Morgunblaðið - 04.06.2002, Page 24
LISTIR
24 ÞRIÐJUDAGUR 4. JÚNÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ
KRISTIAN Jørgensen er yngsti
djassfiðlumeistari Dana. Hann er
trúlega þekktastur fyrir leik sinn í
Tangoorkestret, en svíngkvartett
hans með Jakobi Fischer hefur einn-
ig verið vinsæll í Danmörku og gaf
nýlega út disk með píanistanum
jamaíska Monty Alexander. Þótt
Jørgensen sé góður er hann ekki í
sama flokki og Svend Asmussen og
Finn Ziegler. Hann býr ekki yfir
sama sveiflugaldri og þeir, þessum
óútskýranlegu töfrum sem fá tónlist-
ina til að krauma þartil allt flýtur í
sveiflu sem hrífur menn í hæstu
hæðir.
Það var vel til fundið hjá Birni
Thoroddsen og Jóni Rafnssyni að
bjóða Jørgensen hingað á Listahátíð.
Í fyrra var franski fiðlarinn Dieter
Lockwood gestur þeirra og Gunnars
Þórðarsonar, sem nú var fjarri góðu
gamni. Jørgensen er ekki sami flug-
eldasýningarmaðurinn og Lock-
wood. Stíll hans er afslappaðri og
nær hinni hreinu sveiflu. Á efnis-
skránni voru klassískir söngdansar
einsog Softly As In A Morning Sunr-
ise, Lady be Good, All Of Me og I’ll
Remember April; djassklassík sem
Asmussen hefur jafnan haft á efnis-
skrá sinni: In A Sentimental Mood
eftir Duke Ellington, Donna Lee
Parkers og Pent Up House Rollins.
Svo var fín samba eftir Jørgensen:
Astor Samba.
Jón Rafnsson var leikandi léttur á
bassann og hélt sveiflunni gangandi,
en Björn kompaði líka með ágætum
og jafnvel Jørgensen, sem sló fiðlu-
strengina á stundum. Eitt bar þó af
öðru á þessum tónleikum. Sólóar
Björns Thoroddsens. Ég hef sjaldan
heyrt hann betri og sterk sveifla og
hugmyndaauðgi lyftu mörgum
spunaköflum hans í hæðir.
Það væri gaman að þessir piltar
hittust oftar og þróuðu samleik sinn.
Upphafið lofaði svo sannarlega góðu.
ÞAÐ var þrælsamspiluð tríótón-
list sem Ásgeir Ásgeirsson bauð
uppá á Múlatónleikum sínum. Þetta
tríó lék einnig á Múlanum í Húsi
málarans í desember sl. Þeir tón-
leikar lofuðu góðu um framhaldi og
rættist það á fimmtudagskvöldið.
Greinilegt er að samvinna þeirra í
vetur hefur skilað árangri. Á tónleik-
unum í desember sveif andi Wes
Montgomerys yfir vötnum, en nú
skipuðu frumsamdir ópusar Ásgeirs
heiðurssessinn. Tveir gamlir og góð-
ir eftir Agnar voru einnig á dagskrá:
Distant Bisquits og Open Door, en
þá má finna á hinum stórgóða diski
Agnars sem út kom í fyrra: 01. Svo
var einn Pat Metheney ópus á efnis-
skránni og tveir söngdansar klass-
ískir: Alone Together og Have You
Met Miss Jones? Þeir voru skemmti-
lega endurunnir og sóló Ásgeirs í
ungfrú Jones fantagóður, kraftmikil
hraðahlaup og léttfönkað undirspilið
hittu í mark. Ballöður Ásgeirs voru
einkar áheyrilegar og burstavinna
Eriks fyrsta flokks. Ekki var hann
síðri í Open Door Agnars þarsem
höfundurinn lék vel byggðan orgel-
sóló með rifnum tóni. Hljómasóló
Ásgeirs í frumsömdum blúsi, Feses-
blús, var vel heppnaður og gaman
var að Donnu Lee Parkers þarsem
Indiana skein vel í gegn.
Þetta er ekki klassískur orgel-
djass, til þess er Agnar Már of im-
pressjónískur í tónhugsun sinni og
Ásgeir mjúkhljóma. En þetta var
fínn tríódjass og megi þeir félagar
halda áfram sköpun sinni sem lengst
tónlistarunnendum til yndisauka.
TÓNLIST
Listasafn Reykjavíkur
í Hafnarhúsi
Kristian Jørgensen, fiðlu, Björn Thorodd-
sen, gítar, og Jón Rafnsson, bassa. Laug-
ardagskvöldið 25.5. 2002.
SVEIFLA MEÐ JØRGENSEN
Strengja-
sveifla
Ásgeir Ásgeirsson, gítar, Agnar Már
Magnússon, orgel, og Erik Qvick,
trommur. Fimmtudagskvöldið 23.5.
2002.
TRÍÓ ÁSGEIRS ÁSGEIRSSONAR
Vernharður Linnet
Múlinn í Kaffileikhúsinu
MINNINGARSJÓÐUR um hjónin
Sverri Magnússon og Ingibjörgu
Sigurjónsdóttur, frumkvöðla að
stofnun Hafnarborgar, veitti Björg-
vini Halldórssyni tónlistarmanni
viðurkenningu sína árið 2002. Af
því tilefni var efnt til móttöku í
Hafnarborg um helgina þar sem
bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Magnús
Gunnarsson, afhenti Björgvini við-
urkenninguna, málverk eftir Eirík
Smith.
Morgunblaðið/Þorkell
Björgvin Halldórsson
hlýtur viðurkenningu
BORGARLEIKHÚSIÐ og Kvik-
myndaskóli Íslands standa fyrir
tveggja vikna námskeið fyrir krakka
sem vilja læra að leika og kynnast
ævintýraheimi leikhússins og kvik-
myndanna af eigin raun. Þetta er
annað árið sem boðið er upp á þessi
námskeið og í fyrra voru þátttakend-
ur á fjórða hundraðið. Á námskeið-
unum er kennd tjáning, framsögn og
undirstöðuatriði leiklistar, bæði á
leiksviði og í kvikmyndum. Farið
verður yfir grundvallaratriði í kvik-
myndagerð bæði hvað varðar tækni
og beitingu myndmáls. Þátttakend-
ur vinna bæði einstaklings- og hóp-
verkefni og fá auk þess tækifæri til
að leika í atriði með atvinnuleikur-
um. Kennt verður hvernig undirbún-
ingur fyrir kvikmyndatöku fer fram,
hvernig atriðum er raðað í tökulista
og þau síðan klippt saman að end-
ingu.
Kennsla fer fram í Borgarleikhús-
inu og hefjast fyrstu námskeiðin 10.
júní. Kennt er í tveimur aldurshóp-
um, 10–12 ára og 13–15 ára.
Heimasíða kvikmyndaskólans er
www: kvikmyndaskoli.is/leiklist.-
htm.
Leiklist fyrir börn
SÖGUÞINGI lauk í húsakynnum
Háskóla Íslands í Odda á laugardag
með málstofum þar sem meðal ann-
ars var fjallað um sögusýningar,
minni og vald, sjálfsmynd andspænis
framandleika, þorskastríð og kalt
stríð. Um 250 manns tóku þátt í
þinginu þar af nokkrir erlendir
fræðimenn en fyrsta Söguþingið
hérlendis var haldið 1997. Er fund-
um var lokið á laugardag ávarpaði
menntamálaráðherra, Tómas Ingi
Olrich, þátttakendur og um kvöldið
var síðan efnt til þingveislu á Grand
hóteli.
Framsögumenn í málstofunni um
minni og vald voru þeir Guðmundur
Hálfdánarson, Helgi Þorláksson og
Valur Ingimundarson. Guðmundur
rifjaði upp að við lýðveldisstofnunina
árið 1944 hefði aðaláherslan verið
lögð á að þjóðin væri ekki að stofna
lýðveldi heldur „endurreisa“ það og
þá átt við þjóðveldið fyrir Gamla
sáttmála. Tengslin við meinta gullöld
á miðöldum hefðu verið lifandi og
skipt sköpum í sameiginlegu minni
þjóðarinnar, verið grundvöllur end-
urreisnarinnar. Og tungan hefði líka
verið þráðurinn í viðleitninni til að
sanna fyrir sjálfum sér og öðrum að
Íslendingar væru sérstakir og ættu
því skilið að vera sjálfstæð þjóð.
Sagnfræðingar
orðnir gagnrýnni
Guðmundur sagði að sagnfræði
legði áherslu á breytingar, rof í tíma.
Einnig legðu sagnfræðingar áherslu
á að allar þjóðir tengdust, áhrif
kæmu ekki síður utan frá en innan.
„En sagnfræðin lék stórt hlutverk í
því á 19. öld að búa til og festa í sessi
minningar, einnig hér á Íslandi,“
sagði hann. Aðstæður hefðu breyst í
þessu tilliti hér á landi síðustu árin
og sagnfræðingar farið að verða
gagnrýnni. Æ meiri áhersla væri
lögð á að saga Íslendinga tengdist
sögu annarra þjóða.
Guðmundur benti á að minningar
þjóðar væru ekki sjálfsprottnar
heldur væru þær búnar til af ríkis-
valdinu, sagnfræðingum og fjölmiðl-
um. „En þessar minningar eru á
vissan hátt að leysast upp. Þjóðsögur
nútímans verða ekki til í sveitum
landsins heldur í Hollywood þar sem
hið góða berst við hið illa úti í geimn-
um eða í ímynduðum veröldum ein-
hvers staðar handan veruleikans.
Fyrir okkur er ögrunin að skapa
starfandi samfélag fólks sem á sér
ólíkar minningar, ólíka sögu og for-
tíð. Við þurfum að endurvekja sam-
eiginlegar minningar sem virðast
vera að líða úr minni, leita leiða til að
skapa samkennd. Með því er alls
ekki verið að segja að skapa verði
heim þar sem við erum öll eins held-
ur þvert á móti skilyrði þess að við
getum starfað saman þótt við séum
ólík,“ sagði Guðmundur.
Helgi Þorláksson velti því fyrir
sér hvort rétt væri að treysta Sturlu
Þórðarsyni betur en pólitískum höf-
undum á 20. öld. Hann benti á að
Sturla hefði verið þátttakandi í flest-
um mikilvægustu atburðum Sturl-
ungaaldar og freistandi væri að
íhuga hvort hann hefði notað sér að-
stöðuna sem fræðimaður, verið hlut-
drægur. En Helgi taldi Sturlu hafa
með Íslendinga sögu viljað sýna
norska kónginum að hann sæi vel að
Sturlungar hefðu gert ýmislegt af
sér og að hann sjálfur iðraðist eigin
framkomu í átökunum. „Kannski var
hann líka að hjálpa frændum sínum
að sjá atburði fortíðarinnar í réttu
ljósi.“
Valur Ingimundarson rifjaði m.a.
upp reglurnar sem takmörkuðu
ferðafrelsi bandarískra hermanna
utan Keflavíkurstöðvarinnar. Þegar
samið var um að Bandaríkjamenn
tækju að sér varnir landsins 1941 var
það krafa íslenskra ráðamanna að
ekki yrðu svartir menn í liðinu þótt
óskin væri hvergi skjalfest, henni
var haldið til streitu er herinn kom
aftur 1951. Síðar var um árabil farin
sú millileið að allt að fjórir menn í lið-
inu voru blökkumenn, að sögn Vals
var knúið á um breytt viðhorf Íslend-
inga upp úr 1960 en þá varð blökku-
mannabannið fjölmiðlamál vestan-
hafs.
Valur lýsti því hvernig þetta
feimnismál var nánast þagað í hel
áratugum saman á Íslandi, hann
vildi ekki nota orðið samsæri en ein-
ing virtist hafa ríkt um málið milli
stjórnmálaflokkanna. Sagðist hann
ekki hafa fundið neinar ritaðar heim-
ildir um bannið við blökkumönnum
hér, það hefði hann gert í Bandaríkj-
unum.
„Minningin um ástandið var ráða-
mönnum í fersku minni þegar varn-
arsamningurinn var gerður 1951 og
þetta voru sameiginlegar minningar.
En vitaskuld verður að gera þann
fyrirvara að þetta átti ekki við um
alla þjóðina og það er ákveðið vanda-
mál við hugtakið minni. Þetta er
bundið við túlkun karla.
Hér var um að ræða tilraun til að
stjórna með pólitísku valdi samskipt-
um íslenskra kvenna og bandarískra
hermanna. Frá árinu 1954 til loka
kalda stríðsins voru í gildi strangar
reglur um útivist hermanna. Ein
ástæðan var að stjórnvöld vildu forð-
ast að kynda undir ólgu, herinn var
mjög viðkvæmt og umdeilt mál, hin
ástæðan var að vernda átti íslenskar
konur fyrir hermönnunum,“ sagði
Valur. „Hernámsandstæðingar á
sjötta áratugnum vildu venjulega, af
pólitískum ástæðum, að hermönnum
yrði ekki hleypt frá herstöðinni en
það mátti líka greina í máli þeirra
ákveðnar hugmyndir um að halda
þjóðerninu hreinu.“
Sjálfsmynd og
hyrndir hjálmar
Skilgreining sjálfsmyndar Íslend-
inga var efni sem greinilega vakti
forvitni og salurinn troðfullur.
Sverrir Jakobsson fjallaði um sjálfs-
myndina eins og hún virðist hafa ver-
ið á miðöldum er skilin milli Íslend-
inga og Norðmanna voru enn óglögg.
Notaði Sverrir sem útgangspunkt
Hauk Erlendsson lögmann sem
Hauksbók er kennd við og lifði fram
á 14. öld. Menn hefðu reynt að skilja
sérstöðu sína með því að lýsa um-
heiminum og kannað hvað væri
öðruvísi erlendis. Bragi Guðmunds-
son velti fyrir sér þætti héraðsvit-
undar í almennri vitund fólks um
stöðu sína í samfélaginu og vísaði
m.a. til rita Húnvetningsins Jakobs
Frímannssonar. Bragi lýsti með töl-
um byggðaþróun á 20. öld, hvernig
Reykjavíkursvæðið hefði á skömm-
um tíma sogað til sín æ stærri hluta
þjóðarinnar og taldi sjálfsvitund
landsbyggðarbúa oft hafa skerst í
þeim atgangi. Loks rakti Þorgerður
Þorvaldsdóttir skoðanir sínar á því
hvernig áherslur á hreinleika Ís-
lands í markaðssetningu ferðaþjón-
ustumanna gætu haft áhrif á sjálfs-
mynd þjóðarinnar. Hún sagði að
goðsagnir um að Íslendingar væru af
víkingakyni, hrein og óspillt en um
leið tæknivædd náttúrubörn, hefðu í
vaxandi mæli ratað úr auglýsingum
inn í þjóðarsálina. Við værum sjálf
farin að upphefja hreinleika landsins
og erfðafræðilegan hreinleika þjóð-
arinnar sem gæti valdið auknum for-
dómum í garð fólks af erlendum upp-
runa sem settist að hér.
Gunnar Karlsson sagðist velta því
fyrir sé hvort það væri endilega
óæskilegt að við tækjum að ein-
hverju leyti upp sjálfsmynd ferða-
þjónustunnar. „Ég viðurkenni að ég
held að hyrndur hjálmur sé mjög
óþægilegt höfuðfat en ef hreinleika-
ímyndin gæti til dæmis fengið okkur
til að ganga snyrtilegar um landið þá
sé ég ekki annað en að það sé gott.“
Þorskastríðin ónauðsynleg?
Á málstofu um þorskastríð og kalt
stríð gerði Guðni Th. Jóhannesson
að umtalsefni þær ýmsu spurningar,
sem spyrja þyrfti í umfjöllun um
þorskastríðin.
Guðni kvaðst m.a. telja óheppilega
þá nauðhyggju, sem fælist í því að
líta svo á að þorskastríðin hefðu ver-
ið nauðsynleg. Það gilti nefnilega,
þegar grannt væri skoðað, að ís-
lenskir ráðamenn hefðu getað reynt
að afstýra illdeilum við Breta meir
en þeir gerðu. Ætti þetta t.d. við um
deilur sem spunnust af útfærslu fisk-
veiðilögsögunnar 1952 og 1958.
Guðni velti einnig upp spurning-
unni hvort rétturinn hefði ávallt ver-
ið Íslands megin. Sagði hann m.a. að
ekki væri augljóst að Íslendingar
hefðu haft rétt til útfærslu árið 1958.
Þá sagði Guðni nauðsynlegt að
höggva í þá goðsögn sem enn lifði
góðu lífi á Íslandi að þjóðareining
hefði verið í þorskastríðunum. Sagði
hann að þó að þjóðin hefði verið sam-
einuð í andúð á andstæðingnum um
leið og herskipin bresku komu á
vettvang þá hefði einingin verið ýkt
og ágreiningur vanmetinn. Klykkti
Guðni út með því að segja að saga
þorskastríðanna þyrfti á svipaðri
endurskoðun að halda og saga sjálf-
stæðisbaráttunnar. Þorskastríðun-
um væri nefnilega lokið.
Óli Kári Ólason gerði að umtals-
efni bollaleggingar Íslendinga um
aðildarumsókn að Fríverslunar-
bandalagi Evrópu (EFTA) eftir
þorskastríðið sem fylgdi útfærslu
landhelginnar í tólf mílur árið 1958.
Kom m.a. fram í máli hans að Bretar
hefðu upphaflega séð aðild Íslands
sem hugsanlegan lið í samningum.
Niðurstaða viðræðna 1960 hefði hins
vegar valdið því að þeir urðu málinu
afhuga og raunar urðu Bretar mót-
fallnir því, að Ísland færi inn í
EFTA. Reyndu þeir að beita sér
gegn aðild Íslands það sem eftir lifði
sjöunda áratugarins þó að það hefði
verið „pólitískt útilokað“ fyrir þá að
beita neitunarvaldi.
Þjóðsögurnar verða
núna til í Hollywood
Morgunblaðið/Þorkell
Helgi Þorláksson prófessor á
Söguþingi í Odda á laugardag.
Einnig sést í Guðmund Hálfdán-
arson prófessor.
Söguþingi lauk í Reykjavík á laugardag
með umræðum þar sem m.a. var fjallað
um minni og vald og þorskastríðin.
Einnig var rætt hvort hreinleikaáróðurinn
í auglýsingum ferðaþjónustunnar gæti
valdið fordómum í garð nýbúa.