Morgunblaðið - 21.01.2005, Blaðsíða 10
10 FÖSTUDAGUR 21. JANÚAR 2005 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Hvað gerðist eiginlega
á hafnarsvæði borgarinnar?
Hvað varð um
öll húsin og allt lífið?
Eyðimörkin
í Reykjavík
á laugardag
SJÖ fyrrverandi ráðherrar sóttu um eftirlaun úr
ríkissjóði á síðasta ári. Hluti þeirra hefði átt rétt
til eftirlauna sökum aldurs samkvæmt eldri lög-
um um eftirlaun ráðherra, en hinir öðluðust
þann rétt með nýjum lögum sem sett voru í lok
árs 2003 og tóku gildi í byrjun árs 2004, en þar
var réttur ráðherra og alþingismanna til eftir-
launa rýmkaður umtalsvert frá því sem áður
var. Eftirlaunarétturinn fellur ekki niður þó um
launatekjur sé að ræða annars staðar frá, en
skerðist samkvæmt ákveðnum reglum séu
menn yngri en 65 ára.
Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri
Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, en sjóðurinn
hefur umsjón með greiðslu lífeyrisins fyrir hönd
ríkissjóðs, sagði aðspurður að það væri eins með
þessar lífeyrisgreiðslur og aðrar, að sækja
þyrfti um þær til þess að fá þær. Launatekjur
frá ríki eða öðrum aðilum skertu þessar
greiðslur sem næmi 6% fyrir hvert ár sem vant-
aði upp á 65 ára aldur og sú skerðing væri óháð
þeirri launafjárhæð sem um væri að ræða.
„Nýju lögin rýmkuðu réttindi til eftirlauna á
þann veg að þeir sem hafa verið lengi í ráðherra-
embætti geta farið á lífeyri fyrr en áður.“ Hann
sagði að lífeyrisþegum hefði fjölgað á síðasta ári
í kjölfar rýmkaðra reglna. Sjö fyrrverandi ráð-
herrar hefðu byrjað á lífeyri á síðasta ári og hluti
þeirra hefði hvort eð er átt rétt til töku lífeyris
samkvæmt eldri lögum vegna aldurs.
Samkvæmt eldri lögunum gátu fyrrverandi
ráðherrar hafið töku eftirlauna við 65 ára aldur
og ekki fyrr, en samkvæmt nýju lögunum geta
þeir hafið lífeyristöku mun fyrr að ákveðnum
skilyrðum uppfylltum. Þannig geta þeir hafið
eftirlaunatöku ef þeir eru fullra 60 ára þegar
þeir hætta sem ráðherrar. Hafi þeir einhvern
tíma gegnt ráðherraembætti lengur en sex ár
miðast eftirlaunaaldurinn einnig við 60 ár og til
viðbótar kemur sá tími sem þeir hafa gegnt
embætti umfram sex ár. Þó getur lífeyristaka
aldrei hafist fyrr en við 55 ára aldur. Svipaðar
reglur gilda um alþingismenn. Laun fyrir önnur
störf koma ekki í veg fyrir lífeyrisgreiðslur úr
ríkissjóði samkvæmt lögunum, eins og að ofan
greinir, en skerða þær um 6% fyrir hvert ár sem
vantar upp á 65 ára aldur. Engu skiptir hversu
há launin eru og eftir 65 ára aldur eru greiðsl-
urnar óskertar þó svo um laun sé að ræða.
Sérstakur réttur myndaður
Um þetta segir meðal annars í greinargerð
með frumvarpinu: „Myndaður er sérstakur rétt-
ur fyrir alþingismenn og ráðherra, sem gegnt
hafa forustuhlutverki í stjórnmálum um langan
tíma, til að hverfa af vettvangi þjóðmála og fara
á eftirlaun fyrr en annars er heimilt í stað þess
að leita sér starfs á vinnumarkaði. Eru mörkin
sett við alþingismenn sem setið hafa 16 ár hið
minnsta á Alþingi og ráðherra sem gegnt hafa
embætti í a.m.k. sex ár. Ljóst er að um tiltölu-
lega fáa einstaklinga er að ræða miðað við þann
fjölda sem nýtur lífeyrisgreiðslna. Jafnframt
eru sett ákvæði sem skerða þessar greiðslur
fram að 65 ára aldri ef sá sem þeirra nýtur tekur
við öðru starfi. Er m.a. haft í huga að þessi skip-
an mála geti auðveldað eðlilega endurnýjun í
stjórnmálum og dregið úr þeirri tilhneigingu að
fyrrverandi forustumenn á þeim vettvangi sæki
í embætti í stjórnkerfinu til þess að ljúka starfs-
ferli á viðunandi hátt.“
Samkvæmt nýju lögunum geta eftirlaun ráð-
herra og alþingismanna ekki orðið hærri en sem
nemur 70% af þingfararkaupi og ráðherralaun-
um. Þingfararkaupið er tæpt 451 þúsund frá síð-
ustu áramótum og ráðherralaun eru 358 þúsund
þar til viðbótar, nema forsætisráðherralaun sem
eru 456 þúsund kr. Ráðherralaunin eru því um
809 þúsund kr. á mánuði.
Ráðherra ávinnur sér rétt til 6% af ráðherra-
launum fyrir hvert ár í starfi sem slíkur og al-
þingismaður ávinnur sér 3% af þingfararkaupi.
Svo dæmi sé tekið hefur sá sem hefur verið ráð-
herra í átta ár og þingmaður í 20 ár áunnið sér
rétt til 48% af ráðherralaunum og 60% af þing-
fararkaupi. Hann getur fengið eftirlaun sem
ráðherra 58 ára gamall og fær þá 270 þúsund í
eftirlaun sem þingmaður og 178 þúsund í eft-
irlaun sem ráðherra eða samtals 448 þús. kr. Ef
hann er í launuðu starfi og sextugur að aldri er
skerðingin 30% eða sem nemur 134 þúsundum
og því með 314 þúsund í eftirlaun úr ríkissjóði.
Sjö fyrrverandi ráðherrar sóttu
um eftirlaunagreiðslur í fyrra
Eftirlaunaréttur fellur ekki niður
þó um launatekjur sé að ræða
ÞRÍR fulltrúar frá ítölskum verka-
lýðsfélögum og yfirmaður Alþjóða-
sambands byggingamanna skoðuðu
Kárahnjúkavirkjun í gær, bæði verk-
staði og aðbúnað starfsmanna. Voru
þeir í fylgd yfirmanna Impregilo á Ís-
landi og Ítalíu og yfirtrúnaðarmanns
íslensku verkalýðsfélaganna.
Veður var vont á Fljótsdalsheiði og
Vesturöræfum í gær og má segja að
mennirnir hafi séð aðstæður við
Kárahnjúka í réttu ljósi þegar vetr-
arveður þar gerast válynd.
Sendinefndin kom hingað til lands
til að kanna hvort ýmis ákvæði samn-
ings sem gerður var við Impregilo í
nóvember sl. væru uppfyllt af fyrir-
tækinu. Inni í samkomulaginu eru
m.a. almenn ákvæði um að lágmarks-
kjör, réttur manna til að vera í stétt-
arfélagi og fara í vinnudeilur séu virt.
Jafnframt eru þar ákvæði um aðbún-
aðarmál. Heimsóknir eru venju-
bundnar á vinnusvæði fyrirtækja sem
slíkir samningar eru gerðir við, m.a.
áður við Ikea og verktakafyrirtækin
Hochtief og Skanska. Eftirlitsaðilarn-
ir fjórir greiða sjálfir ferðir sínar til og
frá landinu, en Impregilo greiðir
uppihald fyrir þá hérlendis.
„Ferðin var fyrst og fremst farin til
að þessir aðilar gætu kynnt sér
ákveðna grundvallarþætti í aðbúnaði,
m.t.t. til samnings sem þeir gerðu við
Impregilo,“ sagði Oddur Friðriksson,
yfirtrúnaðarmaður íslensku verka-
lýðshreyfingarinnar við virkjunina, í
samtali við Morgunblaðið. Oddur fór
yfir húsakost, frístundaaðstöðu og
annan aðbúnað með sendinefndinni,
sem aðgætti hvort ástandið væri í
samræmi við það samkomulag sem
gert var við Impregilo sl. haust.
„Komu þessarar nefndar er ekki
hægt að tengja beint inn á deilur ís-
lensku verkalýðssamtakanna við
Impregilo,“ segir Oddur. „Þeir voru
ekki hér til að verða þátttakendur í
þeim eða taka sér stöðu. Ég vænti
þess hins vegar að fá staðfestingu á
því hvort aðbúnaðarmál Impregilo
séu í lagi eða ekki og að heimsóknin
leiði eitthvað gott af sér.“
Marion Hellman, sem stýrir Al-
þjóðasambandi byggingamanna í
Genf, sagði við Morgunblaðið að sér
litist ekki illa á en gerði sér ljóst að að-
stæður væru torveldar að vetrarlagi.
Fulltrúum ítölsku verkalýðsfélag-
anna hraus hugur við veðrinu og töldu
vetrarríkið gera mönnum erfitt um
vik í vinnu, einkum við stífluna sjálfa.
Þeir vildu ekki tjá sig um aðbúnaðinn
en spurðu í ferðinni margra spurn-
inga og komu með athugasemdir.
Erlend verkalýðsfélög skoðuðu Kárahnjúkavirkjun
Aðbúnaður á verkstað og
í vinnubúðum kannaður
Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
Erlendu gestirnir fengu m.a. lestarferð inn eftir Valþjófsstaðarfjalli að
risabornum í aðgöngum 1, fegnir að komast inn úr stórhríðinni.
HÆSTIRÉTTUR hafnaði í gær
bótakröfu manns sem taldi sig hafa
sætt gæsluvarðhaldi að ósekju á
meðan lögreglan í Reykjavík rann-
sakaði stórfellda líkamsárás sem átti
sér stað á heimili tveggja sona hans á
Skeljagranda aðfaranótt 2. ágúst
2002. Maðurinn var í upphafi grun-
aður um árásina ásamt sonum sínum
en málið gegn honum var síðar fellt
niður hjá lögreglu.
Hæstiréttur komst að þeirri nið-
urstöðu að maðurinn hefði átt þátt í
að stuðla að gæsluvarðhaldinu með
því að breyta stöðugt framburði sín-
um um veigamikil atriði sem tengd-
ust þætti hans í líkamsárásinni. Jón
Steinar Gunnlaugsson skilaði sérat-
kvæði í Hæstarétti en komst að
sömu niðurstöðu og meirihlutinn.
Gengið lengra í séráliti
Meirihluti Hæstaréttar vitnar til
67. gr. stjórnarskrárinnar um rétt til
bóta hafi maður verið sviptur frelsi
að ósekju. Rök standi til þess að
maður sem hafi þurft að sæta svipt-
ingu á frelsi sínu í þágu almanna-
hagsmuna geti átt rétt á bótum frá
ríkinu.
Jón Steinar gengur lengra í túlkun
sinni og í sérálitinu segir hann aug-
ljós rök vera fyrir bótarétti frá rík-
inu. Skilyrði b-liðar í 176. gr. laga nr.
19/1991 um meðferð opinberra mála
geti leitt til þess að sakborningi verði
synjað um bætur fyrir það eitt að
nægilegt tilefni teljist hafa verið til
þeirra aðgerða sem bótakrafa bygg-
ist á. Ákvæðið gangi þannig lengra í
að skerða bótarétt sakbornings en
heimilt er samkvæmt 5. mgr. 67. gr.
stjórnarskrárinnar. Á hinn bóginn sé
ljóst að sakborningur geti sjálfur
hafa valdið eða stuðlað að því að til
rannsóknaaðgerða var gripið gegn
honum. Sé þá gert ráð fyrir í 175. gr.
laga nr. 19/1991 að bætur til hans
verði lækkaðar eða felldar niður.
Ekki verði talið að ákvæði með þessu
efni fari að neinu leyti í bága við
stjórnarskrána.
Dóminn kváðu upp Pétur Kr. Haf-
stein og Haraldur Henrysson, fyrr-
verandi hæstaréttardómarar, auk
Jóns Steinars Gunnlaugssonar.
Hilmar Ingimundarson hrl. flutti
málið f.h. mannsins en Guðrún Mar-
grét Árnadóttir hrl. var til varnar
fyrir íslenska ríkið.
Bótakröfu vegna gæsluvarð-
halds var hafnað í Hæstarétti