Morgunblaðið - 05.06.2005, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 05.06.2005, Blaðsíða 34
34 | 5.6.2005 Steikhúsið Rauðará er til húsa í fyrrum iðnaðarhúsnæði að Rauðarárstíg 37,þar sem Ölgerð Egils Skallagrímssonar starfrækti brugghús allt fram á ní-unda áratug síðustu aldar. Eftir að hún flutti upp á Hálsa skipti húsnæðið um hlutverk og ef mig misminnir ekki var þar fyrst rekinn líbanskur veitingastaður í einhvern tíma. Undanfarin ár eru það hins vegar steikur sem hafa dregið fólk í húsið og greinilegt er að Rauðará nýtur töluverðra vinsælda. Að minnsta kosti hef- ur það kostað allnokkrar tilraunir að fá pantað borð þar. Þegar inn er komið fer ekki á milli mála að húsnæðinu hafi í upphafi verið ætlað annað hlutverk en það sómir sér hins vegar ágætlega sem veitingastaður. Veit- ingasalirnir eru gluggalaus rými þar sem flísalögð gólf og hvíthraunaðir veggir mynda spænskt andrúmsloft en margvíslegir skrautmunir sem prýða staðinn allan koma hins vegar úr öllum áttum; styttur, veggskreytingar og ýmislegt annað sem gefa Rauðará óneitanlega svolítið sérstakt yfirbragð á köflum. Hringstigi leiðir fólk upp í koníaksstofu eða bar þar sem er bjartara, allavega á sumarkvöldum. Annars vegar er boðið upp á á la carte matseðil og hins vegar þriggja rétta til- boðsseðil á 3.900 krónur. Við ákváðum að reyna hvort tveggja. Fyrsti rétturinn á tilboðsseðlinum var humarsúpa. Hún var þykkt og með slettu af þeyttum rjóma út í. Humarbragðið var þokkalega áberandi – hefði mátt vera magnaðra – og á botninum voru nokkrir litlir humarbitar. Á móti voru pantaðir sniglar í hvítlaukssmjöri. Þetta var nokkuð mikill réttur því auk sniglanna sem voru í hefðbundinni sniglapönnu löðrandi í smjöri – en ekki áberandi hvítlauk – var með ágætis ferskt salat, steikt grænmeti og sneið af hvítlauksbrauði. Fyrir minn smekk hefðu sniglarnir mátt vera meira atriði í réttinum og hvítlaukurinn finn- anlegur í bragðinu en líklega er þetta ágætis réttur fyrir þá sem ekki eru vanir að leggja sér snigla til munns. Aðalrétturinn á tilboðsseðlinum var piparsteik eða lambalundir. Lambalund- irnar urðu fyrir valinu og voru þær ágætlega útilátnar, bornar fram með steiktri kartöflu, mildri rjómasósu og steiktu grænmeti. Einfalt og hefðbundið. Á móti var ákveðið að taka nautasteik af seðli og varð nautaprime fyrir valinu. Kjötið sjálft var ágætt, fitusprengt og fínt eins og vera ber í svona steikum og greinilega af stórum vöðva af flatarmálinu að ráða. En þótt flatarmálið hafi verið nokkuð var þykktin ekki mikil en eins og allir steikarmenn vita er það þykktin sem ræður miklu um lokaniðurstöðuna. Grilluð steikin var því nokkuð vel gegnumsteikt eða well done á steikarmáli en ekki hafði verið gefinn kostur á því við pöntun að velja steikingarstig. Hún var því sæmileg en ekki meira. Meðlæti var hið sama og með lundunum, kartaflan með sýrðum rjóma og steikt grænmeti. Í eftirrétt kom eplakaka með heima- tilbúnum ís og hálfu jarðarberi. Kakan var í sjálfu sér ágæt á bragðið, þunn og hringlaga, en ég fann engin epli í henni, að minnsta kosti ekki heila eplabita, og ísinn var sömuleiðis mjög bragðdaufur. Á heildina litið var þriggja rétta seðillinn mjög góður díll. Þarna var í boði heil máltíð með nautasteik eða lambalundum í aðalrétt á hagstæðu verði miðað við verðlag almennt á íslenskum veitingastöðum. Á la carte seðillinn getur hins vegar ekki keppt við steikhús á borð við Argentínu, ekki síst þar sem verðmunurinn er þá orðinn hverfandi. Vínseðill var stuttur, ágætlega valinn en nokkuð dýr. Miðlungsvínin voru svo sem ekki dýrari en maður er því miður vanur af mörgum reykvískum veitinga- húsum en betri vín þóttu mér óhóflega dýr. Þannig má nefna dæmi um eitt af mín- um uppáhalds ítölsku rauðvínum sem þarna var verðlagt á tæpar níu þúsund krón- ur en kostar rétt rúmar sex þúsund krónur á La Primavera. Svona verðlagning er ekki til þess fallin að ýta undir að menn panti sér betri vín. Þjónusta var hins vegar til fyrirmyndar, þægileg, kurteis og fagmannleg. Borð- búnaður sömuleiðis ágætur og vínglös til fyrirmyndar. L jó sm yn d: K ri st in n In gv ar ss onHAGSTÆÐ TILBOÐ, ÞUNNAR STEIKUR Rauðarárstíg 37 | Pöntunarsími: 5626766 | www.raudara.is EINKUNN:  Viðunandi  Góður  Mjög góður  Frábær  Af- burða veitingastaður Einkunnagjöf byggist á mati á þjónustu, hús- næði, vínlista og mat, að teknu tilliti til verðlags. RAUÐARÁ MATUR OG VÍN | STEINGRÍMUR SIGURGEIRSSON Það er ekkert lát á yndislegum hvítvínum frá Ítalíu í vínbúðirnar. Fátt á líka betur við á þessum árstíma en fersk og þægileg vín ítalska stígvélsins. Frá Mið-Ítalíu kemur Plenio Verdicchio Castelli di Jesi Classico Riserva 2001. Annað Verdicchio-vín frá sama framleiðanda – Casal di Serra – hefur verið í sölu um nokkurra missera skeið og heldur enn tvímæla- laust stöðu sinni sem ein bestu kaupin í hvítvíni í vínbúðunum. Stíll Plenio er nokkuð frábrugðin enda er þetta einnar ekru vín látið gerjast á frönskum eikartunnum en ekki stáltönkum. Það hefur þykkan og sætan ilm, hnetur, steinefni og þroskaðir ávextir. Í munni mikið og þykkt, langt og þétt með vott af sítrus og vanillu. Allflókið og mikið vín. Ég vil ekki gera upp á milli Plenio og Casal di Serra – hvort vínið hugnast manni betur er spurning um smekk og skap. Casal di Serra er ferskara og sýrumeira, Plenio þykkara og flókn- ara. Vínhúsið Umani Ronchi stendur hins vegar greinilega fyrir sínu. Plenio kostar 1.690 krón- ur. 17/20 Sikiley er annað svæði Ítalíu sem hefur gefið íslenskum vínunnendum margar perlur upp á síðkastið. Hvítvínið Chiaramonte Ansonica 2004 frá Firriato er hins vegar úr þrúgutegund sem lítið hefur farið fyrir til þessa, þ.e. Anson- ica (ekki síður þekkt undir nafninu Insolia) en fyrir skömmu fjallaði ég um vín úr sömu línu úr þrúgunni Cataratto. Ansonica hefur nú tek- ið við. Ávöxtur er djúpur og hreinn í nefi með ferskum og skörpum sítrusávexti og ekki síst þroskuðum ferskjum. Gott bit í munni, ferskt og sumarlegt, 1.390 kr. 17/20 VÍN Það er ekki á hverjum degi sem Íslendingum gefst færi á því að snæða með helstu forsvarsmönnum víniðnaðarins í Bordeaux. Það gerist hins vegar nú í næstu viku er boðið verður til kvöld- verðar með Patrick Maroteaux. Hann er eigandi eins þekkt- asta víngerðarhúss Saint-Julien sem heitir Chateau Branaire- Ducru. og jafnframt forseti samtakanna Union des Grands Crus de Bordeaux en aðild að þeim samtökum eiga bestu vín- gerðarhús Bordeaux-svæðisins sem flokkuð eru sem Grand Cru. Einnig verður George Haushalter gestur í kvöldverðinum en hann er forstjóri eins helsta vínsölufyrirtækis Bordeaux, Compagnie Médocaine. Á miðvikudaginn verður boðin veisla sem hefst með fyrirlestri þeirra Maroteaux og Haushalter ásamt vínsmökkun kl. 17.30 fyrir þá matargesti sem það kjósa. Borðhald hefst að því búnu kl. 19.30. Í eldhúsinu verður Ragnar Ómarsson, fyrrum yfirmatreiðslumaður Holtsins, sem var fulltrúi Íslands á Bocuse d’ Or fyrr á árinu. Hann mun bjóða gestum upp á þá rétti er hann eldaði í keppninni og með matnum verða nokkur vín frá Branaire-Ducru. t.d. 1999, 1996 og 1988. Herlegheitin kosta 15 þúsund krónur. asdfasdf Branaire og Bocuse á Holti

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.