Morgunblaðið - 05.06.2005, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 05.06.2005, Blaðsíða 18
18 | 5.6.2005 bentu á hefði getað farið miklu ver, t.d. ef vindáttin hefði staðið yfir Hrafnistu. Þá hefðum við þurft að sinna svakalegu verkefni, sem m.a. hefði kallað á stórfellda sjúkraflutninga og hvað hefðum við gert þá?“ Sem stjórnanda á vettvangi þótti honum erfiðast að „detta ekki inn í verkefnið“ eins og hann orðar það. „Ég þurfti að halda ákveðinni fjarlægð og horfa á þetta sem stjórnunarverkefni eingöngu. Ég mátti heldur ekki falla í þá gryfju að leysa þetta eins og verkefni gærdagsins því þetta var mjög óvenjulegt verkefni. Sömuleiðis var mikil- vægt að láta ekki undan þeirri pressu að slökkva eldinn strax í upphafi heldur fjar- lægja eldsmat þannig að eldurinn færi ekki út um allt.“ Hann segir sitt hlutverk hafa stöðugt verið að breytast. „Þegar á leið sá maður hversu mikilvægt var að nýta sér fjölmiðlana sem skynjuðu vel hvaða mikilvæga hlutverki þeir höfðu að gegna við að miðla upplýsingum til almennings. Ekki bara til þeirra sem voru á svæðinu heldur líka til þeirra sem horfðu á þetta úr fjarlægð þannig að þeir færu ekki að flykkjast að.“ Ég velti því fyrir mér hvort maður, sem stendur vaktina í sóti og reyk í hátt á annan sólarhring, sé að gera eitthvað af viti undir lokin. „Ég vona það,“ segir Jón Viðar glettinn og heldur áfram. „Ég tel mig hafa verið að gera það en þegar svona aksjón er líður tíminn hratt og þú áttar þig ekki alveg á hvernig málin eru að þróast. Undir lok- in sá ég þó að við vorum komnir með stjórn á þessu og þó þetta væri skelfilegt á að líta reyndi fyrst og fremst á vinnu og rútínu. Þarna held ég að líkamsþjálfunin hafi komið mér og mínum mönnum að góðum notum því ég var vel á þriðju viku að jafna mig líkamlega. Maður var búinn að anda að sér alls konar viðbjóði og var þreyttur, ómögulegur og slappur í langan tíma á eftir, svipað eins og maður væri að fá flensu. Svona er þetta slökkvistarf – þetta er átaksvinna og áhlaup en sem betur fer koma tímar á milli þar sem álagið er ekki eins mikið á starfsmennina.“ Á meðan Jón Viðar stóð í ströngu við Klettagarða sat fjölskyldan heima í Árbæ og fylgdist með, bæði í gegn um sjónvarpið og stofugluggann. „Það vill nú þannig til að við sáum þennan eld þaðan sem við eigum heima. Helga sagði nú að henni hefði ekk- ert liðið allt of vel en það var aðallega þessi sex ára sem upplifði þetta sterkt. Hann ætlaði að neita að fara á leikskólann og dagana á eftir vildi hann alltaf vera nálægt mér þegar ég var kominn heim. Honum fannst eitthvað öruggara að hafa mann hjá sér.“ Allt frá sárinu á litla puttanum Þegar litið er til baka segir Jón Viðar ekki hægt annað en að vera sáttur við fram- gang mála við Hringrásarbrunann. „Allir voru tilbúnir til að leggja sitt á vogarskál- arnar og þó svo að mest hafi borið á slökkviliðinu í fjölmiðlum voru gífurlega margir aðrir sem komu að þessu, eins og Rauði krossinn, lögreglan, samræmingarstöð al- mannavarna, strætó, höfnin, fjölmiðlar og slökkviliðin hér í kring, fyrir utan fjölda einkafyrirtækja. Það er líka umhugsunarvert hversu vel þessi virkjun gekk, þrátt fyrir að við höfum ekki þurft að láta reyna á hana oft. Við erum ekki eins og mörg sveitar- félögin úti á landi sem búa við snjóflóðahættu margar vikur á ári. Við lifum við dálítið verndaðar aðstæður en á sama tíma er umhverfið mjög viðkvæmt. Einhver smáuppá- koma hér í Reykjavík riðlar jafnvel öllu samfélaginu á meðan hún hefur engin áhrif í minna bæjarfélagi úti á landi. Við eitt umferðarslys á aðalumferðaræðum borgarinnar leggst allt á hliðina, enginn kemst í vinnuna og allir verða hundfúlir. Það kemur smá snjóföl og þá ríkir nánast neyðarástand í Reykjavík. Þetta er orðið daglegt brauð og við þurfum að bregðast við því eins og við getum. Þar held ég að sé mikilvægt að virkja sem flesta – lögregluna, strætó, snjóruðninginn og svo framvegis.“ Þrátt fyrir að slökkvistarf við Hringrásarbrunann hafi gengið vonum framar telur Jón Viðar ýmsan lærdóm mega draga af honum. „Þetta kallar á að menn endurskoði umgjörðina og löggjöfina í kringum viðbragðsáætlunina á landsvísu, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu þannig að menn viti nákvæmlega á hverju þeir bera ábyrgð. Við höfum ekki fylgt þeim breytingum sem hafa verið gerðar á Norðurlöndunum þar sem hugtakið almannavarnir hefur verið tekið út. Í dag er þetta þannig hjá okkur að það er ákveðið ástand þangað til eitthvað gerist sem skapar almannavarnaástand. Þá skyndilega er verið að vinna í allt öðru stjórnumhverfi en við gerum dags daglega. Í staðinn þarf að líta svo á að menn beri ábyrgð á þessu samfélagi, allt frá ruslatunn- unni eða litla sárinu á litla puttanum, og upp í það stóra. Ef verkefnið verður of um- fangsmikið á að nýta sér hjálp annarra þannig að samhæfing verður númer eitt, tvö og þrjú. Fyrsta skrefið í því var að fá alla viðbragðsaðila á sömu þúfuna, hér í Skógarhlíð- inni. Hér erum við með björgunarsveitirnar, fjarskiptamiðstöð lögreglu, neyðarlín- una, vaktstöð siglinga, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og svo er Landhelgis- gæslan að koma hingað. Þetta er öflugur kjarni og ef þessir aðilar ná að samræma sig og vinna saman þá held ég að framtíðin sé björt. En þetta gerist ekki í einu vetfangi heldur er þetta margra ára verkefni. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu leggja mik- ið upp úr því að þessir hlutir séu í lagi og hafa fjárfest í húsnæði til að skapa þetta um- hverfi. Stjórn slökkviliðsins skipa borgarstjórinn og bæjarstjór- ar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og það eitt skiptir sköpum fyrir þennan málaflokk og öryggi íbúa sem við erum að sinna.“ Að læra að glíma við óvissuna Jón Viðar kemst allur á flug þegar rætt er um stjórnun og skipulag slökkviliðsins og honum eru starfsaðstæður sinna manna ofarlega í huga. Enda ekki skrýtið þegar haft er í huga hvers eðlis starfið er. „Sumir segja að þetta sé eitt af hættumestu störfum á friðartíma. Ég er hins vegar á því að ef menn fá rétta þjálfun, nýta sér þá reynslu sem þeir hafa og við sjáum þeim fyrir góðum tækjabúnaði sé hægt að lágmarka þessa hættu tölu- vert. Auðvitað er töluverð undirliggjandi hætta þarna og við er- um alltaf að minna menn á það. Þess vegna erum við með mjög stífar vinnureglur varðandi reykköfun, sjóköfun, sjúkraflutn- inga og svo framvegis þannig að það er allt gert til að minnka hættuna.“ Hann segir íslenska slökkviliðsmenn hafa verið heppna í gegnum tíðina. „Það hafa verið minniháttar uppákomur, menn hafa brennt sig lítils háttar og í Hringrás fengu einhverjir af okkar mönnum hreinlega snert af reykeitrun. Slökkvi- liðsmenn eru útsettir fyrir ákveðna hættu en við höfum verið afskaplega lánsamir og höfum ekki misst fólk, ef frá er skilið umferðarslys sem slökkviliðsmaður lést í þegar hann var á leiðinni úr útkalli fyrir mörgum árum.“ Hann segir atburðina í Bandaríkj- unum, 11. september 2001, þegar hundruð þarlendra slökkviliðsmanna létust við björgunarstörf, eðlilega hafa haft áhrif á sína menn. „Við upplifðum þetta kannski á annan hátt en almenningur því við vitum við hvað er verið að glíma. Um allan heim láta menn lífið við slökkvistörf og þegar það gerist hefur það áhrif á okkur. Við reyn- um hins vegar að nýta það sem verkfæri til að skerpa á reglum og vinnuferlunum.“ Það reynir þó fleira á en hætturnar sem fylgja starfinu. „Þessi mikla nálægð við fólkið sem við erum að aðstoða hefur líka mikil áhrif á mennina. Við komum yfirleitt til fólks þegar illa stendur á: við eldsvoða, slys eða þegar sjúkdómar steðja að. Þess vegna höfum við aðgang að fagmenntuðu fólki í áfallahjálp auk þess sem við erum með svokallaðan félagastuðning. Í honum felst að tveir, þrír menn á hverri vakt eru sérmenntaðir með skemmri námskeiðum í að tala saman og vera vakandi yfir félög- unum og þegar þeir sjá að einhverjum líður illa setjast þeir niður og ræða við hann. Þannig er reynt að fyrirbyggja að menn burðist of mikið með þetta heim og byrgi erf- iðar upplifanir inní sér. Maður heyrir það líka á strákunum og finnur sjálfur þegar maður lendir t.d. í veikindum eða slysum þar sem börn eiga hlut að máli, hversu þakklátur maður er að koma heim og sjá þar sín eigin börn sofandi.“ Hann bætir því við að alls hafi verið um 20 þúsund sjúkraflutningar á höfuðborgarsvæðinu í fyrra. „Þeim fylgir oft ákveðin óvissa þegar menn vita ekkert í hvað þeir eru að fara. Þeir gætu verið að fara að aðstoða sína nánustu þó slíkt gerist sjaldan. Þú veist aldrei hvað er hinum megin og þá óvissu þurfa menn að læra að glíma við. Þó það sé skrýtið að segja það þá venst þetta en við verðum aldrei ónæmir – við tökum alltaf eitthvað inn á okkur. Þess vegna þurfum við að vera meðvitaðir um að ræða við félagana og vera vakandi hver yfir öðrum.“ Það er líka áríðandi að halda aðstandendum slökkviliðsmanna vel upplýstum. „Utan frá sér fólk starfið kannski í einhverri dramatík og oft eru einhver ónot hjá fólki sem tengjast slökkviliðsmönnum. Almennt held ég þó að eiginkonur slökkvi- liðsmanna venjist þessu fljótt enda reynum við að passa okkur á því að upplýsa maka vel. Við höfum t.d. sent menn í friðargæslu og m.a. var maður frá okkur sem lenti í skotárásinni á Kjúklingastræti í Kabúl. Við náðum hins vegar að senda út sms á alla TIL HJÁLPAR Á NEYÐARSTUND L jó sm yn d: J úl íu s „Við komum yfirleitt til fólks þegar illa stendur á: við eldsvoða, slys eða þegar sjúkdómar steðja að.“ L jó sm yn d: K ri st in n In gv ar ss on

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.