Morgunblaðið - 05.06.2005, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 05.06.2005, Blaðsíða 16
16 | 5.6.2005 Þ að er í mörg horn að líta hjá nýráðnum slökkviliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins, Jóni Viðari Matthíassyni. Um sama leyti og falast er eftir viðtali hjá honum er að upp- hefjast margra vikna æfingatímabil úti á landsbyggðinni hjá starfsmönnum slökkviliðsins sem krefst talsverðrar fjarveru kallsins í brúnni frá stórborginni. Því frestast við- talið nokkuð en um síðir hægist um og við getum tyllt okkur niður á rúmgóðri skrifstofu hans í Skógarhlíð. „Ég hef margoft sagt að ég ætl- aði aldrei að vera í slökkviliði og ég hafði aldrei komið inn á slökkvistöð áður en ég var ráðinn hingað inn árið 1991,“ segir hann um leið og hann hellir kaffi í bolla sér- merkta slökkviliðinu. „En ég sé alls ekki eftir því – þetta er afskaplega gefandi og skemmtilegt starf og mikið af góðu og áhugasömu fólki sem vinnur hérna.“ Jón Viðar Matthíasson kom í heiminn þann 28. júlí árið 1959 en foreldrar hans eru Lissý Björk Jónsdóttir og Matthías Matthíasson. „Ég fæddist í Danmörku þar sem mamma og pabbi voru við nám en fluttist heim mjög ungur. Foreldrar mínir giftust ekki og ég fór með mömmu norður á Sauðárkrók þar sem ég ólst upp hjá henni og afa mínum, Jóni Sigtryggi Sigfússyni heitnum og eins var ég töluvert hjá systkinum mömmu. Ég hef þó alla tíð haldið sambandi við pabba.“ Það liggur beint við að spyrja Jón Viðar hvort hann hafi leikið sér að eldi sem gutti og hann kveður nei við því. „Kannski eitthvað óvart,“ bætir hann svo við. „Ég held að ég hafi bara verið eins og krakkar almennt, fjörugur og til í það sem var í gangi. Á hinn bóginn var ég samviskusamur og kannski að vissu leyti viðkvæmur. Ég tók það t.d. voðalega nærri mér að sjá ef einhver átti bágt.“ Frá sjö ára aldri var Jón Viðar sendur í sveitina á sumrin til móðursystur sinnar á Suðurlandi. „Þar voru marg- ir krakkar enda á systir mömmu sjö börn svo það var rosa- lega skemmtilegt að vera þarna.“ Tólf ára flutti Jón Viðar ásamt móður sinni til Njarðvíkur þar sem hann lauk grunnskóla og framhaldsskóla. Þar komst hann einnig í tæri við körfuboltann og hampaði ófáum titl- um með yngri flokkum og meistaraflokki Njarðvíkur. Lífið bauð þó upp á meira en körfubolta og 19 ára kynntist hann ungri stúlku frá Keflavík, Helgu Harðardóttur, sem síðar átti eftir að verða konan hans. „Ég hef verið afskaplega heppinn hvað hún hefur verið skilningsrík varðandi allt mitt brölt. Sjálf fór hún í hárgreiðslunám í Reykjavík og keyrði á milli en ég var í skóla á Suðurnesjum og vann á sumrin venjulega verkamannavinnu og í fiski.“ Að loknum framhaldsskóla fluttu þau Jón Viðar og Helga til Reykjavíkur þar sem hann hóf nám í byggingartæknifræði við Tækniskóla Íslands. „Á þeim tíma vorum við komin með okkar elsta son sem fæddist árið 1981 og næsti strákur fæddist í apríl 1985. Eftir að ég lauk byggingartæknifræðinni fór ég að vinna við eftirlitsstörf með byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í Keflavík en hafði samt alltaf áhuga á að læra meira. Það varð svo úr að ár- ið 1987 fluttum við með strákana til Lundar í Svíþjóð þar sem ég tók meistarapróf í byggingarverkfræði.“ Á meðan Jón Viðar var í skólanum stundaði Helga vinnu á hárgreiðslustofu í Lundi og líkaði vel – reyndar svo vel að þegar maður hennar lauk náminu var hún ekki tilbúin til að flytja aftur til Íslands. „Þá stóð ég frammi fyrir því að velja hvort ég vildi fara að vinna eða læra eitthvað meira. Einhvern veginn þróaðist þetta þannig að ég fór í meira nám. Í Lundi er eina deildin í Evrópu sem býður upp á sérnám í bruna og það varð til þess að ég ákvað að lesa brunafræði – ekki vegna þess að ég væri að stefna á slökkviliðið heldur hugsaði ég með mér að þetta væri sérsvið sem fáir heima væru menntað- ir á og það gæti aukið vinnumöguleika mína síðar meir. Svo klára ég þetta brunanám og finnst þá við hæfi að við förum heim en konan var nú ekki alveg sammála því. Þá stóð ég aftur frammi fyrir því að læra meira eða fara að vinna sem varð ofan á. Mér bauðst vinna hjá fyrirtæki sem heit- ir Fire Safety Design og starfar eingöngu við brunahönnun og annað sem tengist bruna. Mér líkaði afskaplega vel þarna og var jafnvel að hugsa um að halda áfram en Ísland togar alltaf í mann. Svo voru strákarnir orðnir það gamlir að þetta var orðin spurning um hvort sá næstelsti ætti að byrja í skóla þarna úti og þá stóðum við bara frammi fyrir þeirri spurningu hvort við ætluðum að verða Svíar eða ekki.“ Svarið var einfalt í hugum þeirra hjóna og því varð úr að þau fluttust heim með piltana sumarið 1991. „Ég fékk tímabundna vinnu hjá Slökkviliði Reykjavíkur sem verkefnisstjóri en sama sumar ákvað Rúnar Bjarnason, sem þá var slökkviliðsstjóri, að hætta og varaslökkviliðsstjórinn Hrólfur Jónsson var ráðinn slökkviliðsstjóri. Í fram- haldinu var staða varaslökkviliðsstjóra auglýst, ég sótti um starfið og fékk það. Það var í rauninni upphafið að þessu brölti mínu í slökkviliðinu og að starfa með Hrólfi var mjög lærdómsríkt og skemmtilegt.“ Vilja ekki klikka á þrekinu Eins og aðrir slökkviliðsmenn þurfti Jón Viðar að undirgangast líkams- og starfs- þjálfun og fyrr en varði var hann orðinn hluti af liðinu. „Ég var bara einhver verk- fræðingur sem hafði aldrei sprautað með slöngu og aldrei flutt sjúkling. Þess vegna var sérstaklega mikilvægt fyrir mig að fá jafn góðar móttökur og raun bar vitni.“ Í slökkviliðinu kynntist Jón ólíkum týpum sem þó eiga það sameiginlegt að hafa mik- inn áhuga á starfinu og eru óhræddar við að prófa eitthvað nýtt. „Yfirleitt getum við valið úr stórum hópi manna og síðast sóttu 120 um. Þeir sem við tökum inn í liðið þurfa svo að standast ákveðnar þrek- kröfur og önnur próf sem minnka hópinn um 40 prósent.“ Hann hlær þegar hann er spurður hvort hann hefði sjálfur staðist þessar kröfur, hefði hann farið hefðbundna leið í slökkviliðið. „Ég vona það,“ svarar hann svo. „Þessar kröfur hafa reyndar verið að aukast enda strákarnir tilbúnir að standa undir þeim. Menn vilja ekki klikka á þrekinu þegar á reynir. Ég bý að því að vera úr íþróttageiranum og í dag reyni ég að æfa þrjá til fimm daga í viku. Það er nauðsynlegt fyrir mig að halda mér í formi, þó ekki sé nema til að halda í við starfsmennina. Ég þarf að vera fyrirmynd því ef ég er slappur á einhverju sviði er erfitt fyrir mig að lemja á starfsmönn- unum út af því sama.“ Hann bætir því við að hluti af starfs- lýsingu slökkviliðsmanna sé að mæta í líkamsrækt þá daga sem þeir eru á dagvakt. „Að auki mega þeir mæta í frítíma og þegar ég mæti í ræktina á morgnana er oft mikill fjöldi slökkviliðsmanna að æfa þar í sínum frítíma. Það er mikil barátta á milli manna og þeir eru sífellt að spyrja hver annan um útkomu þeirra á þrekprófum enda keppa vaktirnar inn- byrðis í þessum efnum.“ Það vekur athygli að Jón Viðar talar gjarnan um mennina eða strákana í þessu samhengi og í ljós kemur að aðeins ein kona er í slökkviliðinu, ef frá eru taldar konur sem vinna skrifstofustörf. „Þetta er karlastétt og kannski erum við ekki komnir nógu langt í að þróa inntökuferlin hjá okkur þannig að þau séu nógu víðtæk og opin – kannski erum við með ein- hver viðmið og þrekpróf sem henta betur körlum en konum. Auðvitað megum við ekki draga úr kröfunum þannig að það komi niður á starfseminni en við getum ekki gert þá kröfu að allir taki 100 kíló í bekkpressu enda er það bara rugl. Við er- um að reyna að breyta þessu og höfum horft til lögreglunnar í þeim efnum, sem og annarra slökkviliða á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum. Það er nauðsynlegt fyrir slökkviliðið að fá inn fleiri konur því þær hafa aðrar áherslur og gildi sem við þurfum á að halda.“ Á þriðju viku að jafna sig Jón Viðar var formlega skipaður í embætti slökkviliðs- stjóra Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins í febrúar síðastliðn- um en tók í raun við starfinu tveimur mánuðum fyrr, eða 1. desember í fyrra þegar Hrólfur lét af störfum. Það var aðeins örfáum dögum eftir eitt stærsta verkefni, sem Slökkvilið höf- uðborgarsvæðisins hefur glímt við, þegar gríðarlegur eldur gaus upp í endurvinnslustöðinni Hringrás í Klettagörðum við Sundahöfn í Reykjavík. Í því samhengi má þó ekki gleyma að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var stofnað 1. júní árið 2000. Eins og mönnum er í fersku minni lagði reyk, sót og eiturgufur yfir nærliggjandi íbúabyggð og var miklum fjölda fólks gert að rýma heimili sín við Kleppsveg af þeim sökum, alls um 600 manns. Þarf að fara aftur til ársins 1973, þegar gosið í Heimaey upphófst, til að finna sambærilegan viðbúnað. „Hringrásarbruninn var afskaplega sérstakur bruni,“ segir Jón Viðar, sem sjálfur stóð vaktina í meira en sólarhring ásamt öðrum starfsmönnum slökkviliðsins og fleirum sem voru kallaðir til. „Við urðum að klára þetta verkefni og vorum staðráðnir í því. Samstaðan innan liðsins var gríðarleg. Ég var ekki einn um að standa langa vakt. Margir félaga minna stóðu jafnlengi og ég og sumir meira að segja lengur enda í mörg horn að líta. Þegar maður horfir á þennan eldsvoða í víðara sam- hengi sér maður að hann reyndi á ýmsar stoðir samfélagsins og eins og fjölmiðlamenn TIL HJÁLPAR Á NEYÐARSTUND Eins árs gamall í fanginu á mömmu, Lissý Björk Jóns- dóttur. „Ég vildi gera allt eins og afi,“ segir Jón Viðar og þar var hestamennskan ekkert undanskilin. Hárprúður ungling- ur eftir einn af mörgum sigrum með körfuboltaliði Njarðvíkur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.