Morgunblaðið - 12.03.2005, Qupperneq 47
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 12. MARS 2005 47
MINNINGAR
✝ Sigrún ElísabetÁsgeirsdóttir
fæddist í Reykjavík
14. maí 1956. Hún
lést á Landspítala –
háskólasjúkrahúsi 4.
mars síðastliðinn.
Foreldrar hennar
voru Ásgeir Ólafsson
forstjóri og Dagmar
Gunnarsdóttir, sem
bæði eru látin. Systk-
ini Sigrúnar eru
Ólafur, Ásgeir og
Rannveig. Eftir
landspróf hélt Sigrún
til stutts náms í
Bandaríkjunum. Hún vann ýmis
skrifstofustörf, m.a. hjá ritsíman-
um, Brunabótafélagi Íslands og
Kópavogsbæ.
Sigrún giftist hinn 5. júlí 1986
Theodóri Árnasyni frá Rauðu-
skriðu II í Aðaldælahreppi, f. 10.
nóvember 1937. Börn þeirra eru
Árni Þór, f. 8. október 1986, sam-
býliskona Katrín Þóra Kruger og
Dagný, f. 8. október 1986, sam-
býlismaður Heiðar Kristjánsson.
Fyrir átti Sigrún
soninn Vilhjálm Ás-
geir, f. 13. maí 1980,
sambýliskona Gabr-
iella Oddsdóttir. Þau
eiga dótturina Lilju
Matthildi. Fyrir á
Vilhjálmur soninn
Mikael Mána og
Gabriella dótturina
Ester Ingu.
Sigrún var fulltrúi
svæðisskrifstofu
fatlaðra á Norðaust-
urlandi um árabil.
Hún var lengi skrif-
stofustjóri Tónlistar-
skóla Húsavíkur og starfaði jafn-
framt á skrifstofu Norður-
siglingar við móttöku- og
skrifstofustörf. Hún var fremst í
flokki við endurvakningu skátafé-
lagsins Víkings á Húsavík og var
sæmd Þórshamrinum fyrir þátt
sinn í uppbyggingarstarfi, fram-
göngu og fórnfýsi.
Útför Sigrúnar fer fram frá
Húsavíkurkirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 14.
Mig langar til að minnast mömmu
með nokkrum orðum.
Hún var ekki hrædd við að segja
sína skoðun, þótt að það færi fyrir
brjóstið á öðrum, því af því hafði hún
lúmskt gaman. Hún sagði oft að
hennar takmark í lífinu væri að
verða leiðinlegt gamalmenni sem
kæmi í heimsókn, kvartaði undan
matnum o.s.frv. Mamma hafði rangt
fyrir sér einu sinni á ári, punktur.
Mamma hafði augu í hnakkanum,
það var sama hvernig manni leið,
hún vissi það nákvæmlega. Það var
svo gaman að sitja og spjalla því hún
hafði ráð við öllu. Hún stóð fast á
sínu og ef henni líkaði ekki eitthvað
þá fengu allir að vita af því. Hún tók
svo skemmtilega á málum og af
miklum húmor t.d. veikindum sín-
um. Sem dæmi um kaldhæðni henn-
ar var að þegar hún greindist með
alvarlegan sjúkdóm í beinum árið
2000, sagðist hún þurfa að hætta í
ballett því það hefði sést á myndum
að hún væri illa innrætt. Þannig
beitti hún húmor til að láta okkur
líða betur. Hún var vinur vina sinna
og hugsaði um aðra áður en hún
hugsaði um sig. Hún var líka svo fal-
leg að innan sem utan. Hún var
besta sál sem ég veit. Hún hafði upp-
lifað og gengið í gegnum meira en
margt fólk á níræðisaldri. Hún var
mjög víðsýn og opin fyrir öllu og öll-
um. Ég held að þrjóska, húmor og
styrkur hafi fleytt henni áfram í lífi
og baráttu. Ég sakna hennar og
elska endalaust. Hún var ekki bara
mamma heldur besta vinkona mín.
Hún lifir á öðrum stað og í okkur
sem þekktum hana – heldur áfram
að fylgjast með og hugsa um okkur.
Ég kveð mömmu mína með tár í
augum en bros á vör því við eigum
um hana góðar og fallegar minning-
ar sem munu ávallt fylgja okkur. Við
hittumst aftur.
Ég elska þig meira.
Þín
Dagný.
„Because you’re mine, I walk the
line!“... ég var ekki há í loftinu þegar
ég lærði þetta viðlag og söng hástöf-
um fyrir framan grammófón systur
minnar. Þrátt fyrir ítrekaðar til-
raunir til að halda mér í skefjum frá
herbergi sínu, tókst mér að laumast
inn og skella nálinni á plötuna.
Johnny Cash var í uppáhaldi. Dreif
mig í klossahælaskóna, sem ég mátti
ekki fara í, og makaði á mig glossi.
Man reyndar ekkert eftir skömm-
um, en hins vegar betur hvað við
höfum oft hlegið að þessu síðan af
væntumþykju og þrá eftir gömlum
dögum. Á þessum tíma var ást mæld
í því sem mér, litlu systur, þótti best
að borða – magni sætsúpu. Sigrún
minntist þess oft þegar hún spurði
mig hversu mikið mér þætti vænt
um hana og fékk svarið: „ég elska
þig eins og 10 tunnur af sætsúpu“ og
það er hverju orði sannara. Texta-
brot á vel við um okkar samveru,
„mitt er þitt og þitt er mitt“, við
deildum gleði og sorgum, stunduð-
um ráðgjöf um síma, ræddum þjóð-
mál og stöppuðum stálinum í hvor
aðra. Börnin okkar tengdust okkur
sem tveimur mæðrum, mynduðu
vinabönd og eru lánsöm að hafa
hvert annað. Fjarlægðir skipta þar
engu.
„Hvað er merkilegt við sumarfrí í
útlöndum, þar eru bara pöddur,“
sagði hún þegar fjölskylda mín
skipulagði sumarfrí. Við enduðum
alltaf á Húsavík. Við vitum líka að
hringvegurinn nær bara til Húsavík-
ur og rökin voru einföld; þar var
ferskasta lambakjötið, grænust úti-
vistarsvæðin og besta frænkan.
Frænkan sem vildi láta malbika
garðinn sinn svo hún losnaði við að
slá hann og klippa. Þó segja megi að
tíminn hefði mátt vera meiri var
hann engu að síður vel nýttur. Á síð-
asta ári stofnuðum við nefndina
„Tveir út að borða“. Við borðuðum,
ferðuðumst í huga til fjarlægra
landa og Sigrún gat um stund
gleymt erfiðum veikindum sínum.
Nú er langri baráttu lokið, nefndin
„Tveir út að borða“ hefur lokið störf-
um, minninguna geymi ég. Sigrún
lifði fyrir börnin sín og lifir nú áfram
í þeim þar sem finna má arfleifð
hennar; heiðarleika, seiglu og húm-
or. Það eru mannkostir bestir.
Rannveig systir.
Mig langar að minnast Sigrúnar
mágkonu minnar með nokkrum orð-
um. Hún lést langt fyrir aldur fram,
eftir hetjulega baráttu við krabba-
mein. Sú barátta hófst fyrir tæpum
tólf árum. Síðustu fimm árin hafa
verið erfiðust, með tíðum ferðum
suður í meðferðir. Ég gat ekki annað
en undrast styrk hennar og æðru-
leysi og alltaf var stutt í húmorinn.
Ég á eftir að sakna morgunstund-
anna okkar með kaffi, ristuðu brauði
og spjalli.
Ég minnist alls sem við brölluðum
saman svo sem árleg sláturgerð,
laufabrauðsgerð svo og sameiginleg-
ir jóladagar og gamlárskvöld fjöl-
skyldnanna í næstum tuttugu ár.
Elsku Sigrún, hjartans þakkir
fyrir stundirnar okkar.
Ég bið góðan Guð að vera með
bróður mínum, börnunum og fjöl-
skyldunni allri.
Hjördís.
Þegar ég hitti Siggu fyrst var hún
að sækja mig og Rannveigu konuna
mína, sem þá var kærasta mín, á
Umferðarmiðstöðina þegar við vor-
um að koma úr Þórsmörk. Hún ók
um á brúnni lödu sem var að sögn
mikill kostagripur. Þó ég hafi dregið
það í efa vakti frekar furðu mína
eitthvað sem fór í gang þegar syst-
urnar hittust, einhver furðulegur
húmor sem ég hef ekki alveg fengið
botn í enn þann dag í dag, þrátt fyrir
að liðnir séu tæpir tveir áratugir síð-
an. Okkar samskipti voru náin og
góð og oft þegar Sigga var að
hringja í konuna mína og hún var
ekki heima, enduðum við með að tala
um heima og geima. Sigga bjó síðari
ár hinum megin á landinu eftir að
hún kynntist Theodór bónda, mann-
inum sínum, en þær systurnar létu
það ekki aftra sér í að halda sam-
bandi, því þær töluðust við á hverj-
um degi í síma. Yfirleitt er það gleði-
efni þegar símreikningar lækka en
það verður af heldur dapurlegu til-
efni núna, því konan mín er ekki
bara að sjá á eftir systur heldur
einnig nánasta trúnaðarvini.
Sigga var ákaflega gestrisin og til
marks um það reyndum við fjöl-
skyldan að fara hringveginn nokkr-
um sinnum, en festumst iðulega í
klóm gestrisni Siggu og eyddum af-
gangi sumarfrísins hjá henni og fjöl-
skyldu og áttum þar góðar stundir.
Oft þegar verið er að minnast fólks
er það kennt við það sem það gerði
t.d. Jón forstjóri eða Grímur dúkari.
Þrátt fyrir að Sigga hafi fengist við
ýmislegt um ævina var hún í mínum
huga Sigrún móðir, því börnin voru
hennar ástríða og voru ávallt í fyrsta
sæti. Ef hún var ekki nálægt þeim
hélt hún utan um þau í gegnum sím-
ann og lét þau gjarnan vita hvað
þeim væri fyrir bestu.
Sigga barðist við illvígan sjúkdóm
í fjöldamörg ár, en ég er viss um að
hún stóð þau síðustu á þrjóskunni
einni saman til að sjá börnin sín
verða fullorðin og komast í góðan
farveg. Um leið og ég votta vinum og
vandamönnum Sigrúnar samúð,
kveð ég hana með þeim síðustu orð-
um sem hún kvaddi mig uppi á spít-
ala, „við sjáumst“.
Karl Jóhann.
Og skín ei ljúfast ævi þeirri yfir,
sem ung á morgni lífsins staðar nemur,
og eilíflega, óháð því, sem kemur,
í æsku sinnar tignu fegurð lifir?
Sem sjálfur Drottinn mildum lófum lyki
um lífsins perlu í gullnu augnabliki.
(Tómas Guðmundsson.)
Nú þegar birta vorsins er fram-
undan slokknaði á lífsljósi Sigrúnar,
rétt á miðri leið hennar í gegnum líf-
ið. Það var fagur morgunn, sól í heiði
þegar hún kvaddi þetta jarðlíf eftir
langa og hetjulega baráttu við
krabbamein. Allt undir það síðasta
gat Sigrún gantast við okkur um líf-
ið og dauðann en hún bjó yfir hisp-
urslausri kímnigáfu og gat á stund-
um gert mann orðlausan. Nú þegar
hún hefur kvatt okkur viljum við
þakka samveruna. Við vitum að vel
verður tekið á móti henni, hlýir sól-
argeislar báru hana til himins.
Teddi, Villi, Árni Þór, Dagný,
tengdabörn, barnabörn, systkini og
vinir. Megi minning Sigrúnar lýsa
ykkur veginn um alla framtíð.
Sverrir, Helena og börn.
Það er alltaf reiðarslag þegar fólk
á besta aldri er hrifið burt frá fjöl-
skyldu og vinum. Stórt skarð er nú
höggvið þegar Sigrún Ásgeirsdóttir,
frábær móðir, eiginkona, systir og
vinur, er hrifin á brott úr tilvist okk-
ar. Söknuður og missir er mikill en
minningin lifir og við yljum okkur
við yndislegar minningar sem eng-
inn getur frá okkur tekið.
Kæra vinkona, við kynntumst
þegar við vorum báðar innan við tví-
tugt og unnum á Landspítalanum,
við vorum gangastúlkur eins og það
var kallað þá. Það má segja að við
höfum kynnst í gegnum hláturinn.
Við hlógum að öllu og vorum vissar
um það að við yrðum fjörgamlar
hlæjandi kerlingar á elliheimilinu.
Á þessum árum leigði ég herbergi
í bænum og var jafnframt heima-
gangur á heimili þínu og foreldra
þinna. Ég var alltaf velkomin á það
heimili og oftar en ekki sátum við
löngum stundum þegar allir voru
farnir að sofa og saumuðum út. Það
var okkar afþreying að bródera og
hlusta á Johnny Cash. Þú kenndir
mér að hlusta á tónlist hans og alltaf
þegar ég heyri lög hans spiluð rifjast
upp gamlar minningar frá okkar
bestu stundum og mér verður hlátur
í huga. Þegar ég var svo að fara
heim á nóttunni máttirðu ekki til
þess hugsa að ég færi gangandi, þó
svo leiðin væri ekki löng, heldur
pantaðirðu leigubíl fyrir mig og ég
sat eins og drottning í hlýjum bíln-
um þessa stuttu leið heim.
Við fórum mikið í bíó og biðum
stundum með óþreyju eftir því að
nýjar myndir kæmu í bíóhúsin.
Ég minnist þess einnig þegar þú
komst með mér austur í Egilsstaði
til foreldra minna og við fórum á
hestbak upp í Hallormsstaðarskógi
með föðurbróður mínum og við rugl-
uðumst á hestum, eða þegar þú vild-
ir senda systir minni sængur fyrir
kýrnar, þá var nú mikið hlegið.
Það var líka oft þannig að þegar
við vorum að hringja í hvor aðra þá
var á tali, við vorum báðar að
hringja, ég til þín og þú til mín.
Elsku Sigrún mín, vinskapur okk-
ar er dýrmætur og ég gleðst yfir öll-
um þeim góðu stundum sem við átt-
um saman, ég er ríkari manneskja
að hafa fengið að eiga þig sem vin-
konu.
Eftir að við stofnuðum heimili og
fórum að eiga börn leið stundum
langur tími á milli þess sem við töl-
uðumst við eða hittumst, en það var
allt í lagi, þegar við hittumst var eins
og við hefðum hist síðast í gær.
Þannig var það alltaf.
Vágesturinn barði að dyrum hjá
þér kornungri konunni en þú barðist
hetjulega í mörg ár við þennan ill-
ræmda sjúkdóm, sem að lokum sigr-
aði.
Elsku Teddi, Dagný, Árni Þór,
Villi og fjölskylda, ég votta ykkur
mína dýpstu samúð og vona að góð-
ur guð styrki ykkur í sorginni.
Kveðja,
Sólveig Einarsdóttir.
Leiðir okkar lágu saman sumarið
1994 þega Sigrún flutti til Húsavík-
ur. Þótt við værum að hittast í fyrsta
sinn, var eins og við hefðum þekkst
alla ævi. Við gátum setið og spjallað
tímunum saman dag eftir dag. Við
áttum svo ótrúlega margt sameig-
inlegt. Næstu tíu ár leið ekki sá dag-
ur að við ekki hittumst eða töluðum
saman í síma.
Það var einmitt í kaffispjalli í eld-
húsinu hjá Sigrúnu sem hugmyndin
að skátunum vaknaði. Þar sem
strákarnir okkar fundu sig ekki í fót-
bolta eða öðrum íþróttum, fannst
okkur nauðsynlegt að hafa einhvern
annan félagsskap í boði hér í bæn-
um, eins og t.d. skáta. Það var held-
ur ekkert verið að sitja við orðin
tóm, Sigrún hringdi með það sama í
Óla bróður, þá skátahöfðingja, og
þar með var boltinn kominn af stað.
Heilan vetur sátum við á undirbún-
ingsfundum með nokkrum kjarna-
konum. Í byrjun árs 1995 var
Skátafélagið Víkingur svo endur-
vakið á Húsavík, og var Sigrún fé-
lagforingi fyrstu árin.
Þegar Sigrún greinist svo aftur
með krabbamein sumarið 2000, var
ekkert verið að leggja árar í bát.
Hún skyldi berjast og aldrei gefast
upp. Þannig var hún bara. Húmor-
inn var alltaf á sínum stað, og það
var stutt í hláturinn. Við þurftum oft
ekki nema að horfa hvor á aðra til að
vita hvað var verið að hugsa. Enda
töluðum við oft um að það hefði ekki
verið nein tilviljun að við skyldum
hittast, og við værum örugglega
systur í anda.
En það kom að því, mín kæra vin-
kona, að þú varðst að láta undan og
kvaddir þennan heim, örþreytt á sál
og líkama.
Elsku Sigrún mín, þakka þér fyrir
allt, samband okkar var einstakt og
því gleymi ég aldrei.
Svanhvít Jóhannesdóttir.
Fyrir rúmlega tíu árum birtist
auglýsing í bæjarblaði á Húsavík
þar sem boðað var til fundar áhuga-
manna um skátastarf. Þetta vakti
forvitni, ljúfar minningar frá æsku
og unglingsárum og löngun til að
kanna málið. Fleiri höfðu fallið fyrir
auglýsingunni og þarna sátum við
nokkrar konur og hlustuðum á Sig-
rúnu tala af eldmóði um hvað gaman
væri að endurvekja skátastarf á
Húsavík.
Hugmyndin kom yfir kaffibolla
hjá nágranna Sigrúnar, henni
Svönu, og Sigrún lét bara til skarar
skríða. Við heilluðumst af kraftinum
í Sigrúnu og eftir þennan fund eydd-
um við mörgum dögum, helgum og
kvöldum saman. Þegar aðrar konur
á okkar aldri sátu saman í sauma-
klúbb, sungum við, fórum í leiki,
hnýttum hnúta, súrruðum og lásum
okkur til í skátafræðum. Eitthvað
höfðum við litla trú á sjálfum okkur í
byrjun, en Sigrún tók af skarið og
pantaði „súperskáta“ að sunnan og á
skátanámskeið fórum við.
Eftir marga fundi hjá Sigrúnu og
nokkrar „súperskáta“-heimsóknir
var stóra stundin runnin upp.
Fyrstu skátarnir um langa hríð voru
vígðir á Húsavík, allt rígfullorðnar
konur. Sigrún breytti þarna lífi og
tilveru okkar allra, mikið rosalega
var þetta gaman. Við urðum flokks-
foringjar og sveitarforingjar og Sig-
rún sjálfkjörinn félagsforingi.
Skátafélagið Víkingur var endur-
vakið og fleiri börn en okkur hafði
órað fyrir vildu taka þátt í þessu æv-
intýri.
Húsavík breytti um svip. Sumar-
dagurinn fyrsti varð skátadagur,
skátamessa og skátakaffi á eftir. 17.
júní varð öðruvísi, skátar gengu með
fánaborg á undan skrúðgöngunni og
settu mark sitt á skemmtiatriðin.
Kvöldvökur, ratleikir, útilegur og
skátamót urðu fastir liðir í lífi
margra Húsvíkinga og eru enn í dag,
þökk sé Sigrúnu.
Sigrún var engum lík, óendanlegt
baráttuþrek, sjálfstæði og leiftrandi
húmor einkenndu allt hennar líf.
Þessir eiginleikar nýttust henni vel í
margra ára baráttu við þann sjúk-
dóm sem nú hefur lagt hana að velli.
Ég er þakklát fyrir þann stutta spöl
sem við áttum samleið um lífsins
veg. Fjölskyldunni sendi ég mínar
innilegustu samúðarkveðjur.
Stefana Gylfadóttir.
Óbilandi kjarkur, æðruleysi og
þrautseigja er lýsandi fyrir Sigrúnu
í hennar veikindahremmingum und-
anfarin ár. Hún var aðdáunarverð í
baráttu fyrir lífi sem var henni samt
á margan hátt erfitt. Hún var
skemmtileg og víðlesin eins og hún
átti ættir til. Hún var akkur fyrir þá
vinnuveitendur sem hún starfaði hjá
enda mikill vinnuþjarkur. Það eru
þung örlög að vera kippt út úr lífinu
að stórum hluta þegar andi og
starfsorka fylgjast ekki að. Hún
hafði jákvæða sýn á lífið sem auð-
veldaði henni tilveruna um margt,
húmorinn fleytti henni langt. Hún
var mikill vinur barnanna sinna
þriggja sem hún var mjög stolt af.
Ég votta fjölskyldunni allri mínar
innilegustu samúðarkveðjur, Villa,
Árna Þór, Dagnýju og Tedda. Einn-
ig sendi ég Rannveigu, systur Sig-
rúnar, og fjölskyldu samúðarkveðj-
ur en hún var kletturinn í lífi
Sigrúnar hér syðra.
Minning Sigrúnar lifir.
Ragnhildur.
SIGRÚN ELÍSABET
ÁSGEIRSDÓTTIR
Við viljum með þessum
orðum minnast þessarar frá-
bæru konu sem Sigrún var.
Hún bar af varðandi dugnað
og styrk og hafði þann ein-
staka hæfileika að láta fólki
líða vel í návist sinni. Hún
hafði frábæra kímnigáfu og
sá alltaf broslegu hliðarnar á
því sem að gerðist. Við erum
innilega þakklát fyrir að hafa
fengið að kynnast henni.
Agnes, Ágúst, Birgitta,
Björgvin Bessi, Katrín,
Helga Bryndís, Rebekka
og Þorgrímur.
Elsku mamma og tengda-
mamma.
Elskum þig „jafnmikið“.
Sjáumst.
Vilhjálmur og Gabriella.
HINSTA KVEÐJA
Fleiri minningargreinar um Sig-
rúnu Elísabetu Ásgeirsdóttur bíða
birtingar og munu birtast í blaðinu
næstu daga. Höfundar eru: Hörður
Sigurbjarnason og Katrín Þóra.