Morgunblaðið - 10.09.2004, Síða 22
Reykjanesbær | Töluvert hefur
borist af málmum og öðru rusli í
umhverfisátaki í Reykjanesbæ.
Átakið stendur í hálfan mánuð í
viðbót og er von á stórvirkum
tækjum til að rífa niður stærri
mannvirki.
Umhverfisátakið felst í því að
einstaklingum og fyrirtækjum er
gert kleift að losa sig við málma og
annað gróft rusl án þess að greiða
förgunargjald. Komið hefur verið
upp plani í Helguvík þar sem tekið
er við ruslinu. Þá taka starfsmenn
bæjarins og áhugafólkið sem
stendur að átakinu fyrir ákveðin
svæði og hreinsar þau.
Í ár hefur áherslan verið lögð á
að hreinsa svæði við Njarðvíkur-
höfn, meðal annars við atvinnu-
húsnæði sem kennt er við Sjö-
stjörnuna, og svæðið í kringum
gömlu fiskvinnsluhúsin í Innri-
Njarðvík. Markmiðið er að taka
þessi svæði fyrir með sama hætti
og umhverfi Vatnsnesvitans í
Keflavík á síðasta ári. Hefur
hreinsunin gengið vel, að sögn
tveggja forsvarsmanna átaksins,
þeirra Guðmundar Péturssonar,
hjá RV ráðgjöf, og Viðars Más Að-
alsteinssonar, framkvæmdastjóra
umhverfis- og skipulagssviðs
Reykjanesbæjar. Viðar Már segir
að íbúar í nágrenni þessara svæða
hafi hjálpað mikið til við hreins-
unina.
Áhugi á að nýta vel
stórvirk tæki Hringrásar
Eftir er að rífa ónýt hús og taka
stærstu hlutina. Koma stórvirk
tæki á vegum Hringrásar til að
vinna það verk og önnur sem til
falla. Þeir félagar hafa áhuga á að
nýta þessi tæki vel. Nefna þeir að
nokkuð sé um ónýta tanka sem séu
lýti í umhverfi sínu í Reykjanesbæ
og væri gott að fá að fjarlægja þá
og ýmis önnur slík mannvirki. Það
sé þó háð samstarfi við eigendur
og unnið sé að öflun leyfa. Þeir
leggja áherslu á að á meðan á
þessu átaki stendur gefist fyrir-
tækjum kostur á að fá aðstoð við
að losa sig við slíka hluti án endur-
gjalds og hvetja eigendur þeirra til
að nýta sér það. Þjónustumiðstöð
Reykjanesbæjar tekur við ábend-
ingum og beiðnum um aðstoð.
Árangurinn byggist á
framlagi áhugafólks
Þetta er þriðja árið í röð sem
efnt er til umhverfisátaks í Reykja-
nesbæ. Að því standa nokkur fyr-
irtæki og áhugafólk í bænum. Við-
ar Már segir að góður árangur hafi
náðst og þakkar það ekki síst að-
komu áhugafólksins og almennri
þátttöku bæjarbúa. Vonast hann til
þess að eftir þetta átak verði búið
að losa bæinn við svo mikið af
járnarusli og öðru grófu rusli að á
næstu árum þurfi ekki annað en
taka það sem bætist við.
Brotajárnshaugur: Járnarusli og
öðrum málmum er komið fyrir á
plani sem útbúið hefur verið á af-
viknum stað við Helguvík.
Hreinsað til við Njarðvíkurhöfn og í Innri-Njarðvík
Vilja fjarlægja ónýta tanka
SUÐURNES
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Tankar: Talsvert af gömlum olíutönkum og öðrum stórum geymum stend-
ur uppi í Reykjanesbæ, engum til gagns en mörgum til ama. Forsvarsmenn
umhverfisátaksins vilja fá leyfi til að fjarlægja sem flesta.
MINNSTAÐUR
22 FÖSTUDAGUR 10. SEPTEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Egilsstaðir | Þjóðahátíð Austfirð-
inga verður haldin á Egilsstöðum á
sunnudag. Þar er fagnað þeirri
menningarlegu fjölbreytni sem ein-
kennir nú Austurland og markmiðið
að fólk tileinki sér umburðarlyndi
fyrir ólíkum trúarbrögðum, menn-
ingu, siðum og venjum. Rauði kross
Íslands stendur fyrir hátíðinni.
María Ósk Kristmundsdóttir er
verkefnisstjóri Þjóðahátíðar. Hún
segir hana nú haldna í þriðja sinn á
Austurlandi. „Mjög margir sjálf-
boðaliðar, sveitarfélög, fyrirtæki,
stofnanir og félagasamtök leggja
hér hönd á plóginn“ segir María.
„Um hundrað manns koma að und-
irbúningi og annað eins af fólki verð-
ur með þjóðakynningar á hátíðinni,
þar sem verða tuttugu básar frá
fjórtán þjóðlöndum og í þeim er fólk
af öllu Austurlandi að kynna þjóðir
sínar.“
Kárahnjúkafólk ætlar að mæta
„Fólk er yfirleitt kátt og tilbúið til
að taka þátt“ segir María og tekur
fram að útlendingarnir í Kára-
hnjúkavirkjun hafi verið sérstaklega
jákvæðir. „Okkur gekk þó í fyrstu
illa að ná sambandi þangað því fáir
tala ensku. Við fórum nýlega í vett-
vangsferð uppeftir og fengum frá-
bærar móttökur. Hátíðin er einmitt
höfð á sunnudegi svo að mannskap-
urinn ofan úr Kárahnjúkum geti
mætt á sínum vikulega frídegi. Rúm-
lega þrjátíu þjóðir eru nú í Kára-
hnjúkum og við fengum fólk frá
Kína, Filippseyjum, Portúgal, Pak-
istan og Rússlandi til að vera með
kynningar. Erfitt reyndist að ná
sambandi við aðra og kom á óvart að
Ítalir treystu sér ekki til að vera
með. Þeir voru þó mjög duglegir við
að drífa hina áfram.“
Innflytjendur einangraðir
Hvað stöðu útlendinga á Austur-
landi varðar, segist María Ósk telja
að fólkið sé svolítið einangrað, eins
og innflytjendur almennt. „Þeir eru
settir í ákveðinn flokk af Íslend-
ingum. Eins og sérstaklega er með
Kárahnjúka og fólkið þar, að ákveð-
in afstaða er ríkjandi hjá heima-
mönnum. Þeir segjast margir ekki
nenna niður í bæ á sunnudögum
þegar fólk frá Kárahnjúkum ver þar
frídegi sínum. Það vantar svolítið
upp á að heimamenn bjóði útlend-
ingana velkomna og það er það sem
við erum að reyna að gera með Þjó-
ðahátíðinni.“
Sú spurning kemur upp af hverju
sveitarfélögin á Héraði hafi ekki lagt
meira og sýnilegra af mörkum til að
bjóða útlendinga úr Kárahnjúkum
velkomna á svæðið, t.a.m. með skoð-
unarferðum eða sérstökum við-
burðum.
„Það vantar svolítið,“ segir María
Ósk. „Það er deyfð í þessum sam-
skiptum. Auðvitað vill þetta fólk
koma og blandast okkur. Maður
fann fyrir því í vettvangsferðinni í
Kárahnjúkum. Það var svo upplífg-
andi að koma þangað og sterk við-
brögð við samskiptunum.
Nú geta gamlir og grónir heima-
menn sýnt innflytjendum góðan hug
sinn með því að mæta á Þjóðahátíð,
vera þar og spjalla við útlendingana
á opinskáan og jákvæðan hátt. Þetta
er dagurinn til að opna samskiptin
upp á gátt.“
Á laugardagskvöld verður hist í
Tjarnargarðinum á Egilsstöðum kl.
20, þar sem minnast á friðar og
bræðralags þjóða með kertafleyt-
ingu og tónlist.
Þjóðahátíð hefst svo í Íþrótta-
miðstöðinni á Egilsstöðum kl. 14 á
sunnudag og stendur fram til kl. 18.
Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
Fjölmenna á Þjóðahátíð: Erlendir starfsmann Kárahnjúkavirkjunar taka hátíðinni á Egilsstöðum opnum örmum.
Verkefnisstjóri: María Ósk Krist-
mundsdóttir stýrir Þjóðahátíð.
Mörg hundruð manns koma að undirbúningi Þjóðahátíðar Austfirðinga sem fjórtán þjóðir taka þátt í
Tækifæri til að
opna samskiptin
upp á gátt
AUSTURLAND
Ísafjörður| „Þetta tekur allan minn
tíma. Það fara allar frímínútur og
eyður í skólanum í þetta,“ segir
Gunnar Atli Gunnarsson, fimmtán
ára tónleikahaldari á Ísafirði. Hann
heldur mikla tónleika á Ísafirði á
morgun til styrktar krabbameins-
félaginu Sigurvon.
Á tónleikunum koma fram átta
hljómsveitir og söngvarar, þeirra á
meðal stúlknahljómsveitin Nylon,
Idol-sigurvegarinn Kalli Bjarna og
Búdrýgindi. Tvíhöfðarnir Jón
Gnarr og Sigurjón Kjartansson
verða kynnar.
Fékk draumastarfið
„Það gekk vel að fá listamenn. Ég
var að vinna með Nylon í sumar svo
það var ekki mikið mál að fá þær og
svo vildi til að Kalli Bjarna verður í
bænum vegna tónleika sem hann er
að fara að halda í Bolungarvík,“
segir Gunnar Atli.
Hann hefur töluverða reynslu af
skemmtanahaldi þótt hann sé aðeins
fimmtán, að verða sextán. Hann hélt
samskonar góðgerðartónleika fyrir
nákvæmlega ári, 11. september í
fyrra. Tilgangurinn er að efla
mannlífið á Ísafirði og styrkja gott
málefni. „Þetta gekk vel í fyrra. Það
komu nærri því 250 manns og allt
gekk vel. Ég vonast til að þetta
verði svipað í ár,“ segir Gunnar.
Hann skipulagði einnig tónleika
með Mínus í febrúar, eins og frægt
varð, og tónleika með Írafári. Allt
þetta gerði hann á lokaári sínu í
grunnskóla.
Þegar hann stóð í skipulagningu
tónleika síðasta vetur hringdi Einar
Bárðarson, tónleikahaldari hjá
Concert, og bauð honum starf.
Gunnar Atli hikaði ekki og starfaði
sem aðstoðarmaður Einars í sumar.
„Þarna var draumurinn að verða að
veruleika. Ekki gefast öllu betri
tækifæri til að vinna á þessu sviði,“
segir Gunnar.
Hann er nú í fyrsta bekk í
Menntaskólanum á Ísafirði og geng-
ur vel. „Þetta er frábær skóli,“ segir
hann. Gunnar hefur hug á að halda
áfram á þeirri braut sem hann er
kominn á og langar þess vegna að
læra markaðsfræði þegar hann hef-
ur lokið námi í menntaskólanum og
helst við háskóla í Bandaríkjunum.
Tónleikarnir verða í grunnskól-
anum á Ísafirði á morgun, laug-
ardag, og hefjast klukkan 20. Mið-
inn kostar 1.000 kr. Forsala er í
Frummynd á Ísafirði.
Morgunblaðið/Halldór Sveinbjörnsson
Ungur athafnamaður: Gunnar Atli Gunnarsson, fimmtán ára mennta-
skólanemi á Ísafirði, hefur töluverða reynslu af tónleikahaldi.
Heldur góðgerðartónleika á Ísafirði
Tekur allan tímann
LANDIÐ