Morgunblaðið - 21.08.2003, Síða 24
LISTIR
24 FIMMTUDAGUR 21. ÁGÚST 2003 MORGUNBLAÐIÐ
HUGMYNDIN um svokallað Ge-
samtkunstwerk nær alla leið til aft-
ur Wagners en hugtakið var notað
um tónsmíðar hans. Síðar hafa aðr-
ir fengist við að skapa fyrirbærið,
til dæmis Fútúristar og Dadaistar
og kannski má segja að á okkar
dögum megi nota hugtakið yfir
kvikmyndir, þar sem sameinast
myndrænir þættir, sögur og tón-
list.
Hreinlínuhugsun módernismans
frá því á fyrri hluta síðustu aldar
bannaði algjörlega notkun orða í
myndlist, hvað þá dramatíska þætti
sem tengja mætti við leikhúshefð.
Slík hugsun er nú löngu liðin undir
lok og samruni margra miðla hefur
skotið föstum rótum í myndlistinni.
Þá er bæði átt við samspil ólíkra
miðla, eins og að nota myndbönd
og málverk saman, eða höggmynd-
ir og tvívíð verk og gjörninga, sem
og samruna listamannanna sjálfra
við vinnuna þegar fleiri en einn
listamaður vinna saman svo ekki er
alltaf ljóst á sýningum hver á
hvaða verk. Þessi vinnumáti minnir
á vinnuaðferðir popphljómsveita
sem semja tónlist sína í samein-
ingu, enda sækir myndlist okkar
tíma mikið í poppmenningu. Mynd-
listarmenn notfæra sér til dæmis
óspart form tónlistarmyndbanda.
Gjörningaklúbburinn, samvinna
þeirra Jóníar Jónsdóttur, Sigrúnar
Hrólfsdóttur og Eirúnar Sigurðar-
dóttur er lýsandi dæmi um þessa
þróun innan myndlistarinnar. Þær
vinna jafnt í alls kyns miðla, hvort
sem það eru málverk, höggmyndir,
teikningar, myndbönd eða gjörn-
ingar. Þær vinna saman, svo ekki
er ljóst hver á hvaða verk og setja
verk sín fram á léttpoppaðan hátt,
fylgja þeim gjarnan eftir með ein-
feldningslegum sakleysislegum
setningum sem minna á frasa úr
dægurlagatextum.
Vinna Heimis Björgúlfssonar
sem einnig sýnir í Nýlistasafninu
nú, fyrrverandi meðlims rafsveit-
arinnar Stilluppsteypu er líka
dæmi um þetta, listamaðurinn er
jafnvígur á tónlist og myndlist og
tónlistarútgáfur hans hafa fengið
afar lofsverða dóma.
Í raun er slíkan samruna ekki að
undra því listsköpun njörvast síður
en svo niður við einn ákveðinn mið-
il. Margt hlýtur að vera sameig-
inlegt með sköpun til dæmis tón-
verks, skáldsöguskrifa og vinnu að
sýningu þar sem ótal þættir koma
saman til að skapa eina heild.
Samruni margra þátta
Þessi samruni margra þátta ein-
kennir einmitt sýningarnar þrjár
sem nú standa yfir í Nýlistasafninu
við Vatnsstíg. Á hverri þeirra ríkir
ákveðið andrúmsloft sem hver
þáttur er síðan tilbrigði við. Af
þessum þremur sýningum er það
Gjörningaklúbburinn sem gengur
hvað lengst í því að skapa heild-
arrými í safninu, en sýning þeirra
hefur yfir sér yfirbragð sviðsmynd-
ar. Á efstu hæð safnsins hafa lista-
konurnar skapað rými sem áhorf-
andinn gengur inn í líkt og inn í
sviðsmynd.
Ýmsir listamenn hafa unnið á
þennan hátt og feta slíkar innsetn-
ingar oft þröngan og vandrataðan
veg milli melódramatískra klisju-
kenndra verka og áhrifamikilla
myndlistarverka. Mér dettur m.a. í
hug gríðarlega umfangsmikil sýn-
ing breska kvikmyndagerðar-
mannsins Peter Greenaway sem ég
sá fyrir nokkrum árum og sam-
anstóð eingöngu úr eins konar svið-
myndum sem vöktu upp mismun-
andi hughrif. Sýningin vakti
einmitt deilur þar sem sumum
fannst hér ekki vera um myndlist
að ræða heldur melódrama og kom
þar fram hreinlínuhugsun módern-
ismans. Rússinn Ilya Kabakov hef-
ur iðulega skapað heildarinnsetn-
ingar á sýningum sínum,
bandaríkjamaðurinn Ed Kienholz
gerði heildarinnsetningar í anda
popplistar og raunsæis, Brasilíu-
maðurinn Helio Oiticica gerði um-
fangsmiklar heildarinnsetningar á
sjöunda áratugnum og auðvitað
fleiri og fleiri, eins og til dæmis
Dan Graham, allt listamenn með
hin ólíkustu markmið og forsendur.
Ljúfur hryllingur
Þema Gjörningaklúbbsins nú er
hryllingur, kómískur hryllingur
gamalla kvikmynda og sætur hroll-
ur íslenskra andaglasafunda en
verkin á sýningunni eru allmörg og
mismunandi sterk. Eitt stærsta
verk sýningarinnar nú er einföld
teiknimynd sem sýnir kóngulær og
fleira sem tengist hryllingi án þess
þó að vekja upp nokkurn hroll.
Setningar sem líta má á sem mottó
sýningarinnar fylgja þarna með, á
ensku.
„Shake hands with your inner
fear, Shake hans with your fantasy.
None of you are special, Fear is
the drive, Friendship is discipline,
Darkness is innocent.“ Eins og allt-
af er ankannalegt að vera ávarp-
aður á ensku af íslenskum mynd-
listarmönnum í íslenskum
sýningarsölum, það er eitthvert
óöryggi í því og minnir mann á ís-
lensku popphljómsveitirnar á árum
áður sem lengi vel reyndu að
syngja á ensku, með hryllilegum
hreim. Hér eru þó blessunarlega
hvorki málvillur né stafsetningar-
villur í enskunni eins og oft er
raunin.
Þarna er svo sem ekki verið að
segja neitt sérstakt og líklega er
það ekki meiningin heldur, þetta
eru svona léttpoppaðar setningar
sem gætu passað í ágæta dægur-
lagatexta. Einna helst get ég lesið
úr þessu skilaboð um að öll ættum
við að vera óhrædd við að horfast í
augu við myrkur sálar okkar,
virkja ímyndunaraflið án ritskoð-
unar. Slíka dirfsku er þó hvergi að
sjá í verkunum sem þarna eru
sýnd.
Darkness is innocent segja þær
og það sama má segja um þessa
sýningu í heild, það er yfir henni
þessi sakleysisbragur sem einkenn-
ir mörg verk Gjörningaklúbbsins,
sakleysi sem er of einfeldningslegt
til að hægt sé að taka það alvarlega
enda er alvöruna í verkunum jafn-
an að finna undir yfirborðinu.
Léttar vísanir í martraðir, hryll-
ing og íslenska andatrú hér eru þó
fyrst og fremst húmorískar og ég
sakna þeirrar hárfínu ádeilu sem
oft felst í verkum hópsins. Eins
falla þær í þá gryfju að segja
áhorfendum um hvað verkin eru
um leið og þær reyna að sýna það,
til dæmis með því að sauma orð í
stórisana sem hefðu kannski náð að
lifna við án slíkra óþarfra skýringa
en falla nú flatir. Eins er um besta
verk sýningarinnar, litlu sængina á
gólfinu og grænu þræðina sem
skapa óþægilega innilokunarkennd,
þar er orðinu mara algjörlega
ofaukið. Hér skortir nokkuð á
traust á eigin verkum og áhorf-
endum.
Innsetningin Bak við augun er í
heild vel unnin og faglega fram sett
en hvergi er tekin áhætta af neinu
tagi. Efniviður hennar er klisjur af
öllu tagi, bæði innan myndlistar-
innar og í samfélaginu en verkin ná
ekki alveg að yfirstíga þær, svo
margþvældar eru þær og erfiðar
viðfangs. Ef maður reynir að
ímynda sér markmið hópsins með
sýningunni virðist það ekki vera
annað en að skapa létta og húm-
oríska sýningu með hrylling sem
þema og helstu kröfurnar kannski
þær að sýningin sé skemmtileg.
Það er ekki hægt að segja annað en
að þeim takist þetta með ágætum.
Náttúrunni ögrað
Heimir Björgúlfsson hefur lagt
undir sig helming annarrar hæðar
Nýlistasafnsins, sömuleiðis með
innsetningu sem samanstendur úr
nokkrum verkum, myndbandsverk-
um, teikningum, lifandi trjám og
heimasmíðuðu rými sem lokað er af
með glæru plasti og hýsir eins kon-
ar tilraunastofu.
Í texta sem liggur frammi á sýn-
ingunni fjallar Heimir um ýmis
verk sem hann hefur unnið á síð-
ustu árum og meðal annars um
endurtekið þema í verkum sínum
sem tengist því að vinna með nátt-
úruna eða ögra henni öllu heldur.
Hann lýsir því m.a. hvernig honum
mistókst að láta plöntu vaxa niður
á við og sjá má myndir af tilbúnum
grasi grónum gangi sem hann
sýndi í Amsterdam. Þessar misvel
heppnuðu tilraunir til að stjórna
náttúrunni endurspeglast hér í
teikningum hans af fuglum, í ve-
sældarlegum grenitrjám í pokum á
gólfinu, í tilraun hans til að útbúa
einhvern vökva úr kartöflum í
vatni, og í myndum af manni úti í
skógi einhvers staðar í útlöndum
og síðan úti í náttúrunni hérlendis.
Tilraunir Heimis eru að sönnu
tilraunir því útkoman er misjöfn og
ekki alltaf sú sem hann hafði ætlað
sér. Honum tókst ekki að láta
plöntuna vaxa niður á við og þann-
ig skapast togstreita sem gerir
verkið áhugavert, – þegar öllu er á
botninn hvolft er það auðvitað ætl-
unin. Fuglateikningar Heimis
minna mig við fyrstu sýn á verk
þýska listamannsins Thomas Grun-
feld sem stundar það að láta stoppa
upp dýr og búa til ný afbrigði sem
hann kallar „misfits“; héra með
stél o.s.frv. þar sem engin leið er
að sjá hvar eitt dýr endar og annað
tekur við en útkoman er alltaf eitt-
hvað sem aldrei yrði til af náttúr-
unnar hendi. Þannig er öndin fram-
an á sýningarskrá Heimis undarleg
til fótanna og fuglarnir á teikning-
unum meira og minna skrýtnir í
vaxtarlagi og hlutföllum.
Heimir hefur skapað listamanns-
persónu sem er sambland af for-
vitnu barni, brjáluðum vísinda-
manni, nútímamanni sem stendur
berskjaldaður gagnvart öflum nátt-
úrunnar og meðvituðum myndlist-
armanni. Þessir ólíku þættir ná að
spila saman á áhugaverðan hátt í
verkum hans. Hann er óhræddur
við að láta áhorfandanum eftir að
skilja og upplifa verk sín og gæðir
þau þannig lífi og gerir þau for-
vitnileg.
Gengið í gildruna
Pétur Örn Friðriksson sýnir í
hinum helming salarins á móti
Heimi og sýningar þeirra vinna
ágætlega saman. Sýningu sína
nefnir Pétur Endurgerð og sýnir
hér fjögur verk.
Pétur hefur undanfarin ár unnið
mikinn fjölda listaverka sem minna
á ýmis tól og tæki og einnig hér
eru verk hans af þeim toga.
Stærsta verk sýningarinnar er
eldra verk sem er að hluta til hulið,
stór tankur hálffullur af vatni og
leiðslum ýmiss konar, hlutverk
hans er óskilgreint en öðru hvoru
fer eitthvað í gang inni í tanknum.
Áhorfandinn sér aðeins brot af
gangverkinu í gegnum litla glugga.
Pétur sýnir líka krabbagildru og
tínu fyrir skel, sem og myndband
úr veiðiferð. Þar sem ég, eins og
fleiri, er algjörlega ókunnug veið-
arfærum af þessu tagi gæti ég allt
eins trúað því að hér væri um raun-
verulega veiðarfæri að ræða,
fundna hluti. Miðað við fyrri verk
Péturs er líklegra að hér sé um
heimasmíðaða útgáfu að ræða en
ég get ekki skorið úr um það af
fullvissu. Hann skapar þannig
skemmtilega óvissu og leikur sér
með, eins og í fyrri verkum, bilið
milli leikmanna og fagmanna, með
almenna vankunnáttu okkar leik-
manna hvað varðar flesta tækni-
lega hluti að leiðarljósi. Þannig
endurspeglar hann líka almenna
vanþekkingu hvað varðar samtíma-
myndlist.
Pétur virkjar einnig á óvæntan
hátt hluta af innviðum safnsins en
það er líkast því að lyftubúnaður í
einu horninu verði hluti af sýningu
hans, nokkuð sem fellur vel að
heildarhugmyndinni og markmið-
um Péturs sem listamanns.
Sýning Péturs lætur ekki mikið
yfir sér en hún kemur af stað
skemmtilegum vangaveltum um
eðli listarinnar. Hann fer með
áhorfandann í hring, – áhorfandinn
sem er loks búinn að læra að með-
taka hinn fundna hlut sem mögu-
legt listaverk áttar sig allt í einu á
því að líklega er hinn „fundi hlut-
ur“ tilbúningur einn, sköpunarverk
listamannsins. Eða hvað? Hvorri
niðurstöðunni sem við komumst að
höfum við gengið í gildruna.
Ljúfur hryllingur hjá Gjörningaklúbbnum á sýningunni í Nýlistasafninu.
Náttúran og kraftar hennar. Frá sýningu Heimis Björgúlfssonar.
Veiðigræjur Péturs Arnar Friðrikssonar í Nýlistasafninu.
Samvinna,
samspil og
samruni
Ragna Sigurðardóttir
MYNDLIST
Nýlistasafnið
Til 7. september. Nýlistasafnið er opið
fimmtudaga til sunnudaga frá kl. 14–18.
BAK VIÐ AUGUN, BLÖNDUÐ TÆKNI
GJÖRNINGAKLÚBBURINN
GOTT ER ALLT SEM VEL ENDAR (SHEEP IN
DISGUISE) BLÖNDUÐ TÆKNI, HEIMIR
BJÖRGÚLFSSON
ENDURGERÐ, BLÖNDUÐ TÆKNI, PÉTUR
ÖRN FRIÐRIKSSON