Morgunblaðið - 05.06.2005, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 05.06.2005, Blaðsíða 10
10 | 5.6.2005 Þ egar stöllurnar Valgerður Ósk Karlsdóttir og Ragnheiður Ísdal Eggerts- dóttir skoppa út í sumarið að afloknum skóla taka ekki bara leikur og sumarfrí við. Þrátt fyrir að þær séu aðeins tólf ára eru þarna á ferðinni vinnandi konur því báðar hafa þær ráðið sig í vinnu sem barnapíur hluta úr sumr- inu. Valgerður, sem býr á Álftanesi, mun passa tæplega þriggja ára gamla hnátu úr hverfinu en Ragnheiður, sem er úr Garðabæ, ætlar að líta eftir þremur strákpjökk- um; sex ára gömlum bróður sínum, jafnaldra og vini hans úr leikskólanum og loks yngri bróður hans sem verður þriggja ára í haust. Þær eru engir nýliðar í barnagæslustörfum og því vefst það ekkert fyrir þeim að eyða hluta sumarfrísins á þennan hátt. Ekki stendur heldur á svari þegar þær eru spurðar hvers vegna þær ákváðu að taka störfin að sér: „Það er bara gaman að passa,“ segja þær og mögulegur fjárhagslegur ávinningur er hvergi nefndur í þessu sambandi. Eins og gengur getur starfsdagur barnapíu verið nokkuð fjöl- breyttur. „Silju litlu, sem ég ætla að passa, finnst ótrúlega gaman að fara út á róló þannig að ég fer mikið með hana þangað. Við er- um mest úti, að minnsta kosti þegar það er gott veður en þegar við förum inn leikur hún sér með dúkkur og svoleiðis,“ segir Val- gerður sem viðurkennir að það geti verið býsna gaman að aðstoða þá stuttu í leiknum. Hvað Ragnheiði áhrærir segir hún eldri strák- ana tvo, Jökul og Jakob, leika heilmikið saman úti við. „Svo eru þeir svolítið inni í tölvunni og þá leik ég við Björn litla, til dæmis í Lego og Playmo og svoleiðis.“ Inntar eftir því hvernig gengur að tjónka við börnin segja þær óþekkt hverfandi í þeim. „Silja er ekkert mikið óþekk eða þannig,“ segir Valgerður og Ragnheiður segir hið sama gilda um sína umbjóðendur. Reyndar viðurkennir hún að strákarnir geti verið svolitlir gaurar á stundum, sérstaklega sá litli. „Hann getur stundum ver- ið frekur. En það er allt í lagi – ég læt hann þá í friði og eftir smá tíma kemur hann og spyr hvort ég vilji leika.“ Öll börn þurfa næringu og hluti af starfslýsingu þeirra vinkvenna er að sjá kríl- unum fyrir henni. Þær þvertaka þó fyrir að mikil eldamennska fylgi starfinu. „Það er nú mest bara jógúrt og brauð og svoleiðis sem við gefum þeim þannig að það er ekki svo erfitt.“ Og ef eitthvað kemur upp á sem þær treysta sér ekki til að eiga við er heill her fullorðinna sem þær geta leitað til með því að hringja í foreldra sína og barnanna sem þær eru að gæta. Svörin eru ólík þegar þær eru spurðar hvort margar vinkvenna þeirra ætli að starfa við barnagæslu í sumar. „Það eru ekki margar stelpur í kringum mig í Garða- bænum sem eru að passa,“ segir Ragnheiður. „Eiginlega engin.“ Valgerður hefur aðra sögu að segja: „Hér hjá mér eru margar stelpur sem ætla að passa í sumar þannig að við getum verið saman með krakkana úti á róló og svoleiðis.“ Þær stöllur ætla ekki að passa í allt sumar heldur er spennandi sumarfrí einnig framundan hjá báðum. „Ég fer upp í sveit í mánuð með fjölskyldunni minni en við erum með sumarbústað rétt hjá Kirkjubæjarklaustri,“ segir Ragnheiður með greinilegri tilhlökkun og Valgerður tekur við: „Ég ætla með fjölskyldunni til Dan- merkur. Svo verðum við Ragnheiður saman á fimleikanámskeiði í nokkra daga.“ Í ljós kemur að drjúgur tími þeirra fer í fimleika og sama dag og viðtalið er tekið stendur heilmikil fimleikasýning fyrir dyrum hjá íþróttafélagi þeirra, Björk í Hafnarfirði. Flestir sem vinna fá fé að launum og því er nánast óhjákvæmilegt að forvitnast um hvað stelpurnar ætli að gera við alla peningana sem þær vinna sér inn með barnagæslunni. „Þetta verður rétt áður en ég fer til Danmerkur svo ég nota þá kannski eitthvað þar og svo ætla ég bara að spara,“ segir Valgerður en áætlanir Ragnheiðar ná lengra fram í tímann. „Sko, ég er líka að safna fyrir ferð til Dan- merkur sem ég ætla að fara í á næsta ári,“ segir hún ábúðarmikil. „Ég er þegar komin með fyrir flugmiðanum og svo ætla ég bara að kaupa eitthvað þar.“ Ferðalög, fimleikar og börn eru ekki einu áhugamál þessara duglegu stelpna því tónlist, dýr, föt og hárgreiðslu ber einnig á góma. Þeim finnst því ekkert sjálfgefið að starfa við barnagæslu um ókomna framtíð. „Ég held að ég verði bara að passa á meðan ég er í grunnskóla,“ segir Valgerður og Ragnheiður kinkar kolli. „Kannski á ég eftir að vinna á leikskóla þegar ég verð unglingur en mig langar að verða fim- leikakennari þegar ég verð stór og vinna í fatabúðum. Kannski verð ég líka snyrti- kona og hárgreiðslukona.“ Vinkona hennar tekur orðið: „Við vorum eiginlega búnar að ákveða að vera saman með einhverja svona snyrti- eða hárgreiðslustofu. En við vitum ekkert hvort það virkar hjá okkur,“ segir hún og þær líta flissandi hvor á aðra enda með það á hreinu að þær hafa tímann fyrir sér. | ben@mbl.is L jó sm yn d: K ri st in n In gv ar ss on EKKERT MIKIÐ ÓÞEKK EÐA ÞANNIG ... Enn eru barnapíur eftirsóttar til sumarstarfa eins og vinkonurnar Ragnheiður og Valgerður eru gott vitni um Það vantar ekkert upp á fjörið í þessum hóp: Jakob bróðir Ragn- heiðar í beinagrindarbúningi, Silja litla í fanginu á Valgerði, Ragn- heiður og Jökull vinur Jakobs. „Kannski á ég eftir að vinna á leikskóla þegar ég verð ungling- ur en mig langar að verða fim- leikakennari ...“

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.