Morgunblaðið - 17.03.2003, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 17.03.2003, Blaðsíða 6
FRÉTTIR 6 MÁNUDAGUR 17. MARS 2003 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGURINN heilsaði íbú- um Fjarðabyggðar með rigningu, þoku til fjalla og kalsaveðri. Eftir því sem leið á daginn létti til og lygndi og þegar búið var að skrifa undir samn- inga um einhverja stærstu fram- kvæmd Íslandssögunnar braust sólin í gegnum skýin og höfðu margir á orði að það hefði verið eins og eftir pöntun hjá himnaföðurnum. Mikill viðbúnaður var fyrir utan íþróttahúsið á Reyðarfirði, þar sem samningsundirskriftin fór fram. Lög- reglumenn stjórnuðu umferðinni og vegna orðróms um að mótmælendur væru á leiðinni frá Reykjavík voru björgunarsveitarmenn til taks, ásamt sjúkrabíl og slökkviliðsbíl. Engir mót- mælendur höfðu sig hins vegar í frammi og brátt tóku íbúar af öllum Austfjörðum, ásamt öðrum gestum, að streyma að íþróttahúsinu. Talið er að um eitt þúsund manns hafi verið samankomnir í húsinu. Ríkti þar mikil gleði, eða eins og Guðmundur Bjarna- son, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, sagði að lokinni nærri klukkustundar langri undirskrift þar sem skrifað var undir 42 samningsskjöl á tveimur tungumálum: „Hér er fagnaðarfund- ur!“ Líkt og á körfuboltaleik Stemmningin í upphafi var ekki ósvipuð og á bandarískum körfubolta- leik þar sem „leikmenn“ voru kynntir til sögunnar af Smára Geirssyni, for- manni bæjarráðs Fjarðabyggðar, sem stjórnaði athöfninni, undir miklu lófaklappi. Þetta voru þau Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra, Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, Alain J.P. Belda, forstjóri Alcoa, Michael Baltzell, aðalsamningamaður Alcoa, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, og Guðmundur Bjarnason. Að loknum setningarávörpum Smára og Valgerðar fóru undirskrift- irnar í hönd, sem stjórnað var af Kristjáni Skarphéðinssyni, ráðuneyt- isstjóra iðnaðarráðuneytisins. Byrjað var á samkomulagi milli ríkisins og Fjarðabyggðar um gjöld og þjónustu sveitarfélagsins og við tóku fjárfest- ingarsamningar þar sem m.a. er kveðið á um skattlagningu Alcoa. Næst var skrifað undir raforku- samninga og spennan farin að magn- ast í íþróttahúsinu. Viðstaddir sýndu þessu mikla þolinmæði en börn voru þó farin að ókyrrast. Þá var komið að lóðarsamningum þar sem Fjarðaál leigir um 100 hektara lands af ríkinu undir starfsemi álversins. Næst voru undirritaðir hafnarsamningar þar sem m.a. er kveðið á um byggingu hafnar á Mjóeyri og að endingu var komið að yfirlýsingum því til staðfest- ingar að nauðsynlegum skilyrðum allra samninga hefði verið fullnægt. Viðstöddum var létt og þegar síð- ustu pappírar höfðu verið undirritaðir var vel tekið undir orð Kristjáns Skarphéðinssonar: „Nú eru komnir á bindandi samningar um mesta fjár- festingarverkefni Íslandssögunnar. Við skulum sýna ánægju okkar með þessi tímamót með lófaklappi.“ Smári fór á trommurnar Við upphaf og lok athafnarinnar söng Kór Fjarðabyggðar ættjarðar- lög þar sem síðasta lagið var „Ísland ögrum skorið“. Þar á undan, þegar undirskrift var lokið, lék hljómsveit fjörug lög með írsku ívafi og Smári Geirsson gerði sér lítið fyrir og settist við trommusettið við mikinn fögnuð viðstaddra og skemmtilegan undrun- arsvip forstjóra Alcoa. Eftir að samningsundirskrift lauk í íþróttahúsinu bauð Fjarðabyggð öll- um til kaffiveitinga í grunnskólanum og félagsheimilinu þar sem snædd var gríðarstór terta. Síðan óku fjölmargir að álverslóðinni þar sem upplýsinga- skilti Alcoa um framkvæmdina, bæði á ensku og íslensku, var afhjúpað af Alain Belda og Smára Geirssyni. Um kvöldið var efnt til dansleikja á Reyð- arfirði, Eskifirði og í Neskaupstað og flugeldum skotið samtímis á loft. Fór hátíðarhaldið vel og friðsamlega fram eða eins og lögreglumenn orðuðu það í gær: Allir voru í gleðivímu! Um þúsund manns viðstaddir undirritun álsamninganna á Reyðarfirði „Hér er fagnaðarfundur“ Hátíðarstemmning ríkti í Fjarðabyggð og víðar á Austfjörðum á laugardag er skrifað var undir samninga vegna álvers Alcoa. Björn Jóhann Björnsson og Ragnar Axelsson voru meðal viðstaddra og lýsa stemmningunni í máli og myndum. bjb@mbl.is „ÞAÐ er bjargföst trú mín að nú hafi verið stigið heillaspor fyrir þjóðina í heild. Fyrirhugaðar fram- kvæmdir og afleidd störf munu kalla á umskipti hér fyrir austan. Í fyrsta sinn í langan tíma stefnir í það að byggðaþróun verði snúið við,“ sagði Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra m.a. að lokinni undirskrift álsamninganna. Hún sagði að með undirskrift- unum væri nærri 30 ára barátta Austfirðinga fyrir stóriðju í fjórð- ungnum í höfn. Hér væri á ferðinni langstærsta einstaka verkefnið sem lyti að því að efla byggð. Álverið myndi skapa 450 ný störf og 300 störf til viðbótar yrðu til á Austur- landi með hvers konar þjónustu og viðskiptum. „The answer to my dreams“ Geir H. Haarde fjármálaráðherra sagði að runnin væri upp langþráð stund í Fjarðabyggð. Miklum áfanga hefði verið náð og óskaði hann öll- um til hamingju með árangurinn. Nú væru draumarnir að rætast og það væri sérstakt fagnaðarefni. Geir beindi nokkrum orðum á ensku til fulltrúa Alcoa og sagðist hafa minnst á drauma í íslenska hluta ræðunnar. Hann gæti sagt hið sama um Alcoa og hann hefði einu sinni sagt við eiginkonu sína: „You are the answer to my dreams but you are not everything I prayed for“ eða „Í þér hafa draumar mínir ræst en þú ert ekki allt sem ég óskaði mér.“ Uppskar Geir mikinn hlátur í húsinu og bætti því við að eins og í góðu hjónabandi hefðu öll ágrein- ingsefni við Alcoa verið leyst. Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, minnti í sinni ræðu á að fyrirtækið væri ekki í fyrsta sinn að skrifa und- ir orkusölusamninga til stóriðju. Nýjungin væri sú að nú væri farið inn á nýtt svæði til orkuöflunar og verkefnið væri stærra en ráðist hefði verið í í einum áfanga. Jóhann- es sagði miklar umræður og rann- sóknir um virkjanir norðan Vatna- jökuls hafa farið fram, sem leitt hefðu til málamiðlunar. Engin áform væru uppi um stækkun eða frekari virkjanir á því svæði. Nú skín sólin á okkur Guðmundur Bjarnason, bæjar- stjóri Fjarðabyggðar, sagði að merkum áfanga hefði verið náð í at- vinnusögu Austurlands. Varnarbar- áttu væri lokið og skeið uppbygg- ingar og framfara runnið upp. „Saga þessa máls hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Þegar mál hafa virst vera á beinu brautinni hafa skollið á okkur boðaföll og von- brigðin oft verið mikil. Styrkur okk- ar hefur verið fólginn í því að við höfum aldrei gefist upp. Við höfum talið kjark í hvert annað og þannig haldið baráttunni áfram. Nú skín sólin á okkur,“ sagði Guðmundur og brýndi fyrir viðstöddum að allir yrðu að standa saman á næstu árum. Meðal viðstaddra Austfirðinga var Kristján Kristjánsson, vélstjóri á Reyðarfirði, sem hefur til margra ára verið stuðningsmaður álversins. Fyrir einu og hálfu ári hittu Morg- unblaðsmenn hann að máli ásamt fleirum, þegar neikvæður úrskurð- ur Skipulagsstofnunar um Kára- hnjúkavirkjun féll og margir héldu að stóriðjuáformin á Austfjörðum hefðu runnið út í sandinn. Kristján vildi á þeim tíma ekki trúa því að draumurinn væri úti og nú sagðist hann hafa verið hrærður þegar hann varð vitni að undirskriftinni. „Þetta er stór dagur eftir alveg ótrúlegt stríð. Þegar stríðum lýkur hefst uppbygging,“ sagði Kristján við Morgunblaðið, staddur við upp- lýsingaskilti Alcoa er það var af- hjúpað á álverslóðinni. Þar var einnig staddur sendi- herra Bandaríkjanna á Íslandi, James I. Gadsden, sem var boðið að vera við undirskriftina á Reyðar- firði. Hann fagnaði sérstaklega þeim áfanga sem Alcoa hefði náð og sagði samningana vera fyrirmynd að góðum viðskiptum Bandaríkj- anna og Íslands. Gadsden sagði sendiráðið hafa lagt Alcoa til aðstoð og stuðning, enda væri það eitt helsta hlutverk þess, en fyrirtækið hefði engu að síður borið hitann og þungann af samningagerðinni. Að- spurður taldi hann að samningur Al- coa við stjórnvöld gæti stuðlað að auknum viðskiptum við bandarísk fyrirtæki. Þau myndu taka eftir þeim samningi og sjá enn betur hvernig stuðlað væri að fjárfest- ingum hér á landi. Höfum aldrei gefist upp Morgunblaðið/RAX Íbúar Fjarðabyggðar og aðrir gestir streymdu með bros á vör að Félagslundi á Reyðarfirði að lokinni undirskrift álsamninga í íþróttahúsinu og snæddu stærðarinnar rjómatertu í boði sveitarfélagsins. Alain Belda, forstjóri Alcoa, tekur við tertusneið ásamt Friðriki Soph- ussyni, Geir H. Haarde, Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni og fleirum.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.