun
Guðjón Jónsson, verkfræðingur
hjá VSÓ-ráðgjöf, sem hafði umsjón
með matsskýrslugerðinni, kynnti
helstu niðurstöður skýrslunnar á
fundunum báðum, og var að því
loknu orðið gefið frjálst fyrir fyr-
irspurnir. Guðjón sagði helstu nið-
urstöðurnar að friðlandið héldi ein-
kennum sínum, nýting og verndun
svæðisins gæti farið saman og
framkvæmdin mundi ekki hafa um-
talsverð neikvæð áhrif.
Úr salnum í Árnesi komu einkum
fram áhyggjur af rofi og upp-
blæstri á svæðinu, minnkandi
rennsli í árfarvegi Þjórsár neðan
Norðlingaöldu og setmyndun í lón-
inu. Sögðu íbúarnir landið liggja
hátt yfir sjó, óttuðust að erfitt yrði
að stöðva uppblástur færi hann á
annað borð af stað og spurðu hvort
mótvægisaðgerðir gegn rofi væru
mögulegar í svo mikilli hæð. Einn
íbúanna sagðist muna eftir áfoki
hér áður fyrr og hafði áhyggjur af
því að við viss veðurskilyrði myndi
uppblásturshætta aukast.
Einnig komu fram áhyggjur af
setmyndun í lóninu, en í mats-
skýrslunni kemur fram að lónið
verði hálffullt eftir 100 ár. Annar
íbúi, Sigurður Stefánsson, hafði
áhyggjur af hækkun lands við Sól-
eyjarhöfða og áreyrar undir miðja
ósa Hnífár.
Matsskýrslan vekur upp fleiri
spurningar en hún svarar
Guðjón sagði sérfræðinga ekki
meta það sem svo að rofhættan
mundi aukast við framkvæmdina,
lítið svæði væri í rofhættu og ein-
falt væri að vernda það. Áin tæki
með sér fína setið, sem menn hefðu
einkum áhyggjur af, en skildi grófu
kornin eftir. Enginn munur væri á
áreyrum sem yrðu til við náttúr-
legar aðstæður og áreyrum sem
yrðu til vegna uppistöðulóna.
Halla Guðmundsdóttir, Ásum í
Gnúpverjahreppi, sagði í samtali
við Morgunblaðið matsskýrsluna
vekja upp fleiri spurningar en hún
svaraði og að ógnvekjandi væri
hversu margir óvissuþættirnir
væru. Hún sagði einnig að foss-
arnir þrír, Kjálkaversfoss, Dynkur
og Gljúfurleitafoss, í farvegi Þjórs-
ár neðan Norðlingaöldu yrðu ekki
svipur hjá sjón yrði af framkvæmd-
unum vegna minna vatnsrennslis.
Það hefði færst í aukana að göngu-
fólk legði leið sína þangað og
rennsli í fossunum hefði þegar ver-
ið skert með Kvíslarveitum 1–5.
Birkir Þrastarson, Hæli í Gnúp-
verjahreppi, tók í sama streng,
sagði svæðið einstakt á heimsvísu.
Þarna væri mikill gróður, engar
landfræðilegar forsendur væru fyr-
ir afmörkun friðlandsins og því
teldi hann að verndunin ætti að ná
út fyrir línuna. „Þarna fara 7 km²
af grónu landi undir vatn, það er
ekki svo lítið á hálendi Íslands. Allt
sem gert er á þessu svæði er óaft-
urkræft. Það er algjör paradís
þarna inn frá, meira að segja í
slydduhraglanda er fallegt,“ sagði
Birkir og bætti Halla Sigríður
Bjarnadóttir, kona hans, við að því
meira sem hún hefði kynnt sér mál-
ið því meira yrði hún á móti því.
Í máli Guðjóns á fundinum kom
fram að í mörgum tilfellum yrði
erfitt að meta skerðingu vatns-
rennslisins sjónrænt. Meðalrennsli
við Norðlingaöldu væri í dag rúm-
lega 53 m³/sek. en eftir fram-
kvæmdirnar yrði rennslið 19 m³/
Um 80 Gnúpverjar á kynningarfundi Landsvirkjunar á Norðlingaölduveitu
Óttast að erfitt
verði að koma í veg
fyrir uppblástur
Viðhorf íbúa til Norðlingaölduveitu virðist
skiptast eftir farvegi Þjórsár. Íbúar austan
árinnar virðast almennt frekar hliðhollir
fyrirhuguðum framkvæmdum en vestan
Þjórsár virðast menn vilja láta náttúruna
njóta vafans. Nína Björk Jónsdóttir sótti
kynningarfundi Landsvirkjunar í fyrradag.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Bekkurinn var þétt setinn í Árnesi, alls komu um 80 Gnúpverjar á fund-
inn. Í máli íbúa komu einkum fram áhyggjur af áhrifum á náttúrufar.
HÖRÐ GAGNRÝNI kom fram á
sameiningu Vesturhlíðarskóla og
Hlíðaskóla og seinagang í tengslum
við lagasetningu um lögbundinn
rétt heyrnarlausra til túlkaþjónustu
á fundi Félags heyrnalausra með
Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur
borgarstjóra, Birni Bjarnasyni,
borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokks-
ins, og Ólafi F. Magnússyni, fulltrúa
Frjálslyndra og óháðra, í gær.
Ingibjörg svaraði því til að mark-
miðið með sameiningu skólanna
væri m.a. að koma til móts við óskir
fjölda foreldra heyrnaskertra barna
um að börnin hlytu þjónustu í hverf-
isskólum – ekki væri um sparnaðar-
aðgerð að ræða. Björn Bjarnason
sagðist telja að frumvarp um túlka-
þjónustu hefði ekki verið lagt fram
á nýafstöðnu þinginu vegna ágrein-
ings um fjárhagslegu hliðina.
Fundurinn byrjaði á því að Ingi-
björg, Ólafur og Björn fengu tæki-
færi til að gera grein fyrir helstu
stefnumiðum sínum. Ingibjörg
sagði að R-listinn hefði gert róttæk-
ar breytingar í skólamálum, m.a.
með einsetningu grunnskólans.
Átak hefði verið gert í að fjölga
leikskólaplássum og áfram yrði
unnið að því að bæta þjónustuna
enn frekar, m.a. með heitum mál-
tíðum í grunnskólum, leik-
skólaplássum fyrir börn frá 18 mán-
aða aldri og hálfs dags frírri
kennslu fyrir fimm ára börn í leik-
skólum.
Ólafur tók fram að ákveðinn sam-
hljómur væri á milli heimasíðu Fé-
lags heyrnarlausra og stefnuskrár
F-lista, Frjálslyndra og óháðra.
Eins og skýrt væri tekið fram í
stefnuskránni vildi F-listinn sér-
staklega sinna málefnum sjúkra,
aldraðra, öryrkja og barnafjöl-
skyldna. Einn liður í stefnuskránni
væri að gera átak í ferlimálum fatl-
aðra og annar fæli í sér að stuðlað
væri að því að rjúfa einangrun aldr-
aðra og öryrkja.
Björn nefndi fjögur atriði sér-
staklega. Hið fyrsta var að bæta
þyrfti innra starf grunnskólanna.
Annað var að bæta þyrfti fjár-
málastjórnun borgarinnar enda
ótvírætt að skuldasöfnun hefði farið
úr böndunum. Þriðja sneri að ólík-
um sjónarmiðum D- og R-lista í
skipulagsmálum. Björn lagði í því
sambandi áherslu á að stöðva yrði
umhverfisslys í Geldinganesi og
reisa þar íbúðarbyggð í framtíðinni.
Að lokum tók hann fram að gera
þyrfti átak til að tryggja öryggi
borgaranna og öryggisnet velferð-
arkerfisins.
Ráðgjafarhlutverkið styrkt
Foreldri spurði Ingibjörgu hvers
vegna foreldrar barna í Vesturhlíð-
arskóla hefðu ekki verið hafðir með
í ráðum við ákvörðun um samein-
ingu skólans og Hlíðaskóla. Í svari
Ingibjargar kom m.a. fram að sam-
einingin væri í samræmi við mark-
mið um skóla án aðgreiningar. Með
sameiningunni væri komið til móts
við óskir fjölda foreldra um að nem-
endur fengju þjónustu í almennum
hverfisskólum – alls ekki væri um
sparnaðaraðgerðir að ræða. Annað
markmið sameiningarinnar væri að
styrkja ráðgjafarhlutverk skólans
gagnvart 85 heyrnarskertum nem-
endum í öðrum grunnskólum.
Hugmyndin væri að skólarnir
yrðu svokallaðir systurskólar. Vest-
urhlíðarskóli yrði gerður að tákn-
málssviði Hlíðaskóla. Yfirmaður
táknmálssviðis bæri faglega ábyrgð
á því starfi og gegndi jafnframt
starfi aðstoðarskólastjóra í Hlíða-
skóla.
Ólafur sagði að eðlilegt hefði ver-
ið að leita eftir sjónarmiðum þeirra
sem best þekktu, þ.á m. foreldra.
Björn tók í sama streng og kvað lítt
til fyrirmyndar að hafa ekki for-
eldra með í ráðum.
Hafdís Gísladóttir, fram-
kvæmdastjóri hjá Félagi heyrn-
arlausra, sagði að 5 nefndir um
túlkaþjónustu hefðu verið skipaðar
á sl. 10 árum. Þar af 3 í ráðherratíð
Björns. Nýjasta nefndin um lög-
bundinn rétt heyrnarlausra til
túlkaþjónustu hefði skilað af sér í
fyrrahaust. Þó hefði ekki enn verið
borið fram frumvarp um túlkaþjón-
ustu á þingi. Björn sagði að laga-
ramminn væri tilbúinn. Hins vegar
væri eftir að skera úr um hversu
víðtæk þjónustan ætti að vera. „Við
höfum farið í miklar athuganir
varðandi hvernig þessu er háttað á
hinum Norðurlöndunum og safnað
gífurlega miklu af upplýsingum,“
sagði hann og lagði áherslu á að
vandað hefði verið til verksins.
Rætt um sameiningu Vesturhlíðarskóla og Hlíðaskóla og rétt til túlkaþjónustu
Morgunblaðið/Ásdís
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ólafur F. Magnússon og Björn Bjarnason sitja fyrir svörum á fundinum.
Ekki um sparnaðaraðgerð að ræða
Hart var deilt á borg og
ríki á fundi Félags
heyrnarlausra með
frambjóðendum D-, R-
og F-lista í gær. Anna
G. Ólafsdóttir lagði við
hlustir og fylgdist með
táknmálstúlki þýða
tungur tvær.
ago@mbl.is