Morgunblaðið - 07.03.2004, Side 28
28 SUNNUDAGUR 7. MARS 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Að Ásum 11 búa hjónin Hildegard ogHafsteinn Þorgeirsson. Þau hafa bú-ið í hjónaíbúð í Ási í Hveragerði íþrjú ár og taka blaðamanni vel þegar
hann rekst inn til þeirra í heimsókn til þess að
heyra hvað þau hafi að segja um reynslu sína
af þessum búsetukosti.
„Hér er yndislegt að vera og vel um okkur
hugsað. Ég átti hugmyndina að þessum um-
skiptum. Við Hilla kynntumst hér á balli í Hót-
el Hveragerði þegar hún var nýlega komin til
Íslands. Hún er þýsk og var hér vinnukona en
ég var að vinna hér í nágrenninu. Ég hafði
heyrt um þessar hjónaíbúðir og þegar við gát-
um allt í einu selt íbúðina okkar við Álakvísl í
Reykjavík á frjálsum markaði þá stóð ég fyrir
því að við gerðum það og svo vel bar í veiði að
við fengum inni hér um sama leyti,“ segir Haf-
steinn nokkuð glaðhlakkalegur í bragði og
kona hans kinkar kolli til samþykks.
Það er von að þau séu ánægð því sannarlega
er vistlegt um að litast í þriggja herbergja
íbúðinni þeirra.
Hafsteinn fæddist í Hafnarfirði en faðir
hans fékk berkla og því var honum ársgömlum
komið í fóstur til föðurbróður síns og konu
hans.
„Þau voru barnlaus þegar þau tóku mig en
eignuðust eina dóttur fjórum árum síðar. Við
bjuggum fyrst á Austfjörðum en síðan á Ak-
ureyri. Fósturmóðir mín var sú allra besta
mamma sem hægt var að eignast. Ég fékk
mjög ástríkt uppeldi. Ég fór til Reykjavíkur
þegar ég var orðinn nógu gamall til að skilja að
ekki er alltaf hægt að vinna hjá KEA.
Vissi ekki að blóðmóðirin
bjó hinum megin við götuna
Við fórum nokkrir strákar til að vinna við
Hitaveituna í Reykjavík. Ég var þá 17 ára og
var með miða með mér með heimilisfangi blóð-
móður minnar sem ég þekkti ekki neitt. Ég
vissi þó að tvö systkini mín bjuggu enn hjá
henni. En því miður týndi ég miðanum og
skrifaði mömmu norður og bað hana að senda
mér heimilisfangið aftur sem hún gerði og
fékk ég bréfið hálfum mánuði síðar. Þann tíma
bjó ég í skólahúsinu við Lindargötu þar sem
nú er tónlistarskóli. Í portinu þar voru oft
börn að leik. Ég vissi ekki þá að tvö þeirra
voru systkini mín og blóðmóðir mín bjó hinum
megin við götuna.
Þegar ég hafði fengið heimilisfangið hennar
barði ég þar að dyrum en fannst hún ekki taka
mér eins fagnandi og ég bjóst við. Ég skildi
síðar að hún óttaðist að ég myndi setjast upp
hjá henni, en hún var fátæk og hafði fyrir nógu
miklu að sjá. Ég leit þó aldrei á hana sem móð-
ur, hún varð mér sem eins konar góð frænka,
mamma mín var sú sem ól mig upp,“ segir
Hafsteinn.
Árið 1959 var atvinnuleysi á höfuðborgar-
svæðinu.
„Ég fór í þrjá mánuði hvern morgun klukk-
an níu niður í Alþýðuhús, þar sem var atvinnu-
miðlun, til þess að bíða þess að úr rættist,“
segir Hafsteinn.
„Þar kom að skólastjórinn á Reykjum mætti
á staðinn og sagði: „Mig vantar mann sem
kann að keyra bíl og logsjóða.“ Ég kunni hvort
tveggja, hafði lært að logsjóða í Ofnasmiðjunni
eftir hitaveituævintýrið, og var ráðinn í starf-
ið.“
Sagði bara já við bónorðinu
til að segja eitthvað
Þegar þau fóru að dansa saman Hafsteinn
og Hildegard á Hótel Hveragerði var hún búin
að læra nokkuð í íslensku, eftir ársdvöl hér á
landi.
„Hún skildi þó ekki nærri því eins mikið og
ég hélt. Ég bað hennar á brúnni hér yfir ána í
Hveragerði og hef stundum sagt í gamni að
hún hafi ekki skilið bónorðið en bara sagt já til
að segja eitthvað.,“ segir Hafsteinn.
„Ég skildi vel hvað þú varst að meina,“ svar-
ar Hilla og brosir. En hver skyldu hafa verið
tildrög þess að hún kom hingað til Íslands að-
eins 18 ára.
„Ég kom hingað vegna atvinnuleysisins í
Þýskalandi eftir stríð,“ segir Hilla.
„Ég fæddist í Elbing, þar sem nú er Pól-
land, en við flúðum þaðan 1944 til Lübeck þeg-
ar ég var 14 ára. Þetta var hræðilegt ferðalag.
Pabbi var langferðabílstjóri og eigandi fyrir-
tækisins bauð honum að eiga bílinn sem hann
ók ef hann vildi aka búslóð hans á tengivagni
sem festur var við bílinn til Lübeck, en sjálfur
fór eigandinn með skipi þangað.
Við fórum af stað í 23 stiga frosti, sátum aft-
an á bílpallinum fjögur systkinin og fleiri og
vorum öll að deyja úr kulda. Ég óska engum
svo ills að fara í slíkt ferðalag.
Móðirin galt fóstureyðingu með lífi sínu
Við höfðum ekki að neinu að hverfa, fengum
inni í einu herbergi þar sem við sváfum öll, eld-
uðum og lifðum lífinu. Móðir mín varð ófrísk
og mat það svo að það væri ekki hægt að fæða
fleiri börn inn í þessa tilveru. Hún fór í fóstur-
eyðingu og galt fyrir það með lífinu. Eftir var
pabbi með okkur fjögur. Það kom sér að hann
var sterkur og vel lyntur maður.
Ég hugsaði um systkini mín meðan hann var
í langferðalögum í akstri. Þetta var óskemmti-
legt líf, við áttum ekkert, þekktum engan og
það var litið niður á okkur. Við misstum ekki
aðeins mömmu, við höfðum áður misst alla
okkar ættingja og vini þegar við flúðum.
Einu og hálfu ári eftir að mamma dó eign-
uðumst við stjúpmóður. Hún var stríðsekkja,
átti íbúð og hafði eftirlaun eftir mann sinn.
Hún og faðir minn giftu sig því aldrei. Við
fluttum til hennar og hún tók við stjórninni.
Hún var regluföst og ákveðin kona sem krafð-
ist þess að við kölluðum hana mömmu. Hún
átti sjálf engin börn. Systkinum mínum, þeim
yngri, gekk þetta betur en mér. Ég vildi kom-
ast burt og 18 ára sá ég auglýsingu í bæj-
arblaðinu um að það vantaði vinnukonur á Ís-
landi. Ég fór og gerðist vinnukona í
Fagrahvammi í Hveragerði. Margrét systir
mín kom hingað til mín þegar hún var 14 ára,
þá vorum við Hafsteinn nýbyrjuð að búa. Hún
giftist hér en er nú látin, sem og er bróðir
minn dáinn. Yngsta systir mín var bara 2 ára
þegar mamma dó og hún leit á stjúpmóður
okkar sem móður.“
„Hilla hefur ekki komist yfir móðurmissinn
ennþá,“ segir Hafsteinn.
Hildegard kinkar kolli.
„Já, það er alltaf erfitt hjá mér um jólin,
mamma dó 18. desember. Hún fékk miklar
blæðingar eftir fóstureyðinguna og var flutt á
spítala, þá var komin eitrun í allt saman og
ekki hægt að bjarga henni.“
Hildegard átti góða daga í Fagrahvammi.
„Hjónin þar, Emilía og Ingimar Sigurðsson,
reyndust mér eins og bestu foreldrar, þau
héldu meira að segja brúðkaupsveislu fyrir
mig þegar við Hafsteinn giftumst,“ segir Hilla
og hlær.
„Tveimur árum áður en við Hilla kynntumst
var ég að vinna í Vélsmiðjunni Hamri. Við tók-
um að okkur að ketilhreinsa togara. Einu sinni
vorum við nokkrir strákar að koma úr slíku
starfi og vorum svartir eins og negrar. Þegar
vinnu var lokið um miðnætti var Esjan að
leggja að bryggju með 200 þýskar stelpur.
Stákarnir vildu skoða þýsku stelpurnar en ég
hélt nú ekki að ég færi að skoða þessar „nas-
istapíur“, og fór heim. Ég var sá eini af þeim
sem eignaðist þýska konu, hún var einmitt í
þessum hópi sem var að koma með Esju
þarna. Svona er lífið,“ segir Hafsteinn.
Þau Hilla og Hafsteinn bjuggu í Hveragerði
í um tíu ár, þá fluttu þau til Reykjavíkur.
„Ég var í lausamennsku lengst af hér í
Hveragerði, við höfðum fremur lélegt húsnæði
og ég fékk aldrei fasta vinnu. Þetta var þreyt-
andi og fjarvistir frá heimilinu miklar, svo við
fluttum suður,“ segir Hafsteinn.
Þegar til Reykjavíkur kom fór Hafsteinn að
keyra strætisvagn sem ók um Seltjarnarnes.
Hilla var heima og hugsaði um börnin þeirra
sex. Þau eignuðust hús við bæjarmörk
Reykjavíkur og síðar íbúð í Írabakka. Enn síð-
ar eignuðust þau íbúðina við Álakvísl.
En hvernig skyldi sambúðin hafa gengið hjá
tveimur persónum með svo ólíkan bakgrunn?
Hilla er íslenskari en ég
„Hún Hilla er íslenskari en ég.Við höfum
aldrei orðið þess vör að við kæmum frá ólíkum
aðstæðum.“ segir Hafsteinn.
„Ég lærði íslensku fljótt og íslenskar venjur
og siði í Fagrahvammi. Þar lærði ég að elda og
halda heimili. Mér líkar miklu betur hér en í
Þýskalandi, ég á ekki góðar minningar frá Lü-
beck þótt ég sjái núna að það var visst afrek
hjá stjúpmóður minni að taka að sér þennan
barnahóp því faðir minn var lítið heima vegna
starfs síns svo heimilishaldið mæddi á henni,
við tvær urðum miklar vinkonur þegar ég kom
síðar oft í heimsókn til hennar og pabba í Lü-
beck.“
Hafsteinn reyndi að eigin sögn að kaupa hús
í Hveragerði en fékk ekki lán þrátt fyir góðan
ábyrgðarmann og það gerði útslagið.
„Þá ákvað ég að flytja og datt ekki í hug að
við myndum nokkurn tíma koma hingað aft-
ur,“ segir hann.
Hilla fór að vinna úti þegar börnin stálp-
uðust.
Bakaði öll smábrauðin
fyrir flugvélar Flugleiða
„Ég var alltaf í veitingahúsabransanum,
fyrst var ég í Naustinu, þar var gaman að vera,
starfsfólkið var eins og ein fjölskylda, síðan fór
ég á Hótel Loftleiðir. Þar átti ég að vera í upp-
vaski en var gerð að bakara vegna þess að
bakarinn veiktist. Í tíu ár bakaði ég smábrauð-
in fyrir flugvélar Flugleiða og fyrir Hótel
Loftleiðir. Það var mikið og erfitt starf,“ segir
hún.
Nú þarf Hilla ekki lengur að baka nema að
hún sjálf vilji.
„Ég baka stundum, en mér finnst mjög gott
að þurfa ekki lengur að vera við eldamennsku
og þrifnað. Við hitum okkur bara stundum
snarl á kvöldin. Hitt er annað að ég hélt að hér
væri fleira fólk sem við þekktum. En þegar við
komum hingað eftir öll þessi ár voru kunn-
ingjarnir fluttir eða fallnir frá. Við þekktum
þegar til kom bara örfáa. Það voru vonbrigði.“
Hafsteinn lét það hins vegar ekki á sig fá,
hann fór að spila golf af miklum krafti, en þá
íþrótt hafði hann stundað í Reykjavík.
„Í golfinu hér hitti ég menn sem þekktu mig
en ég kom ekki strax fyrir mig. Þeir höfðu þá
verið undir minni stjórn í skátafélagi sem ég
stofnaði hér ásamt öðrum manni. Nú spilum
við saman golf, ég og þessir löngu uppkomnu
skátadrengir.“
Hilla hefur ekki bílpróf svo hún gerir ekki
víðreist nema að Hafsteinn keyri hana, á því
eru þó viss tormerki.
„Hún er vön að hafa einkabílstjóra, en nú er
ég farinn að þreytast í augunum við langa
keyrslu, – ég endist á Selfoss,“ segir Hafsteinn
og hlær. Þau hjón fara því ekki oft til Reykja-
víkur.
„Börnin koma hingað oft að heimsækja okk-
ur, og þau sækja okkur ef við þurfum á að
halda,“ segir Hildegard. Þau hjón eiga fjöl-
mennan hóp afkomenda.
„Allt er þetta gott og blessað – nema hvað
ég hrökk illa við þegar ég áttaði mig á að ef
annað okkur félli frá yrði hitt að flytja úr hús-
inu. En þetta eru reglur hér og þær eru skilj-
anlegar útfrá sjónarmiðum fyrirtækisins,“
segir Hafsteinn.
„Kannski yrði það ekki svo slæmt ef til
kæmi,“ segir Hilla.
„Hún Hilla er svo léttlynd, það hefur fleytt
henni gegnum marga erfiðleikanna. Góð lund
er mikilvægasta vopnið í lífsbaráttunni,“ segir
Hafsteinn og með þeim orðum kveðjum við
þessi glaðbeittu hjón að Ásum 11.
Hér er yndislegt að vera
Morgunblaðið/Margrét Ísaksdóttir
Hildegard og Hafsteinn í stofunni sinni.
Hafsteinn og Hildegard með elstu börn sín þrjú, þau Þorgeir, Karin og Sigurð Helga, seinna eignuðust
þau Davíð Einar, Hafstein Ernst og Hafdísi.
Morgunblaðið/Margrét Ísaksdóttir
Í parhúsinu Ásar 11 búa þau Hildegard og Hafsteinn.