Morgunblaðið - 29.09.2003, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 29.09.2003, Blaðsíða 23
inlegu grein, sem list- og verkgrein- ar hétu í þá tíð. Áhrif Þóris á líf mitt hafa verið svo sterk að ég hef látið þau orð falla að ég hafi verið nem- andi í „einkaskóla Þóris“ frá árinu 1970. Það er algerlega ómetanlegt ungu fólki að eiga þess kost að ganga í slíkan skóla sem leiddur er af stjórnanda með alla þá faglegu hæfileika ásamt gnægð manngæsku og mildi. Stjórnanda sem er óþreyt- andi við að fræða ljóst og leynt á öll- um sviðum sem að gagni má koma í framtíð ungra nema í leik og starfi. Í þessum skóla var ég nemandi þar til 18. september síðastliðinn eða í 33 ár. Á þessari löngu skóla- göngu urðu skólastjórinn og Her- borg, ástkær eiginkona hans, miklir vinir mínir og fjölskyldu minnar, sem er mikið happ. Það eru forrétt- indi að eignast slík hjón að vinum. Örlæti og einlægni vináttu þeirra var slík að vart hefði verið meiri þótt við hefðum verið börn þeirra. Ævistarf Þóris er óumdeilt for- ystustarf í málefnum kennslu og uppeldis í list- og verkgreinum um áratugaskeið. Sem dæmi um fram- sýni hans og frjóar hugmyndir má nefna að hann var í forystu þeirrar umræðu að skapa þverfaglegt námsumhverfi með einstaklingsmið- uðu námi í skóla án aðgreiningar. Þessi umræða er efst á baugi í stefnumarkandi umræðu um skóla- mál í dag, 30 árum síðar. Sífrjór í hugsun og ungur í anda lét hann sig varða allt milli himins og jarðar. Sýn hans á menn og mál- efni mótaðist af innsæi, næmni og tillitssemi gagnvart skoðunum ann- arra. Styrkur hans á öllum sviðum mannlífs var slíkur að hann mótaði óumflýjanlega umhverfi sitt og það til góðs eins. Á mörgum og oft löngum ferða- lögum með nánum samstarfsmönn- um og vinum kom glöggt í ljós hversu mikilli kímni og glaðværð hann bjó yfir. Ekki jós hann þessum eiginleikum yfir umhverfi sitt dags daglega, sem sýnir hversu mjög hann gætti þess að orð og æði ætti við stað og stund. Í hópi vina og samstarfsmanna var hann hrókur alls fagnaðar og hló dátt og innilega af innlifun sem fáum er eiginleg. Við fráfall Þóris hef ég og fjöl- skylda mín misst bjargtraustan vin og læriföður og er söknuðurinn okk- ur sár. Enn meiri er söknuður fjöl- skyldu Þóris sem var honum kærust af öllu. Þau hafa misst traust akkeri í lífinu. Þá ósk á ég heitasta þeim til handa að minningin um frábæran föður, tengdaföður, afa og langafa verði þeim akkeri til framtíðar. Lifi minning Þóris. Júlíus Sigurbjörnsson. Það var að áliðnum morgni, í kuldanepju fyrsta norðanveðursins á þessu hausti, að mér barst tilkynn- ing um að vinur minn og vinnufélagi, Þórir Sigurðsson, væri látinn. Hann hafði átt við vanheilsu að stríða und- anfarið, veiktist um páskana, gekkst undir áhættusama skurðaðgerð og eftir það var tvísýnt um líf hans og heilsu um langan tíma. Vorið hafði verið hlýtt og fallegt, sumarið ein- stök góðviðristíð. Allan þennan tíma hafði Þórir legið á sjúkrahúsi og barist við erfið veikindi af miklum kjarki, lífskrafti og bjartsýni. Nú var hann á góðum batavegi og horf- ur allar hinar bestu miðað við það sem á undan var gengið. Þá kom kallið. Og síðan barst fregnin sem svo lengi hafði undir niðri verið ótt- ast um að komið gæti. Manni er brugðið, góður vinur er horfinn á braut, hugurinn hvarflar yfir farinn veg. Kynni okkar Þóris hófust fyrir um það bil þrjátíu árum þegar við vorum ráðnir til starfa hjá mennta- málaráðuneytinu og vorum síðan vinnufélagar og samstarfsmenn þar til Þórir lét af störfum fyrir nokkr- um árum. Allan þann tíma höfðum við mikið saman að sælda. Samstarf okkar var margþætt og náið því báðir vorum við að fást við svipuð verkefni innan list- og verk- greina, hann sem námstjóri í mynd- og handmennt en ég í tónmennt. Verkefnin voru því oft samofin, hvort sem um var ræða námstjórn, námskrárgerð, námsefnisgerð ell- egar leiðbeiningar og endurmennt- un fyrir kennara. Frá öllu þessu er ótrúlega margs að minnast. Varla leið sá dagur að við gæfum okkur ekki tíma til að hittast og spjalla saman, um hvaðeina sem efst var á baugi innan okkar starfsvettvangs, eða þá um daginn og veginn, lífið og tilveruna. Margir voru fundirnir sem við sátum með félögum okkar í skólarannsóknadeild og síðar skólaþróunardeild. Ógleymanlegt er margt sem á dagana dreif og sem við gerðum saman, svo sem nám- stjóraferðirnar, haustfundir með kennurum, sameiginleg kennara- námskeið, vinnufundir deildarinnar og þannig mætti lengi telja. Í einu og öllu var Þórir besti og nánasti samstarfsmaðurinn, ætíð hug- myndaríkur og skapandi, fróður og víða heima, ráðagóður, bjartsýnn og uppörvandi, vandvirkur og góður verkmaður. Hugurinn reikar einnig yfir minn- ingar um fjölmargar ánægju- og glaðværðarstundir af ýmsu tilefni. Þar sem fólki er vel til vina er ósjaldan ýmislegt til gamans gert og upp úr því lagt að gleðja andann, hressa sálina við og við. Það gerði Þórir gjarnan og var ætíð mikill hrókur góðra mannfagnaða því hann var gamansamur, mikill húm- oristi og góður skemmtikraftur. Eftirminnilegar eru margar slíkar stundir frá liðnum árum í hópi sam- starfsfólks og kollega innan okkar deildar og ráðuneytisins. Auk þess og ekki síður eru ógleymanlegar góðar samverustundir með fyrrver- andi starfsfélögum sem haldið hafa hópinn og komið saman reglubundið eftir að störfum lauk í ráðuneytinu, bæði í fámennum hópi gamalla námstjóra og einnig stærri hópi fyrrverandi samstarfsfólks í skóla- rannsóknadeild. Síðustu samkomur af því tagi verða lengi í minnum hafðar, bæði fjölmenn samkoma sem Þórir skipulagði og stýrði með glæsibrag í desember síðastliðnum og ekki síður þorrablót fáeinna gamalla námstjóra sem haldið var í fyrra vetur. Það er undarleg og tregafull til- hugsun að kveðja nú, eftir allan þennan tíma, svo kæran og nákom- inn vin og sálufélaga. Þórir var mik- ill mannkostamaður. Hann var með- almaður á hæð en myndarlegur að vallarsýn, ætíð snyrtilegur og vel til fara. Hann var einstakt góðmenni og mikill sómamaður í mannlegum samskiptum. Þetta kom fram í einu og öllu, þar á meðal í þéttu handtaki, hlýrri kveðju. Hann var vel gefinn og mikill listamaður í sér, viðkvæm- ur í lund og næmur tilfinningamað- ur, ævinlega hæverskur og kurteis í framkomu. Hann var einstakur fé- lagi, trygglyndur og góður vinur. Þórir var gæfumaður í lífinu og undi ætíð glaður við sitt. Þegar leið- ir okkar lágu saman var hann orðinn fjölskyldufaðir, kvæntur Herborgu Kristjánsdóttur kennara og áttu þau mannvænleg börn sem á þeim tíma voru vaxin úr grasi og flest upp komin. Herborg var mikil sóma- kona, Þórir virti hana mikils og þau voru afar samrýmd í lífi jafnt sem starfi. Það var því mikill og sár missir þegar Herborg lést langt fyr- ir aldur fram eftir erfitt stríð við skæðan sjúkdóm. Slík lífsreynsla setur mark á hvern mann. Þórir bar harm sinn í hljóði og gekk kjarkmikill áfram lífsins veg. Sá vegur er nú á enda genginn, fyrr en flesta varði. Að leiðarlokum þakka ég sam- fylgdina og óska Þóri vini mínum góðrar ferðar yfir móðuna miklu. Honum fylgir kær kveðja frá mér og konu minni Svanfríði. Börnum hans og öðrum aðstandendum eru sendar innilegar samúðarkveðjur. Njáll Sigurðsson. Ég er að lesa ferðalýsinguna sem Þórir Laxdal Sigurðsson skrifaði um ferð okkar til Noregs í júníbyrj- un 2003 (sjá http://www.simnet.is/ gop/open/fke/) Elskuleg frásögn, hlý og hlutlæg. Gerir ferðafélögun- um hátt undir höfði og hendir góð- látlegt gaman að sjálfum sér. Hann annaðist þessa ferð. Réttara er sennilega að segja: Hann annaðist okkur á þessari ferð. Vissulega var hann fararstjóri og öllum hnútum kunnugur – en eins og við öll vitum eru fararstjórar misjafnir. Þórir stóð hins vegar alltaf fyllilega undir öllum væntingum. Hógvær, hlýleg, nákvæm og skemmtileg lýsing hans er í samræmi við persónu hans á samferð okkar. Kynni okkar voru skammvinn. Það er hins vegar svo að persónu- einkenni manna lýsa sér í athöfnum þeirra. Ég er viss um að þau per- sónueinkenni sem geisluðu frá Þóri Laxdal Sigurðssyni í samferð okkar hafa einkennt hann á allri hans veg- ferð. Við Ragna Freyja Karlsdóttir þökkum honum okkar stuttu sam- fylgd og sendum vinum hans og að- standendum innilegar samúðar- kveðjur. Gísli Ólafur Pétursson. Kveðja frá Heimilis- iðnaðarfélagi Íslands Genginn er góður og starfsamur félagi í Heimilisiðnaðarfélagi Ís- lands, Þórir Laxdal Sigurðsson. Mig langar að minnast hans og þakka góð kynni, en við áttum um árabil samstarf í ritnefnd ársritsins Hugar og handar. Þórir var ötull að afla efnis og hugmynda í tímaritið og kynnti það jafnframt þar sem hann fékk því við komið. Hann var vel heima í því sem laut að handverki og listum og þekkti persónulega til margra þeirra sem framarlega stóðu á þeim sviðum. Mig grunar að hann hafi í starfi sínu í Laugarnesskólanum hlúð að mörgum efnilegum nemand- anum og hvatt til dáða á listabraut- inni. Eftir Þóri liggja ýmis verk sem miða öll að hinu sama, að auka veg handmennta í skólum landsins og víst er að hann lét sig þau málefni miklu varða jafnt í starfi sínu sem námsstjóri og utan þess. Þórir var óhræddur við að feta nýjar slóðir og opinn fyrir nýjung- um. Hann tileinkaði sér tölvu- tæknina á efri árum og kom það sér vel í útgáfustarfseminni. En fund- argerðir ritnefndarinnar handskrif- aði hann þó af alkunnu listfengi. Oft er það svo að þegar fólk lætur af launavinnu fyrir aldurs sakir hef- ur það síst minna að gera en áður, félagsstörf og tómstundaiðja fylla í skarðið og vel það. Þannig var því varið með Þóri. Það var ekki alltaf hlaupið að því að finna fundartíma fyrir ritnefndina, því að störfin og málefnin voru svo mörg sem hann sinnti og iðulega var hann á ferða- lögum um heiminn. Þess var þó allt- af gætt að gefa sér góðan tíma til fundahalda og oft var setið að spjalli um hin fjölbreytilegustu málefni, sem tengdust ekki endilega útgáfu ársritsins heldur allt eins landsins gagni og nauðsynjum og þörfum og áhugamálum okkar sem saman sát- um hverju sinni. Það er gott að eiga slíkar minningar úr félagsstarfi. Að leiðarlokum kveð ég Þóri og þakka samfylgdina og vináttuna. Fjölskyldu hans bið ég blessunar. Gréta E. Pálsdóttir. Í æskuminningum mínum er mynd af Herborgu, móðursystur minni, grannri og dökkhærðri stúlku með geislandi augu. Síðar komu fréttir um að hún ætti kær- asta. Þar með var Þórir Sigurðsson kominn í hóp frændfólksins góða, sem umkringdi mig frá unga aldri. Í þennan frændgarð eru nú höggvin æ fleiri skörð. Ég var ung að árum þegar ég kom fyrst í heimsókn á Vesturbrún 6. Strax þá eignaðist ég þau hjón, Her- borgu og Þóri, að vinum. Þar skap- aðist vinátta sem hefur varað í ára- tugi. Eftir því sem árin liðu þróaðist einnig frændrækni og vinátta milli mín og barna þeirra og síðar fjöl- skyldna okkar. Þórir sýndi fjölskyldu Herborgar virðingu og ræktarsemi þegar frá upphafi. Hann varð strax vinur og félagi, ekki aðeins fullorðna fólksins, heldur líka krakkanna og gaf hlut- deild í sínu lífi. Oft þótti sjálfsagt að knýja dyra á Vesturbrún 6 í full- vissu um að húsráðendur hefðu ekk- ert annað að gera en taka á móti gestum. Þar var heldur ekkert ann- að gefið til kynna, öllum tekið opn- um örmum. Sest að veisluborði og skrafað, gantast og hlegið. Hjá hverjum og einum skapaðist sú til- finning að hann skipaði sérstakan sess hjá Þóri og væri hans eftirlæt- isgestur, sem beðið hefði verið eftir. Sorgin grúfði sig yfir fjölskylduna á Vesturbrún þegar Herborg féll frá fyrir réttum fjórtán árum. Þau stóðu þétt saman gegnum áfallið og í þungum harmi naut Þórir náins sambands við börn sín og þeirra fjölskyldur. Hann var mikill fjölskyldumaður, lét sér mjög annt um barnabörnin sín og í samskiptum hans við þau var ekkert kynslóðabil. Hann var þeim bæði félagi og leiðbeinandi. Þórir var maður lista og menning- ar og vann langa starfsævi á því sviði. Hversu oft benti hann ekki á fagran grip, bókarkápu eða jafnvel flík, gaf verkinu einkunn og vakti stundum athygli á smáatriði sem gat breytt verkinu til hins betra eða hins verra. Lá í augum uppi þegar hann var búinn að benda á það. Mörg sérstæð og falleg verk á heim- ilinu báru listfengi húsbóndans vitni. Þórir fylgdist vel með þjóðmálum og bauð oft til viðræðna þar um. Hann átti til að benda á hlálegt smá- atriði í máli, sem efst var á baugi og skapa þar með allt aðra sýn og við- horf til þess. Hann var nákvæmur og samviskusamur í störfum sínum, duglegur og afkastamikill. Hann gerði kröfur til sín og einnig til ann- arra. Áhugamálin voru fjölmörg og þeim sinnt af kostgæfni. Þórir var sérlega vinmargur. Ekki einungis átti hann stóran vina- hóp hér á landi, heldur stofnaði hann líka til tengsla við fólk á öllum aldri um heim allan og ræktaði þann vinagarð á sinn einstaka hátt. Þórir átti ekki til uppgerð eða fals. Hann var hreinn og beinn og kom til dyranna eins og hann var klæddur. Skapmikill á yngri árum, átti stundum erfitt með leyna því þegar honum mislíkaði, en tamdi skap sitt og mildaðist með aldrinum. Húmoristi og brandarakarl fram í fingurgóma, smitandi hlátur, stund- um var stutt í háðið, enn styttra í hlýju og alúð. Þórir hvatti ætíð til þess að Holt- ungar kæmu saman með einhverj- um hætti og boðaði oft til slíkra fjöl- skyldufunda. Í fyrrasumar hafði hann frumkvæði að grillveislu í Katlagili, þar sem allar kynslóðir komu saman á fögru sumarkvöldi og áttu gleðistund eftir tímabil sorgar og harms. Hann minnti á höfðingja, þar sem hann stóð í kvöldsólinni, bauð gesti velkomna og sagði sögu staðarins. Ætíð tilbúinn að miðla af fróðleik sínum og þekkingu. Undanfarna mánuði háði Þórir veikindastríð af æðruleysi og innri styrk. Hann fór í erfiða aðgerð og hafði betur í baráttunni. Framund- an var endurhæfing, sem hann horfði til með bjartsýni og krafti. Fjölskylda hans hafði varpað önd- inni léttar eftir tímabil vonar og ótta. Erfiðleikarnir virtust að baki. Þá vitjaði dauðinn hans í svefni. Sjá, tíminn, það er fugl sem flýgur hratt, hann flýgur máske úr augsýn þér í kveld! (Omar Khayyam – Þýð. M. Ásg.) Við fráfall Þóris ríkir söknuður vegna brotthvarfs öðlings, félaga og vinar. Söknuður vegna þess að vonin um fleiri vinafundi þar sem Þórir er í hópnum er flogin úr augsýn. Stuttu fyrir andlát Þóris fæddist honum lítill langafadrengur, skýr vottur þess að systurnar sorg og gleði vitja okkar á víxl – að einn tek- ur við af öðrum. Að leiðarlokum vil ég þakka fyrir allar góðu stundirnar sem ég og fjöl- skylda mín höfum notið gegnum ár- in með Þóri, fyrir ræktarsemi hans og ríkan þátt í fallegum minningum. Megi Þórir Sigurðsson hvíla í friði. Bergþóra Einarsdóttir. Það hryggði mig að sjá í Morg- unblaðinu að Þórir Sigurðsson er horfinn sjónum. Hann var einn heilsteyptasti maður sem ég hefi kynnst. Þó var jafnan of langt á milli okkar. Ég man ekki betur en að hann hafi sagt mér að framhalds- nám í öðrum löndum hafi freistað eftir veruna í Myndlista- og hand- íðaskólanum hér heima. Úr því varð þó ekki, hann fór að kenna við Laug- arnesskólann. Það entist honum lengi en síðan tóku við fjölmörg og oft og tíðum erfið verkefni hjá Reykjavíkurborg og Menntamála- ráðuneyti. Þórir sinnti störfum sín- um með alúð. Um það þykist ég geta fullyrt eftir að hafa fylgst með hon- um í hálfa öld. Hjörleifur Sigurðsson listmálari. Minn kæri frændi Þórir er fallinn frá. Þrátt fyrir erfið veikindi und- anfarna mánuði kom andlátsfregn hans á óvart, því allt benti til að hann væri á batavegi. Þegar ég hitti hann uppi á spítala dáðist ég að því hvað Þórir var andlega hress eftir allar þær svæfingar og erfiðu veik- indi sem hann hafði gengið í gegn- um. Hann var þá að bíða eftir að fá lánaða fartölvu til að geta farið að vera í sambandi við sína fjölmörgu vini um allan heim. Hann sagði mér líka hvað fjölskyldan og hjúkrunar- fólkið hugsaði vel um hann. Ég hef í gegnum tíðina notið leið- beininga Þóris við ýmsa hluti og hef- ur hann verið mín fyrirmynd á mörgum sviðum. Hann hefur t.d. verið mér innan handar við yfirlest- ur þegar ég hef þurft að skrifa grein sem þessa, en nú verð ég víst að treysta á sjálfa mig og vona að hans kennsla hafi skilað einhverju. Þegar ég fékk óbilandi áhuga á skraut- skrift þá var Þórir ekki lengi að bjóða fram aðstoð sína og sendi mér forskrift sem ég gæti notað. Mér fannst reyndar Þórir skrifa svo vel að ég reyndi frekar að líkja eftir hans skrift heldur en að nota þessi blöð. Mikið var hlegið að því í fjöl- skyldu minni þegar mér tókst að fá mjög háa einkunn í teikningu í grunnskóla. Ástæðan var, að ég tel, ekki sú að mér hefði farið svona skyndilega mikið fram í teikningu, heldur frétti ég það seinna að Þórir frændi var prófdómari. Synir mínir skrifa báðir mjög vel og er ég viss um að vitneskjan um það að ömmu- bróðir þeirra var einn af höfundum skriftarbókanna hefur spilað þar inn í, því ekki vildu þeir bregðast trausti frænda sem mamma þeirra bar svo mikla virðingu fyrir. Þórir hefur verið mikill áhuga- maður um ættfræði og hefur tekið saman ættartölu okkar og gefið út hefti sem er ómetanlegt fyrir okkur hin sem eftir lifum. Hann stóð fyrir stóru ættarmóti fyrir nokkrum ár- um og vonandi tekst okkur að halda merkjum hans á loft nú þegar hans nýtur ekki lengur við. Takk fyrir tímann sem með þér áttum, tímann sem veitti birtu og frið. Ljós þitt mun loga og leiðbeina áfram, lýsa upp veg okkar fram á við. Gefi þér Guð og góðar vættir góða tíð yfir kveðjuna hér, þinn orðstír mun lifa um ókomna daga, indælar minningar í hjarta okkar ber. (P.Ó.T.) Ég votta hans góðu fjölskyldu mína dýpstu samúð. Ágústa Rósa Finnlaugsdóttir. MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 29. SEPTEMBER 2003 23

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.