Morgunblaðið - 05.06.2005, Side 8

Morgunblaðið - 05.06.2005, Side 8
8 | 5.6.2005 A nna Dóra Hermannsdóttir jógakennari og Örn Arngrímsson höfuð- beina- og spjaldhryggjarþerapisti hafa hreiðrað um sig í hrikalegu og fögru umhverfi Skíðadals á Tröllaskaga. Þar reka þau gistiheimili og ferðaþjónustu, nánar tiltekið á Klængshóli, sem er ættarjörð Önnu Dóru. Á Klængshóli er gisting fyrir ellefu manns, en líka er hægt að tjalda við bæjar- lækinn sem rennur í gegnum hlaðið. „Foreldrar mínir bjuggu hér fjárbúi alla sína tíð og þegar þau féllu frá ákváðum við að kaupa jörðina. Klængshóll er innsti bær í Skíðadal, hér er því friðsælt og eng- in gegnumferð. Hér fæddist ég og ólst upp. Svo fannst mér ég þurfa að fara burtu, eins og gengur. Ég þvældist um veröldina og vann og nam í 21 ár, en var reyndar leiðsögumaður og landvörður á hálendinu á sumrin, oftast nær. Þegar ég kom hing- að aftur, skildi ég að Skíðadalur var draumastaðurinn,“ segir Anna Dóra. Jökull Bergmann fjallaleiðsögumaður, sonur Önnu Dóru, byrj- aði að koma með hópa í skíðaferðir norður á Tröllaskaga vorið 1999 og síðan þá hafa fleiri leiðsögumenn áttað sig á því hversu mikla möguleika svæðið hefur til fjallaskíðamennsku, að hennar sögn. Hóparnir koma frá Frakklandi, Ítalíu og Bretlandi og gista á Klængshóli. „Við bjóðum þeim upp á íslenskan mat úr íslensku hráefni, mönnum finnst þeir bara vera í fjallaskála og skemmta sér rosalega vel. Það eru fyrst og fremst Frakkar sem koma hingað og fljótlega fór ferðaskrifstofan sem flytur hópana fram á að fá að koma með fólk á sumrin líka. Við ákváðum að gefa því séns í hitteð- fyrra og prófa að vera hérna yfir sumartímann. Þegar maður var búinn að vera eitt sumar og byrjaður að rækta sitt eigið grænmeti, ganga um, safna jurtum og fara með fólk í gönguferðir, varð bara ekki aftur snúið. Umhverfið er æðislegt og gefur manni mikla orku. Þetta var því ekki ákveðið fyrirfram, heldur gerðist sjálfkrafa. Við lög- uðum til í húsinu og gerðum það aðgengilegra, söfnuðum saman gömlu dóti, keypt- um góð rúm og góða, stóra eldavél. Það var í raun það eina sem við lögðum upp með,“ segir hún. Bara notalegt að lokast af | Svo vatt sumardvölin upp á sig og nú er svo komið að Anna Dóra og Örn búa á Klængshóli allt árið. „Það gengur vel með góðum bíl. Vet- urnir eru miklu snjóléttari nú en áður fyrr og þó að við lokumst af eina og eina viku er það bara notalegt. Við erum 22 kílómetra frá Dalvík og 60 kílómetra frá Akur- eyri, sem er ekki mjög langt, þótt fólki finnist við búa mjög afskekkt. Vegurinn end- ar hér, kannski ýtir það undir þessa tilfinningu. Við höfum gætt þess að varðveita það sem er upprunalegt og höfum ekki hróflað við gömlum bæjarrústum, eða bæjarlæknum sem maður þarf að fara yfir til þess að komast inn í húsið. Fólki finnst það greinilega æðislegt, enda er það farið að setjast hérna við lækinn og hugleiða og vera eitt með sjálfu sér, tek ég eftir.“ Anna Dóra notar jurtir úr fjallinu við matar- gerðina og sem mest af lífrænt ræktuðu hráefni. „Reyndar hef ég verið með nefið of- an í jörðinni síðan ég var krakki. Fjöllin hér eru mjög gróin og ég nýti til að mynda fjallagrös, vallhumal og aðalbláberjalyng. Í vor tók ég upp nýjar fíflarætur í stórum stíl og gaf gestunum í salat. Síðan er á döfinni að smíða gróðurhús og þá get ég rækt- að meira af framandi tegundum,“ segir hún. Anna Dóra og Örn bjóða líka upp á leiðsögn um Skíðadal, til dæmis grasaferðir og eyðibýlagöngur. „Íslendingar eru sólgnir í sagnir úr fortíðinni, enda erum við dramatísk þjóð,“ segir hún ennfremur. „Inn í ferðirnar eru fléttaðar sögur af huldu- fólki og tröllum og kynlegum fyrirbærum og sögur af horfnum kynslóðum sem bjuggu hér við erfiðar aðstæður. Rústirnar í dalnum eru vel varðveittar og hægt er að sjá fallegar hleðslur. Ég nota tækni sem kallast umhverfistúlkun í minni leiðsögn, hún byggist þar af leiðandi ekki á þurri upptaln- ingu. Fólk getur allt eins átt von á því að mega fara úr skóm og sokkum og stinga tánum í næstu lind. Þannig skynjar maður hvað náttúran er að segja. Í grasaferðunum eru mismunandi tegundir jurta skoðaðar, sagt frá lækningamætti þeirra og fleira. Einnig at- hugum við jurtir sem hægt er að nota sem te og krydd og tölum um á hvaða árstíma er best að tína þær, hvaða plöntuhluta þarf að nýta og svo fram- vegis. Svo endum við ferðina gjarnan á því að búa til seyði í eldhúsinu hjá mér og smakka. Ég segi líka frá því hvaða jurtum er hægt að blanda saman, svo þær komi sem best út, bæði sem krydd og te. Fólk er alltaf að verða áhugasamara um náttúr- una og umhverfið, við erum að færast nær upprunanum, þrátt fyrir allt,“ segir Anna Dóra. Þá mánuði sem þau sinna ekki ferðaþjónustu vinna Anna Dóra og Örn í nær- liggjandi byggðum. „Ég kenni á Akureyri og Dalvík, til dæmis eldri borgurum, meðgöngujóga, byrjendanámskeið og námskeið fyrir unglinga. Ég flétta líka jóga og hugleiðslu inn í ferðirnar hér á Klængshóli og finn að forvitni fólks fer vaxandi. Örn er með stofu á Dalvík og tekur líka á móti fólki hér, sem mörgum þykir spennandi.“ Á döfinni eru námskeið á Klængshóli og verður vonandi af þeim í sumar, að hennar sögn. Einnig er í smíðum heimasíða, www.skidadalur.is. „Námskeiðin eru fyrir konur og verða jógatengd. Ætlunin er að við köfum aðeins inn í okkur sjálfar og gáum að því hvað er fyrir innan skelina, til þess notum við bæði jóga og höfuð- beina- og spjaldhryggjarmeðferð, gönguferðir úti í náttúrunni, hugleiðslu og fleira. Framhaldið förum við í litlum skrefum, annað væri ekki í stíl við það sem við erum að gera hérna. Mér finnst fólk átta sig sífellt betur á samhengi hlutanna og tengslum okkar við náttúruna. Þetta er frábær staður og ég er rosalega glöð yfir því að hafa snúið heim aftur,“ segir Anna Dóra Hermannsdóttir. | helga@mbl.is SKÍÐADALUR ER DRAUMASTAÐURINN Örn og Anna Dóra á leið frá Gloppuvatni. „Íslendingar eru sólgnir í sagnir úr fortíðinni, við erum svo dramatísk þjóð.“

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.