Morgunblaðið - 12.08.2003, Side 33
Morgunblaðið/Vakri
Hin frækna sveit Íslands sem skilaði vel viðunandi árangri í harðri keppni enda fóru allir glaðir heim.
HEIMSMEISTARAMÓTIÐ í Hern-
ing hefur í fjölmiðlum og samræðum
milli manna verið rómað á flesta lund.
Íslendingar eru mjög sáttir við árang-
ur íslenska liðsins enda hefur mörg-
um þótt nóg um hinn mikla gull-
mokstur mót eftir mót þar sem fáar
aðrar þjóðir komist þar að. Hafa
spakir menn bent á að með tilliti til út-
breiðslu íslenskra hrossa sé það ekki
vænlegt að við Íslendingar vinnum öll
gullin en leyfum svo smælingjunum
að slást um silfur og brons og þaðan
af ómerkari verðlaun.
Það var sem sagt gott að fá þessi
þrjú gull í keppni hinna fullorðnu og
ekki síðra að aðrir væru um hituna.
Það hagar því þannig til nú að óvenju-
margir sigurvegarar komu glaðir
heim af heimsmeistaramótinu. Eins
og til dæmis Stian Pedersen frá Nor-
egi sem sagði það hafa verið sín gull-
verðlaun að fá silfur í töltinu á Jarli
frá Miðkrika, það hafi hins vegar ver-
ið eigin klaufaskapur að vinna ekki al-
vörugull í fjórgangi. „Einbeitingin
var ekki rétt hjá mér, ég keppti fyrir
áhorfendur í stað þess að einbeita
mér að sjálfum mér og hestinum og
því fór sem fór,“ sagði þessi geðþekki
Norðmaður og Íslandsvinur að loknu
móti.
„Hvað var ég ekki
búinn að segja?“
Ein af stóru spurningunum fyrir
hvert mót og ekki hvað síst nú hefur
verið sú hvort Sigurður Sæmundsson
landsliðseinvaldur hafi valið rétta
menn og rétta hesta. Á síðustu mót-
um hefur val hans verið með ólíkind-
um vel heppnað og hefur hann hlotið
fyrir mikið lof og aðdáun. Nú má hins
vegar heyra „spekinga“ segja: „Hvað
var ég ekki búinn að segja?“ Nú þeg-
ar menn leggja mat á það hversu út-
sjónarsamur og forspár einvaldurinn
er verður að taka tillit til þess að aldr-
ei fyrr hafa jafnmargir liðsmenn verið
valdir af einvaldi án tillits til frammi-
stöðu í sjálfu úrtökumótinu. Að þessu
sinni tippaði Sigurður rétt á tvo
knapa, þá Jóhann R. Skúlason sem
keppti á Snarpi frá Kjartansstöðum
og Eyjólf Þorsteinsson á Súlu frá
Hóli. Jóhann vann töltið sem er mik-
ilvægasti sigurinn en Eyjólfur stóð
sig best ungmenna í fimmgangi og
hlaut HM-titil ungmenna í greininni.
Daníel Ingi Smárason vann sig inn í
liðið í úrtökunni á Tyson frá Búlandi
og urðu þeir heimsmeistarar ung-
menna í fjórgangi. Aðal Sigurðar í
starfi sínu sem landsliðseinvaldur
hefur verið óvænt útspil í vali og þá
gjarnan á síðustu stundu. Ekki brá
hann út af venjunni nú og gerði eitt-
hvað sem enginn gat séð fyrir eða lát-
ið sér detta í hug. Hér er átt við valið á
Karenu Líndal þar sem Sigurður
leiddi saman knapa sem aldrei hafði
riðið og ekki séð Náttfaradís frá
Wreda, hryssuna sem valin var. En
dæmið gekk bara upp að hálfu leyti;
Sigurði tókst að koma öllum á óvart
en dæmið gekk engan veginn upp
þegar á völlinn var komið. Hryssan
var greinilega mjög erfið, afar viljug
og jafnvel spennt svo verkefnið sem
hann fól Karenu var býsna vanda-
samt og tæpast við hana að sakast.
Sjálf hefur hún marg sýnt og sannað
að hún er knapi í fremstu röð en það
var Sigurður sem tók áhættuna.
Karen sagði eftir mót að vissulega
hefði þetta verið erfitt verkefni. „Mér
var boðið þetta með mjög skömmum
fyrirvara og þurfti ég að svara já eða
nei. Þetta var vissulega spennandi
tækifæri og hver hefði ekki slegið
til?“ spyr Karen og hún heldur áfram
„Það hefði vissulega verið skemmti-
legra ef það hefði gengið betur en að
því frátöldu þá var þetta mjög
skemmtilegt og mikil reynsla að fá að
taka þátt í þessu ævintýri. Eins og
Náttfaradís kom mér fyrir sjónir
fannst mér hún tæplega tilbúin í
keppni sem þessa. Hún hefur hlotið
8,63 fyrir hæfileika í kynbótadómi og
þar á meðal 9 fyrir tölt og fet, og 10
fyrir brokk svo þetta leit vel út á
pappírnum. En það voru brotalamir í
þessu, fetið til dæmis alveg handónýtt
og eins var rýmið á töltinu knappt og
stökkið ekki nógu svifmikið. Hennar
aðalvandamál var hversu fljótt og
auðveldlega hún gat spennt sig upp
og það gerðist til dæmis á brokkinu í
fjórgangnum þegar áhorfendur fóru
að klappa. Þá missti ég hana upp í
einni beygjunni en náði henni niður
aftur. Brokkið í hryssunni er hreint
frábært og var stórkostlega gaman að
ríða það,“ sagði Karen að endingu.
Nánegling á versta tíma
En það voru fleiri hestar íslenska
liðsins sem brugðust og má þar nefna
hest Styrmis Árnasonar, Hamar frá
Þúfu, sem hefur verið gríðarlega
sterkur á mótum í Þýskalandi framan
af sumri. Töldu margir að þar færi
bjartasta von Íslands í fjórgangi. Að-
spurður kvaðst Styrmir að sjálfsögðu
ekki kátur með útkomu sína og Ham-
ars á mótinu. Sagði hann klárinn ekki
hafa verið sjálfum sér líkan þessa
daga og kenndi hann um að hesturinn
hefði verið nánegldur skömmu fyrir
mót og hann því ekki getað þjálfað
hann sem skyldi þessa daga og því
hefði hlutur þeirra ekki orðið meiri en
raun varð á.
Guðmundur Einarsson var sömu-
leiðis svolítið svekktur með árangur
sinn og Hersis frá Hvítárholti. Voru
þeir fyrirfram taldir okkar helsta von
í flugskeiðinu þar sem þeir hafa náð
ævintýralegum tíma í greininni fyrr í
sumar. Guðmundur lenti reyndar í
ótrúlegum hlutum á mótinu þegar
sjálfvirka tímatakan klikkaði í fyrsta
spretti og hann fékk auksprett ásamt
Svanhvíti Kristjánsdóttur og Sif frá
Hávarðarkoti daginn eftir. Tókst ekki
betur til en svo að sjálfvirka tímatak-
an klikkaði aftur í aukasprettinum og
fóru nú að renna tvær grímur á
mannskapinn.
„Þetta er bara ekki mitt mót, það
er svo einfalt,“ sagði Guðmundur í
mótslok þegar hann rak raunir sína
fyrir blaðamanni. Hann benti á að ef
100 metra skeiðbrautin í flugskeiðinu
hefði verið fjær upphafskaflanum
hefði hann að líkindum tekið þetta.
„Ég fann það vel þegar við vorum
komnir yfir endamark að þá var klár-
inn kominn á fulla siglingu. Ég hefði
þurft lengri aðdraganda áður en kom
að tímatökunni,“ sagði Guðmundur.
Svanhvít náði bestum árangri Ís-
lendinga í skeiðgreinunum, varð þar
fjórða bæði í 250 metrunum og 100
metrunum, sæti á undan Guðmundi í
báðum greinum. Sveinn Ragnarsson
varð sjötti og sjöundi á Skjóna frá
Hofi.
Þessi frammistaða vekringanna er
talsvert undir væntingum.
Heimsmeistarar í
næstbestu málum
Um frammistöðu Vignis Jónasson-
ar og Klakks frá Búlandi er allt gott
að segja. Ljóst var eftir forkeppnina
að Klakkur væri ekki sá yfirburða-
hestur sem hann var fyrir tveimur ár-
um þegar þeir félagar settu ein-
kunnamet í fimmgangi. Eigi að síður
var klárinn mjög góður hjá Vigni og
ljóst að þeir hefðu hugsanlega þurft
eina viku til viðbótar saman til að
„klára málið“. Það virðist alltaf mjög
erfitt að taka við hestum sem menn
hafa unnið frækileg afrek á tveimur
árum áður. Púsla þarf hlutum saman,
yfirleitt á stuttum tíma, auk þess sem
væntingar verða miklar á sitjandi
heimsmeistara.
Hafliði Halldórsson fór aðra leið en
Vignir og kom með nýtt hross í töltið,
Ásdísi frá Lækjarbotnum. Ekki tókst
honum frekar en Vigni að verja sinn
titil þótt ekki sé annað hægt að segja
en frammistaða þeirra hafi verið með
ágætum. Er ekki laust við að ýmsum
hafi fundist Hafliði og Ásdís fá full-
lágar einkunnir, sérstaklega fyrir
hægatöltið án þess þó að því sé haldið
fram að þau hefðu átt að höggva
nærri tilinum. Hafliði sagði fyrir mót-
ið að þetta væri spurning um dags-
formið í keppni þessara firnasterku
töltara sem þarna háðu harða keppni.
Þess má geta að Íslendingurinn
Denni Hauksson hefur keypt þessa
eðalhryssu af Hafliða og hyggst hann
nota hana í keppni á næstu árum að
sögn Hafliða.
Tómas Örn Snorrason og Skörung-
ur frá Bragholti, fulltrúar Íslands í
slaktaumatöltinu, sigldu nokkuð
lygnan sjó í úrslitin. Fyrirfram var
alltaf búist við að þeir félagar ættu
nokkuð tryggt sæti í A-úrslitunum en
sigurinn væri hins vegar torsóttari.
Tómas og Skörungur voru í þriðja
sæti eftir forkeppni en gáfu heldur
eftir í úrslitum og höfnuðu í fimmta
sæti.
Víkingar í miklum ham
Annar þáttur heimsmeistaramót-
anna eru hinar sívaxandi vörusýning-
ar og kaupstefna. Hið víðfeðma móts-
svæði í Herning bauð upp á góða
möguleika enda hefur aldrei verið
eins lífleg sölu- og kynningar-
mennska á heimsmeistaramótum
sem nú. Var afar athyglisvert að sjá
hversu mikil gróska er í framleiðslu á
reiðtygjum fyrir íslenska hesta. Má
þar nefna hinar fjölmörgu gerðir
hnakka sem framleiddir eru bæði hér
á landi og í Evrópu og einn þeirra,
Hrímnir, er m.a.s. framleiddur í Arg-
entínu. Það ánægjulega við þetta er
hversu mikil gróska er í þessari fram-
leiðslu hér á landi og er umtalsverður
útflutningur stundaður héðan.
Nokkrir söluaðilar kynntu hestakerr-
ur sem meðal annars eru sérstaklega
framleiddar fyrir íslenska hesta. En
það sem vakti kannski hvað mesta at-
hygli var árás víkinganna inn á svæð-
ið en þeir slógu þar upp fjölmörgum
tjöldum og seldu þar ýmiskonar
handverk og matvæli og þar á meðal
víkingabrauð. Í Danmörku er mikill
áhugi fyrir víkingamennsku og eru
þeir talsvert margir sem lifa hálf-
gerðu „víkingalífi“.
En til að halda trúverðugleikanum
í þessari víkingamennsku tóku þeir
nokkrum sinnum rimmur með
brugðnum bröndum og mátti þar sjá
víkinga á ýmsum aldri kljást með
sverðum og skjöldum. Hlutdeild vík-
inganna setti afar skemmtilegan svip
á mótsbraginn og vekur það spurn-
ingar um það af hverju Danir séu með
svona mikla víkingadellu en ekki Ís-
lendingar eða Norðmenn?
Mótsstaðurinn í Herning er afar
góður staður undir mót sem þetta
þótt ekki fái hann sérstök fegurðar-
verðlaun. Húsakostur er mikill og nóg
er rýmið enda var það svo að aldrei
hefur verið boðið upp á eins rúma að-
stöðu fyrir upphitun keppnishross-
anna. Var lögð mikil áhersla á að
halda fjarri allri utanaðkomandi trufl-
un áður en hrossin fóru inn á völlinn.
Þá var á þessu móti meiri einangrun
keppnishrossanna en áður hefur
þekkst og fengu engir utanaðkom-
andi aðgang að hesthúsunum og voru
engar undantekningar gerðar á því.
Tjaldbúðalíf var meira áberandi á
þessu mótin en áður hefur verið og
var aðstaða fyrir slíkt býsna góð.
Ekki spillti hið góða veður allan tím-
ann fyrir góðri líðan fólks í tjaldbúð-
unum.
Þá vekur það athygli hversu mikið
er búið flýta heimsmeistaramótunum.
Í öndverðu voru þau haldin í endaðan
ágúst og sköruðust jafnvel yfir á sept-
ember í einstaka tilfellum. Íslending-
ar börðust alltaf fyrir því að mótunum
væri ekki flýtt en greinilega hefur
landinn látið undan síga og ljóst er að
næsta mót sem haldið verður í Sví-
þjóð verður einnig um verslunar-
mannahelgi eins og nú var og þykir
mörgum slæmt – sérstaklega þeim
sem sækja hið vinsæla Logamót í
Hrísholti sem ávallt er haldið þessa
helgi.
Umræður í kjölfar vel heppnaðs heimsmeistaramóts í Herning í Danmörku
Ekki gott
að vinna of
mikið gull
Morgunblaðið/Vakri
Vel fór um léttklædda Íslendinga í brekkunni í Herning í steikjandi hita.
Víkingarnir gerðu eftirminnilega innrás á heimsmeistaramótið og voru
þar mjög áberandi og atkvæðamiklir eins og vera ber.
Morgunblaðið/Vakri
Tómas og Skörungur stóðu sig eins og væntingar stóðu til og höfnuðu í
fimmta sæti í A-úrslitum í slaktaumatölti en voru í þriðja sæti í forkeppni.
Nú þegar sigurvíman er byrjuð að rjátlast
af landanum eftir vel heppnaða ferð á
heimsmeistaramót íslenskra hesta í Hern-
ing í Danmörku þótti Valdimar Kristins-
syni við hæfi að fara yfir mótið í víðu sam-
hengi og skoða árangur íslenska liðsins.
HESTAR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 12. ÁGÚST 2003 33