Morgunblaðið - 10.08.2002, Qupperneq 18

Morgunblaðið - 10.08.2002, Qupperneq 18
ÁRBORGARSVÆÐIÐ 18 LAUGARDAGUR 10. ÁGÚST 2002 MORGUNBLAÐIÐ „ÞAÐ eru hundruð milljóna í húfi hér á þessu svæði sem nær yfir vatnasvæði Ölfusár og Hvítár. Ég held því fram að þetta vatnasvæði geti orðið öflugasta stangveiði- svæði í Evrópu,“ segir Guðmundur Sigurðsson, stangaveiðimaður á Selfossi, sem hefur mikla reynslu af stangveiði á öllu vatnasvæði Ölfusár og Hvítár og er talsmaður þess að gert verði víðtækt sam- komulag um lok á netaveiði og upp- byggingu laxastofnanna í ánum á svæðinu. „Miðað við að hér hafa verið að veiðast um 3.000 laxar í net á ári þá munar núna um 40 milljónum hvað stangveiddi laxinn er verðmætari en hann kostar veiðimenn um 15 þúsund krónur á meðan sá neta- veiddi kostar 15 hundruð krónur. Þar fyrir utan er með skipulögðum seiðasleppingum og upptöku neta hægt að stórauka laxagengd á svæðinu öllu, í Ölfusá, Hvítá, Sog- inu, Brúará, Tungufljóti með 6 þverám og í Stóru-Laxá, sem er ein glæsilegasta veiðiá á Íslandi. Þarna væri hægt að stórauka veiði og arð- semi veiðisvæðanna, veiðiréttareig- endum til hagsbóta og öllum þeim sem tengjast stangveiði og þjónustu við stangveiðimenn. Hundruð milljóna í spilinu Það eru þess vegna í spilinu hundruð milljóna sem deilast á marga þjónustuaðila eins og gerist í ferðaþjónustunni. Stærsti hlutinn fer til veiðiréttareigenda en síast líka til fjölda annarra aðila á svæð- inu þannig að heildarveltan á svæð- inu öllu mun aukast. Til að gera þetta að veruleika þarf fyrst og fremst að ná samkomulagi við veiðiréttareigendur á Hvítár/ Ölfusársvæðinu um að taka upp netin. Síðan þarf að byggja upp laxastofnana með skipulögðum seiðasleppingum víðs vegar á vatnasvæðinu. Þetta má gera í smáum skrefum eða stórum á mörgum stöðum og þar geta veiði- réttareigendur og leigutakar hver um sig ráðið hraðanum á sínu um- ráðasvæði. Þetta var gert með þeim árangri í Rangánum að þær urðu bestu stangveiðiár á Íslandi frá því að þar var nær engin veiði fyrir örfáum árum. Það sem er öðruvísi hér en í Rangánum er að hér eru víða mikl- ar uppeldisstöðvar fyrir lax, þannig að árnar verða sjálfbærar með margfaldri laxagengd miðað við stöðuna í dag.“ Gullið tækifæri við bæjardyrnar „Við erum með ónýtt tækifæri hérna alveg við bæjardyrnar. Þetta er langstærsta tækifærið í ferða- þjónustu á svæðinu en það er aftur ekkert minnst á þetta þegar ferða- þjónustan er til umræðu. En hér er um gríðarlega umfangsmikla og vinsæla afþreyingu að ræða, bæði fyrir harða stangveiðiáhugamenn innlenda sem erlenda og líka fyrir fjölskyldufólk. Hagsmunaaðilar þurfa að taka höndum saman og gera víðtækt samkomulag í þessu efni, neta- bændur, aðrir veiðiréttareigendur, leigutakar, stangveiðifélög, fisk- ræktarsjóður og aðrir hagsmuna- aðilar sem vilja sjá aukna umferð og þjónustu á svæðinu. Það þarf að koma þessu á laggirnar í eitt skipti fyrir öll með víðtæku samkomulagi, þetta er hagsmunamál allra á svæð- inu. Ég hef trú á því að það sé vilji til að gera þetta og skapa þennan gull- mola eða stækka hann verulega. Áhuginn hefur verið að vakna og þetta hefur verið rætt við neta- veiðimenn en var kannski gert með of miklu offorsi. Það er staðreynd að það er áratuga reynsla fyrir netaveiði og mörgum annt um að viðhalda henni en stangveiðimenn eru alltaf að greiða hærra og hærra verð fyrir veiðileyfi í þessari af- þreyingu en verð á netaveiddum laxi hefur hríðlækkað. Það þarf að landa þessu máli með lagni og góð- um hug allra sem að málinu þurfa að koma, ég held það sé lag að gera það núna,“ segir Guðmundur Sig- urðsson, stangaveiðimaður á Sel- fossi. Getum skapað öflugasta stangveiðisvæði Evrópu Morgunblaðið/Sig. Jóns. Guðmundur Sigurðsson stangaveiðimaður í Klettsvík í Ölfusá. Selfoss NÚ ER góðri humarvertíð að ljúka, og afli hefur verið jafn og góður. Samkvæmt upplýsingum fiski- stofu hefur afla verið landað á þrett- án stöðum á landinu en tveir staðir skera sig þó úr, það eru Þorlákshöfn með 429.070 tonn og Höfn í Horna- firði með 401.455 tonn af alls 1.439.616 tonnum sem komin eru á land á öllu landinu. Heildaraflinn á síðasta ári var 1.419.407 tonn á öllu landinu og var þá landað í Þorlákshöfn 389.204 tonnum og á Höfn í Hornafirði 324.799 tonnum, allar tölur eru mið- aðar við óslitinn humar. Þannig má segja að aflinn sé sífellt að færast meira á þessa tvo humarbæi. Sigurður Bjarnason, fram- kvæmdastjóri í Hafnarnesi í Þor- lákshöfn, sagði að hjá þeim hefði ver- tíðin gengið mjög vel, humarinn verið stór og góður og veiðin jöfn. Hann sagði að aðeins væri einn bát- ur enn að veiðum og ætti hann eftir að fara tvo róðra. Í Þorlákshöfn er humar unninn á tveim stöðum auk Hafnarness, það er í Humarvinnsl- unni, sem er stærsti aðilinn, og svo Þormóði ramma – Sæbergi hf. Vinnsla á humri kallar á mikið vinnuafl og er algengast að skóla- börn og unglingar komi þar verulaga að. Mestur kraftur er ávallt í upphafi vertíðar sem er upp úr miðjum maí, því hefur lenging skólanna valdið nokkrum erfiðleikum. Grunnskólinn í Þorlákshöfn fór þá leið að hefja skóla eins fljótt og hægt er í ágúst til að börnin gætu farið sem fyrst í humarinn í maí. Það hefur myndast góð samvinna milli skóla og fisk- vinnslunnar. Allir eru sammála um að bjarga verði verðmætunum og aurarnir eru vel þegnir af skólafólk- inu. Góðri humarvertíð að ljúka Mestur afli á land í Þorlákshöfn Morgunblaðið/ Jón H. Sigurmundsson Þær eru ekki þreytulegar þær Sigrún Ína Ásbergsdóttir og Hrund Páls- dóttir þó þær hafi staðið vaktina í allt sumar. Þorlákshöfn ALLIR sem eitthvað þekkja til í Hveragerði muna eftir Hótel Hvera- gerði, sem rekið var af hjónunum Sig- ríði og Eiríki Bjarnasyni. Þau voru m.a. frumkvöðlar í kvikmyndasýning- um og héldu bíósýningar hér og í nærsveitum. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þeirra naut við og margir komið að rekstri hússins. Nú í vor tóku hjónin Ólína Sverr- isdóttir og Viktor Sigurvinsson húsið á leigu til eins árs og nefna staðinn Café Róm. Þau hjón, Ólína og Viktor, hafa búið hér í Hveragerði í tvö ár, en eru bæði ættuð úr Bolungarvík. Að sögn Ólínu bjóða þau upp á venjuleg- an heimilismat í hádeginu og er betra að panta fyrirfram, ef um stóra hópa er að ræða. Einnig eru þau með kaffi- hús og grill, þar sem hamborgararnir eru vinsælir og fiskurinn, bæði djúp- steiktur og pönnusteiktur, hefur ver- ið vinsæll hjá útlendingum. Grillið er opnað kl. 11 og er opið til kl. 23.30. Um helgar eru ýmsar uppákomur og hafa þau hjón reynt að hafa lifandi tónlist a.m.k. tvisvar sinnum í mán- uði. Um miðjan ágúst verður það dú- ettinn Blátt áfram sem heldur uppi fjörinu á Café Róm. Dúettinn skipa tveir gítarleikarar sem spila og syngja gömul og ný lög, og eru þeir sérlega skemmtilegir, að sögn Ólínu. Nýlega var sett upp skífa fyrir pílu- kast og hafa ungir jafnt sem aldnir sótt í að reyna sig í pílukastinu. Draumur þeirra hjóna er að koma upp billjarðborði, þannig að unga fólkið í bænum geti komið og spilað billjarð. „Fólk þarf að hafa eitthvað að gera, ekki bara sitja og drekka,“ segir Ól- ína að lokum. Það er ánægjulegt að sjá hvað reksturinn blómstrar á Café Róm, því við sem ólumst upp hér í Hveragerði fyrir nokkrum árum og teljumst full- orðin í dag, eigum margar góðar minningar frá þeim árum sem Sigga og Eiríkur ráku hótelið. Sigga stjórn- aði því hvenær unglingar bæjarins fóru í háttinn. Hún sendi okkur heim með setningunni „Jæja, krakkar mín- ir, þá er það góða nóttin og allir fóru heim að sofa.“ Útivistarvandamálið leysti Sigga á hótelinu í þann tíð. Café Róm – nýtt veitingahús Hveragerði Morgunblaðið/Margrét Ísaksdóttir Strákarnir reyna með sér í pílukasti. FÉLAG eldri borgara á Eyrarbakka efndi til óvissuferðar fimmtudaginn 8. ágúst sl. Leiðin lá um Þingvelli, þar sem áð var við nýju upplýsingamið- stöðina og notið hinnar undraverðu tækni sem þar er. Síðan var ekið um Kjósarskarð, inn Hvalfjörð og til Akraness, þaðan í Perlu Reykjavíkur og um Álftanes til Hafnarfjarðar. Áð var á ýmsum stöðum í leiðinni og reynt að fara sem víðast aðra vegi en eknir eru í venjulegum erli dags- ins. Að lokum nutu ferðalangarnir kvöldverðar í Fjörukránni í Hafnar- firði áður en heim var haldið. Morgunblaðið/Óskar Magnússon Þátttakendur í óvissuferðinni fyrir framan rútuna. Óvissuferð eldri borgara Eyrarbakki „ÞAÐ hefur lítið orðið vart við ryðsvepp í öspum hér á Selfossi þetta árið,“ segir Hafsteinn Haf- liðason, umhverfisstjóri Árborg- ar, en öll lerkitré í landi Árborg- ar voru felld á síðasta ári til að koma í veg fyrir útbreiðslu ryð- sveppsins. Auk þess fóru margir einstaklingar að dæmi sveitarfé- lagsins og felldu lerki á lóðum sínum. Með þessum aðgerðum telur Hafsteinn að smitálagið hafi minnkað auk þess sem veðurfarið hafi haft áhrif en sveppurinn þarf raka og hlýindi en vorið var þurrt og frekar kalt. „Öspin er í ágætum blóma og þær aspir sem urðu fyrir áfalli í fyrra munu kannski ná sér. Ann- ars er sveppurinn fyrir hendi í landinu og getur tekið sig upp aftur ef hann fær hagstæðar að- stæður,“ sagði Hafsteinn. Hann sagði og að það hefði verið nokk- uð átak að fella allt lerki í landi sveitarfélagsins en megininntakið væri að draga úr útbreiðslu lerk- isins í þéttbýlinu og minnka hætt- una á smiti. Vaxtarsvæði lerk- isins væru betri utan Árborgarsvæðisins. Ryðsveppur vart sjáan- legur í öspum á Selfossi Morgunblaðið/Sig. Jóns. Hafsteinn Hafliðason við blóm- legar aspir í Austurveginum við Tryggvatorg á Selfossi. Selfoss

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.