Morgunblaðið - 07.06.2003, Qupperneq 24
NEYTENDUR
24 LAUGARDAGUR 7. JÚNÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ
INNFLYTJENDUR vítamínbættra
matvæla og innlendir framleið-
endur sem hyggjast setja slíka
vöru á markað þurfa að sækja um
leyfi til þess hjá Umhverfisstofnun,
segir Steinar B. Aðalbjörnsson
næringarfræðingur og fagsviðs-
stjóri hjá stofnuninni. Hann segir
jafnframt að Umhverfisstofnun
þurfi að láta til sín taka á þessu
sviði, þar sem ákveðið ósamræmi
hafi skapast milli vörutegunda.
Hefð sé orðin fyrir tilteknum víta-
mín- og steinefnabættum vöruteg-
undum á markaði, svo sem morg-
unkorni, sem ekki hafi þurft að
sækja um leyfi fyrir á sínum tíma.
Þeir sem byrja framleiðslu eða
innflutning slíkra matvæla nú
þurfa hins vegar að fá leyfi, sem
fyrr segir.
Vítamínum og steinefnum hefur
verið blandað í matvæli í áranna
rás og segir Steinar það ýmist gert
til þess að endurheimta magn sömu
efna sem tapast hafi við vinnslu,
meðhöndlun eða geymslu, eða til
þess að búa til vöru sem jafngildi
annarri sambærilegri matvöru á
markaði. Þriðji möguleikinn er
svokölluð íblöndun sem eykur nær-
ingargildi matvöru neytendum til
góða.
Steinar segir ekkert launung-
armál að mikið sé af vítamín- og
steinefnabættri matvöru á boð-
stólum hér á landi, til dæmis mun
meira en þekkist á hinum Norð-
urlöndunum. Innflutt morgunkorn
er þekktasta dæmið. Morgunkorn
er meðal annars blandað B-víta-
mínum, járni og sinki. Brauð er
kalkbætt. Ávaxtasafar eru einnig
kalkbættir og við þá er blandað
C-vítamíni, E- og A-vítamíni. Í
mjólkurvörur er sett A- og D-víta-
mín, hið sama gildir um smjör og
smörlíki, sojamjólk er blönduð
kalki og B-vítamíni og svo mætti
lengi telja.
Blöndun vítamína og steinefna í
matvæli er söluhvetjandi auk þess
sem þau eru talin bæta heilsu
þeirra sem fá ekki nægilega mikið
af tilteknum efnum í sínu mat-
aræði. Almennur áhugi er á heilsu-
rækt og hollu mataræði og finnst
sumum að bætiefnablönduð mat-
væli passi vel inn í þennan lífsstíl,
segir Steinar ennfremur.
Könnun á mataræði góð heimild
Drög að reglugerð um blöndun
vítamína og steinefna í matvæli
hafa verið í vinnslu frá 1993. En
þar sem reglugerðin hefur ekki
verið fullunnin og gefin út hefur
Umhverfisstofnun stuðst við bráða-
birgðaákvæði í 19. grein reglu-
gerðar um aukefni í matvælum nr.
285/2002, þar sem segir að stofn-
unin geti veitt leyfi til notkunar
bætiefna í matvæli. Með bætiefnum
er átt við vítamín, steinefni og lífs-
nauðsynlegar fitu- og amínósýrur.
Við mat á vöru er stuðst við nýj-
ustu vísindalegar upplýsingar
hverju sinni er varða skaðsemi eða
skaðleysi tiltekinna efna og mið
jafnframt tekið af þörf almennings
eða tiltekinna þjóðfélagshópa fyrir
viðbótarvítamín og steinefni.
„Niðurstöður nýjustu landskönn-
unar Manneldisráðs á mataræði Ís-
lendinga hafa vakið athygli okkar.
Þar kemur fram að vissir hópar
samfélagsins fá ekki jafn mikið af
sumum vítamínum og steinefnum
og æskilegt getur talist. Þá er
spurningin hvort einhver eigi að
grípa inn í. Niðurstöður sem þessar
eru mikilvægar þegar fjallað er um
bætiefnabætta vöru,“ segir hann.
Sem fyrr segir eru engar reglu-
gerðir fyrir hendi sem taka ná-
kvæmlega til matvæla með við-
bættum vítamínum eða steinefnum
og gildir það jafnt um hvaða efnum
má bæta við mat og í hvaða magni.
Slík reglugerð hefur verið yfir-
vofandi frá Evrópusambandinu og
hafa drög að henni verið fyrirliggj-
andi frá árinu 2000. Í henni yrðu
ákvæði um vítamín og steinefni, en
ekki lífsnauðsynlegar amínósýrur
eða fitusýrur. Einnig stendur til að
í reglugerðinni verði viðauki með
lista yfir efni sem eru undir smásjá
ESB, efni með tiltekin hámarks-
gildi í 100 ml eða 100 g, svo sem
koffín, sem og listi yfir bönnuð
efni, hugsanlega efedrín og kava
kava.
Þar sem um reglugerð frá ESB
er að ræða en ekki ekki tilskipun,
munum við þurfa að innleiða hana
án breytinga og segir Steinar að í
henni felist meðal annars að heim-
ilt verði að banna markaðssetningu
á tiltekinni vöru komi fram vís-
indalegar upplýsingar um skað-
semi bætiefna í henni. Einnig megi
taka vöru af markaði óttist
heilbrigðisyfirvöld ofneyslu á til-
teknu bætiefni hjá þjóðinni yrði
viðkomandi vara leyfð. Þegar búið
er að samræma reglur um hámark
vítamína og steinefna í matvöru á
Evrópska efnahagssvæðinu verður
flæði slíkrar vöru milli landa frjálst
og einungis hægt að taka hana af
markaði með fyrrgreindum rök-
um. Slíka ákvörðun þarf jafnframt
að styðja með vísindalegum gögn-
um sem tekin verður afstaða til
innan sex mánaða hjá Evrópusam-
bandinu.
Ekki mun þurfa að sækja um
leyfi til innflutnings hjá Umhverf-
isstofnun og í besta falli verða ný
bætiefnabætt matvæli tilkynnt til
yfirvalda. Munu fyrirtæki geta til-
kynnt vöru sem leyfð hefur verið á
markaði innan EES, svo fremi að
hún falli að ákvæðum reglugerð-
arinnar. Blöndun bætiefna verður
óheimil í ávexti, grænmeti, kjöt og
fisk, sem og drykki þar sem áfeng-
ismagn fer yfir 1,2 prósent.
Vítamínbætt gos?
Ekki verður hins vegar tekin af-
staða til bætiefna í matvælum með
miklu fitu- og sykurinnihaldi í fyr-
irhugaðri reglugerð Evrópusam-
bandsins, en blöndun bætiefna í
vöru sem almennt er ekki talin
hluti af hollu mataræði er óheimil
meðal annars í Kanada og á Nýja
Sjálandi, segir Steinar. Telur hann
að slíkt ákvæði væri heppilegt og
er möguleikinn á því að slíkt
ákvæði fari inn í fyrirhugaða
reglugerð ESB enn fyrir hendi.
Steinar kveður margar ástæður
vera fyrir því að íslensk reglugerð
um vítamín og steinefni sé ekki
tilbúin. „Hún hefði þurft að vera
opin á ákveðinn hátt þar sem ekki
er búið að skilgreina hámark víta-
mína og steinefna í matvælum og
hvert land með sínar reglur í þeim
efnum. Vandamálið er líka hvað á
að gera við vörur sem þegar eru á
markaði en reynast hugsanlega
óleyfilegar þegar reglugerð Evr-
ópusambandsins liggur fyrir. Í
sumum gerðum morgunkorns er
járninnihald 27 mg í 100 g. Hvað
gerist ef ESB ákveður að efri mörk
fyrir járn í morgunkorni verði til
að mynda 20 g í 100 g? Yrði þá ætl-
ast til þess að við myndum fjar-
lægja Cheerios af markaði? Þetta á
hins vegar allt eftir að koma í ljós,“
segir Steinar B. Aðalbjörnsson að
síðustu.
Mikið af bætiefna-
blandaðri matvöru
á markaði hér
Morgunblaðið/Kristinn
Margar vörutegundir eru vítamínbættar hér á landi en sækja þarf um sér-
stakt leyfi fyrir innflutningi þeirra.
Meira er af matvöru sem blandað hefur verið
við vítamínum og steinefnum hérlendis en ann-
ars staðar, skrifar Helga Kristín Einarsdóttir.
Beðið er eftir reglugerð ESB um bætiefni í mat
sem gæti hugsanlega valdið breytingum við
morgunverðarborð margra.
hke@mbl.is
ÍSLENSKAR gulrætur eru komn-
ar á markað, nokkru fyrr en búist
var við vegna góðrar tíðar að und-
anförnu,“ segir í frétt frá garð-
yrkjubændum.
„Þær gulrætur sem koma nú
fyrst á markað eru ræktaðar af
Degi Andréssyni bónda í Sólbyrgi í
Borgarfirði. Þær þykja sérlega
bragðgóðar, og ekki þarf að hafa
mörg orð um hollustuna. Gulræt-
urnar eiga það sammerkt með öðru
íslensku grænmeti sem nú streym-
ir á markað, að þær eru komnar í
verslanir daginn eftir að þær eru
teknar upp og þannig næst að
tryggja ferskleika og bragðgæði,“
segir ennfremur. Gulrætur eru
góðar einar og sér og þægilegar að
grípa til milli mála. Þær eru einnig
heppilegar í salat, benda garð-
yrkjubændur jafnframt á og láta
þessa uppskrift að einföldu og fljót-
legu salati fylgja.
Fljótlegt
gulrótarsalat
Rifnar gulrætur
Rúsínur
Ristuð sesamfræ
Lime safi
Ólífuolía
Salt og pipar
Ljósmynd/Haraldur Jónasson
Gulrætur eru bragðgóðar og hollar. Þær eru líka tilvaldar í ýmsa rétti.
Íslenskar gulrætur
komnar á markað