Morgunblaðið - 04.08.2004, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 04.08.2004, Blaðsíða 28
MINNINGAR 28 MIÐVIKUDAGUR 4. ÁGÚST 2004 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Arnbjörg Jóhann-esdóttir fæddist á Gunnarsstöðum í Þistilfirði 31. maí 1924. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Seli á Akureyri þriðjudaginn 27. júlí síðastliðinn. Foreldr- ar Arnbjargar voru hjónin Aðalbjörg Vil- hjálmsdóttir, f. 25.3. 1892 á Eldjárnsstöð- um, d. 3.4. 1939 og Jó- hannes Árnason, f. 18.6. 1890 á Gunnars- stöðum, d. 25.2. 1971. Systkini hennar eru: Axel, f. 30.4. 1918, d. 11.11. 1999, Anna Guðrún, f. 2.6. 1920, d. 21.5. 1995, Sigríður, f. 10.6. 1926, Þorbjörg, f. 9.4. 1928, Árni, f. 16.1. 1930, Arnþrúður Mar- grét, f. 25.7. 1931 og Guðbjörg, f. 6.1. 1934. Arnbjörg giftist 4. nóvember 1944, Árna Árnasyni húsasmíða- meistara og bónda frá Höskuldar- nesi á Melrakkasléttu, f. 23.1. 1920. Foreldrar hans voru Þórhildur Guðnadóttir, f. 9.4. 1893 á Hóli á Melrakkasléttu, d. 24.11. 1975 og Árni St. Jónsson, f. 4.3.1889 á Ás- mundarstöðum, d. 19.5. 1956. Arnbjörg og Árni hófu búskap í Höskuldarnesi árið 1944. Þau eign- uðust fimm börn. 1) Jóhannes, f. 28.9. 1946, maki Ragnhildur Þor- geirsdóttir. Synir hennar eru Þorgeir og Höskuldur. 2) Árni, f. 11.11. 1947, d. 26.7. 1948. 3) Jór- unn Guðrún, f. 1.10. 1949, maki Bjarni Maronsson. Börn þeirra eru Kristín, Arna Björg, Valgerð- ur Sigurveig og Frið- rik. 4) Árni, f. 9.1. 1953, maki Kristín Margrét Axelsdóttir. Börn þeirra eru Árni, Axel, Jóhannes og Helena. 5) Guð- björg, f. 17.2. 1967. Langömmu- börnin eru fjögur. Arnbjörg ólst upp á Gunnarsstöðum hjá foreldr- um sínum en móðir hennar lést er hún var 14 ára gömul. Arnbjörg stundaði nám við Laugaskóla í S- Þing. í tvo vetur en vann að öðru leyti heimilinu á Gunnarsstöðum þar til hún fluttist að Höskuldar- nesi. Arnbjörg og Árni bjuggu í Höskuldarnesi til ársins 1988 er þau fluttu til Akureyrar og áttu þar heimili síðan. Síðustu tvo mán- uði dvaldi Arnbjörg á Hjúkrunar- heimilinu Seli á Akureyri. Útför Arnbjargar verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30. Orðið „húsmóðir“ er skilgreint í orðabók sem „sú sem ræður fyrir innan stokks“. Þrátt fyrir þessa til- tölulega víðu skilgreiningu hafa húsmæður á Íslandi um aldir haft æðra hlutverk en að ráða innan hý- býla sinna. Í stuttu máli má segja að ágætustu húsmæður þessa lands hafi verið verndarar heimila sinna og á þeim byggðist lífsafkoma og heimilisbragur að stærstum hluta. Með þessum orðum er ekki verið að kasta rýrð á húsbændurna, karl- mennina, né gera lítið úr þeirra hlut. Hlutverk góðrar húsmóður og móður verður ekki fyllt upp af öðr- um. Svo einfalt er málið. Arnbjörg Jóhannesdóttir gerðist ung húsmóðir og það varð lífsstarf hennar. Hún var þriðja elst átta barna þeirra Aðalbjargar og Jó- hannesar á Gunnarsstöðum í Þist- ilfirði. Aðalbjörg lést er Arnbjörg var aðeins 14 ára að aldri. Yngsta barnið var þá 5 ára gamalt. Þær Gunnarsstaðasystur létu ekki sitt eftir liggja að annast heimilið með föður sínum og munu ekki hafa hlíft sér. Kom dugnaður og ósérhlífni Arnbjargar þá þegar í ljós. Jóhann- es bóndi mun hafa lagt meiri áherslu á að afla börnum sínum menntunar en þá tíðkaðist yfirleitt. Arnbjörg stundaði nám tvo vetur við Laugaskóla og átti þaðan glaðar minningar. Hún átti sérlega létt með nám en ekki varð þó úr frekari skólagöngu. Eflaust hafa ýmsir ungir menn rennt hýru auga til hinnar litfríðu og ljóshærðu heimasætu á Gunn- arsstöðum. Hitt er víst að ekki þýddi fyrir þá að keppa við Árna í Höskuldarnesi um hylli Arnbjargar og gengu þau í hjónaband í vetr- arbyrjun 1944. Var Arnbjörg þá tví- tug en bóndi hennar fjórum árum eldri. Þau voru glæsilegt par og með þeim jafnræði mikið þótt ólík væru á ýmsa lund. Árni hafði þá tekið við búi á Höskuldarnesi á Melrakkasléttu og gekk Arnbjörg þegar til bús með honum. Þar var starfið margt, húsmóðirin unga gekk til allra verka, glaðvær og söngelsk og átti sinn stóra þátt í að skapa þann notalega brag rausnar og gleði, sem jafnan hefur fylgt heimili þeirra. Þangað áttu margir erindi eða komu til að blanda geði við húsráðendur. Arnbjörg hafði yndi af að efna til mannfagnaðar á heimili sínu og veitti gestum sínum af einstakri rausn og myndarskap. Sjálf var hún jafnan hrókur alls fagnaðar þegar fólk kom saman. Árin í Höskuldarnesi voru anna- söm, ár uppbyggingar og árangurs, en einnig sorgar, lífið sjálft. Börnin fæddust hvert af öðru og urðu fljótt liðtæk við þau störf er til féllu. Alls urðu þau fimm talsins en eitt þeirra, Árni, lést barnungur. Þarf ekki að hafa orð um þá sorg sem fráfall hans varð þeim hjónum. Árið 1988 fluttu þau Árni og Arn- björg til Akureyrar og bjuggu þar síðan. Þar stóð heimili þeirra opið gestum og gangandi líkt og í Hösk- uldarnesi áður. Meðan heilsa Arn- bjargar leyfði önnuðust þau æðar- varpið í Höskuldarnesi og dvöldu þar um nokkurra vikna skeið flest sumur. Kynni okkar Arnbjargar hófust er ég gerðist tengdasonur þeirra hjóna í Höskuldarnesi. Þau kynni, stuðningur og vinsemd verða aldrei fullþökkuð. Strax skynjaði ég hinn jákvæða hug er frá henni stafaði án þess orð væru höfð þar um. Hún gekk fram í glaðværri hlýju, henni fylgdi ekki pilsaþytur, hurðaskellir eða hávaði heldur reisn, sem vakti virðingu og eftirtekt. Hún var sí- vinnandi og verk léku henni í hönd- um. Þrátt fyrir frjálslega fram- göngu virtist Arnbjörg dul um eigin hag og lítt varð þess vart að hún kvartaði yfir einu eða neinu er henni sjálfri viðkom en sparaði sig hvergi til að hlúa að fjölskyldu sinni. Barnabörnin hændust mjög að ömmu sinni og afa og börn okkar Jórunnar voru ekki gömul þegar þau fóru að dvelja til skiptis í Hösk- uldarnesi ár hvert. Jafnan komu þau heim með fróðleik og óteljandi sögur og minningar í farteskinu. Þrátt fyrir mikið annríki lengst af var Arnbjörg víðlesin og fróð og virtist muna flest sem hún las eða heyrði. Hún kunni fjölda kvæða, þulur og sögur, talaði fallegt mál og sagði vel frá. Skopskynið brást henni ekki, fljót til svara og orð- heppin. Eins og fleiri í hennar ætt átti hún til að kasta fram stökum af ýmsum tilefnum en taldi þær ekki geymslufé og færði þær því ekki til bókar. Nokkrar lifa þó í munnlegri geymd þeirra er næstir stóðu. Gjarnan bar Arnbjörg í bætifláka fyrir þá sem hún heyrði hnjóðað í og felldi ógjarnan harða dóma um fólk. Hún bar hag bónda síns, barna, tengdabarna og barnabarna mjög fyrir brjósti og sá betur kosti þeirra en galla. Síðustu árin hrakaði heilsu henn- ar mjög. Kom þá í hlut bónda henn- ar að annast hana og gerði hann það með stakri prýði svo lengi sem fært var. Einnig fékk hún mikla hjálp frá Kristínu Margréti, tengdadóttur sinni, og Árna syni sínum. Síðustu vikurnar dvaldi hún á Hjúkrunarheimilinu Seli á Ak- ureyri og hlaut þar frábæra umönn- un sem hér skal þökkuð. Hjá fjöl- skyldu og vinum Arnbjargar er nú söknuður í húsi en líka gleði og þakklæti fyrir minningarnar, líf hennar og starf. Bjarni Maronsson. Þegar ég hugsa um ömmu í Nesi sé ég hana fyrir mér í eldhúsinu í Nesi, að baka góðu pönnukökurnar sínar, eða að verka silung sem afi hafði komið með úr veiðiferð. Alltaf hjálpaði ég henni með uppvaskið og aldrei gat ég skilið hvað hendurnar á henni voru hitaþolnar. Enda gat hún snúið pönnukökunum með lóf- unum. Eftir að amma og afi fluttu inn til Akureyrar fjölgaði heimsóknum mínum til þeirra og þegar ég fór til Akureyrar í Menntaskólann studdu þau mig heilmikið. Fyrstu tvö árin var heimsókn á Mýrarveginn fastur liður á sunnudögum. Þá eldaði amma eitthvað gott og þessar heim- sóknir voru mér afar dýrmætar. Skemmtilegast var þegar hún sagði mér sögur frá því í „gamla daga“ og þá sérstaklega frá Laugaárunum. Þá ljómaði hún öll og sagði manni stolt frá góðri námsframmistöðu sinni. Þegar ég fór svo að taka Adda með mér til þeirra var honum tekið eins og einum úr fjölskyld- unni og amma vildi gera honum allt til hæfis. Amma hafði alltaf mjög gaman að börnum og ég veit að henni fannst leiðinlegt að hafa ekki heilsu til að passa Rannveigu litlu fyrir mig meðan ég væri í skól- anum. Amma var yndisleg kona sem vildi öllum vel. Mér hefur lengi fundist hún hetja, en hún ólst upp við erfiðar aðstæður og fékk að reyna margt á sinni löngu ævi. Allt- af stóð hún sem klettur og bar harm sinn og áhyggjur í hljóði. Glettin var hún og oft laumaði hún skondnum innskotum inn í annars fjörugar umræður þegar stórfjöl- skyldan kom saman. Afi og amma hefðu átt 60 ára brúðkaupsafmæli núna í haust. Mér fannst þau svo yndisleg saman, eða „krúttleg“, eins og ein vinkona mín sagði eftir að hafa komið með mér til þeirra. Það er erfitt að segja skilið við lífsförunaut sinn til margra áratuga og bið ég góðan Guð að hjálpa afa að takast á við líf- ið án ömmu. Að lokum læt ég hér fylgja vísu sem samtímamaður ömmu á Laug- um orti til hennar, og lýsir ömmu vel eins og þegar hún var upp á sitt besta. Bros bjartir lokkar kjóll silkisokkar glöð ganginn brokkar góð Bogga okkar. Elsku amma, takk fyrir allt. Valgerður Sigurveig Bjarnadóttir. Ekið er eftir grófum malarvegi Melrakkasléttunnar. Að baki er langt ferðalag vestan úr Skagafirði. Skyndilega fyllist umhverfið af sér- kennilegri þara- og sjávarlykt og særinn er í augsýn, þá veit maður að faðmur ömmu er skammt undan. Þegar ekið er heim í Nes teygist ögn á gluggatjöldunum í eldhúsinu. Stuttu síðar stendur amma með op- inn faðminn á tröppunum, andlitið ljómar og hún skellir á lær sér. Hún er í pilsi eins og ævinlega og með svuntu. Síðan kyssir hún þreytta ferðalanga í bak og fyrir. Þá kemur sér vel að stutt er í svuntuhornið sem þerrar gleðitár ömmu. Þessi minning frá bernsku- tíð, sem kemur endurtekið upp í huga minn, er svo lýsandi fyrir ömmu. Enda var ósvikin gleði og einstakt viðmót, auk ósérhlífni og vinnusemi einkennandi fyrir allt hennar fas og geð. Á barns- og unglingsárum dvaldi ég hjá afa og ömmu í Nesi nánast á hverju vori. Þess á milli skrifuð- umst við amma reglulega á. Það voru mikil forrréttindi á viðkvæm- um mótunarárum að eiga þess kost að verja jafn miklum tíma með afa og ömmu og raun varð. Í Nesi gekk ég með ömmu og afa í öll helstu verk sem inna þurfti af hendi. Sam- skiptin einkenndust af gagnkvæmu trausti, virðingu og léttleika og það fór lítið fyrir þeim hraða og streitu, sem svo oft eru allsráðandi í sam- skiptum fólks. Börn og unglingar hændust að ömmu og afa, enda höfðu þau einstakt lag á þeim og komu fram við þau sem jafningja. Ævinlega þegar ég rétti ömmu hjálparhönd, hvort sem það var að beiðni hennar eða ekki, hældi hún manni óspart. Þannig hvatti hún mig til dáða og efldi sjálfstæðið. Á hverju kvöldi bar amma fram kvöldkaffi handa heimilisfólki og gestum. Þá sem oftar var gjarnan glatt á hjalla við eldhúsborðið. Á slíkum stundum kom svuntuhornið enn á ný að góðum notum þegar amma hló sem hjartanlegast. Þrátt fyrir iðjusemi ömmu, hafði hún alltaf nægan tíma til að spjalla, án þess að falla verk úr hendi, og aldrei þrutu umræðuefnin. Þá naut maður frásagnarlistar hennar og hversu fróð og minnug hún var. Hún kunni ógrynni af sögum og ævintýrum og þuldi heilu ljóðabálk- ana án nokkurrar fyrirhafnar. Sjálf var hún hagmælt og náði vísum við fyrstu áheyrn. Mest þótti mér gam- an þegar hún rifjaði upp æsku- og ungdómsár sín. Ævinlega var amma fyrst til að finna út úr þraut- um, talnagátum og öðru sem krafð- ist skjótrar rökhugsunar. Skörp greind hennar endurspeglaðist einnig vel í mannlegum samskipt- um. Henni var fullkomlega ljóst hversu mörg vandamál má leysa með jákvæðu hugarfari og réttu viðmóti. Eftir að amma og afi fluttu á Mýrarveginn á Akureyri og ég hóf nám í Menntaskólanum urðu sam- skiptin tíðari. Þrátt fyrir þann ærslagang sem fylgir unglingsárun- um varð það ekki til að minnka að- dráttarafl ömmu og afa. Á Mýr- arveginum var ég með annan fótinn öll menntaskólaárin og um tíma hafði ég þar fasta búsetu. Þá kom vel í ljós að kynslóðabil var ekki til í þeirra huga. Vinir mínir urðu þar tíðir gestir og tengdust þeim vina- böndum. Fyrst þegar ég flutti inn til þeirra vaknaði amma eldsnemma á morgnana til að taka til morg- unmat handa mér og kveðja mig áður en ég fór í skólann. Ég fékk hana loks ofan af því, en það breytti því ekki að hennar síðasta verk á kvöldin var að leggja á borð fyrir mig. Þetta var dæmigert fyrir ósér- hlífni og umhyggju hennar. Aldrei taldi hún eftir sér aukasnúninga fyrir menn og málleysingja en ætl- aðist ekki til þess að fá þá end- urgoldna. Elsku afi, nú þegar amma hefur kvatt þessa jarðvist, skulum við halda merki hennar á lofti með því að gleðjast yfir lífinu. Arna Björg Bjarnadóttir (Bogga). Einhver góður maður sagði að það þyrfti að byrja einhversstaðar til þess að geta endað einhvers- staðar. Og nú er komið að leið- arlokum hjá þér amma mín. Mér finnst leiðinlegt að geta ekki verið við jarðarförina en við kvöddumst nú vel áður en ég fór til Ítalíu og er ég þakklátur fyrir þá góðu stund. Mér er það minnisstætt þegar ég fór í Nes einn í fyrsta sinn, þá að- eins sex ára gamall. Dvaldi ég þar í eina viku. Ég var einn á ferð og var þetta í fyrsta sinn sem ég fór að heiman í þetta langan tíma. Þegar eitthvað var liðið á tímann var ég kominn með mikla heimþrá og ætl- aði að labba heim. Þá kom amma mér til hjálpar og huggaði mig. Hún sagðist ætla að labba með mér heim en ekki fannst mér það leggj- andi á hana þannig að ég féllst á að vera um kyrrt. Þetta er kannski talandi dæmi um hana ömmu mína, hún vildi allt fyrir alla gera. Stutt var í húmorinn, aldrei kom maður að tómum kofunum hjá henni og átti hún það til að mismæla sig skemmtilega. En umfram allt var hún góð manneskja. Þannig man ég eftir henni. Megir þú hvíla í friði og guð veri með þér. Friðrik Bjarnason. Elsku besta langamma mín. Takk fyrir tímann sem ég fékk með þér, þótt hann væri allt of stuttur. Það var alltaf svo gaman að koma til ykkar afa á Mýrarveginn. Þú dekraðir svo mikið við mig og alltaf átti ég vísan súkkulaðibita hjá ykkur afa. Vonandi líður þér betur núna elsku langa mín, ég skal aldrei gleyma þér. Þín langömmustelpa Rannveig Katrín. Arnbjörg systir mín fæddist hinn 31. maí 1924 og ólst upp á Gunn- arsstöðum í Þistilfirði. Sem ung- lingur fór hún til náms að Laugum í Reykjadal. Einn kennarinn hennar, Þorgeir Sveinbjarnarson, skrifaði í vísnabókina hennar þessa vísu: Bros, bjartir lokkar, kjóll, silkisokkar glöð ganginn brokkar góð Bogga okkar. ARNBJÖRG JÓHANNESDÓTTIR Útför HELGA KR. EINARSSONAR, Hjarðarlandi, Biskupstungum, sem lést mánudaginn 26. júlí, fer fram frá Skálholtsdómkirkju föstudaginn 6. ágúst kl. 14.00. Jarðsett verður í Haukadal. Þeim, sem vilja minnast hans, er bent á Rann- sóknasjóð nýrnalækninga Landspítala Háskólasjúkrahúss, reikningsnú- mer: 0111-05-269756. Sigrún Hákonardóttir og aðrir aðstandendur. Minn ástkæri eiginmaður, faðir okkar, tengda- faðir og afi, SIGURÐUR GUÐMUNDSSON frá Otradal, Hrafnhólum 6, Reykjavík, verður jarðsunginn frá Háteigskirkju fimmtu- daginn 5. ágúst kl. 13.30. Ingrid Guðmundsson, Elsa Nína Sigurðardóttir, Jónas Sigurðsson, Svanhvít Sigurðardóttir, Kjartan Eggertsson, Guðmundur Otri Sigurðsson, Lára Grettisdóttir og barnabörn

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.