Morgunblaðið - 25.05.2003, Qupperneq 11

Morgunblaðið - 25.05.2003, Qupperneq 11
„Það komu upp deilur á milli mín og Totten- ham varðandi hvort ég væri laus allra mála hjá Tottenham eða hvort félagið ætti rétt á greiðslu fyrir mig. Þetta flækti stöðuna og gerði mér erfitt fyrir að fara aftur út sem ég var ósáttur við enda að nálgast þrítugsaldurinn, að koma til baka eftir erfið meiðsli og nógu erfitt að fá samning þótt félagaskiptagjald bættist ekki við. Á endanum frétti ég að Bolton hefði mikinn áhuga á að fá mig. Ég hváði við þegar ég heyrði nafnið. Ég vissi að félagið hafði verið í neðri deildum en samt fornfrægt félag. Á þessum tíma var liðið ofarlega í 1. deildinni og í undan- úrslitum deildabikarsins og eftir að hafa skoðað aðstæður hjá því með Ellu konu minni og Bergi syni mínum gekk ég til samninga við það. “ Guðni lék sinn fyrsta leik með Bolton á Wembley í úrslitaleik á móti Liverpool í deildabikarkeppninni en svo skemmtilega vill til að síðasti leikur hans með Tottenham var einnig á þessum glæsilega velli – leikur við Ars- enal í undanúrslitum bikarkeppninnar. Gæfuspor hlýtur maður að segja um þá ákvörðun Guðna að fara til Bolton en ferill hans með félaginu var hreint út sagt glæsilegur. Það eru ófáar viðurkenningar sem Guðni hefur fengið fyrir frammistöðu sína með liðinu. Hann hefur margoft verið útnefndur leikmaður árs- ins, bæði af leikmönnum, stuðningsmönnum og blaðamönnum, búið var til sérstakt myndband um feril hans hjá liðinu og rétt áður en hann sneri heim á leið var hann heiðraður af sjálfum borgarstjóranum í Bolton. „Ég held satt best að segja að ég hafi ekki getað verið heppnari með félag því það er ekki sjálfgefið að fá tækifæri aftur þegar maður er orðinn þrítugur og sérstaklega ekki á þessum árum þegar menn voru taldir á niðurleið komn- ir á þennan aldur. Ég tók þátt í geysilegum uppgangstíma hjá félaginu enda eru ekki nema tólf ár síðan Bolton var í gömlu 4. deildinni og í ár tókst liðinu í fyrsta sinn í 40 ár að halda sæti sínu í efstu deild þrjú ár í röð. Það var gaman að taka þátt í þessu ævintýri og ekki má gleyma flutningnum yfir á Reebok-völlinn. Félagið er frábært, starfsliðið, áhangendur og auðvitað síðast en ekki síst félagar mínir í liðinu, þetta er fólk sem maður gleymir aldrei. Auðvitað vona ég að uppgangur hjá okkur haldi áfram. “ Þegar Guðni er inntur eftir viðbrögðum við því hver lykillinn sé að þessari velgengni hans hjá Bolton í gegnum árin segir hann: „Mér leið afskaplega vel hjá félaginu, bæði félagslega og sem knattspyrnumaður. Ég náði að bæta mig sem spilari og öðlaðist reynslu sem var mér mjög dýrmæt í leikjunum. Með komu Sam All- ardyce í starf knattspyrnustjóra má segja að fé- lagið hafi blómstrað enn frekar og mér þótti sérlega gott að vinna með honum. Ég reyndi eins og eflaust allir reyna að gera mitt besta í hverjum leik, hvort sem ég var að glíma við Al- an Shearer eða einhvern óþekktan framherja. Ég hef haft það viðhorf að horfa fyrst á það sem er inn á við. Það er að sinna sínu starfi og sínu hlutverki og ef allir gera það verður liðsheildin sterkari. Og sem fyrirliði hef ég reynt að miðla af reynslunni og ekki síður að hvetja menn áfram því langoftast er það áhrifaríkara en að skamma menn.“ Það getur verið erfitt að nefna einhvern há- punkt á vel heppnuðum og glæstum ferli en Guðni telur þó að lokaleikurinn með Bolton á móti Middlesbrough standi upp úr. „Leikurinn við Boro er svo lifandi í huga mín- um. Leikurinn var sérstök stund fyrir mig og að það skyldi takast að vinna hann var hreint út sagt frábært. Spennan á lokaspretti mótsins var gríðarleg og þegar flautað var til leiksloka í síðasta leiknum var ég svo ánægður og þakk- látur. Á meðan leikurinn situr svo ríkt í huga mínum held ég að hann standi upp úr, bæði leik- urinn sjálfur og eins gleðin á eftir. En ég hef auðvitað átt frábærar aðrar stundir, bæði með Val, landsliðinu, Tottenham og hef fengið að lyfta bikurum á loft með Bolton. Ég lít mjög ánægður yfir farinn veg og tel mig hafa verið heppinn almennt með ferilinn.“ Ian Wright erfiðasti mótherjinn Guðni hefur í gegnum tíðina þurft að glíma við alla bestu framherjana í ensku úrvalsdeild- inni og eftir því hefur verið tekið að honum hef- ur gengið sérlega vel að halda aftur af heitustu framherjunum deildarinnar, samanber Ruud Van Nistelrooy, Thierry Henry, Micheal Owen og fleiri slíkum. En gaman væri að vita hvern hann telur hafa verið sinn erfiðasta mótherja? „Þótt ég segi sjálfur frá hefur mér gengið vel að spila gegn þessum svokölluðu klassaframherjum þó svo að þeir hafi náð að skora stöku mark. Ég held að sá framherji sem ég hef spilað gegn sem hefur mestu hæfileikana sé Thierry Henry hjá Arsenal. Það þýðir samt ekki það að hann sé sá erfiðasti sem ég hef glímt við. Það sem fylgir oft meiri hæfileikum er að menn spara á köflum vinnuframlagið og það á við Henry. En svona í gegnum tíðina þá held ég að Ian Wright, fyrrum framherji hjá Arsenal, sé sá erfiðasti sem ég hef leikið gegn. Hann hafði hæfileika en einnig ómælda leik- gleði og vinnusemi og hann var alltaf togandi í mann úti um allan völl. Maður var móður og másandi að reyna að halda honum niðri og fyrir utan það var hann síröflandi í eyru manns. Hann var skæður en í dag er Henry sá leik- maður sem maður verður að vera mest á tánum gagnvart. “ Bjóst ekki við að verða valinn í landsliðið á nýjan leik Guðni var kallaður að nýju inn í landsliðshóp- inn fyrir leikinn á móti Skotum á Hampden Park í mars eftir að hafa verið fimm og hálft ár úti í kuldanum. Guðni lék á móti Írum á Laug- ardalsvellinum í septembermánuði 1997. Tveimur dögum síðar fór liðið til Rúmeníu en eftir deilur við forystumenn KSÍ um ferða- tilhögun að þeim leik loknum, fór svo að Guðni ferðaðist ekki með til Rúmeníu. Guðni spilaði síðan ekki aftur fyrir landsliðið fyrr en nú í vor á móti Skotum. Guðni segist ekki hafa reiknað með eiga aft- urkvæmt í landsliðið á nýjan leik. „Ég bjóst ekki við að vera valinn aftur úr því sem komið var. Það voru einhverjir að minnast á það fyrir Skotaleikinn að ég yrði kannski kallaður til mið- að við hvernig gengi liðsins hafði verið og einnig þar sem Hermann var meiddur. Þegar til kom að Atli hafði samband við mig ræddum við mál- in og ég gaf auðvitað kost á mér. Ég hugsaði með mér að ég yrði miklu sáttari við þessi mála- lok heldur en að hafa endað landsliðsferilinn á þann hátt sem í stefndi. Ég er ánægður með þennan endi á málinu.“ Guðni segist ekkert frekar hafa átt von á sím- tali frá Atla þegar hann tók við af Guðjóni árið 1999. „Landsliðinu hafði gengið vel og það verð- ur ekki tekið af Guðjóni, þótt hann sé ekki á jólakortalistanum hjá mér, að hann gerði góða hluti með liðið. Ég átti í sjálfu sér ekkert von á að fá kall frá Atla þegar hann tók við en þegar leið á og gengið fór að dala velti ég því fyrir mér hvort ég yrði valinn því það var orðið erfiðara að réttlæta að velja mig ekki. Ég bjóst reyndar við í fyrstu, hvort sem menn ætluðu að nota mig mikið eða ekki, að kannski yrði einhver vilji til að kalla á mig í eins og einn æfingaleik eða slíkt til þess að sættast og ljúka þessu leiðindamáli og síðan hefði þá Atli eða landsliðið getað átt mig að. Ég gerði mér í hugarlund að menn vildu kannski fara þessa leið en það varð ekki og ég var búinn að gefa landsliðið nánast upp á bátinn. En hvað minn feril hjá Bolton varðar þá held ég að fjar- vera mín frá landsliðinu hafi hjálpað mér að ein- beita mér að Bolton svo þetta var kannski ekki svo slæmt eða þannig var ég farinn að líta á málið.“ Breytingar urðu á dögunum hvað landsliðið varðar. Atli Eðvaldsson ákvað að draga sig í hlé og þeir Ásgeir Sigurvinsson og Logi Ólafsson voru tímabundið ráðnir í starfið eða þar til Egg- ert Magnússon, formaður KSÍ, hefur fundið réttan erlendan þjálfara til starfans. En kom af- sögn Atla Guðna á óvart? „Ég mundi segja beggja blands. Ég er var ekkert sérstaklega hissa en ég hélt að Atli mundi klára riðlakeppnina. Mér líst í sjálfu sér vel á þá að þeir Ásgeir og Logi í sameiningu taki við landsliðinu á þessum tímapunkti og þeir geti þar með vegið upp hvor annan. Það gefur KSÍ meiri tíma til að finna rétta þjálfarann en það má heldur ekki útiloka þann möguleika að Ásgeir og Logi haldi áfram. Ég er viss um að ef liðinu gengur vel undir þeirra stjórn þá verður sá möguleiki örugglega vel skoðaður að þeir taki við.“ Kveðjuleikirnir gegn Færeyingum og Litháum Guðni hefur gefið kost á sér í leikina við Fær- eyinga og Litháa sem fram fara 7. og 11. júní og spurningin sem menn velta fyrir sér er hvort það verði kveðjuleikir hans með landsliðinu. Leikurinn við Færeyinga verður merkilegur fyrir þær sakir að Guðni leikur í fyrsta sinn með landsliðinu hér á landi frá því í september 1997 og væntanlega verður sá leikur hans sá síðasti sem hann spilar fyrir Ísland á heimavelli. „Ég er hættur með Bolton og leik ekki í sum- ar með Val. Þar af leiðandi er það hugmynd mín að leikirnir við Færeyjar og Litháen verði tví- mælalaust mínir kveðjuleikir. Það verður sér- stök stund fyrir mig persónulega að taka þátt í leiknum við Færeyinga. En að sama skapi og líkt og fyrir síðasta leikinn minn með Bolton þá reyni ég alfarið að ýta þessu til hliðar. Maður verður að láta liðið og hagsmuni þess ganga fyr- ir og það þýðir ekki að velta sér upp úr því hversu stór stund þetta sé fyrir mann persónu- lega. Maður verður að ná að einbeita sér að verkefninu og klára sitt verk. Vonandi get ég kvatt landsliðið með góðum úrslitum og get þá notið þess eftir á. Auðvitað eigum við að vinna Færeyinga á heimavelli en gamla klisjan, þeir eru sýnd veiði en ekki gefin, stendur fyllilega undir sér. Fyrst þeir gátu strítt Þjóðverjum á útivelli geta þeir pirrað okkur. Við verðum því að koma ákveðnir til leiks og gefa tóninn snemma.“ Guðni útilokar að hann verði með í leikjunum á móti Þjóðverjum í haust hvernig svo sem úr- slitin verða í komandi leikjum. „Ég held að menn virði mína ákvörðun. Ég ætla ekki að spila í sumar svo það segir sig sjálft að ég verð ekkert klár í að spila í haust. Ég vona að okkur vegni vel í leikjunum og þá yrði það ánægju- legur endir fyrir mig með landsliðinu og mundi setja landsliðið aftur í góðan gír.“ Guðni segist eiga Val mikið að þakka og hann vill hjálpa til á Hlíðarenda og vonandi sjá félag- ið aftur vinna til titla í fótboltanum. „Það er búið að gera samning við Reykjavíkurborg sem á eftir að styrkja félagið geysilega og gera mönn- um kleift að einbeita sér frekar að innra starfi félagsins heldur stöðugum fjárhagserfiðleikum. Félagið þarf að ná betri árangri, ekki bara í meistaraflokkunum heldur þarf að hlúa betur að barna- og unglingastarfinu og styrkja það á allan máta.“ Get vonandi komið leikmönnum til Bolton Þó svo að Guðni sé fluttur heim í Fossvoginn í Reykjavík og hafi kvatt félaga sína í Bolton formlega þá hafa tengsl hans við enska liðið ekki verið rofin. Sam Allardyce, knatt- spyrnustjóri Bolton, hefur fengið Guðna í lið með sér og beðið hann að hafa augun opin varð- andi að útvega leikmenn til Bolton og þá helst fleiri Bergssyni, Guðjohnsen og Gunnlaugssyni eins og Allardyce orðaði það í enskum fjöl- miðlum. Þar á knattspyrnustjórinn við Guðna, Eið Smára Guðjohnsen og Arnar Gunnlaugsson en allir hafa þeir gert garðinn frægan hjá Bolt- on. „Ég ætla að vona að ég geti komið ein- hverjum leikmönnum til Bolton. Ég hefði mjög gaman af ef hægt væri að viðhalda íslenskum tengslum við félagið. Við höfum verið þarna nokkrir og gengið vel þannig að ég veit að það er fullur vilji hjá Bolton að fá fleiri Íslendinga. Þeir eru hálfhvumsa yfir því, sem þeim finnst, fjölda hæfileikaríkra leikmanna sem virðast vera hér á landi miðað við höfðatölu. Það búa álíka margir í Bolton og á öllu Íslandi og það má telja á fingrum annarrar handar þá atvinnu- menn sem hafa koma frá Bolton í dag. Þeir eru að vonast eftir samstarfinu við Val og eins í gegnum mig að fá unga og efnilega leikmenn til æfinga og að það verði góðir íslenskir leikmenn innanborðs í framtíðinni. Ég hefði gaman af því að fá tækifæri til að hjálpa strákum til að fara út í atvinnumennsku. Þetta er spennandi en harð- ur heimur og ég held að ég gæti gefið góð ráð í því sambandi og einnig nýtt mín sambönd vel.“ Þegar Guðni er inntur eftir því hvort það kitli hann eitthvað að taka að sér þjálfun er hann fljótur til svara: „Nei, það gerir það ekki. En auðvitað er ég eins og aðrir knattspyrnumenn. Ég er með mínar hugmyndir um hvernig ég myndi móta lið, stýra því og láta það spila góða fótbolta og sjálfsögðu að vinna til titla. Þessi draumaveröld er til staðar í huga mínum eins margra annarra en ég ætla að takast á við lög- fræðina og gefa henni tækifæri og reyna að standa mig í henni. Lögfræðin mun verða til staðar í mínu lífi alla vega næstu árin.“ Guðni segir að það eigi eftir að koma í ljós hvernig hann muni sinna lögfræðinni og á hvern hátt. „Ég geri mér alveg grein fyrir því að ég á margt eftir ólært og er rennandi blautur á bak við eyrum. Ég hef hins vegar öðlast ákveðna lífsreynslu í gengum atvinnumennsk- una og vonandi getur þessi reynsla nýst mér í lögfræðinni á einn eða annan hátt. “ Reuters Morgunblaðið/Börkur Arnarson gummih@mbl.is    MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25. MAÍ 2003 11 ’ Ég hef haft það viðhorfað horfa fyrst á það sem er inn á við. Það er að sinna sínu starfi og sínu hlut- verki og ef allir gera það verður liðsheildin sterkari. Og sem fyrirliði hef ég reynt að miðla af reynsl- unni og ekki síður að hvetja menn áfram. ‘

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.