Morgunblaðið - 10.09.2004, Side 41

Morgunblaðið - 10.09.2004, Side 41
MENNING MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 10. SEPTEMBER 2004 41 SÉRSTÆÐIR tónleikar voru haldnir í félagsheimilinu á Flúðum á fimmtudagskvöldið. Lettneski pí- anóleikarinn Dzintra Milca-Erliha spilaði nokkrar prelúdíur eftir sam- landa sinn, Garuta, flutti eigin út- setningar á lögum eftir Ragnar Kristin Kristjánsson og brá sér í hlutverk hljómsveitar með dæg- urlagasöngkonunni Þuríði Sigurð- ardóttur. Dzintra, sem á systur bú- setta hér á landi, mun vera nýkomin úr keppni í Kanada þar sem hún hlaut þriðju verðlaun. Tónleikarnir voru afar óform- legir; nokkrum borðum hafði verið komið fyrir í salnum þar sem áheyrendur gátu sötrað drykki og borðað nammi um leið og þeir hlustuðu. Fyrst á dagskrá var prel- údía eftir Garuta sem bar heitið „Lítill drengur með hörpu“, en Dzintra lék alls þrjár prelúdíur eft- ir tónskáldið. Þær voru eins konar blanda nokkurra verka úr Píla- grímsferðunum eftir Liszt og prel- údíunum op. 11 eftir Scriabin og voru með öllu lausar við frumleika. Þrátt fyrir það voru þær vel áheyri- legar og sýndu að Dzintra er prýði- legur píanóleikari. Hún hefur fagr- an tón hvort sem hún spilaði veikt eða sterkt og virtist að öðru leyti einnig hafa örugga tækni. Túlkun hennar var tilfinningarík, ágætlega uppbyggð og sannfærandi. Sama var ekki uppi á teningnum í C-dúr prelúdíunni úr fyrri bók Das Woltemperierte Klavier eftir Bach. Prelúdían byrjaði að vísu fal- lega, hún var óvenjumjúk og upp- hafin, en svo gerðist ekkert meira og var útkoman einhæf og flat- neskjuleg. Svipaða sögu er að segja um söng Þuríðar Sigurðardóttur, þó að hún hafi annars hljómþýða rödd. Söngur hennar var feimnislegur og skorti greinilega míkrófón því pí- anóið yfirgnæfði hann á köflum, sérstaklega í fyrsta laginu. Útsetn- ingar Dzintru á hljómsveitarrödd- inni voru líka misjafnar, en hins vegar voru lögin eftir Ragnar Kristin glæsilega útsett af Dzintru. Lögin, sem flest bera engin nöfn, eru ósköp áþekk mörgu öðru úr dægurlagaheiminum en eru þó smekklega gerð og sýna að Ragnar hefur töluverða hæfileika. Það besta minnti örlítið á titillag kvik- myndarinnar Titanic og hefði getað verið afar áhrifamikið ef ljósmynd- ari nokkur hefði ekki tekið starf sitt alltof alvarlega, dansað stríðsdans fyrir framan áheyrendur og skotið án afláts úr dauðafæri á píanóleik- arann. Í það heila voru þetta ekki leið- inlegir tónleikar, upp úr stendur góður píanóleikur og lífleg stemn- ing; gaman verður að fylgjast með Dzintru í framtíðinni. TÓNLIST Félagsheimilið á Flúðum Dzintra Milca-Erlicha píanóleikari, flutti tónlist eftir Garuta, Ragnar Kristin Krist- jánsson og Bach; Þuríður Sigurðardóttir söng auk þess þrjú dægurlög. Fimmtu- dagur 2. september. PÍANÓTÓNLEIKAR Jónas Sen FULLSETINN Iðnósalurinn var örugglega hljóðlátasta kaffihús á byggðu bóli þegar salonsveitin „L’amour fou“ [Ástaræði] bjóst til leiks s.l. föstudagskvöld. Virtist manni andakt áheyrenda allt að því stangast á við dægurefnið sem hljómaði margt forðum sem af- þreyjandi bakgrunnur við manna- þys veitingahúsa. Tónleikaskrá var engin, enda óþörf um verkaval al- þekktra íslenzkra sígræningja (auk tveggja laga eftir útsetjarann) – en var samt skýrlega munnkynnt til vonar og vara. Ef rétt er til getið kom hópurinn fyrst fram 2002, og heyrði ég frumraun hans þá í Reykjavík, en ekki tónleikana í fyrra. Hann mun að mestu skipaður gömlum tón- skólafélögum er hittast aðeins einu sinni á ári. Var því eftirtektarvert hvað þeim tókst yfirleitt að ná vel saman í tónlist sem gerir töluvert öðruvísi samspilskröfur en sú klassíska, einkarlega til hryn- skerpu og sveiflu. Og ekki varð betur heyrt en að bætzt hafði tölu- vert í tjáningarsarp hópsins, því að þessu sinni flaut markvert meira af „blóði, svita og tárum – að ekki sé minnzt á kraft, og jafnvel groddaskap“, eins og lýst var eftir í hittiðfyrra. Einkum í tangódeild- inni, og sérstaklega eftir hlé. Á móti vógu nokkrar útsetn- ingar Orra Hrafnkels í fyrri hluta er virkuðu fullþunnar fyrir minn smekk; fremur einhæft skrifaðar fyrir píanóið og almennt óþarflega fastheldnar á fyllingaraukandi kontralínur sem stíllinn útheimtar, ekki sízt þegar hlustað er af at- hygli. Meðal fárra undantekninga var sellólínan í niðurlagshluta Augna þinna blárra eftir Gunnar Þórðarson. Deila mátti um sam- ræmi hopp-og-hí-tempóvalsins við alkunnan turtildúfutextann (jafnvel þótt sá heyrðist ekki hér) í B-hluta Þess sem ekki má eftir Jón Múla Árnason. Þá þótti mér hljómavalið í inngangi sömu perlu svolítið mál- um blandið og allavega ekki til bóta. Einnig virtist, ef treysta má mannlegu minni, eitthvað kyndugt við meðferð laglínu og/eða hljóm- ferlis í Frostrósum Freymóðs [12. september], er endurtók sig í hverju erindi. En þó svo að annað eins og verra hafi ósjaldan heyrzt í t.a.m. poppútsetningum á klassík, sakar ekki stöku sinni að hafa hug- fast að „létta“ tónlistin á líka sinn rétt. Og líka þó að misfella í út- færslu kunni að stafa af fljótfærni frekar en ásetningi. Útsetningarnar eftir hlé voru snöggtum bitastæðari. T.d. Sveitin milli sanda, Austurstræti (Þórhall- ur Sigurðsson), Maður hefur nú (Gunnar Reynir Sveinsson) og safarík tango nuevo meðferð Hrafnkels á Þér og mér (Gunnar Þórðarson). Af tveim „salon“- frumsmíðum Hrafnkels fór mest bragð af Blúsuðum tangó í svip- uðum Piazzolla-anda. Við Tjarn- arbakkann (frumfl.) sagði mér minna, þó að ekki stæði þar á eld- heitum undirtektum áheyrenda frekar en endranær. TÓNLIST Iðnó Lög eftir Sigfús Halldórsson, Jón Múla Árnason, 12. september, Hrafnkel Orra Egilsson o. fl. í útsetningum Hrafnkels Orra Egilssonar. Salonkvintettinn L’amour fou (Tinna Þorsteinsdóttir pí- anó, Hrafnhildur Atladóttir fiðla, Guðrún Hrund Harðardóttir víóla, Hrafnkell Orri Egilsson selló og Gunnlaugur T. Stef- ánsson kontrabassi). Föstudaginn 3. september kl. 21. SALONTÓNLEIKAR Ríkarður Ö. Pálsson www.thjodmenning.is

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.