Morgunblaðið - 24.01.2003, Side 20
AKUREYRI
20 FÖSTUDAGUR 24. JANÚAR 2003 MORGUNBLAÐIÐ
www.islandia.is/~heilsuhorn
BODY LEAN
Góð blanda til að laga línurnar
og meltinguna
PÓSTSENDUM
Glerártorgi, Akureyri, sími 462 1889
Fæst m.a. í Lífsins lind í Hagkaupum,
Árnesapóteki, Selfossi og
Yggdrasil, Kárastíg 1.
HILDIGUNNUR Svavarsdóttir
hjúkrunarfræðingur hefur verið
ráðin í stöðu skólastjóra Sjúkra-
flutningaskólans. Fjórðungssjúkra-
húsið á Akureyri tók að sér rekstur
skólans með samningi við heil-
brigðis- og tryggingaráðuneytið
sem undirritaður var seint í nóv-
ember og er hann nú hluti af rekstri
FSA. Ákvörðun um staðsetningu var
tekin með tilliti til vilja ríkisstjórnar
að setja nýjar stofnanir á laggirnar
utan höfuðborgarsvæðisins að svo
miklu leyti sem hentugt þykir.
Mikilvægt að viðhalda
þekkingunni
Hildigunnur hefur þegar tekið til
starfa en hún sagði að markmiðið
með skipulagðri kennslu á vegum
Sjúkraflutningaskólans væri að
tryggja grunn- og símenntun fyrir
alla sjúkraflutningamenn í landinu.
Mikilvægt væri að allir þeir sem
stunduðu sjúkraflutninga hefðu
grunnmenntun í sjúkraflutningum
og gætu tekið þátt í sí- og endur-
menntun til að viðhalda þekkingu
sinni og tileinka sér nýjungar varð-
andi starfið. Fyrsta námskeiðið
verður haldið nú í febrúar og er gert
ráð fyrir að það sæki 25 manns.
Námskeiðin byggjast á bóklegri og
verklegri kennslu en að sögn Hildi-
gunnar má búast við að fjölbreyttari
námskeið verði í boði og að hluti
endur- og símenntunar verði vef-
bundinn, auk þess sem gert sé ráð
fyrir nánum tengslum við Háskól-
ann á Akureyri varðandi mentunina
og þróun hennar. Sjúkraflutn-
ingaskólinn hefur keypt mynd-
fundabúnað sem tryggir enn frekar
að hægt verði að ná til fleiri sjúkra-
flutningamanna á landinu og þannig
verði þeim gert kleift að fylgjast
með og taka þátt í menntun og
fræðslu á sínu sviði.
Næsta námskeið verður svo hald-
ið í lok marsmánaðar. Að sögn Hildi-
gunnar er mikil þörf fyrir að halda
grunn- og endurmenntunarnám-
skeið fyrir sjúkraflutningamenn og
verið er að vinna að áætlun fyrir
næsta skólaár.
Vefsíða Sjúkraflutningaskólans
hefur verið opnuð og er hún á slóð-
inni www.ems.nett.is en þar er að
finna ýmsar upplýsingar um skól-
ann og námskeiðin.
Góður samstarfsvilji
Hildigunnur sagði að starfið legð-
ist vel í sig og að almenn ánægja
ríkti með að Sjúkraflutningaskólinn
væri staðsettur á Akureyri. „Mér
finnst fólk vera jákvætt og finn fyrir
góðum samstarfsvilja af hálfu þeirra
sem koma til með að tengjast mennt-
unarmálum sjúkraflutningamanna í
landinu,“ sagði hún.
Hildigunnur er fædd á Akureyri
árið 1967. Hún lauk prófi í hjúkr-
unarfræði frá Háskólanum á Ak-
ureyri árið 1992 og meistaraprófi í
heilbrigðisvísindum 1997. Að námi
loknu hefur hún með hléum starfað
á slysadeild FSA. Hildigunnur hefur
unnið að kennslu og fræðslu á sviði
bráðaþjónustu og m.a. haft umsjón
með endurlífgunarnámskeiðum á
FSA. Hildigunnur gegnir einnig
stöðu lektors við heilbrigðisdeild
Háskólans á Akureyri.
Hildigunnur Svavarsdóttir ráðin skólastjóri Sjúkraflutningaskólans
Morgunblaðið/Kristján
Hildigunnur Svavarsdóttir, skólastjóri Sjúkraflutningaskólans, og Alfreð
Birgisson, sjúkraflutningamaður hjá Slökkviliði Akureyrar, við hluta af
þeim búnaði sem notaður er til kennslunnar. Einnig er búnaður í sjúkrabíl-
unum notaður til verksins.
Mikilvægt að viðhalda
þekkingunni og til-
einka sér nýjungar
BÆJARRÁÐ Akureyrar
samþykkti á fundi í gær að
taka þátt í stofnun undirbún-
ingsfélags vegna fyrirhugaðra
Vaðlaheiðarganga. Á fundin-
um var kynnt skýrsla nefndar
um Vaðlaheiðargöng sem Ey-
þing lét gera og nýlega er
komin út.
Bæjarstjórn Akureyrar
samþykkti á fundi sínum í
mars í fyrra að Akureyrar-
bær skyldi beita sér fyrir
stofnun undirbúningsfélags
sem kanna skyldi til hlítar
alla möguleika á að ráðast í
gerð jarðganga undir Vaðla-
heiði. Á þeim grundvelli sam-
þykkti bæjarráð aðild Akur-
eyrarbæjar að stofnun
undirbúningsfélags sem
stjórn Eyþings hyggst gang-
ast fyrir og felur bæjarstjóra
að fara með umboð bæjarins
á stofnfundi þess. Umboð
bæjarstjóra felur í sér heim-
ild til að skrá Akureyrarbæ
fyrir hlutafé í félaginu.
Félag vegna
Vaðlaheiðarganga
Akur-
eyri tek-
ur þátt
ALLS hafa verið boðaðar komur
42 skemmtiferðaskipa til Akureyr-
ar í sumar, eða fleiri en nokkru
sinni fyrr. Pétur Ólafsson, skrif-
stofustjóri Hafnasamlags Norður-
lands, sagði ljóst að sumarið yrði
annasamt hjá þeim aðilum sem
þjónusta skemmtiferðaskipin en að
það yrði jafnframt skemmtilegt og
þá ekki síst fyrir bæjarbraginn.
Um 23 þúsund farþegar verða
með þessum skipum og yfir 11
þúsund manns í áhöfn, eða alls um
34 þúsund manns. Heildarstærð
þessara skipa losar 900.000
brúttótonn. Stærsta skipið sem
kemur er A’rosa Blu sem er um
70.000 brúttólestir. Pétur sagðist
gera sér vonir um að flest skipin
legðust að bryggju, enda færu þá
mun fleiri farþegar frá borði en
þegar skipin lægju við festar á
Pollinum. Í gegnum tíðina hefur
eldra fólk verið í miklum meiri-
hluta þeirra farþega sem hingað
koma en Pétur sagði að aldur far-
þeganna færi lækkandi og þá ekki
síst vegna þess að verðið í slíkar
ferðir hefði verið að lækka.
Skemmtiferðaskipið A’rosa Blu
kom til Akureyrar sl. sumar og
gat þrátt fyrir stærðina lagst að
bryggju. Stærstu skemmti-
ferðaskipin sem komið hafa til
bæjarins eru um 78 þúsund
brúttótonn.
Komur skemmtiferðaskipa til
Akureyrar sl. sumar urðu 36 tals-
ins og með þeim komu um 20 þús-
und farþegar. Árið 2001 voru
skipakomurnar 28 og fjöldi far-
þega um 17.500. Árin 1995 og
1996 voru skipakomurnar 38 hvort
ár og höfðu aldrei verið fleiri en
Pétur sagði að þá hefðu minni
skip komið nokkrum sinnum til
Akureyrar og þá með mun færri
farþega en stóru skipin gera.
Um 23
þúsund
farþegar
væntan-
legir
A’Rosa Blu er stærsta skemmtiferðaskipið sem væntanlegt er til Akureyr-
ar næsta sumar en skipið kom einnig til bæjarins sl. sumar.
STARFSHÓPUR um endurskoðun á
aðild Akureyrarbæjar að atvinnu-
málum hefur skilað skýrslu til bæj-
aryfirvalda. Þar er m.a. lagt til að Ak-
ureyrarbær dragi verulega úr
framlögum til reksturs Atvinnuþró-
unarfélags Eyjafjarðar, AFE, en ráð-
stafi sjálfur fjármunum sínum til at-
vinnu-, markaðs- og kynningarmála.
Hins vegar er gert ráð fyrir í tillög-
unum að til reiðu verði fjármagn til
sameiginlegra verkefna sveitarfélag-
anna við Eyjafjörð er lúta að atvinnu-
málum. Bæjarstjórn samþykkti með
11 atkvæðum á fundi sínum í vikunni,
að vinna að breytingum á þátttöku
bæjarins í atvinnumálum á grundvelli
tillagna starfshópsins.
Þar er gert ráð fyrir að Akureyr-
arbær færi starfsemi sína og fjárráð-
stöfun á þessu sviði nær stjórnsýsl-
unni með því á koma fót
stoðstarfsemi innan stjórnskipulags
bæjarins. Stoðstarfseminni verði
stjórnað af bæjarráði eða annarri
fastanefnd og atvinnumálanefnd
verði lögð niður í kjölfarið. Umrædd
starfsemi fyrir atvinnu-, markaðs og
kynningarmál innan stjórnskipulags
bæjarins verði byggð upp á þann hátt
að höfuðáhersla verði lögð á að hafa
mannahald í lágmarki en sem mest-
um hluta fjármagnsins verði ráðstaf-
að til atvinnulífsins á Akureyri. Lagt
er til að starf upplýsinga- og kynning-
arstjóra á þjónustusviði verði tengt
hinni nýju stoðstarfsemi og að a.m.k.
einn starfsmaður ráðinn til viðbótar.
Einnig er lagt til að starfræktur
verði verkefnasjóður fyrir markaðs-
setningu og kynningarmál ferðaþjón-
ustunnar sem heyri beint undir stoð-
starfsemi bæjarins á sviði atvinnu-,
markaðs- og kynningarmála. Sömu-
leiðis komi Akureyrarbær að fjár-
mögnun verkefnasjóðs frumkvöðla til
að þróa og útfæra viðskiptahug-
myndir áður en fjárfestingarsjóðir
leggja þeim lið. Þá er lagt til að áfram
verði um 74 milljónum króna varið til
þessara málaflokka en eðlilegast þyk-
ir að nákvæm skipting fjármuna
verði ákveðin þegar stefnunarmótun-
arvinnu fyrir hina nýja stoðstarfsemi
er lokið.
Í skýrslunni er gengið út frá því að
Nýsköpunarmiðstöð á Akureyri þjóni
þörfum fyrirtækja og frumkvöðla í
bænum með stuðningi og hand-
leiðslu.
Endurskoðun á aðild Akureyrarbæjar að atvinnumálum
Starfsemi og fjárráðstöf-
un nær stjórnsýslunni
Skákfélag Akureyrar heldur í kvöld,
föstudagskvöld, sveitakeppni þar
sem tefldar verða bæði atskákir og
hraðskákir, en hún gengur undir
nafninu Akureyrardeildin. Keppni
hefst kl. 20. Að venju eru allir vel-
komnir.
Þá er skráning hafin í Skákþingi Ak-
ureyrar sem hefst föstudags-kvöldið
31. janúar nk.
Hægt er að skrá sig með tölvupósti á
skakfelagid@hotmail.com eða í síma
8999966
Í DAG
BÆJARÁÐ Akureyrar samþykkti á
fundi tillögu fjármálastjóra varðandi
reglur um afslátt af fasteignagjöld-
um hjá öldruðum og örorkulífeyris-
þegum. Þar er m.a. lagt til að fast-
eignaskattur af eigin íbúðum þeirra
sem verða 67 ára og eldri á árinu
2003 verði lækkaður um allt að kr.
21.850 af hverri íbúð sem nýtt er til
eigin nota.
Í samræmi við ákvörðun bæjar-
stjórnar við afgreiðslu fjárhagsáætl-
unar 2003 breytast aldursviðmið elli-
lífeyrisþega sem lækkunar njóta úr
70 ára og eldri í 67 ára og eldri. Að
öðru leyti eru reglurnar sambæri-
legar við reglur fyrra árs nema við-
miðunarfjárhæðir fasteignaskatts til
lækkunar og tekjuviðmið breytast í
samræmi við meðalhækkun fast-
eignagjalda á milli ára og breytingu
á neysluverðsvísitölu. Jafnframt er
lagt til að fasteignaskattur af eigin
íbúðum örorkulífeyrisþega (75%
örorka) verði lækkaður um sömu
upphæð hjá einstaklingum með
tekjur allt að kr. 1.314.100 og hjá
hjónum með tekjur allt að kr.
1.799.300.
Lækkun
hjá eldri
borgurum
DR. MIKAEL M. Karlsson pró-
fessor hefur verið ráðinn í stöðu
deildarforseta nýrrar félagsvís-
inda- og lagadeildar við Háskólann
á Akureyri.
Mikael lauk MA-prófi í heim-
speki frá Brandeis University árið
1970 og doktorsprófi í heimspeki
frá sama skóla árið 1973. Hann
hefur kennt heimspeki frá árinu
1967, þar af við Háskóla Íslands
frá 1973 og eftir að hafa gegnt
stöðu lektors og dósents fékk hann
framgang í starf prófessors árið
1995. Auk kennslu við heimspeki-
deild hefur hann kennt bæði við
laga- og félagsvísindadeildir Há-
skóla Íslands og einnig við all-
marga erlenda háskóla.
Félagsvísinda- og lagadeild HA
var stofnuð á 200. fundi háskóla-
ráðs þann 28. október 2002 og mun
nám við hana hefjast haustið 2003.
Deildin skiptist í tvær skorir, fé-
lagsvísindaskor og lögfræðiskor. Í
félagsvísindaskor er gert ráð fyrir
að bjóða upp á nám í ýmsum
greinum félagsvísinda m.a. al-
þjóða- og Evrópufræði, fé-
lagsfræði, fjölmiðlafræði, norður-
slóðafræði/mannfræði, nútíma-
fræði og stjórnsýslu- og byggða-
fræði til BA-prófs og í
lögfræðiskor verður kennd lög-
fræði til BA-prófs.
Mikael M.
Karlsson
deildar-
forseti
Félagsvísinda- og
lagadeild Háskólans
á Akureyri