Morgunblaðið - 02.04.2004, Síða 43

Morgunblaðið - 02.04.2004, Síða 43
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 2. APRÍL 2004 43 börnin göntuðumst stundum með það að hann væri sjálfvirkasta upp- þvottavél í heimi. Það mátti helst aldrei vera svo mikið sem eitt glas í vaskinum. Svo var hann líka algjör gæi. Oft hef ég dáðst að honum í gegnum tíðina, því hann var alltaf svo smart. Ég er þakklát fyrir þær stundir sem ég átti með afa á spítalanum áð- ur en hann dó. Það var svo gott að geta gefið til baka brot af þeirri ást og hlýju sem hann hafði gefið mér í gegnum tíðina. Það var svo gott að halda í sterku hlýju höndina hans, þá var maður svo öruggur. Í gegnum veikindin hélt hann sínum frábæra karakter og var alltaf að spyrja hvernig aðrir hefðu það og fylgdist með öllum framkvæmdunum í fjöl- skyldunni. Daginn áður en hann dó tók hann svo fallega utan um dóttur mína 10 ára og sagði „elsku gullmol- inn minn“. Það var eitt það síðasta sem ég heyrði hann segja. Elsku besti afi minn, takk fyrir allt sem þú gafst mér. Guð veri með þér. Þín Ína Björk. Það er komið að því að kveðja hann afa minn, þennan frábæra mann sem átti svo stóran þátt í lífi mínu. Það sem mér finnst minnis- stæðast er hversu mikinn áhuga hann sýndi öllu því sem maður tók sér fyrir hendur, hvort sem það var í íþróttum, skólanum eða vinnunni. Hann var handlaginn maður og oft hjálpaði ég honum við ýmis verk og segja má að hann hafi kennt mér undirstöðuatriðin í ýmsum verk- greinum. Hann sýndi þeim fram- kvæmdum sem nú eiga sér stað í fjöl- skyldunni mikinn áhuga og jafnvel þó hann væri orðinn mikið veikur vildi hann fá að vita hvernig gengi með húsbygginguna og gefa góð ráð. Ég er þakklátur fyrir þann tíma sem ég átti með afa mínum og kveð hann með söknuði og þeim orðum sem hann kvaddi mig með, Guð geymi þig. Ásgeir Bjarnason. Þú hefur verið fastur punktur í allri tilveru minni. Ég man brosandi augu þín, hönd þína sem leiðbeindi mér, arm sem forðaði mér frá vá og ruggaði mér í svefn. Ég sat á háhesti, þrýsti hönd þína, átti með þér ævintýr. Hlustaði á sögurnar þínar. Hló að skrýtlunum. Undraðist töframátt þinn. Þú ert hluti af lífi mínu. Hluti af mér. Um eilífð. (Úr bókinni alveg einstakur afi.) Guð geymi besta afa í öllum heim- inum. Þín Heiðrún Þó að kali heitur hver, hylji dali jökull ber, steinar tali og allt hvað er, aldrei skal ég gleyma þér. (Úr vísum Vatnsenda-Rósu.) Minningarnar eru margar um hann afa minn. Hann var einstakur maður, það var eins og allir fyndu að þeir ættu sérstakan stað í hjarta hans. Í hans augum voru allir jafnir og hann fann alltaf til með þeim sem minna máttu sín. Það er erfitt fyrir mig að lýsa sambandinu við afa en við vorum sérstaklega miklir vinir, við gátum oft setið lengi og talað saman, faðmað og knúsað hvort ann- að. Milli okkar var kærleiksstrengur sem lýsir því best þegar ég var yngri og sagði, „hann afi minn er sá besti maður sem ég hef kynnst“. Alltaf gat ég leitað ráða hjá afa. Það er mjög stutt síðan við sátum saman og hann var að lýsa því fyrir mér hvernig ég átti að pússa og lakka húsgögnin sem hann gaf mér til að nota í bú- skapnum mínum. Það átti að gera nákvæmlega svona og með þessum sérstöku hreyfingum sem hann sýndi þegar vanda átti til verka. Í janúar áttum við saman yndislega stund þegar ég útskrifaðist sem rekstrarfræðingur, fórum saman út að borða og þess mun ég lengi minn- ast. Það var alltaf svo gaman þegar von var á afa og ömmu í mat, hann hafði mikinn húmor og átti gott með að slá á létta strengi. Hann afi minn gat líka stundum verið þrjóskur en umhyggjan og stóra hjartað hans var engu öðru líkt. Það var erfitt að horfa á afa þjást í veikindum sínum síðasta mánuðinn en nú er þessu lok- ið og það er vissa mín að nú hvíli hann á betri stað, þar sem ljósið skín sem skærast. Hugur minn er fullur af þakklæti fyrir að hafa verið svo heppin að eignast slíkan afa. Elsku ömmu minni sendi ég sam- úðarkveðjur og bið góðan Guð að geyma hann afa minn. Helga Huld Bjarnadóttir. Í dag kveðjum við elskulegan afa okkar, Einar Hannesson, sem okkur þótti svo vænt um, hinstu kveðju. Okkur er orða vant á þessari stundu en okkur þykir þetta ljóð eftir Þór- unni Sigurðardóttur lýsa vel líðan okkar. Ég sendi þér kæra kveðju, nú komin er lífsins nótt. Þig umvefji blessun og bænir, ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því þú laus ert úr veikinda viðjum, þín veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti, þá auðnu að hafa þig hér. Og það er svo margs að minnast, svo margt sem um hug minn fer. Þó þú sért horfinn úr heimi, ég hitti þig ekki um hríð. Þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. Við biðjum Guð að styrkja okkur öll í sorginni og þá sérstaklega ömmu Mæju sem á um sárt að binda á þessum erfiðu tímum, um leið og við óskum að ljúfar minningar megi öllum verða ljós í myrkrinu. Þú munt aldrei gleymast í huga okkar og í hjarta okkar lifir minn- ingin um þig að eilífu. María og Pétur. Afi minn var góður, elskulegur og fyndinn. Einu sinni fórum við hring- inn í kringum landið með afa og ömmu. Við stoppuðum á Akureyri eina nótt á gistihúsi sem heitir Gula villan en afi kallaði það alltaf gulu hænuna. Síðan vorum við í sumarbú- stað á Eiðum í eina viku. Þar var t.d. hægt að veiða, það fannst afa mjög gaman því hann var mikill sjómaður, kallinn. Við veiddum silung og bleikju allt að fjórtán talsins og afi marga þeirra. Hann kenndi mér að kasta út og margt fleira. Við vorum alltaf saman á jólunum og hjálpuðumst að við að skreyta jólatréð. Það var rosalega gaman, afi sat á stól og sagði okkur, mér og bróður mínum til. Eina reglan var að allt fallegasta skrautið færi þangað sem það sæist best. Þegar ég bjó í Danmörku komu afi og amma að heimsækja okkur. Þá fórum við oft í göngutúr um hverfið ég, afi og Skapti bróðir minn. Um helgar tók- um við okkur til og löbbuðum út í búð og keyptum nýtt brauð og góðgæti. Einar var yndislegur afi og mjög góður uppvaskari. Eitt sinn verða allir menn að deyja og það vitum við öll, en það alltaf sárt að verða að kveðja. Um leið og ég kveð afa bið ég góðan Guð að styrkja ömmu á þess- um erfiðu tímum. María Ben Jónsdóttir. Einar mágur minn hefur lagt í sína hinstu för og siglir nú að ókunnri strönd. Við sem eftir stönd- um getum ekki fylgst með þeirri sigl- ingu en vitum að maðurinn var einkar farsæll skipstjóri sem alltaf skilaði knerri sínum heilum í höfn. Einn sólríkan sumardag á Norð- firði árið 1948 beið heimilisfólkið í Vík spennt eftir að sjá mannsefnið hennar Maju systur minnar. Við vissum að hann hét Einar, var sjó- maður og Keflavík var staðurinn hans. Og þarna birtist hann, hár og karlmannlegur með sitt dökka hár, glerfínn í ljósum sumarfötum og með hatt. Útlitið var fínt en það sem var enn betra, að þarna kynntumst við heiðursmanni sem ekki mátti vamm sitt vita og var alltaf boðinn og búinn að koma öðrum til hjálpar. Á fallegt heimili þeirra Einars og Maju í Keflavík var gott að koma, þar fögnuðu þau gestum og gang- andi. Þau hafa átt barnaláni að fagna og samheldni fjöskyldunnar er við- brugðið. Hér er þakkað fyrir boðin sem þau hjón héldu árum saman á jóladag þar sem við systkinin mætt- um með fjölskyldurnar. Þetta voru eiginlega árleg ættarmót sem eng- inn vildi missa af, enda hópurinn orð- inn um 60 manns þegar þeim kafla lauk. Samskipti fjölskyldna okkar systra hafa alltaf verið náin. Margs er að minnast frá öllum þessum ár- um, t.d. ferðalaganna. Fyrst voru það tjaldferðirnar með krakkana og eftir orlofshúsabyltinguna var farið á hverju sumri í einhvern kofa sem fylltist af gleði og fólki í alls konar leikjum og Einar sá um að allt væri í röð og reglu innan dyra og utan. Og ekki má gleyma spilunum, framan af var það kani, en síðan brids og þegar hitinn varð sem mestur við spila- borðið var gott að standa upp, ganga út í bjarta sumarnóttina og kæla sig áður en sest var við borðið á ný. Svo byrjuðu sólarlandaferðirnar og Íslendingar fylltu töskur sínar af mat og héldu til suðurs. Það var í annarri ferð okkar að við tókum með okkur mjólk og Einar fékk það hlut- verk að bera hana í handfarangri og segir ekki af þeim burði fyrr en kom- ið var í flugstöð á erlendri grund og flokkurinn stóð í langri biðröð. Þá var það að einhver fór að benda og allir litu í sömu átt og sjá, þar gaf að líta mjólkurslóð eftir endilangri flug- stöðinni og það þurfti engan einka- spæjara til að finna þann seka. En snyrtimennið tilkynnti okkur systr- um að þetta væri í fyrsta og síðasta skipti sem hann tæki að sér að vera mjólkurpóstur á milli landa. Ein minning leitar á hugann frá þessum fyrstu ferðum, ég ligg í sandinum og horfi á eftir þeim mági mínum og systur þar sem þau leiðast hönd í hönd í flæðarmálinu, tákn- rænt fyrir lífsgöngu þeirra alla. Að leiðarlokum vil ég fyrir hönd fjölskyldu minnar þakka samfylgd og vináttu sem aldrei hefur borið skugga á. Við munum minnast Ein- ars Hannessonar þegar við heyrum góðs manns getið. Blessuð sé minn- ing hans. Systur minni og öllum aðstand- endum sendum við innilegar samúð- arkveðjur. Anna Jónsdóttir. Þótt við vitum að þetta er leiðin okkar allra finnst okkur aldrei tíma- bært að missa þá sem okkur þykir vænt um. Ég á þessum mági mínum mikið að þakka. Árum saman átti ég heimili hjá honum og systur minni og alltaf fann ég mig velkomna. Ég bað Guð oft að gefa mér eiginmann líkan honum og fékk bænasvar. Þeir náðu líka strax vel saman duglegu, vand- virku sjómennirnir. Ég kveð þig kæri svili, með þökk í huga, góðvild þín mun mér lengi duga. Við okkar kynni blað var brot- ið, þú hvíld og frið nú hefur hlotið. Elsku Maja og þið öll, Guð styrki ykkur. Óla og Anton. Mig langar til að kveðja þig, frændi minn, með nokkrum orðum. Við urðum mikið nánari eftir að ég fór að stunda sjóinn og eftir því sem ég kynntist þér betur þá sá ég hversu mikill mannkostamaður þú varst. Alltaf brást þú vel við ef ég þurfti að leita til þín og gerðir allt sem þú gast fyrir mig eins og þegar þú tókst að þér bátinn fyrir mig, hvattir mig og studdir þegar ég fór að Staðarfelli og hugsaðir um alla hluti fyrir mig eins og þú ættir þá sjálfur. Eins komst þú því þannig fyrir að vinur þinn Diddi, sem var mikill snurvoðarmaður, fór með mér minn fyrsta snurvoðarróður. Þar með eignaðist ég minn góða vin þar sem Diddi var. Þeir sem minna máttu sín áttu hauk í horni þar sem þú varst og minnist ég þess að þegar þú varst með Sæborgina á línu og við pabbi vorum að beita hjá þér, þá var um borð ungur maður sem átti við and- lega vanheilsu að stríða og þú tókst hann undir þinn vendarvæng, en þeir sem heilir voru komust ekki upp með neinn aumingjaskap eða kæru- leysi því það þoldir þú ekki. Þú gerðir alltaf kröfu um að menn stæðu sig og legðu sig alla fram, en þó held ég að þú hafir alltaf gert mestu kröfurnar til sjálfrar þín og var dugnaður þinn og samviskusemi svo mikil að með ólíkindum var. Það segir einnig mikið um þig, hversu barngóður þú varst, að öll börn hændust að þér. Ég er mjög þakklátur fyrir þá samleið sem við áttum og verð alltaf stoltur af þér og mun alltaf þykja innilega vænt um þig. Elsku María, ég sendi þér og fjöl- skyldu þinni mínar innilegustu sam- úðarkveðjur og bið Guð að gefa ykk- ur styrk. Þinn frændi Ragnar G. Ragnarsson. Mig langar til að minnast í fáum orðum vinar míns Einars Hannes- sonar er lést 21. mars sl. Fyrst man ég eftir honum þegar ég var um þriggja ára gamall. Móðir mín, Aðal- björg Jónsdóttir á Hofi á Kjalarnesi, og María Jónsdóttir, kona Einars, voru hálfsystur, dætur Jóns Benja- mínssonar skipstjóra frá Norðfirði. Ég man vel þegar við móðir mín heimsóttum fyrst Einar og Mæju frænku í Keflavík þar sem þau bjuggu alla tíð. Minnisstætt er þegar þau sýndu okkur flugvöllinn sem þá var að byggjast upp. Einar og Mæja komu líka oft í heimsókn til okkar. Síðar var ég með Einari á sjó í um það bil tvö ár á mb. Ólafi KE 49. Allt- af var ég velkominn á heimili þeirra Einars og Mæju og eftir að breyt- ingar urðu á mínum heimilishögum buðu þau mér til sín á hverjum jól- um. Vil ég nú kveðja Einar og þakka fyrir allar þær ánægjulegu stundir er við áttum saman. Að lokum sendi ég Mæju frænku og börnum þeirra Einars og barnabörnum mínar inni- legustu samúðarkveðjur. Sveinbjörn Björnsson. Við fráfall móðurbróður okkar Einars Hannessonar vakna margar ljúfar minningar. Sérstaklega er okkur eldri systkinunum minnis- stætt þegar Einsi passaði okkur. Fengum við þá að fara með honum um allt, jafnt í kríueggjaleit og á skytterí út á Berg, þá einkum strák- arnir. Þegar við stækkuðum fengum við að færa Einsa og Ella bróður hans heitan mat í beitningarskúrinn og aðgerðina. Ungdómnum í dag þætti það skrýtið ef ekki væri tekinn klukkutími í mat, en þarna borðuðu þeir matinn standandi í fiskkösinni. Þá minnumst við þess hvað tómlegt var á vorin þegar Einsi fór í sveit austur í Fljótshlíð og gátum við vart beðið eftir haustinu þegar hann kom til baka. Einsi var nefnilega aðeins meira en frændi, við sáum hann allaf sem elsta systkinið. Hann var móður okkar einstakur bróðir. Það kom best í ljós þegar faðir okkar veiktist og þurfti að dvelja langdvölum á Víf- ilsstöðum. Þá var Einsi unglingur og kom systur sinni til hjálpar. Líf hennar og okkar hefði verið mun erf- iðara ef hans hefði ekki notið við. Skipti þá ekki máli hvort um var að ræða barnapössun, skúringar eða viðhald á heimili. Mamma sagði allt- af að enginn hefði skúrað jafn vel og Einar bróðir. Fyrir allt það sem hann gerði fyrir fjölskylduna verð- um við honum ævinlega þakklát. Einsi fór ungur að vinna og létta undir með foreldrum sínum en fjöl- skyldan á Melgötunni var stór. Einsi starfaði lengi hjá útgerð föður okkar, bæði til sjós og lands og sýndi þá eins og alltaf dugnað og trúsemi. Einsi var einstaklega hlýr maður og barngóður. Aldrei hittum við hann svo að hann tæki ekki utan um mann, spyrði hvernig maður hefði það og fjölskyldan. Það var eitt í fari hans sem ekki fór fram hjá neinum sem honum kynntist en það reglusemi og snyrtimennska. Hann gat gengið að hlutunum þar sem hann lagði þá frá sér. Um þetta ber heimili hans og Mæju gott vitni. Þetta var eitthvað, sem hann átti erfitt með að kenna frændum sínum. Bjössi minnist þess sérstaklega þegar hann fór fyrst til sjós en þá var hann svo heppinn að Einsi var með um borð og tók hann á sig mörg aukaverkin til að létta ung- um frænda sínum vinnuna. Seinna á starfsævinni var Einsi skipstjóri á bátum hjá fyrirtæki okkar systkin- anna og sýndi hann okkur sömu trú- og ræktarsemi og foreldrum okkar. Alla tíð hefur verið kært með okk- ur og Einsa, Mæju og fjölskyldu. Elsku Mæja og fjölskylda, við systkinin vottum ykkur okkar dýpstu samúð við fráfall Einsa. Með virðingu og vináttu Sólimannssystkinin. Það gleymist víst engum sem gengur sinn veg hve gott er að mæta þar vini og finna samúð á langri leið í lífsins hverfula skini. Þú deildir á milli dagsins önn þínum drengskap sem heilu réði að rétta fórnandi heita hönd var hamingja þín og gleði. (Valdimar Hólm Hallstað.) Nú er hann fallinn fyrir sigð dauð- ans, vinur minn. Einar Hannesson skipstjóri. Skipstjórn hafði hann að aðalstarfi um margra ára skeið og fórst það vel úr hendi. Hann var sókndjarfur, far- sæll og athugull, ákaflega heppinn. Ég minnist þess ekki að hann yrði nokkurn tíma fyrir áföllum á sjó. Hann var mjög fengsæll og mikill aflamaður. Þegar hann hætti sjó- sókn og fór að stunda vinnu í landi valdi hann sér smíðar að atvinnu. Einar var fæddur Keflvíkingur. Þá var Keflavík lítið sjávarpláss, en hann varð til þess að vinna að því og að sjá það verða myndarlegan bæ, en honum var það alltaf raun, eins og okkur fleirum, að horfa upp á mikinn útvegsbæ, sem stór floti skipa var gerður út frá og bátar frá verstöðv- um víðsvegar af landinu stefndu til á vetrarvertíð, leggjast af. Nú telst það til tíðinda ef bátur sést í Kefla- víkurhöfn. Og efast ég um að sú kyn- slóð sem nú er að alast upp í Keflavík geti gert sér í hugarlund hve mikil breyting þar hefur orðið á. Keflavík nútímans er fallegur bær í örum vexti og veit ég að það gladdi Einar mikið að sjá bæinn sinn verða það sem hann er orðinn í dag. Einar var þroskaður félagshyggjumaður sem hafði bætandi áhrif á meðbræður og -systur með umgengni sinni og fram- komu. Hann var bæði í Púttklúbbi Suðurnesja og Félagi eldri borgara og var mjög virkur í báðum félögun- um og hagnýtti sér það sem þar var í boði í pútti og spilum. Einar var búinn að líða mikil veik- indi síðastliðið ár og fór heilsu hans mikið hrakandi nú síðustu mánuði og varð til þess að hann þurfti að dvelja um tíma á sjúkrahúsum þar til yfir lauk. Einar og kona hans byggðu sér myndarlegt hús að Krossholti 10 hér í bæ og bjuggu þar í mörg ár, en voru nú nýbúin að flytja sig í nýtt og glæsilegt sambýlishús að Vatnsnes- vegi 29, en því miður gat Einar ekki notið þess vegna heilsubrests. Hann lést á Heilsugæslustöð Suð- urnesja aðfaranótt föstudagsins 26. mars. Þar sofnaði hann inn í þá ver- öld sem bíður okkar allra, en þetta eru þættir sem kynslóðirnar hafa erft hver af annarri og enginn fær umflúið. Við þökkum samfylgd á lífsins leið þar lýsandi stjörnur skína og birtan himneska björt og heið hún boðar náðina sína. En Alfaðir blessar hvert ævinnar skeið og að eilífu minningu þína. (Vigdís Einarsdóttir.) Og nú, þegar ég kveð Einar Hann- esson og þakka honum fyrir þau kynni sem ég hafði af honum, fyrir hans ljúfu framkomu, það var mann- bætandi að hafa átt þess kost að njóta samvista hans og vera sam- ferðamaður hans á okkar daglegu göngu á lífsins leið. Blessuð sé minning hans. Ég votta aðstandendum mína dýpstu samúð. Magnús Þór Helgason.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.