Morgunblaðið - 14.11.2003, Blaðsíða 38

Morgunblaðið - 14.11.2003, Blaðsíða 38
MINNINGAR 38 FÖSTUDAGUR 14. NÓVEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Símon Guðjóns-son skipstjóri og útgerðarmaður fæddist í Neskaup- stað 15. mars 1921. Hann lést að Hrafn- istu í Reykjavík 7. nóvember síðastlið- inn. Foreldrar Símon- ar voru hjónin Guð- jón Símonarson, f. 1877 á Þingvöllum í Þingvallasókn, skip- stjóri og útgerðar- maður í Norðfirði, seinna kaupmaður í Reykjavík og Guðrún Sigurveig Sigurðardóttir, f. 1888, á Krossi í Mjóafirði. Systkini Símonar eru Ágúst, f. 1907, Sigurður Magnús Svan Guð- jónsson, f. 1908, Ingibjörg Sigríð- ur, f. 1912, Jóhannes, f. 1914, Bjarni, f. 1915, Guðveig, f. 1917, Gunnar, f. 1918, Halldóra, f. 1923, Ágúst yngri, f. 1926, og Guðjón, f. 1936. Af þeim systkinum eru Bjarni, Gunnar, Halldóra og Guð- jón enn á lífi. Símon kvæntist árið 1947 Elínu Friðriksdóttur, f. 1922, frá Skip- holti í Vestmannaeyjum, og eign- uðust þau þrjá syni. Þeir eru Ólafur Haukur, f. 24. ágúst 1947, rithöfundur, kvæntur Guðlaugu Maríu Bjarnadóttur, þeirra börn eru Freyr Gunnar, f. 1980, Elín Sigríður María, f. 1983 og Unnur Sesselía, f. 1992; Birgir Svan, f. 3. nóvember 1951, kennari og skáld, kvæntur Stefaníu Erlingsdóttur, en þeirra synir eru Steinar, f. 1982 og Símon Örn, f. 1984; Guðjón, f. 11. apríl 1964, verslunarmaður, kvæntur Jónu Karen Jensdóttur, en þeirra börn eru Berglind, f. 1981, Árný, f. 1991 og Guðjón Ágúst, f. 1994. Símon og Elín slitu samvistir árið 1984. Símon Guðjónsson var lengst af skipstjóri á fiskiskipum og gerði út vélbát frá Reykjavík. Hin seinni ár var Símon starfsmaður Reykjavík- urhafnar. Útför Símonar verður gerð frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30. Fimmtánda dag marsmánaðar 1921 urðu veðurhamfarir í Norð- firði. Á var brostið eitt hinna al- ræmdu Nípukollsveðra, en þá er ekki stætt utandyra í Nesi og byggingar og bátar ávallt í stór- hættu. Svo ferlegt var veðrið að Guðjón Símonarson hörfaði niður í steyptan kjallara undir Nýjabæ með eiginkonu sinni, Guðrúnu Sig- urveigu, og börnum þeirra hjóna. Í kjallaranum tók baulandi kýrin á móti fjölskyldunni, en eins og títt var á þeim árum var Búkolla höfð nærhendis undir íbúðarhúsinu. Þarna fæddist Símon Guðjónsson og var lagður í jötu í reifum, eins og hann sagði sjálfur, á meðan Nípukollsveðrið reyndi allt hvað af tók að snara húsi fjölskyldunnar af grunni. Guðjóni og Guðrúnu Sigurveigu fæddust ellefu börn. Lífið í Nes- kaupstað var enginn dans á rósum á fyrra hluta síðustu aldar. Að fæða og klæða þennan barnaskara var óþrjótandi verkefni. Stöðugir aðdrættir þurftu að vera til heim- ilisins, fiskur var saltaður, hertur og kæstur, kjöt keypt og verkað, slátur soðið og sýrt, kartöflur og rófur ræktaðar og geymdar í tunn- um. Guðjón var formaður á sínum eigin vélbát, og hann verkaði sinn fisk sjálfur, seldi hann sjálfur úr landi og keypti milliliðalaust mjöl- mat, veiðarfæri og aðrar nauðsynj- ar frá útlandinu í trássi við kaup- mannavaldið. Þegar ekki gaf á sjó settist Guðjón gamli Símonarson við leistann að gera við og smíða skó og stígvél, en hann spilaði líka á orgel, samdi ljóð og lög, söng í kór og lék í leikritum þegar frátök urðu til sjávarins. Auk þess stofn- aði Guðjón með öðrum alþýðu- mönnum sem vildu betra líf fyrir sjálfa sig og aðra verklýðsfélag, innkaupafélag og útgerðarfélag. Síldarvinnslan í Neskaupstað er sprottin af þessum alþýðlega meiði, þótt heldur hafi hugmyndafræðin snarast á merinni. Guðjón Símonarson var harður húsbóndi, jafnt börnum sínum sem öðrum, en það dugðu heldur engin vettlingatök, annaðhvort var að duga eða drepast. Lífsbaráttan var hörð þegar Símon litli var að vaxa úr grasi. Strákurinn stóð varla út úr hnefa þegar hann var sendur niður í bryggjuhús með skjólu að sækja saltkjöt í matinn. Það var auðvelt og gaman að renna sér fót- skriðu niður bratta brekkuna. En að komast heim yfir svellbunkana með fötu fulla af saltkjöti var þrautin þyngri. Síðasta spölinn skreið hann. En það urðu allir að vinna fyrir mat sínum, ungir sem gamlir. Símon var fimmtán ára þegar Vonin, báturinn sem afkoma fjöl- skyldunnar byggðist á, slitnaði upp í ofsaveðri og mélbrotnaði. Guðjón gamli hvarf þá úr landi, en snéri aftur heim frá Danmörku með efni í nýjan bát. Íslendingur var smíð- aður á fjórum mánuðum á fjöru- kambinum í Neskaupstað um miðj- an hörkuvetur, 28 smálesta fiskibátur, og þótti hafskip. Þá var unninn langur vinnudagur, og um nætur vöktu þeir bræður við að kynda svitastokkinn svo hægt væri að gufubeygja efnið í byrðinginn. Svo var byrjað að sækja á þessum glæsilega, nýja farkosti. Eldri bræðirnir fóru á sjóinn með föður sínum, þeir yngri beittu og verk- uðu aflann. Kvenfólkið lá heldur ekki á liði sínu. Hörkufólk allt saman. Á vetrar- vertíð var róið frá Hornafirði og seinna úr Sandgerði. Allt snerist um fiskinn. En í landlegum var sungið. Þannig liðu æskuár Sím- onar Guðjónssonar. Símon tók vélstjórapróf í Nes- kaupstað árið 1940 og Hið minna fiskimannapróf 1944. Hinu meira fiskimannaprófi lauk hann frá Sjó- mannaskólanum árið 1947. Kannski ætlaði Símon aldrei að eyða drýgstum hluta starfsævinnar á sjó, að minnsta kosti hafði hann stundum orð á því að sér hefði þótt skemmtilegt að reka verslun. Þeg- ar Guðjón gamli flutti með stór- fjölskyldu sína til Reykjavíkur 1944 opnaði hann nýlenduvöru- verslun á Framnesvegi 5, rak um tíma tvær verslanir á Framnes- vegi, og síðar verslun í Höfnum á Reykjanesi. Símon var settur yfir aðra búðina, en þegar Guðjón komst að því að sonur hans hafði „skrifað“ nokkuð ótæpilega hjá fá- tæklingum sem eflaust mundu aldrei borga þótti þeim gamla viss- ara að skipta um verslunarstjóra. Símon fór aftur á sjóinn, var um árabil stýrimaður hjá þeim mikla aflamanni Ingvari heitum Pálma- syni, en síðan skipstjóri á bátum og skipum, þar til hann festir kaup á Ásbjörgu RE 55, í félagi við Gest Guðjónsson vélstjóra, sem var drengur góður og svo mikill ákafa- og dugnaðarmaður að hann vann sér til hita léttklæddur í fimmtán stiga gaddi. Ásbjörgin reyndist mikið happafley og Símon var glúr- inn fiskimaður, aflaði vel í net, dragnót, troll og á handfæri. Var samstarf þeirra Gests gott og út- gerðin farsæl. Ásbjörg var ekki stórt skip, einungis 26 smálestir að stærð, en á vetrarvertíðum skilaði þessi litli bátur á land 500 tonna afla þegar best lét. Það var stund- um sjón að sjá Ásbjörgina koma til hafnar kjaftfulla af fiski, þannig að varla stóð nema stefni, möstur og stýrishús upp úr sjó. Synir Sím- onar, Ólafur Haukur og Birgir Svan, sóttu sjó með föður sínum þegar færi gafst frá skóla, og þar kynntust þeir bræður útsjónarsemi og dugnaði hins reynda fiskimanns. Loks þótti Símoni nóg komið af viðureigninni við þann gula í djúp- inu. Hann seldi útgerðina árið 1974, fór í land og gerðist starfs- maður Reykjavíkurhafnar. Var hann á hafnsögubátunum um ára- bil, en annaðist síðan hafnarvörslu, og undi hag sínum vel með góðum starfsfélögum, gömlum jöxlum af sjónum og ungum fjörkálfum. Kynfylgja, uppeldi og áhrif um- hverfis er það sem mótar lífshlaup okkar. Með vissum hætti erum við líka börn ákveðins tíma. Símon og jafnaldrar hans sem komu til Reykjavíkur á stríðsárunum, ungir menn, sáu smábæ breytast í litla borg, en kannski voru þeir í hjarta sínu og hugsun alla tíð landsbyggð- armenn. Lifnaðarhættir stórfjöl- skyldunnar í Neskaupstað fylgdu Símoni til Reykjavíkur. Á Fram- nesvegi 5 voru reistir skúrar á bak- lóðinni og þar var haldið áfram þeim góðu siðum að salta kjöt á haustin, svíða hausa og lappir, salta bútung og herða fisk. Símon sigldi skipi sínu til annarra landa og hann fór ferða sinna um heim- inn með flugvélum eins og aðrir, en samt tókst honum einhvern veginn aldrei að verða Reykvíkingur, og ennú síður Evrópuborgari. Þar með er ekki sagt að Símon hafi ver- ið þröngsýnn maður, hann fylgdist vel með stjórnmálum og öðrum málum sinnar tíðar, en aldrei varð það ljóst, ekki einu sinni hans nán- ustu, hvaða hugmyndir, hugsjónir eða flokka hann aðhylltist. Þetta gat farið í taugarnar á sumum, sér í lagi þeim sem voru upptendraðir af einhverjum sannleika. Yfirleitt var það háttur Símonar að láta reyna á skoðanir annarra með því að vera ávallt hundraðprósent á móti þeim, ekki með neinni illsku heldur stríðnislegri kerskni. Hon- um þótti þeim mun nauðsynlegra að taka að sér að vera málsvari myrkrahöfðingjans sem menn voru heitari í sinni trú. Vonandi er ekki rangt að segja að Símoni hafi þótt þær hugmyndir skástar sem nokk- urt gaman mátti hafa af – er það kannski þjóðararfurinn? Allt trú- arofstæki var eitur í hans beinum, en hann viðurkenndi eins og aðrir skynsamir menn að ótalmargt er utan færis hversdagsvitsmuna okk- ar. Símon átti ágæta vini, ekki marga en trausta. Þeir voru dálítið af sama bergi brotnir og hann, sér- viskulegir, og jöðruðu sumir við að vera furðufuglar. Reyndin varð sú að eftir því sem árin liðu lærðu undirritaðir æ betur að meta þenn- an skrautlega kunningjahóp. Sér- stæðar persónur eru því miður dýrategund í útrýmingarhættu. Innileg samtöl við sína nánustu, samráð um ákvarðanir, samstaða um mál fjölskyldunnar var ekki á lista yfir það sem Símoni Guðjóns- syni fór best úr hendi. Þannig var það og þannig hlaut það að vera. Hann beitti í stórum dráttum þeim uppeldisaðferðum sem hann hafði sjálfur kynnst í foreldrahúsum í Norðfirði. Uppeldisfræði Símonar voru þó ekki alvond: hann var verkhygginn, verklaginn og fljót- virkur, og þessari menningu hand- ar og huga miðlaði hann til sona sinna. Tengdadætrum sínum og barnabörnum vildi hann vel, og lagði sig dálítið fram um að vera þokkalegur afi, svona eins og forrit hans leyfði. Símon gat verið bráðskemmti- legur, en hann átti það líka til að vera drumbs. Í gamla daga hét það að menn væru „skálakaldir“, þegar þeir voru úr hófi þegjandalegir á heimili. En Símon gat líka verið hrókur alls fagnaðar, rifið af sér góðar sögur af fólki og mannlífi og þótti ekki leiðinlegt að fá sér í glas og taka lagið. Það eimdi lengi eftir af söngnum í Nýjabæ. En með ár- unum dró úr söngnum. Einhvers- konar lífsleiði náði smámsaman yf- irhöndinni. Fór svo að lokum að þau Símon og Elín slitu samvistir. Sú góða kona, Elín Friðriksdóttir, gekk út og lokaði á eftir sér. Símon sat einn eftir í stofu sinni. Allt hef- ur sinn tíma undir sólinni. Og nú er Símon Guðjónsson all- ur. Greindur maður, bjartur yfirlit- um, dugandi vel til allra starfa, ágætur fiskimaður, farsæll skip- stjóri, hrókur alls fagnaðar þegar sá gáll var á honum, en gallaður líka vissulega, eins og við öll. Við erum hvert öðru ráðgáta. Við erum sjálfum okkur ráðgáta. Vitanlega eru allir menn ráðgáta því lífið sjálft er í eðli sínu ráðgáta. Við þökkum föður okkar það góða sem hann gaf okkur, og er ekki ómargt. Allt annað er fyrirgefið og bráðum gleymt. Hvíldu í friði! Ólafur Haukur Símonarson, Birgir Svan Símonarson, Guðjón Símonarson. SÍMON GUÐJÓNSSON  Fleiri minningargreinar um Hjörnýju Tómasdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. ✝ Hjörný Tómas-dóttir fæddist í Reykjavík 3. janúar 1916. Hún lést á Droplaugarstöðum 3. nóvember síðastlið- inn. Foreldrar henn- ar voru Guðbjörg Magnúsdóttir, f. 1878, d. 1952, og Tómas Þormóðsson, f. 1884, d. 1942. Hjörný átti tvær eldri systur, Geirnýju og Valnýju, en þær eru báðar látnar. Fyrri eiginmaður Hjörnýjar var Magnús Guðmunds- son málarameistari sem er látinn. Sonur þeirra er Magni Reynir, kona hans er Steinunn Guðlaugs- dóttir. Börn þeirra eru Oddný El- ín, Guðmundur Haukur og Ingi- björg. Í janúar 1942 giftist Hjörný Helga Anton Ársælssyni, skip- stjóra og síðar hafnsögumanni í Reykjavík, d. 1996. Börn þeirra eru: a) Ellen, maki Eiríkur Hannesson, börn þeirra Erna og Helgi Anton. b) Arn- dís, maki Sigurður Þorláksson, dóttir þeirra er Hjördís. c) Sverrir, maki Carol Valerie Helgason, börn þeirra eru Hjörtur Örn, Ívar Anton, Stefán Krist- jón og Mihaela Val- dís. d) Inga, maki Gísli Guðmundsson, börn þeirra eru Tómas Guðberg, Soffía Guðrún, Ingvi Lárus og Helga Margrét. e) Hjalti Valur, maki Margrét Bragadóttir, dætur þeirra eru Sigurbjörg Dag- mar, Ingunn Anna og Hildur Vala. f) Anna, maki Jóhann Örn Skafta- son, dætur þeirra eru Hjörný Elízabet og Helga Kristíne. Barnabarnabörnin eru orðin 12. Útför Hjörnýjar verður gerð frá Fossvogskirkju og hefst at- höfnin klukkan 13.30. Nokkur kveðjuorð til góðrar konu, tengdamóður minnar sem nú er látin 87 ára. Hjörný Tómasdóttir fæddist og ólst upp í Reykjavík, yngst þriggja systra sem voru Valný, gift Hjalta Gunnlaugssyni sem lengst af var bátsmaður hjá Ríkisskip og Geirný, gift Jóni Halldórssyni sjómanni en þau eru öll látin. Á æskuheimili hennar voru ekki mikil efni svo hún kynntist því snemma að vinna fyrir sér og fram- haldsskólaganga var aðeins draumur hjá flestum á þeim árum. Hjörný var greind, sem vel kom fram í daglegu lífi hennar og hvað best í hve hún átti auðvelt með að ná tökum á tungu- málum en hún var bæði áhugasöm og fróðleiksfús um flest sem viðkom daglegu lífi manna að stjórnmálum meðtöldum. Ung giftist hún Magnúsi Guð- mundssyni og átti með honum soninn Magna Reyni en þau slitu samvistir. Seinni maður Hjörnýjar var minn kæri tengdafaðir Helgi Anton Ár- sælsson, sem var stýrimaður og skip- stjóri á togurum frá því fyrir stríð og fram undir 1960 að hann kom í land og var eftir það lengst af hafnsögu- maður hér við Reykjavíkurhöfn eða þar til hann lét af störfum fyrir ald- urs sakir. Ekki er hægt að skrifa minning- argrein um Hjörnýju án þess að segja frá Helga um leið, svo samrýnd sem þau voru. Þau bjuggu lengst af við Grenimel, hann var mikill vesturbæingur og KR-ingur eins og allt hans fólk en yngri bræður hans og einnig frændi kepptu með KR og voru áberandi þar á góðum tímum félagsins. Hjörný og Helgi fylgdust vel með sínu liði alla tíð en þau voru sérfræðingar í enska boltanum og þekktu flesta leikmenn með nafni. Þau eignuðust sex börn, sem eru í aldursröð Ellen, eiginkona mín, Arn- dís, Sverrir, Inga, Hjalti og Anna. Öll eru þau gift, barnabörnin eru nítján og barnabarnabörnin eru orðin tólf. Ekki hefur lífið verið henni auðvelt með stórt heimili og hann langtímum saman úti á sjó. Þá kom vel í ljós hve mikið var í hana spunnið og hún var alla tíð jafnframkvæmdasöm við allt sem heimilið varðaði, líka eftir að hann kom í land og lét hann sér það vel líka. Hjörný og Helgi áttu fallegt heimili, þau voru gestrisin og þar komu margir við og börn þeirra heimsóttu þau oft, ásamt mökum og sínum börnum. „Grenimelurinn“ var okkur eins konar miðstöð í mörg ár. Börnum sínum voru þau góð fyr- irmynd í heiðarleika og reglusemi, allt líf þeirra einkenndist af hófsemi en voru þó höfðingjar heim að sækja. Fyrst og fremst nutu þau þess að rækta garðinn sinn í orðsins fyllstu merkingu. Bíl kærðu þau sig ekki um eiga, nutu þess að ganga og hreyfa sig og um sjötugt bættu þau reiðhjólum við og á sumrin hjóluðu þau daglega út í garðinn sinn í Vatnsmýrinni. Þau voru alla tíð létt á sér og eins og ungt fólk í hreyfingum. Ekki er ég í vafa um að reglusemi og dagleg hreyfing varð til þess að þau eltust betur en aðrir sem ég þekki. Þau voru ákaflega hjálpsöm, ekki síst við börn sín og tengdabörn en aldrei afskiptasöm og afar þakklát fyrir það litla sem við gerðum fyrir þau. Helgi var með handlagnari mönnum og sér þess víða stað hjá af- komendum og Hjörný sem var bjart- sýn að eðlisfari var alltaf tilbúin að bjarga öllu sem þurfti. Ég á tengdaforeldrum mínum mikið að þakka, ekki síst hve vel þau tóku mér í fjölskylduna strax frá fyrsta degi og aldrei bar þar skugga á. Um þau á ég aðeins góðar minn- ingar. Helga missti hún óvænt í janúar 1996, úr krabbameini, eftir stutta og sína einu sjúkrahúslegu um ævina en þá var hann áttræður og ern fram að því. Eftir það minnti hún á vængbrot- inn fugl, hún saknaði hans og upp úr því fór að halla undan fæti hvað heils- una varðaði, þó að lengst af væri hún frá á fæti og byggi heima. Síðustu ár- in voru henni erfið en hún naut umönnunar á Droplaugarstöðum við Snorrabraut og viljum við hjónin þakka því góða fólki. Sé það til sem við flest viljum trúa og nefnum „annan heim“ þá mun vafalaust verða vel tekið á móti henni þar. Hvíl í friði. Eiríkur Hannesson. HJÖRNÝ TÓMASDÓTTIR
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.