Morgunblaðið - 04.08.2004, Blaðsíða 35

Morgunblaðið - 04.08.2004, Blaðsíða 35
MENNING MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 4. ÁGÚST 2004 35 SÆNSKI spennusagnahöfundurinn Henning Mankell liggur undir ámæli fyrir að hafa nýtt sér atriði úr bók- inni Grafarþögn eftir Arnald Indr- iðason í bók sem er nýkomin út eftir hann í Hollandi, eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær. Málið hefur vakið þó nokkra at- hygli í Hollandi og verið rætt um það í ýmsum fjölmiðlum. Skrifuð að beiðni útgefanda Bókin sem um ræðir nefnist At- burðir að hausti og er hún sú nýjasta úr smiðju hins vinsæla Mankells, en hún kom út hjá De Geus-bókaforlag- inu í Hollandi í júní síðastliðnum. Samkvæmt heimildum Morg- unblaðsins var bókin skrifuð af því tilefni að júnímánuður í Hollandi er tileinkaður glæpasögum ár hvert. Þá gefur stofnunin CPMB, sem sam- anstendur af fulltrúum bóksala og út- gefenda, út bækur sem dreift er frítt í bókabúðum og eru skrifaðar sér- staklega fyrir tilefnið. Annars vegar er um að ræða bók með útdráttum úr þrettán glæpasögum sem nýlega hafa komið út þar í landi, en hins veg- ar biður stofnunin alþjóðlegan höf- und um að skrifa um 100 bls. glæpa- sögu og fær forlag viðkomandi höfundar í Hollandi til að gefa verkið út. Hinn sænski Henning Mankell, sem hefur notið mikilla vinsælda í Hollandi, var fenginn til verksins í ár af De Geus-bókaforlaginu. Mankell skrifaði bókina á sænsku og lauk henni síðastliðið haust, en hún var svo þýdd og gefin út á holl- ensku og er hún því sem stendur ekki til á öðru tungumáli en hollensku nema í frumriti Mankells. Blaðamaður uppgötvar líkindi Grafarþögn eftir Arnald Indr- iðason kom út árið 2001 hjá Vöku- Helgafelli. Í mars í fyrra var bókin þýdd á sænsku og send til dómnefnd- ar Glerlykilsins, norrænu glæpa- sagnaverðlaunanna sem Arnaldur hafði hlotið árið áður fyrir Mýrina, og bar hún þá einnig sigur úr býtum. Henning Mankell hlaut Glerlykilinn árið 1992 fyrir bókina Morðingi án andlits. Grafarþögn kom svo út á sænsku í vor hjá bókaforlaginu Prisma og á hollensku hjá Signature- bókaforlaginu, dótturfyrirtæki A.W. Bruna, einnig í vor. Ásaknirnar á hendur Mankell eiga upptök sín í því að blaðamaðurinn Laura Padt hjá einu stærsta og virt- asta dagblaði Hollands, Trouw, las báðar bækurnar, sem komu út með skömmu millibili þar í landi, og kom auga á líkindin milli þeirra. Í kjölfarið skrifaði hún grein í blaðið og hafði meðal annars samband við hlutaðeigandi útgef- endur vegna málsins. Signature, bókaforlag Arnalds í Hollandi, hef- ur verið mjög varfærið í orðavali um málið og aldrei notað orðið „rit- stuldur“ í tengslum við það, samkvæmt heim- ildum Morgunblaðsins. Á heimasíðu forlagsins er þó að finna grein- argerð þar sem talin eru upp líkindin milli bókanna tveggja. Hins vegar hafa lögfræð- ingar Signature komist að þeirri niðurstöðu að ekki verði farið í mál vegna þessa, meðal annars á þeim for- sendum að ómögulegt sé að sanna að Mankell hafi stolið söguþræð- inum, vegna þess að hann segist aldr- ei hafa lesið bækur Arnalds. Á heimasíðu De Geus er einnig að finna pistil um málið, þar sem rakin er þeirra skoðun á málinu. Trúir ekki stuldi upp á Mankell Valgerður Benediktsdóttir hjá réttindastofu Eddu-útgáfu hf., sem gefur út bæði bækur Arnalds og Mankells á Íslandi, segist ekki telja að Mankell hafi stolið söguþræði Grafarþagnar. „Það hefur að sjálf- sögðu gerst áður að höfundar hafi fengið svipaðar hugmyndir án þess að hafa lesið verk hver annars. Man- kell hefur selt yfir 20 milljón eintök af bókum sínum um allan heim og ég trúi því hreinlega ekki að hann sæki sér vísvitandi efni í annarra verk. En ég hef þó ekki ennþá séð sænska textann,“ segir hún. „Hollenskir fjöl- miðlar hafa einnig velt því fyrir sér hvort þessar ásakanir gangi einfald- lega upp, vegna takmarkaðs tíma og tækifæra sem Mankell hefði haft til að kynna sér sögu Arnalds á sænsku.“ Valgerður segir Eddu-útgáfu hf. ekki hafa hag af því að orðspor Man- kells sé skert, enda hefur Mál og menning gefið út þrjár bækur hans í íslenskri þýðingu. Hins vegar muni félagið gera sitt besta til að gæta réttar Arnalds og óska eftir því að lesa bók Mankells á sænsku. „Á þessu stigi málsins tel ég þó að allir geti haldið ró sinni,“ sagði hún. Bækur | Henning Mankell sakaður um ritstuld frá Arnaldi Indriðasyni Gengur það upp? SÝNINGARSALURINN í Óðinshúsi á Eyrarbakka, pakkhúsi frá 1913 sem gert hefur verið upp til sýning- arhalds, er með þeim fallegri sem maður sér og sýn- ingin sem þar er núna hentar húsnæðinu afar vel. Gunnar Örn er öllu myndlistaráhugafólki vel kunnur en hann var einn af forsprökkum nýja málverksins þegar það leit dagsins ljós hér á landi. Hann hefur verið ötull við myndlistina auk þess að halda úti sýn- ingarsalnum á Kambi þar sem hann hefur verið bú- settur hátt í tuttugu ár. Nú hefur hann tekið fram all- nokkurn fjölda teikninga, flestar frá síðustu árum en þær elstu ná um áratug aftur í tímann. Meginþemað á sýningunni er maðurinn og andlit hans, eða kannski andlit sálarinnar, en sálin og hugsanlegar birting- armyndir hennar hafa verið Gunnari myndefni á síð- ustu árum. Það er mikill kraftur í þessum mynd- verkum, bæði í teikningu Gunnars sem er tiltölulega hrá og í litaflæði vatnslitanna sem hann vinnur einnig með á myndfletinum. Andlitin svífa stundum ein og sum þeirra minntu mig á málverk eftir Marlene Dum- as, en líka á Kjarval og önnur á myndir Sölva Helga- sonar en þessi blanda segir kannski eitthvað um verk Gunnars – þau eru blanda af alþjóðlegum stefnum og straumum, íslenskri málaralist og list einfarans. Inn á milli eru það svo náttúruöflin sjálf sem vinna með listamanninum á myndfletinum, þegar sjá má hvernig hann notar tilviljanakennt litaflæði sem innblástur og les úr því línur og form. Þó að teikningarnar sýni ytra byrði mannsins er það augljóslega hinn innri maður sem er viðfangsefnið og hér kemur vel fram að reynd- ur listamaður er á ferð sem nær að gæða myndefni sitt lífi og innihaldi á sama tíma og áhorfandanum er frjálst að lesa það úr myndunum sem hann vill. Mað- urinn sem myndirnar sýna er hvorki glaður né dapur heldur fyrst og fremst lifandi. Ýmist rennur hann sam- an við umhverfi sitt eins og einn með náttúrunni eða hann sker sig frá því, rétt eins og í lífinu sjálfu þar sem sjálfið er inn á milli í fullkomnum samhljómi við náttúruna en aðskilur sig líka frá umhverfi sínu og virðir fyrir sér heiminn. Salurinn í Óðinshúsi er einkar góð umgjörð fyrir þessi verk Gunnars Arnar, þar sem náttúruöflin eru áþreifanlega og sýnilega sterk og til staðar allt um kring. Það er vonandi að sem flestir leggi leið sína á þessa litlu en þó auðugu sýningu, en aðeins ein sýningarhelgi er eftir. MYNDLIST Óðinshús, Eyrarbakka Til 8. ágúst. Opið um helgar kl. 13–18. TEIKNINGAR, GUNNAR ÖRN Ein teikninga Gunnars Arnar í Óðinshúsi. Ytra byrði og innri maður ARNALDUR Indriðason segist ekki hafa lesið nýjustu bók sænska rit- höfundarins Hennings Mankells, enda hafi hún bara komið út á hol- lensku, og geti því ekki dæmt um hvort eitthvað sé til í þeim ásök- unum að atriði í henni séu stolin úr bók hans Grafarþögn. „Ég get því á engan hátt metið hvað er þarna í gangi,“ sagði Arn- aldur. „Mér þykir reyndar harla ólíklegt að rithöfundur á borð við Mankell steli frá einum eða neinum, en veit svo sem ekki meir.“ Henning Mankell hefur vísað ásökunum á bug og svarað því til að hann hafi aldrei lesið bók eftir Arn- ald Indriðason, en þeir komu báðir fram á Bókmenntahátíð í Reykjavík síðastliðið í haust og gaf Arnaldur honum þá eintak af Mýrinni í sænskri þýðingu. Að mati Arnaldar er þó allt eins líklegt að Mankell hafi ekki lesið bækur hans, enda hafi hann sjálfur ekki lesið neinar bækur eftir Mankell. Þegar Arnaldur er spurður hvort honum þætti það heiður að efni úr bókum hans væri nýtt í önnur skáldverk, ef sú yrði niðurstaðan, svarar hann neitandi. „Auðvitað eru öll svona mál leiðindamál. En útgefandi minn í Holllandi hefur farið vel yfir þetta, að ég held, og ákveðið að aðhafast ekkert. Ég á von á að það verði lendingin.“ Hefur sjálfur ekki lesið Mankell Arnaldur Indriðason Henning Mankell Het Graf eftir Henning Mankell. Grafarþögn – Moordkuil – eftir Arnald Indriðason. www.signa.nl www.degeus.nl Ragna Sigurðardóttir Fréttir á SMS

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.